Í hlekkjum hugarfarsins.

Baldur Hermannsson gerði fyrir um tveimur áratugum merkilega sjónvarpsþætti sem báru nafnið "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins". Þeir ollu miklum deilum, enda fór Baldur stundum glannalega langt í framsetningu sinni, stundum jafnvel of langt. 

En grunnhugsun þáttanna var að mínum dómi rétt: Ríkjandi valdastétt á Íslandi hélt þjóðinni öldum samana í helgreipum hlekkja hugarfars, sem íslenskur aðall, stórbændur og embættismenn, stóðu dyggan vörð um til að viðhalda jafnvel meiri forréttindum en danskur aðall hafði í sínu landi. 

En hlekkir hugarfarsins voru, eru og verða til á öllum tímum. 

Stjórnmálamenn og hagspekingar heimsins eru fastir í hlekkjum hugarfarsins, sem skapað hefur velsæld og auð hjá mörgum þjóðum þótt meirihluti mannkyns hafi farið á mis við það.

Þessi velsæld hefur byggst á því að ganga í skefjalausu bruðli á auðlindir jarðarinnar og halda uppi stöðugum og endalausum hagvexti sem töfralausn og undirstöðu "hinna amerísku lífshátta", sem allar þjóðir þrá að tileinka sér.

Nú síðustu ár hafa Kínverjar tileinkað sér þetta hugarfar og stefna að því að verða mesta efnahagsveldi heimsins. 

Krafan um sífellt meiri hagræðingu, sem byggist á endalausum tækniframförum, felur í sér þá mótsögn að færri störf þarf í framleiðslu og þjónustu sem aftur leiðir til þess að störfum fækkar og atvinnuleysi eykst. 

Vaxandi atvinnuleysi þýðir vaxandi óhamingju, ójöfnuð, glæpi, óróa og ófrið. 

Nú stefnir óhjákvæmilega í hrun þess sem þetta hugarfar hefur skapað. Hámarki olíualdarinnar hefur verið náð og leiðin getur aðeins legið í eina átt: Nður á við. Þeim mun meira sem verður reynt að dæla úr þverrandi olíuforða jarðar, því hraðara verður hrunið.

Fyrir hvert tonn af olíu, sem finnst í nýjum olíulindum, minnkar forði þekkts orkuforða núverandi olíulinda um minnst sex tonn. 

Æ dýrara verður auk þess að vinna olíuna úr nýju lindunum. 

Eina þjóðin, sem virðist ætla að reyna að minnka skellinn þegar olíulindir hennar þverra, eru frændur okkar, Norðmenn.  Þeir leggja 70% olíuteknanna fyrir til þess að eiga til mögru áranna á sama tíma sem þjóðir heims keppast við að auka skuldabyrðar sínar til þess að viðhalda neyslunni, sem knýr átrúnaðinn mikla, hagvöxtinn. 

Kínverjar hafa að vísu veitt gríðarlegum fjármunum til Vesturlanda í formi lána og fjárfestinga, en að öðru leyti sigla þeir sömu siglingu og aðrir, fastir í hlekkjum hugarfars hins takmarkalausa framleiðsluvaxtar og bruðls með auðlindir.

Við Íslendingar eigum þrátt fyrir allt meiri möguleika en flestar aðrar þjóðir til þess að breyta orkunotkun okkar yfir í iinnlenda og hreina orkugjafa, en erum að miklu leyti líka fastir í hlekkjum hugarfaris græðgi, skammsýni og tillitsleysis gagnvart komandi kynslóðum, - hugarfarinu sem leiddi til Hrunsins og virðist ætla að halda velli. 


mbl.is Áhyggjur af atvinnuleysinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Það eru ekki margir sem komast með tærnar þar sem þú ert með hælana Ómar !, hvað varðar að segja langa sögu stutt og skorinort og þannig að maður skilji.

En þetta er einmitt kjarninn í því sem veldur þessum sveiflum líka, sem aftur leiða til kreppu og hruns og því miður oft til ófriðar.

Maður getur ekki annað en leitt hugann að því hvernig það sem er að gerast á Íslandi núna (ekki við hrunið, það var bara stærra hlutfallslega en hjá öðrum) þ.e. við þessa Icesave samninga, og einnig þessa svokölluðu "Aðstoð" AGS, kannski væri fyrsta skrefið til komast útúr þessum vítahring og olíu og orkufíknar, að hafna algerlega þessum sífellu "björgunum" til handa fjárglæframönnum sem algerlega án ábyrgðar, setja almannafé í súginn í sukk og svínarí, enda er þeim svo alltaf "bjargað" aftur með almannafé þ.e. skattgreiðenda, þetta skeður allstaðar um alla Evrópu núna, en fleiri og fleiri málsmetandi menn/konur og venjulegir borgarar einnig, eru að sjá í gegn um hráskinnaleikinn.

HÉR er einn, þó svo hann sjái þetta frá sínu sjónarhorni, þá er sama hugsun á bakvið og hjá Forsetanum  HÉR. sérstaklega síðasta svarið í viðtalinu, neðst.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 9.2.2011 kl. 22:57

2 identicon

Þættir Baldurs eru með því allra besta sem RUV hefur sýnt innan heimildamynda og löngu orðnir að goðsögn. Þeir voru ögrandi og fengu fólk til að hugsa og sköpuðu umræður. Því miður hefur RUV ekki haft kjark til að endursýna þá. Þar er flest ef ekki allt á fallanda fæti.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 00:29

3 identicon

Ekki var ég nú hrifinn af þessum þáttum, enda sjálfur í búskap. Það gerði það frekar auðvelt að sjá Það sem hann sleppti að segja frá, annaðhvort viljandi eða af vankunnáttu, - en hvorugtveggja er fúsk.

En niðurlagið í greininni er skothelt. Bendi hér á hlekk sem er öllum hollur:

http://www.youtube.com/watch?v=F-QA2rkpBSY

Út af fyrir sig er ekkert af því sem mannskepnan er að gera framlengjanlegt af viti. Bara einfalt stærðfræðilögmál. En orka og fóður er það sem bítur best.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 13:00

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eins og ég segi, Jón Logi, þá tel ég að Baldur hafi gengið of langt og alhæft of mikið, því að þess þurfti ekki. 

Bændum fannst þessir þættir vera árás á sig, en það tel ég misskilning. Þættirnir voru einungis árás á þau 10% bænda sem áttu allar jarðir á Íslandi.

Þeir vörpuðu ljósi á það misrétti og kúgun sem fólust í því að 90% bænda væru leiguliðar og ánauðugir að því leyti og því leyti hefðu þeir átt að vekja samúð með þessum mikla meirihluta bænda. 

Ómar Ragnarsson, 10.2.2011 kl. 23:51

5 identicon

Tímasetningin var náttúrulega frekar óhentug, þar sem það var í gangi mjög heit umræða um stéttina. En það sem ég hjó eftir hjá Baldri var það, að Þungamiðjan var vistabandið, sem á vissan hátt hlekkjaði fólk fast á bæjum ef stjóranum þóknaðist svo. Hann þurfti að vísu að ala það fyrir vikið. En hann rakti þetta og tengdi við framfarir þjóðarinnar þegar vistarbandið fór af. Tenginguna mátti skilja eins og vistabandið hafi stöðvað alla útgerð á landinu, en eins og sagan segir tók efnahagur þjóðarinnar mikinn frammákipp með aukinni útgerð.

En útgerð var á þessum tíma mest með áraskipum, og ein af ástæðum fyrir vistabandinu kann að hafa verið sá mannskaði sem stöðugt varð á mörgum stöðum landsins. Ungir menn fóru til vers í von um betri kjör en skiluðu sér sjóreknir í verulegum fjölda.

Á skógasafni má sjá myndir af sjódauðum Eyfellingum á tiltölulega stuttu tímabili (og eftir vistaband). Þetta er alveg ótrúlegur fjöldi. Skarð fyrir skildi að missa svona margar vinnandi hendur.

En svo komu mótorskip, og þá var hægt að fara gera ýmislegt sem ekki gekk áður.

Og svo er nú ekki heldur svo farið að ekki hafi verið skakað á fjörðum víða um land. Það var alveg hægt innan vistabands, enda praktíst að afla matar þar sem hann svamlaði ferskur í fjarðarskjóli.

Þegar þættirnir komu í sjónvarpið var ég að lesa smásögusafn Jónasar frá Hrafnagili, - ljós og skuggar hét það. Þar kom eiginlega sverasti hlekkurinn í ljós, sem var eignarhald og reglur með ábúð. Það var nefnilega þannig alveg vel fram á 19 öld, að leiguliði eignaðist ekki eigin framkvæmdir, nema landsdrottni þóknaðist að vera sanngjarn. Þetta virkaði fullkomlega sem bremsa á alla framkvæmdasemi, því að landsdrottnar áttu það til að hækka leiguna á leiguliðum sem unnu jarðarbætur. Þessu varð svo breytt í lögum, hugsanlega nálægt aldamótum. Og þessi hugsun er ekki enn horfin með öllu.

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.2.2011 kl. 08:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband