Minnir á olíuhreinsistöðina.

Frábær rannsóknarblaðamennska fréttaskýringaþáttarins Kompáss á sínum tíma fletti ofan af því hvernig Íslendingar ætluðu að fórna einum fegursta stað Vestfjarða fyrir olíuhreinsistöð í eigu rússneskra fjárglæframanna.

Í Vesturbyggð var byrinn yfirgnæfandi með þessu og sveitarsjórinn sagði glaðhlakkalegur að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær stöðin yrði reist, - líkurnar væru 99,9%. 

Aðeins nokkur ár þangað til búið væri að reisa stöðina sem myndi "bjarga" Vestfirðingum. 

Á ferð þarna vestra þorði maður varla að nefna þetta mál af ótta við að vera úthrópaður óvinur fæðingarbyggðar konunnar minnar númer eitt, alls staðar sáu menn gull og græna skóga gróðans við að taka að sér verksmiðjuskrímsli sem er svo óvinsælt á Vesturlöndum að engin ný svona stöð hefur verið reist þar í tuttugu ár, - það vilja engir hafa þetta hjá sér frekar en svæði fyrir kjarnorkuúrgang. 

Kompás rakti hvernig væntanlegir eigendur stöðvarinnar fóru að því að stunda ósvífið peningaþvætti þar sem risaupphæðir ferðuðustu um fjármálakerfi margra landa uns þær hurfu austur í hið stóra Rússland.

Kompásfólkið fann líka skúffufyrirtækið í Skotlandi, sem skrifað var fyrir væntanlegri olíuhreinsistöð og hafði hvorki síma né skrifstofu !  Í opinberum reikningum þess voru útgjöld og tekjur nokkur hundruð sterlingspund !

Skúffufyrirtæki eru ekki hátt skrifuð frekar en önnur tæki sem eru notuð til þess að fara á svig við lög og vinna gegn tilgangi þeirra eins og skúffufyrirtæki Magma Energy í Svíþjóð.

En dæmið um Magma og olíuhreinsistöðina miklu fyrir vestan sýnir að það virðist ekki þurfa annað en veifa seðlum framan í Íslendinga til þess að þeir hlaupi upp til handa og fóta hrópandi: "Take the money and run !"  

Aðdragandi hrunsins byggðist á þessu allt frá upphafi þenslunnar með Kárahnjúkavirkjun til myntkörfulánanna og aðdraganda Magma-málsins, sem hófst vorið 2007 í höndum Finns Ingólfssonar og annarra sem koma aftur og aftur við sögu þegar svona mál fara í gang. 


mbl.is Íslensk lög einungis útskýrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það var mikil eftirsjá í þætti eins og Kompás. Fréttir og fréttaskýringar af atburðum líðandi stundar, virðast frekar, oft á tíðum, skrifaðar af þeim, sem fréttin er um, en ekki af þeim sem fréttina flytja.

 Það er aftur á móti ljóst, að þegar Magma keypti hlut OR í HS-Orku. Þá lagði þingflokkur Vinstri grænna, hart að formanni flokksins, að beita sér fyrir því í ríkisstjórn, að lögum um erlenda fjárfestingu yrði breytt. Enda vissu allir á þeim tímapunkti að hugur Magma lá til þess að eignast HS-orku alla.

 Samkvæmt því sem Árni Sigurðsson, sagði í viðtali við fréttamann RÚV, fyrir  nokkrum vikum, er greint var frá kaupum Magma á hlut Geysis Green Energy í HS -Orku, þá mum Samfylkingin hafa hafnað slíkri lagasetningu síðast liðið haust.

Kristinn Karl Brynjarsson, 12.7.2010 kl. 23:35

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Miklar þakkir fyrir þennan frábæra pistil. Það er raunalegt að ennþá ert þú hrópandinn í eyðimörk íslenskrar stjórnsýsluspillingar.

Það er slæm blanda þegar saman fer heimska græðgi og pólitísk spilling.

Árni Gunnarsson, 12.7.2010 kl. 23:39

3 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Samfylkingin vill ekki þyngja lög um erlendar fjárfestingar;
iðnaðarráðherra klúðrar frumvarpi um ný vatnalög á síðasta þingi;
þessi ríkisstjórn mun fara í sögubækurnar sem ríkisstjórnin sem gaf útgerðarmönnum kvótann.
http://www.svipan.is/?p=9265

Líklega allt tilheyrði þetta aðgöngumiðanum að Evrópubandalaginu.

Margrét Sigurðardóttir, 13.7.2010 kl. 00:20

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sá aðgöngumiði er okkur dýrkeyptur!

Sigurður Haraldsson, 13.7.2010 kl. 00:52

5 identicon

Já, þessar ESB pælingar verða sífellt hlægilegri og um leið sorglegri með degi hverjum. Mér finnst sérstaklega undarlegt ef að ESB er að fara fram á því að landeigendur eigi að fá yfirráðarétt yfir vatninu og nýtingu á því og svo kvótaeigendur eigi endanlega að fá að nýta (les: eiga)fiskinn í sjónum, af hverju hagsmunasamtök kvótaeigenda og bænda séu hörðustu andstæðingar ESB aðildar? ESB hefur aldrei farið fram á að komast yfir auðlindir aðildaríkja sinna og að Samfylking geti greitt einhvern aðgöngumiða til að koma landinu þar inn í trássi við allt og alla er í besta falli mikill misskilningur. Þetta er hægt að sjá með því einu að kynna sér málin. Það er alger óþarfi að fara til Brussel til að leita að valda- og peningagráðugum spillingarpésum, þeir finnast í talsverðu magni hérna innanlands og hafa fengið að vaða alltof mikið uppi í gegnum árin því stjórnvöld ráða ekki við þá.

Takk fyrir pistilinn Ómar, þörf áminning.

Sigþór (IP-tala skráð) 13.7.2010 kl. 02:25

6 Smámynd: Heimir Tómasson

Það sem mér þykir merkilegast er hvernig sagan endurtekur sig. Hefur þú Ómar lesið einhverjar ræður og sendibréf sem Benedikt Sveinsson (faðir Einars Ben) skrifaði á sínum tíma?

Sagan gengur í hringi. Sama saga, önnur nöfn.

Heimir Tómasson, 13.7.2010 kl. 02:52

7 Smámynd: Heimir Tómasson

"...Það er þjóðin, sem sefur, og því sendir hún á þing sofandi menn, en innan um sofandi menn má aðhafast allt ... Það er hörmulegt að deyja með þeirri meðvitund að hið svonefnda löggefandi alþingi skuli núna í lok 19 aldarinnar vera að færa landsréttindi Íslands niður í þá gröf sem þau rísa aldrei upp úr, allt fyrir svefn og deyfð þjóðarinnar sjálfrar og fulltrú þeirra sem hún sendir á löggjafarþingið". (Einar Benediktsson, 1 bindi, bls 211)

Þannig að þú sérð hvað ég á við.

Heimir Tómasson, 13.7.2010 kl. 02:59

8 Smámynd: Heimir Tómasson

þetta átti náttúrulega að vera "fulltrúa", ekki "fulltrú". Einn stafur getur breytt gildi heillar setningar.

Heimir Tómasson, 13.7.2010 kl. 03:01

9 identicon

Tek undir skrif Sigþórs (02:25). Þetta er afar óheppileg “conclusion”, sem einnig drepur  umræðuna, að flestar misvitrar og kjánalegar ályktanir Samfylkingarinnar komi til vegna ESB. Þetta minnir á Icesave umræðuna á sínum tíma, en nær allt sem fór fyrir brjóstið á fólki þá, var vegna Icesave. Góður pistill hjá Ómari. Ég hef séð margar olíuhreinsunarstöðvar, m.a. á fallegustu strandlengum í Grikklandi. Ógeðsleg skrímsli. Sveitarstjórnarmenn virðast vera upp til hópa óhæfir menn með minni framsýni en brekkusnigill.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.7.2010 kl. 08:29

10 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Ómar,mér finnst þú fara aðeins fram úr þér í þessari grein sem og aðrir sem finnst það hneykslanlegt að skúffufyrirtæki í Svíþjóð skuli geta keypt hlut í HS orku. EF við viljum á annað borð fá fjármagn inn í landið til að örva hagvöxt og atvinnulíf þá skiptir nákvæmlega engu máli hvort kanadíska fyrirtækið Magma þarf að stofna fyrirtæki í Svíþjóð til að uppfylla skilmála ESB /EES sem við gengust undir. Þetta eins og í svo mörgu öðru eru ESB skilmálarnir bara að þvælast fyrir okkur. Kanadískt fjármagn er ekki verra en annað.

Sigurður Ingólfsson, 13.7.2010 kl. 10:20

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hafa skal það sem betur hljómar? Þú ert greinilega að skrifa eftir rykugu minni, Ómar. Meint skúffufyrirtæki meintra rússneskra fjárglæframanna var skráð á Írlandi.

 Sem sýnir náttúrulega ljóslifandi að bakdyrnar inn á EES-svæðið hafa lengi verið opnar og Alþingi í mörg ár vitað það án þess að bregðast við því. 

Það er nefnilega ekkert ólöglegt að nota þessar bakdyr og það er mergurinn málsins. En það er auðvitað glæný veröld, þar sem útsjónarsamir kapítalistar eru ekki lengur verðlaunaðir fyrir fífldirfsku og fiff...

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.7.2010 kl. 11:22

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Friðrik Þór, fyrir leiðréttinguna. Rétt skal vera rétt. Sé þó ekki hvaða meginmáli það skiptir hvort skúffufyrirtækið er á Írlandi eða í Skotlandi.

Ómar Ragnarsson, 13.7.2010 kl. 12:10

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Það er nefnilega ekkert ólöglegt að nota þessar bakdyr og það er mergurinn málsins". Af hverju eru ekki ákvæði í lögum um að viðkomandi fyrirtæki þurfi að standa að raunverulegum rekstri, t.d. hafa x starfsmannafjölda, x framleiðslu o.s.frv.?

Þetta er eins og með blessað fjármálaeftirlitið og umgjörðina sem var sögð mótuð í anda EES.  Lög voru til en framkvæmdin handónýt.

Eru til lög eða reglur sem segja að það sé löglaust og siðlaust að nota skúffufyrirtæki? Ef ekki, hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki beitt sér fyrir slíkum lögum?

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.7.2010 kl. 12:17

14 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Sigurður Ingólfsson gerir sér enga grein fyrir því að íslendingar fjármagna ævintýrið fyrir Magma :D... ha haha fjármagn inn í landið.. ég hef heyrt þá betri.. alger snilld

Óskar Þorkelsson, 13.7.2010 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband