"Við ætlum í gegn hvort eð er."

Þegar leitað var útskýringa á því á sínum tíma hvers vegna ítarlegar könnunarboranir hefðu verið gerðar á öllum gangaleiðum Kárahnjúkavirkjunar nema á 7 kílómetra kafla í miðri leið lengstu ganganna, þar sem sást úr lofti að væri mesta misgengi á þessu svæði sem gæti kollvarpað öllum áætlunum um virkjunina var svarið: "Við spöruðum tíma og fé með því að sleppa þessu enda ætluðum við í gegn þarna hvort eð var."

Þetta er lýsandi fyrir hugarfarið á bak við virkjana- og stóriðjuæðið sem ríkt hefur í anda gróðærisbólunnnar, hrunsins og framhaldsins af því.

Menn voru tilbúnir til að taka óheyrilega áhættu með stærstu framkvæmd Íslandssögunnar í trausti þess að hún væri hvort eð er ríkistryggð. Þeir sluppu ótrúlega  og óverðskuldað með sjö mánaða töf.

Sama hugarfarið ríkir í Helguvík og á Bakka. Það er farið af stað þótt eftir sé að sjá hvaða orka geti fengist fyrir 360 þúsund tonna risaálver, án þess að búið sé að útkljá um umhverfisáhrif virkjana, án þess að búið sé að klára rammaáætlun um þessi mál og án þess að huga að því hvort ekki sé með þessu vikið í burtu öðrum skaplegri og minni kaupendurm sem gæfu fleiri störf fyrir orkueiningu án mengunar.  

Auk þess var látið í veðri vaka í byrjun að álverið yrðí miklu minna en nú er komið á daginn að það verður að verða.

Línurnar og virkjanirnar verða í alls tólf sveitarfélögum en samt var farið af stað þótt eftir væri að leysa öll þau mál.

Um þetta og allt annað í þessum málum gildir Kárahnjúkamottóið: "Við ætlum í gegn hvort eð er."

Ólíkt því sem var um vatnsaflsvirkjanirnar við Búrfell og þar austur af er ekki vitað hve mikla orku er að fá á hverju jarðvarmasvæði fyrir sig heldur fullyrt og auglýst í síbylju frammi fyrir þjóðinni og heiminum að þarna verði um endurnýjanlega og hreina orku að ræða.

Íbúar í austasta hluta Reykjavíkur hafa nú fengið að vita hve tandurhreinar þessar virkjanir séu.  

Tveir sérfræðingar lýstu því í Morgunblaðsgrein að enda þótt ekki væri hægt að vita um endingu jarðvarmans fyrr en með árunum eftir að virkjað væri, væri samt hægt að halda orkunni endurnýjanlegri ef hún dalaði með því að minnka orkuvinnsluna nægilega.  

Einmitt það, já. Ef svona fer, verður þá orkan sem álverið á að fá minnkuð að sama skapi? Auðvitað ekki, það verður að standa við gerða samninga um þá landsölu sem er fólgin í því að tvö stórfyrirtæki hafi orku heils landshluta í gíslingu.

Og þá þarf að huga að því að fara lengra, í Kerlingafjöll og Landmannalaugar til að redda málum þegar þar að kemur, ef það verður þá ekki þegar búið að stúta þessum svæðum öllum burtséð frá öllum rammaætlunum sem menn hafa ekki látið tefja sig. 

Skammsýnið og fyrirhyggjuleysið er algert. Ábyrgðarleysið gagnvart komandi kynslóðum sömuleiðis.

Við ætlum að stúta þessu öllu hvort eð er eins og Flosi heitinn Ólafsson lýsti svo vel:

 

Seljum fossa og fjöll !

Föl er náttúran öll !

Og landið mitt taki tröll !  


mbl.is Fagnar ákvörðun umhverfisráðuneytisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sturla Snorrason

Með úthlutun lóðar undir álver í Helguvík hefur sennilega verið unnið stórtjón á sölu á rafmagni, þar sem hagkvæmi þjóðarbúsins eða náttúrunnar eru að engu hafðar.

Ef fara á eftir skipulags og umhverfislögum, mun þetta álver standa straumlaus um ókomna tíð, þar sem aðrir kostir eru mun hagkvæmari vegna línulagna, bæði kostnaðarlega og vegna náttúrusjónarmiða.

Þessi framkvæmd virðis fyrst og fremst snúast um lóðargjöld og atvinnu suðurnesjamanna.

Það má með furðu sæta afhverju skipulagsstofnun tók ekki strax í taumanna, en lætur þess í stað aðila sem hefur engu að tapa, en allt að vinna eins og lóðargjöld frá fyrsta degi ráða ferðinni.

Sturla Snorrason, 28.1.2010 kl. 16:13

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hversu lengi þarf að misbjóða samfélagi okkar áður en samfélagið gerir stjórnvöldum það skiljanlegt að vald þeirra er ekki komið frá Guði?

Árni Gunnarsson, 28.1.2010 kl. 17:59

3 identicon

Bara stúta þessu öllu og byrja á þeirri allra hagkvæmustu framkvæmd sem hægt er að fara í, Hvítá í Árnessýslu.  Það þarf að skemma eina perlu sem allir skilja til að fólk fari að hugsa, afhverju ekki að ráðast á hana?  Frekar hún en Laugar/Reykjadalur eða Kerlingarfjöll.  Eru ekki hvort eð er allir búnir að sjá svæðið þarna?

kv

Dóri

Dóri (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 19:49

4 Smámynd: Rauða Ljónið

Mann alltaf eftir umræðunni um Búrfellsvirkjun hún átti að fara til fjandans ekki átti að vera hægt að framleiða rafmagn vegna ísmyndunar á vetra mánuðum.
Svo var það Kárahnjúkarnir stíflan átti að bresta um leið og hún yrði full, eldgos að granda byggð.
Nú bíð ég eftir því að þegar borað verður eftir orku í Þingeyjarsýslu þá verður sagt að landið sökkvi.

Rauða Ljónið, 28.1.2010 kl. 21:26

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég færði að því rök fyrir fjórum árum að með Kárahnjúkavirkjun væru unnin meiri og óafturkræfari spjöll á íslenskri náttúru en með því að virkja bæði Gullfoss og Geysi.

Ég get endurtekið þessi rök aftur ef þörf krefur sem og það að ástæður Sigríðar í Brattholti til að forða Gullfossi frá virkjun vógu margfalt léttara en rök okkar nú gegn virkjun náttúruundra á borð við Gjástykki, Torfajökul og sköpunarverka hins einstæða jökuls, Brúarjökuls.

Ómar Ragnarsson, 28.1.2010 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband