Ódauðlegur hundur.

Leitun mun að minna og ræfilslegra kvikindi sem orðið hefur jafn frægt og haft eins mikil áhrif og hundurinn Lúkas. Áhrif hans á umgengni fólks við sannleikann og það, sem fólk lætur frá sér fara opinberlega í nýjum samskiptamiðlum urðu vissulega mikil, þótt hann vissi það auðvitað aldrei, blessaður, hvað útivist hans ofan við Akureyri ætti eftir að draga mikinn dilk á eftir sér.

Nokkur dýr önnur hafa orðið fræg í gegnum tíðina, og má þar til dæmis nefna tíkina Lucy, sem var í eigu Alberts Guðmundssonar og varð landsfræg þegar eigandinn hélt því til streitu að hafa hana hjá sér þrátt fyrir kæru um brot á reglum um hundahald í borginni. 

Kýrin Sæunn í Valþjófsdal í Önundarfirði hlaut frægð á níunda áratugnum fyrir að slíta sig lausa frá þeim, sem voru að leiða hana til slátrunar, og komast undan með því að synda yfir Önundarfjörð. 

Þegar verið var í herferð gegn mæðiveiki snemma á sjötta áratugnum og fargað var öllu fé á stórum hluta landsins, slapp ærin Surtla frá Herdísarvík undan mönnum mánuðum saman, þótt hún væri hundelt í bókstaflegri merkingu af byssumönnum. 

Fréttirnar af henni voru ofarlega á baugi í margar vikur þangað til að loks tókst að fella hana. 

Er Herdísarvíkur-Surtla líkast til frægasta sauðkind Íslandssögunnar.

Öll fyrrnefnd dýr hafa hlotið ódauðlega frægð í þjóðarsögunni og því skiptir litlu, þótt Lúkas sé allur, nafn hans mun uppi meðan land byggist! 


mbl.is Lúkas dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband