Eltingarleikur við aukaatriði.

Of oft draga menn fram aukaatriði þegar varpa á efa um færni einstakra manna. Eltingarleikur í fjölmiðlum um feril Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ber keim af þessu.

Eitt besta dæmið um þetta er sú árátta manna að draga menn í dilka á borð við "101 Reykjavík" eða "Lattelepjandi kaffihúsalið í 101 Reykjavík" og gera fyrrnefnd lýsingarorð af skammarheitum. 

Jón Sigurðsson og Fjölnismenn hefðu samkvæmt þessu verið taldir ónytjungar af því að þeir voru "vínsullslepjandi bjórkráalið í "101" Kaupmannahöfn" á sama tíma og landsmenn þeirra bjuggu í torfkofum i vegalausu landi. 

Búseta, umhverfi og menntun hafa að sjálfsögðu áhrif á fólk en þegar eingöngu er lagt mat á ágæti þess samkvæmt þessum mælikvarða en ekki eigin verðleikum er um ómálefnalega umfjöllun að ræða. 

Mig langar til að nefna tvö dæmi um það hve fáfengilegt það geti verið, þegar búseta, umhverfi og menntun eru gerð að aðalatriðum en ekki verðleikar mannanna, sem í hlut eiga. 

Mér er það minnisstætt að þegar ég og bekkjarfélagar urðum stúdentar hafði M.R. verið í rúma öld eini skóli landsins, sem útskrifaði nemendur eftir stúdentspróf. 

Við' vorum aðeins tæplega hundrað, og gömul hefð var fyrir því að stúdentar væru boðnir til æðstu valdamanna landsins á hinu veraldlega og andlega sviði. 

Þess vegna kom það í hlut Ólafs Thors forsætisráðherra og Sigurgeirs Sigurðssonar biskups að heilsa hinum nýju stúdentum. 

Aldrei var um það rætt á þessum árum að báðir þessir menn "skriðu" sem kallað var á stúdentsprófi, rétt náðu lágmarkseinkunn. 

Báðir höfðu sannað verðleika sína á annan hátt en með skólalærdómi. 

Jón Sigurðsson var ekki aðeins óumdeildur forystumaður í íslensku sjálfstæðisbaráttunni heldur veittu rannsóknir hans á sögu og menningu Íslendinga og Dana honum einstakan sess, svo dýrmætan fyrir Dani, að hann þáði hjá þeim laun fyrir störf sín á þessum vettangi. 

Er áreiðanlega einsdæmi að "herraþjóð" hafi haldið uppi helsta andófsmanni í sjálfstæðisbaráttu "undirþjóðar". 

Jón naut verðleika sinna en ekki háskólaprófa, því að hann lauk aldrei námi til fulls. Aldrei minnist ég samt þess að þá né síðar hafi menn verið að eltast við menntunarferil hans. 

Það voru aukaatriði rétt eins og prófgráður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru aukaatriði nú. 


mbl.is Sigmundur Davíð gerir grein fyrir námsferli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst Ómar vera að misskilja hlutina. Hvergi hef ég séð menn gagnrýna Sigmund Davíð fyrir of litla menntun. Hinsvegar tóku menn eftir því að hans upplýsingar um sinn námsferil, hans Vita Curriculum,  voru misvísandi, eins og hann hefði sjálfur þörf fyrir að fegra hann. Allir kannast við “Plagiatsaffäre Karl-Theodors zu Guttenberg”, sem var varnarmálráðherra Þýskalands og varð að segja af sér vegna ritstuldar. Hann afritaði sína doktorsritgerð við Háskólann í Beyreuth á ótrulega ósvifinn hátt. Hann varð að segja af sér sem ráðherra og skila doktors titlinum. Það var hans eigin metnaður sem varð honum að falli, en ekki kröfur t.d. þeirra sem höfðu stutt hann sem stjónmálamann. Þá á ég erfitt með að trúa því að Ólafur Thors eða Sigurgeir Sigurðsson hefðu orðið lélegri embættismenn, hefðu þeir verið betri námsmenn.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 09:28

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir þetta að hluta hjá Hauki.

Hins vegar voru hinar misvísandi upplýsingar um menntun Sigmundar á vefsíðum sem hann bar ekki ábyrgð á og nú hefur hann gefið sjálfur út yfirlýsingu á Mbl.is, um menntun sína.

Menn geta því hætt að velta fyrir sér þessum "aukaatriðum".

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2011 kl. 13:23

3 identicon

Þetta er alveg rétt hjá Ómari, mér finnst líka allt of mikið gert úr skólalærdómi, eins og síðasta hrun ber gott vitni um.  Ég hef í gegnum tíðina hitt marga ólika típur, og það sem mest skiptir máli eru þeir verðleikar sem menn skapa sér, og ekki sú mentun sem afla sér.  Gamalt orðatiltæki, "Those who know, do ... those who don't teach".  það er til langur listi yfir dæmi um þetta, en einfaldast dæmið er að segja "Talvan mín er virkilega fær í að reikna, en mér dettur ekki í hug að kalla hana gáfaða".

Þessir menn höfðu meir, en bara eitthvað sem var lært á bók ...

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 14:03

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bjarne, þú ferð rangt með orðatiltækið.

"Those who can, do... those who can´t, teach"

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2011 kl. 14:16

5 identicon

Rétt Gunnar, þannig hljómar máltækið rétt ...

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 16:33

6 identicon

Flott strákar. Þið hafið spakmælið á hreinu, til hamingju, en við því segi ég “stupid”, þar sem það er á ensku. Ég átti því láni að fagna að hafa sama kennarann öll mín ár í barnaskóla, frábæran mann og í MA voru mínir kennararr einnig frábærir, hver öðrum betri. “Those who can, do... those who can´t, teach" hef ég aldrei heyrt áður, en svona heimsku á maður ekki einu sinni að hafa eftir. Þetta er ekki einu sinni fyndið. Annars hafa Íslendingar alltaf verið hallir undir þetta; verkfræðingar míga upp í vindinn“ og fleira í þeim dúr. Hissa að Gunnar Th. skuli taka undir þetta, því hann sýnist mér intelligent maður, hvað Bjarne varðar, I don‘t know.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 17:55

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Ekki einu sinni fyndið?... skrýtið, því þetta er nokkuð þekktur brandari úr Kennaraháskólanum og víðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2011 kl. 18:14

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Kennaraháskólinn er reyndar ekki til lengur. Heitir núna Háskóli Íslands, menntavísindasvið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2011 kl. 18:16

9 identicon

Haukur, þetta er ekkert skrítið máltæki ... heldur afskaplega eðlilegt.  og þú ert velkominn að kalla mig heimskann sauð ef þér líður betur.  Ég er þá allavega ekki í sama hópi og Íslensku gáfnaljósin, sem settu heiminn á hausinn.

Menn eru alltaf flokkaðir í tvo hópa, á annan veginn hefur þú þá sem læra af reynslunni og á hinn bóginn hefur þú þá sem læra af bók.  Og vinur, það þarf ekkert vit til að læra af bók ... vitið þarftu, til að geta mætt ólíkum kringumstæðum, og óþekktum kringumstæðum.  ÉG hef sjálfur staðið hlið við hlið fólks, sem situr á bekk og hermir eftir, en þegar það sjálft þarf að skapa eða segja frá, frá eigin sjónarhorni.  Þá er nákvæmlega EKKERT sem kemur út.  Og þessi gerð fólks, er í háskóla og telur sig öðrum menntaðri ... hinir falla á prófi, eins og EInstein.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 20:50

10 identicon

Ég kallaði þig aldrei heimskan sauð, Bjarne. Ég sagði hinsvegar að mér fyndist þessi málsháttur "stupid". Þú þarft ekki að segja mér að reynslan sé ekki góður skóli. Öll skólaganga föðurs míns voru tveir vetrarpartar í Reykjavík, nám sem móðir hans þurfti sjálf að borga, fráskilin kona með mörg börn á framfæri. Hann varð samt bæði múrara- og trésmíðameistari. Löng skólaganga er oftast undirbúningur fyrir menntun, sem hefst fyrst fyrir alvöru þegar út í starfið er komið. Þetta þekki ég vel af eigin reynslu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.4.2011 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband