Maðurinn er mesta rándýrið.

Ýmislegt er gert af manna hálfu til þess að grípa inn í dýralíf og náttúru á þeim forsendum að það þurfi að vernda hinar og þessar tegundir eða til þess að maðurinn sjálfur geti lifað af.

Í mörgum tilfellum er þetta óþarfi. Í fyrra tilfellinu vegna þess að sé náttúran látin í friði leitar hún sjálf jafnvægis. 

Þegar landnámsmenn komu til Íslands höfðu til dæmis engir staðið fyrir því að drepa ref til þess að bjarga öðru lífi frá því refurinn eyddi því. Samt var hér fádæma gróskumikið dýra- og fuglalíf. 

"Fiskar vaka þar í öllum ám" yrkir Jónas. 

Gallinn við manninn er sá að hann drepur ekki aðeins til þess að seðja sárasta hungur sitt, heldur gersamlega skefjalaust ef sá er gállinn á honum,  drepur til þess eins að drepa.

Stórum hjörðum vísunda var útrýmt í Ameríku sem og úlfum á stórum svæðum. 

Íslendingar fóru létt með það að útrýma geirfuglinum. 

Síðan er það umhugsunarefni þegar maðurinn ræðst inn í lífkeðjuna án þess að fyrir liggi rannsóknir á því hvaða áhrif það hefur á hana að hamast sé á einum eða fleiri hlekkjum hennar. 

Stórvirk veiðarfæri eru látin skrapa hafsbotninn og róta honum upp án þess að rannsakað sé hve mikil þessi spjöll eru eða hvaða áhrif þau hafi á uppeldisstöðvum þorsksins. 

Sagt var á tímum hinna skefjalausu karfaveiða að einu tonni af olíu væri eytt fyrir hvert veitt karfatonn og í makrílveiðunum skilst manni að eitt tonn af olíu fari í að veiða hver þrjú tonn af makríl. 

Hefur það verið reiknað út til fulls hver hin raunverulega hagkvæmni er í mismunandi veiðiaðferðum og hvaða möguleikar eru á því að fá miklu hærra verð fyrir fisk, sem hægt er að færa sönnur á að sé veiddur á sem bestan hátt? 


mbl.is 90% af kríuungum hungurmorða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ætla að vitna í frægan mann frá 19. öld , þ.e. Karl Marx: Í óseðjandi græðgi sinni eyðileggur auðmagnið sinn eigin grundvöll, þ.e. náttúruleg gæði og mannlegt vinnuafl.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 17.1.2011 kl. 09:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því miður fyrir Marx olli tilraunin, sem gerð var í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu enn verri umhverfiseyðileggingu og mannfórnum en óheftur kapítalismi hömlulausrar græðgi.

Hvorug kenningin gerði nefnilega ráð fyrir mannlegu eðli og veikleikum þess. 

Ómar Ragnarsson, 17.1.2011 kl. 18:10

3 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Ef rjúpna eða hreindýraskyttur nota ökutæki við veiðarnar, Þá er Það lögreglumál !

Lögsaga umhverfisráðherra nær aðeins oný fjöru, það sem er undir yfirborði sjávar

kemur honum ekki við, Þar máttu gera það sem Þér sýnist og breyta fiskimiðum

Íslendinga í eyðimörk !

Aðalsteinn Agnarsson, 17.1.2011 kl. 18:11

4 identicon

Ég verð víst að játa það upp á mig að hafa verið á togurum, og þar féllu fyrir minni hendi allskonar sjavarskepnur. Einhver býsn af þorski, ýsu, ufsa og....karfa. Og svo náttúrulega steinbíti, skötusel og (ohhh) gullaxi, sem er auðklessanlegur smáfiskur sem hægt er að hakka saman við ufsa o.fl og gera úr ORA bollur.

Það komu hrein ósköp af karfa, og hann var svona ca. næstbesti aflinn upp á hlut. Þorskurinn var alltaf bestur og svona 6x verðmeiri en ufsi og gullax.

Því verð ég að leyfa mér það að stórefast um það að karfi (og bara fiskur yfirleitt) sé veiddur með þvílíkri olíubrennslu að flotaolían fari jafnvel fram úr verðgildi aflans.

Þetta er nefnilega ekki stundað sem sport....

Jón Logi (IP-tala skráð) 18.1.2011 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband