Glæsilegt í gærkvöldi, - grátlegt ástand.

Eldgosið var glæsilegt í gærkvöldi þótt skýjahula væri í hlíðum Eyjafjallajökuls. Ef einhver hefði staðið á Goðasteini og horft til gossins, þar sem engin björg hafa fallið í marga daga, og jafnvel staðið enn fjær, þótt enn fjær, langt frá því svæði þar sem glóandi björg geta komið niður, hefði hann getað öðlast alveg einstaka upplifun. 

En enginn var á ferð, enda leiðinni upp á fjallið lokað í 16 kílómetra fjarlægð. Í 16 kílómetra fjarlægð færðu að vita það að þú sért við mörk hættusvæðis þótt hvergi sé neitt athugavert að sjá næstu 16 kílómetrana framundan. Og þessi frétt berst út, frétt um ógn og skelfingu gossins. 

Hér á landi eru staddir tveir jarðfræðingar, sem hafa rannsakað eldgos um víða veröld, Haraldur Sigurðsson og svissneskur jarðfræðiprófessor sem fór upp að eldstöðinni í fyrradag.

Ekkert virðist farið að þeirra áliti varðandi það hvernig háttað er aðgengi að þessu gosi og hefur Haraldur þó látið sína skoðun i ljós.

Við eigum líka fleiri frábæra jarðfræðinga svo sem Magnús Tuma Guðmundsson, sem hefur yfirgripsmikla þekkingu, þótt ekki hafi hann komist í návígi við jafn mörg eldgos og tveir fyrrnefndir menn.

Í gær stóð vindurinn úr vestri að gígnum og leiðin upp frá Hamraendum var algerlega hrein og fullkomlega hættulaus.

Samt var hún lokuð.

Þegar lögfsóknafarganið var sem mest í Bandaríkjunum á sínum tíma voru gestir í afmælispartíum látnir undirrita yfirlýsingu um það að þeir gengju þar um sundlaugarbarminn á eigin ábyrgð svo að gestgjafinn þyrfti ekki að óttast skaðabótamál ef einhver hrasaði.

Auðvelt er að koma á slíku fyrirkomulagi hér á mun hættuminna svæði en sleipur sundlaugarbarmur er. Líka hægt að hafa þarna mannskap til eftirlits og þjónustu, sem hefur aðgang að nýjustu upplýsingum, sem gefnar eru frá mælum jarðvísindamanna í Reykjavík. 

Ég hef þegar hitt ferðafólk sem er komið gagngert til landsins til að kynnast gosinu þrátt fyrir margfaldan hræðsluáróður um það hve ógurlega hættulegt það er allt frá Keflavíkurflugvelli og norður í land.

Ekkert er fjallað um það heldur eingöngu um þá sem hafa hætt við ferðir.  

Framundan er sumar þar sem uppgrip gætu orðið vegna þess aðdráttarafls sem svona eldgos getur verið.

Ég var áðan á spjalli við fulltrúa frá Ferðamálasamtökum Suðurlands, sem eru samtök utan um milljarða tekjur af ferðamönnum.

Þeir eru svo blankir að þeir komast ekki inn í Þórsmörk nema að reyna að "fljóta með" einhverjum til þess að fara að huga að möguleikum til þess að ferðamenn geti notið svæðisins frá Landmannalaugum að Skógum í sumar, svæði sem er eitt hið fjölsóttasta sinnar tegundar. 

Það er eitthvað verulega mikið að þegar ástandið er svona og menn sjá ekkert nema svartnætti framundan og virðist fyrirmunað að sjá möguleikana sem hið stórkostlega sjónarspil náttúrunnar gefur nú á mikilfenglegast hátt sem hugsast getur og fært bæði heimamönnum og öðrum miklar tekjur.

Það væri hægt að veita góða og örugga þjónustu á leiðinni upp fjallið og hafa af því tekjur í stað þess að einu fréttirnar sem berast eru um það hve hættulegt og varasamt land okkar sé.   


mbl.is Styrkur eldgossins óbreyttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er grátlegt

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.5.2010 kl. 15:04

2 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Ómar, ég er sammála þér. Hugsaðu þér hvernig Ísland væri í dag ef alltaf væri hlustað á svartsýnisraddir, við byggjum í torfkofum og rérum til fiskjar á árabátum ennþá, það er verst að við getur lítið gert, hvar er Árni Jonsen núna?

Kær kveðja frá Eyjum. 

Helgi Þór Gunnarsson, 13.5.2010 kl. 15:58

3 identicon

Í Skjólkvíagosinu 1970 var enginn að skifta sér af umferðinni og mikill ferðamannastraumur var  þá. Þetta byrjaði í maí og Landvegurinn var allur eitt samfellt drullusvað og helst að það hindraði umferð fólksbíla. Ekki man ég eftir að nokkur hafi slasast eða farið sér að voða.  Ég myndi halda að nú ætti að fara að huga að því að laga veginn inn í Þórsmörk og hafa stöðuga gæslu við Jökulsána bæði vegna hættu á eiturmengun og hugsanlegra vatnavaxta. Mér sýnist áin orðin frekar vatnslítil undanfarið ,en hætta er á sandbleytupyttum og þarf aðgæslu . Ég held að fólk nú í seinni tíð sé orðið svo ofverndað af yfirvöldum að alltof margir kunna illa að lesa í náttúruna þó að afar margir séu útsjónasamir og klárir ferðamenn. Nú verða sjálfsagt einhverjir ekki sammála.

Olgeir E. (IP-tala skráð) 13.5.2010 kl. 17:04

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ísland er orðið land fullt af aumingjum sem þarf að vernda...

Óskar Þorkelsson, 13.5.2010 kl. 20:11

5 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Þetta eru orð í tíma töluð hjá þér, Ómar. Auðvitað þarf að hafa af þessu gosi þær tekjur sem hægt er og finna leiðir til að hægt sé að sýna þetta ferðamönnum á öruggan og skynsamlegan hátt. Það þarf að búa til verkefnisstjórn utan um þetta verkefni og ráða leiðsögumenn sem eru vel upplýstir um svæðið og gossögu Eyjafjallajökuls og annarra eldfjalla á Suðurlandi.

Ómar Bjarki Smárason, 13.5.2010 kl. 20:21

6 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Alltaf góður Ómar.

Einar Örn Einarsson, 13.5.2010 kl. 23:22

7 identicon

Við erum að þróast í átt til Bandaríkjanna hvað varðar hræðsluáróður.

Á vefsíðu grunnskóla barna minna hér í Reykjavík er á forsíðu viðbragðsáætlun vegna eldgoss, sem sagt síðan hvenær hafa Reykjvíkingar þurft að óttst eldgos undir Eyjafjöllum.

Algjörlega sammála Ómari hér að ofan.

Andrea (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband