Lýðræðið er gallagripur en...

Það hefur verið sagt að lýðræðið sé meingallað stjórnarform og geti verið hræðilegt á stundum, - en, - það hefur ekki enn fundist skárra form. 

Það má fara lengra með þessa hugsun og segja sem svo að beint lýðræði sé meingallað form og geti verið hræðilegt á stundum, - en, - að það sé þó skárra lýðræði en ef eingöngu ríkir óbeint lýðræði, hið svonefnda fulltrúalýðræði.

Ég vísa til auglýsingar sem hangið hefur síðan vorið 2007 á vegg í afgreiðslu innanlandsflugs Flugfélags Íslands, en fyrir tilviljun er þar sýnt blað frá apríl 2007 með fyrirsögn dagsins: "Allt sem varðar þjóðina."

Ég er enn sömu skoðunar og ég var í viðtalinu sem þessi fyrirsögn er tekin úr varðandi sem beinast lýðræði, vægi þjóðaratkvæðagreiðslna, persónukjörs, jafns vægis atkvæða og jafnvægi milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.

Blaðamaðurinn, sem tók viðtalið, taldi þessar yfirlýsingar mínar um stefnu Íslandshreyfingarinnar greinilega merkilegar.

Það fannst mér merkilegt, því að í þeim kosningum var engin leið að fá fram umræðu um þessi mál, - allir voru svo uppteknir af gróðærinu.  

 


mbl.is Staðfestir ekki Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Til hamingji Ísand.

Offari, 5.1.2010 kl. 11:56

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég var nokkuð viss um að forsetinn ætlaði að skrifa undir og ég vildi það frekar. En jafnframt er ég hlyntur meiri þátttöku fólks í lýðræðislegum ákvörðunum. Kanski verður þetta til þess að þjóðin lærir að taka af meiri skynsemi á málum - meiri ábyrgð. Vonandi.

Veltur á eftirleiknum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 5.1.2010 kl. 12:04

3 Smámynd: Skúli Víkingsson

Það er nauðsynlegt að fylgjendur aukins beins lýðræðis átti sig á því að leggja þarf embætti forseta Íslands niður. Þetta segi ég þótt ég sé samþykkur þessari tilteknu ákvörðun forsetans. Ég er bara á því að þetta eigi ekkert að vera á hans könnu. Það má byrja á því að tiltekinn minnihluti Alþingis geti vísað málum til þjóðarinnar, en stefna að því að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafizt þess. Þar þarf þó að vera einhver trygg leið til þess að koma slíkum áskorunum áleiðis. Forsetaembættið er skilgetið afkvæmi konungsembættisins og mótað af sama manni og mótaði annað snobbcenter, utanríkisþjónustuna, nefnilega Sveini Björnssyni.

Skúli Víkingsson, 5.1.2010 kl. 12:25

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Forsetinn er eini embættismaður þjóðarinnar sem er kjörinn beint af henni sjálfri. Það er himinhrópandi munur á því og konungsveldinu og meira að segja himinhrópandi munur á því og kjöri annarra embættismanna.

Meðan önnur lög eru ekki í gildi sem tryggja það að mikilsverðustu mál fari beint til úrskurðar þjóðarinnar er embætti forsetans afar mikilvægt í stjórnskipun okkar eins og hún er núna.

Ómar Ragnarsson, 5.1.2010 kl. 13:05

5 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Það er ekki hægt að segja að það sé lýðræðið sem er gallað í þessu tilviki, heldur er það ríkisstjórnin sem er gölluð, því gerðir hennar stjórnast á hatri á tveimur stjórnmálaflokkum og hún ber skki skynbragð á það hver raunverulegur vilji þjóðarinnar er.

Ríkisstjórn sem valtar yfir þing og þjóð... hvað er eiginlega hægt að segja um hana....?

Ómar Bjarki Smárason, 5.1.2010 kl. 13:22

6 Smámynd: Skúli Víkingsson

Sæll Ómar. Þessi athugsemd þín er svo 2004. Þá var embættið hafið til skýjanna og nánast gert að helgum dómi. Það er ekkert svo himinhrópandi munur á forsetaembættinu og konungsveldi. Forsetinn er að vísu kosinn af allri þjóðinni og hefur gerzt 1952, 1968, 1980 og 1996 og í sumum tilfellum fengið meirihluta atkvæða. Eru allir sammála öllum þeim sem þeir kusu fyrir meira en áratug? Sænski kóngurinn var kosinn árið 1521. Angantýr er talinn hafa verið danakonungur árið 710 og konungsríki verið þar amk. síðan. Þótt konungur hafi að jafnaði ekki verið kosinn þar, eru Danir sáttari við sína drottningu en við með okkar forseta og reyndar sáttari við konungdæmið en Svíar við sitt konungdæmi. Munurinn á konungsríki og lýðveldi á að vera skýr. Svona konungslegt, upphafið og snobbað forsetaembætti dregur til muna úr þeim mun. Í konungsríki er stjórn konungs og þegnar konungs. Lýðveldi á að vera eins og Lincoln orðaði það "government of the people, by the people, for the people".

"Meðan önnur lög eru ekki í gildi sem tryggja ...". Vissulega en bara meðan svo er. Það þarf að koma strax á lögum sem tryggja það að tiltekinn minnihluti alþingis geti krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu.

Skúli Víkingsson, 5.1.2010 kl. 13:40

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Það er miður að forsetinn lítur ekki á heildarskuldir þjóðarinnar: Aðeins 20-25% af þeim stafar af Icesave og það gefur auga leið að mun óhagkvæmara verður að endurfjármagna þessi 75-80% sem umfram eru. Þau lán verða alla vega ekki greidd upp á svipstundu - eða hvað?

Sjálfsagt hefur Ólafi Ragnari gengið gott eitt til með þessu. En er hann ekki kominn út á svipaða braut með forsetaembættið og Charles de Gaulle þegar fór að halla undan fæti hjá honum á sínum tíma sem forseta Frakklands? Undir yfirskyni lýðræðis snérist allt í höndunum á honum og allt fór meira og minna út í tóma vitleysu.

Braskaranir í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum kætast og kannski verður slegið upp fagnaðarveislu í kvöld og stungið upp á að gera Ólaf Ragnar að heiðursfélaga!

Það yrði saga til næsta bæjar.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 5.1.2010 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband