Minnir á 1953.

Fréttirnar um að biðlað sé til Framsóknarmanna um að koma og styrkja ríkisstjórnina minnir á ástandið eftir kosningarnar 1953.

Þá höfðu Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn verið í stjórn í þrjú ár og framundan voru erfið viðfangsefni. Vegna löndunarbanns á íslenskan fisk í Bretlandi var erfitt efnahagsástand hér sem kom betur fram árið eftir en þá var ein af dýpri lægðum í efnahagnum hér á landi, allt reyrt í fjötra hafta og banna og ekki glæsilegt að þurfa að fást við það.

Þótt Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu mjög ríflegan meirihluta á þingi vegna ranglátrar kjördæmaskipunar var undiralda í Framsóknarflokknum.

Ólafur Thors hafði stjórnarmyndunarumboðið og menn vildu forðast sama vandaræðaganginn og 1950 þegar leita varð til Steingríms Steinþórssonar, búnaðarmálastjóra og alþingismanns, um að verða forsætisráðherra, því að trúnaðarbrestur var milli Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar sem eitraði öll stjórnmál á Íslandi í tvo áratugi.

Hermann vildi ekki setjast í stjórn undir forsæti Ólafs og öfugt. Þá komu upp raddir um að styrkja stjórnina með því að fá Alþýðuflokkinn inn í hana. Af því varð ekki og varla var liðið meira en ár af stjórnarsamstarfinu þegar menn þóttust verða þess varið að Hermann Jónasson leitaði að nýju stjórnarmynstri og væri á bak við tjöldin i stjórnarandstöðu á köflum ásamt óánægðum vinstri armi í Framsóknarflokknum.

Sumir Framsóknarmenn töldu krata vænlegan kost til að auka vægi vinstri manna í stjórninni.

Ástandið 1953 hefði áreiðanlega ekkert lagast við að fá krata inn. Þetta stjórnarmynstur, Stefanía, sem svo var kallað eftir daga þriggja flokka 1947-49 hefur reynst illa.

Með því að kalla Framsókn inn í stjórnina nú sýnist mér verið að koma sökinni af hruninu enn frekar yfir á Sjálfstæðisflokkinn en þó hefur verið réttilega gert. Hann færi þá einn í skammarkrókinn en Framsókn yrði tekin í sátt.

Ég sé ekki að þetta hafi mikið upp á sig. Stóriðju- og virkjanafíklarnir myndu fá aukið vægi í svona stjórn og finnst mér ekki á slíkt bætandi.

Stundum er svona sögum komið á kreik, þótt ólíklegar séu, til þess að hræra í stjórnmálapottinum. Kannski er slíkt á ferðinni nú, hver sem það nú er, sem sér sé hag í því að koma svona kvitt á framfæri.


mbl.is Biðla til Framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Er þetta ekki sögusögn sem Gróa á Útvarpi Sögu hefur kappkostað að gefa byr undir báða vængi?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 8.2.2010 kl. 19:10

2 identicon

Sæll  Ómar þú ert vel lesinn í stjórnmálasögunni sbr hugleiðingar þínar hér að ofan. En segðu okkur annað Sigmudur Davíð er frekar óskrifað blað hjá okkur sem ekki þekkjum hann en þú hefur væntanlega unnið með honum lengi á sjónvarpinu. Hvað segir þú um styrkleika og getu Sigmundar Davíðs ?

Heida (IP-tala skráð) 8.2.2010 kl. 19:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég kynntist aldrei þeirri hlið á Sigmundi Davíð sem snýr að honum sem stjórnmálamanni frekar en að hann kynnist hliðstæðri hlið hjá mér.

Með okkur tókust góð kynni á fréttastofu Sjónvarpsins og ég met hann mikils síðan.

Hann var skemmtilegur og oft mjög frumlegur fréttamaður og hefur góða menntun og bakgrunn til að takast flest það á hendur sem hann kýs sér.

Á sviði skipulagsmála, sem hafa verið mér lengi hugleikin, kom hann með afar ferskar og góðar hugmyndir inn í umræðuna hér og reyndist hafa undirbúið sig feikna vel.

Ég hreifst mikið af málflutningi hans og tillögum í þeim efnum, sem og vinnu hans sem eins af brautryðjendunum í Indefence-hópnum og tel hann lofa góðu þótt enn eigi eftir að fást af honum reynsla sem forystumanns í íslenskum stjórnmálum.

Ég tel styrkleika og stærstu kosti hans felast í frjórri hugsun, frumleika og framtaki, en stundum getur þetta þrennt þó orðið valdið því að menn misstígi sig.

Ég skil það vel að hann geti ekki haggað við þeirri stóriðju- og virkjanastefnu sem flokkur Eysteins Jónssonar, hins mikla brautryðjanda í náttúruverndarmálum, hefur nú límt við sig og get ekki ætlast til þess af honum breyta því í einu vetfangi.

Ómar Ragnarsson, 9.2.2010 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband