"Allt sem þjóðina varðar".

Þessi fjögur orð voru yfirskrift Morgunblaðsviðtals við mig í kosningabaráttunni 2007 og áttu við þá skoðun mína og flokkssystkina minna í Íslandshreyfingunni að öll meiriháttar málefni þjóðarinnar ætti að bera undir hana sjálfa í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef ævinlega verið þessarar skoðunar og er enn þótt viðurkenna verði að sum mál eru þannig vaxin að illmögulegt er að fá hreinan þjóðarvilja fram og stundum gefst ekki tími til að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Dæmi um það síðastnefnda var inngangan í NATÓ í mars 1949. Ég var nýlega að lesa um loftbrúna til Berlínar og það ástand sem þá ríkti í alþjóðamálum og það rifjaði upp fyrir mér það ástand sem þá rikti.  

Í mars 1949 var mikil stríðshætta í Evrópu. Valdarán kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948 vakti mikinn ugg og ekki minnkaði hann þegar Sovétmenn stöðvuðu á sama ári alla landflutninga milli Vestur-Þýskalands og Berlínar.

Vesturveldin gátu ekkert að gert vegna þess að um þessa landflutninga hafði ekki gilt neitt skriflegt samkomulag heldur aðeins munnlegt.  

Hins vegar var í gildi skriflegur samningur um loftleiðir til Berlínar sem Vesturveldin máttu nota og það gerðu þau. 

Stalín hélt að ómögulegt væri að fæða, klæða milljónir Berlínarbúa og hita hús þeirra með því að nota loftflutnina og í fyrstu virtist sem það væri rétt mat. Þegar það kom siðar í ljós að loftbrúin var orðin nægilega öflug ríkti ótti um það að Stalín myndi ekki geta sætt sig við að hafa reiknað dæmið skakkt og myndi nýta sér yfirburði í herafla til að rétta hlut sinn eða léti skjóta flugvélar Vesturveldanna niður.

Eina svar Bandaríkjamanna við því gat þá orðið að beita kjarnorkuvopnum og þar með var þriðja heimsstyrjöldin skollin á. Óvissa rikti um samstöðu þjóðanna í Vestur-Evrópu og það gerði ástandið enn tvísýnna og hættulegra.

Kommúnistar höfðu sterk ítök í Frakklandi og á Ítalíu og í ljósi örlaga Tékkóslóvakíu báru margir ugg í brjósti um það að fleiri þjóðir sem höfðu ræktað vestrænt lýðræði, myndi verða færðar inn fyrir járntjaldið. 

Í mars  1949 stóð Berlínardeilan sem hæst og enginn vissi hvort hröð atburðarás væri í aðsigi þar sem allt gæti farið úr böndum nema að óvissu um samstöðu þjóða Vestur-Evrópu yrði eytt hið snarasta.

Það var gert með stofnun NATÓ þar sem grunnyfirlýsingin var sú að árás á eitt aðildarríki yrði metin sem árás á þau öll. Þessi grunnyfirlýsing er langsterkasti kostur bandalagsins þótt aðgerðir þess hafi verið umdeilar oft á tíðum.

Þremur mánuðum eftir stofnun NATÓ lét Stalín undan og lét opna landleiðirnar til Berlínar. 

Þótt ég væri bara strákpatti og ætti langt í það að fá kosningarétt var ég mjög bráðþroska, kominn með stjórnmáladellu og myndaði mér þá skoðun að í ljósi ástandsins gæfist ekki tími til þess á Íslandi frekar en í nágrannalöndunum að verða við áskorun um þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Nú, sex áratugum síðar, eru aðstæður gerbreyttar og enda þótt ég telji enn að við eigum ekki að rjúfa tengslin við NATÓ finnst mér það sjálfsagt að þjóðin fái sjálf að ráða þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu.


 

 


mbl.is Íhugi þjóðaratkvæði um NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband