Hvíld frá fjármálafréttunum.

Síðusta áratug hefur yfirbragð frétta á íslenskum fjölmiðlum breyst mun meira en við gerum okkur grein fyrir. Sonur minn og tengdadóttir, sem voru við nám í Danmörku, urðu forviða þegar þau komu heim til Íslands og sáu alveg nýja mynd á fréttunum, því að engu líkara var en að þetta væru viðskiptablöð og ljósvakarásir sem sérhæfðu sig í slíkum fréttum. 

Stundum voru nær öll "helst" í fréttunum viðskiptafréttir eða snerust um peninga á einn eða annan hátt.

Ástandið breyttist ekkert við hrunið og eftir það, heldur má segja að þetta hafi færst í aukana ef eitthvað er, - fréttirnar eru bara nýjar hliðar viðskiptalífsins, hrikaleg töp og ævintýralega fjármálagerninga.

Í gær hitti ég tengdason minn, sem kvað upp úr með það, að jafnvel þótt eldgosafréttir gætu orðið mislitar, væru gosfréttirnar að austan kærkomin hvíld frá öllu viðskipta- og fjármálafréttafárinu, sem hefur ríkt hér.

Hann sagði, að viðbrögð sín hefðu verið að snúast upp í það að vera hættur að leggja það á sig að fylgjast með öllum þessum gríðarlega og langvinna fréttaflutningi.

Það er að vísu út af fyrir sig ekki gott ef ástandið er orðið þannig að spádómsorð Andra Snæs Magnasonar að fólki yrði "dofið"sé að verða að veruleika.

Kannski mun eldgosafréttirnar gera fólki betur kleift, þegar þeim slotar, að fara að horfast á ný við hinn grimma veruleika fjármálanna, sem við stöndum öll frammi fyrir.  


mbl.is Tímabundinn kraftur í gosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fyrir hið svokallaða Hrun voru tvær þjóðir í landinu.

Og eftir hið svokallaða Hrun eru tvær þjóðir í landinu.

Málið snýst um þjóðirnar tvær.

Þorsteinn Briem, 22.3.2010 kl. 10:34

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allir nýútskrifaðir lögfræðingar fá strax vinnu og rúmlega hálfa milljón króna í meðallaun á mánuði.

En bakarasonurinn hætti í lögfræðinni og fór í skemmtanabransann.

Þorsteinn Briem, 22.3.2010 kl. 10:52

3 Smámynd: Sigurður Rúnar Sæmundsson

Ég hef einhver fráhvarfseinkenni núna, ég sakna fjármálafrétta. Það er bara talað um eldgos, smá eldgos sem engu skiptir. Aðalfréttamenn RÚV eru á sveimi yfir og í hlíðum Fimmvörðuhálss. Og vaka yfir hverri skvettu af hrauni, og reyna að magna þetta uppí eitthvað sem Íslendingar geta verið spenntir yfir. Á sama tíma er Alþingi kallað saman til að samþykkja lög gegn verkfalli fámenns verkalýðsfélags, sem ekki átti aðild að svokölluðum sáttmála þjóðarinnar.Stöðugleikasáttmálans.Sáttmáli sem var gerður til að takmarka tap lífeyrissjóðanna og peningastofnana ríkisins.Samstarf forstjóra verkalíðsfélaganna og lífeyrissjóðanna og stjórnarmanna íbúðalánasjóðs og fjármálaráðuneytis.

Hvern djöfulinn skiptir eitt lítið eldgos, þegar heimili landsins brenna!!!

Sigurður Rúnar Sæmundsson, 22.3.2010 kl. 20:25

4 identicon

Sigurður,

  Það eru allir orðnir ógeðslega leiðir á svona kverúlöntum eins og þér. Ekkert persónulegt, en þínir líkir eru jafnvel orðnir veruleikarfyrrtari og leiðinlegri en femínstarugludallar, eða stuttbuxnadrengir..........og þá er nú mikið sagt. 

    Þetta fer að verða heilkenni þetta svartsýnisraus. Síðan þetta litla sem fólk hafði síðan til málanna að leggja er fyrir löngu orðið ómarktækt, þar sem þetta hverfur einfaldlega inn í endalausan kjaftavaðall, og nánast yfirgang á köflum. 

   ....en svo er maður náttúrulega að skjóta sig í fótinn, þar sem svona lið þráir náttúrulega ekkert annað en athygli!!

Jóhannes G (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 01:51

5 Smámynd: Heimir Tómasson

Búandi erlendis verð ég að segja að ég hef verið samstíga tengdasyni þínum í fréttamati frá Íslandi. Mér finnst sem að fréttir séu einsleytar og hreint út sagt niðurdrepandi. Það er hvergi neinsstaðar minnst á nokkurn skapaðan hlut sem er jákvæður á einn eða annan máta. Sjálfur átt þú til Ómar minn að falla aðeins í þessa gryfju en rífur þig oftast nær upp aftur áður en langt um líður.

Ég glugga í mbl.is á morgnana þegar ég kem í vinnu, ekki vegna stjórnmála "fréttanna" heldur svona til að sjá hvernig færð og veður er og hvort eitthvað annað er að ske en Icesave. Það hefur verið borin von upp á síðkastið. Þetta var orðið svo slæmt að síðast þegar við vorum á Íslandi hættum við að horfa á kvöldfréttir í sjónvarpinu - heilagur tími alveg frá í frumbernsku minni - vegna þess að dóttir mín átta ára var að fara yfir um vegna bölsýnistónsins í fólkinu.

Ég er feginn að búa ekki á Íslandi í dag. Ekki vegna þess að ég skammast mín fyrir það að vera Íslendingur, ekki vegna þess að ég skulda og er að flýja, heldur vegna þess að mér finnst Íslendingar vera að fara yfirum. Ég á eftir að koma aftur, ég á fasteign þar, ég vil að börnin mín verði Íslendingar. En ég tek Bandaríkin fram yfir Ísland um þessar mundir. Og segir það í raun allt sem segja þarf.

Ómar minn, komdu þér á einhverja fréttastöðina, við söknum þín flest ef ekki öll. Okkur vantar fréttamenn sem geta andað á milli setninga og horft á annnað en krónutölur og aðrar hörmungar.

Heimir Tómasson, 24.3.2010 kl. 07:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband