Löngu kominn tími til að sækja að "ofurmeti" Vilhjálms.

Á fyrstu árum gullaldar íslensku frjálsíþróttamannanna var fátt sem benti til þess að þrístökk yrði meðal þeirra greina, sem Íslendingar næðu í fremstu röð á alþjóðavísu.  

Allt fram til 1956 voru tvö bestu afrekin 14,77 m hjá Kára Sólmundarsyni og 14,71 hjá Stefáni Sörenssyni.  En heimsmetið var enn meira en hálfum metra lengra og stefndi upp.  

Vilhjálmur Einarsson var að hefja íþróttaferil sinn og fékk þá umsögn eins þjálfara, að hann gæti kannski helst orðið liðtækur kúluvarpari!  

En síðan fóru að gerast óvænt atvik. Vilhjálmur vakti í fyrstu enga athygli fyrir fikt sitt við þrístökk, fyrr en það gerðist eitt sinn að hann klúðraði atrennunnni svo rækilega, að hann varð að stökkva fyrsta stökkið upp af "vitlausum" fæti og þar með tvö seinni stökkin líka af "röngum" fótum,  og útkoman varð algerlega óvænt svo góð, að hann hélt sig við þetta eftir það. 

Ólympíuleikarnir voru í Melbourne í Ástralíu i desember og síðan gerðist það alveg jafn óvænt og "vitlausa stökkið" hjá Vilhjálmi, að hann náði öllum að óvörum Ólympíulágmarkinu með því að stökkva 15,83 metra á móti í Karlstad í Svíþjóð; gott ef það var ekki Norðurlandamet. 

Einn helsti þjálfari Svía kom að máli við Vilhjálm og sagði honum, að hann gæti lengt stökk sitt um hálfan metra, ef hann breytti rytmanum milli stökkvanna þriggja með því að lengja miðstökkið og fá meira "hang" í það stökk, án þess að það gerðist á kostnað fyrsta og þriðja stökks. 

Þetta var gerólíkt því sem heimsmethafinn Ferreira Da Silva gerði; hann stökk feiknarlega hátt og langt fyrsta stökk á kostnað stökkvanna á eftir. 

Söguna af framhaldinu þekkja flestir: Vilhjálmur setti Ólympíumet, 16,26 metra, sem stóð þar til Da Silva tókst að bæta það í lok keppninnar. 

Risastökkið mikla, sem enn stendur sem Íslandsmet, var 16,70 metrar og svo hefur virst þrátt fyrir miklar tæknilegar framfarir í stökkbrautum, skóm og þjálfunaraðferðum, að það verði eilíft og ósnertanlegt fyrir Íslendinga. 

En saga mets Vilhjálms er einfaldlega þannig, að um það gæti gilt hið fornkveðna, að "ævintýrin enn gerast."

Það er löngu kominn tími til. 

,


mbl.is Besta stökk Íslendings í 60 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar erlendir ferðamenn vildu skaðabætur fyrir að missa af roki og regni.

Lífseig er sú skoðun Íslendinga að rok og rigning og kuldi og myrkur séu eitur í beinum allra erlendra ferðamanna. Margar sögur má segja um hið gagnstæða, og svipað á við um veðrið á vesturströnd Írlands, en einn stærsti markhópur erlendra ferðamanna þar eru upplifunarþyrstir suðurlandabúar, sem eru fyrir löngu búnir að fá upp í kok á sumrin vegna of heits og mollulegs veður. 

Upplifun þessara ferðamanna felst í því að standa á ströndinni andspænis landlægu suðvestan roki og rigningu og láta þetta slagveður, komið alla leið yfir Atlantshafið, gera sig hundblauta. 

Síðuhafi heyrði hér um árið sögu af stórri hópferð slíks fólks hér á landi, og var ætlunin að fara í rútu suður á Reykjanes. 

En þegar fyrirhugaður ferðadagur kom, var talið of hvasst og slæmt vatnsveður fyrir ferðina og ákveðið að hætta við hana og bjóða upp á dvöl yfir daginn í Reykjavík. 

Hluti ferðahópsins tók sig hins vegar saman og heimtaði að fá sína ferð og engar refjar, og taldi sig eiga kröfu á ferðinni, sem búið væri að borga fyrir. 

Var að lokum látið eftir þessum freka hópi og ferðin farin. 

Um kvöldið, þegar fréttist af hinni miklu ánægju þessa hóps fyrir að fá að verða hundvotur á bjargbrún á Reykjanestá og himilifandi yfir þessari algerlega nýju lífsreynslu, urðu aðrir, sem ekki fengu slíka ferð, óánægðir og kröfðust skaðabóta! 

Í þessum efnum verður að hafa það gamla boðorð viðskipta í huga, að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér. Með því er átt við að seljandi vöru eða þjónustu sinni því megin hlutverki sínu að fara eftir því viðskiptavinurinn sækist eftir. 

Áratugum saman voru Lapplendingar með fleiri ferðamenn á veturna en Íslendingar allt árið. 

Í Lapplandi voru sex meginatriði til sölu:  Kuldi, myrkur, þögn, ósnortin náttúra, jólasveinninn og mikil fjarlægð frá öðrum löndum. 

Allt saman atriði, sem flestir Íslendingar töldu vera fráhrindandi og óæskileg. 

 


mbl.is „Það vill enginn vera í roki og rigningu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júlí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband