Að lifa um efni fram.

Allt frá því ég man fyrst eftir mér hefur það verið helsta vandamál okkar Íslendinga, eftir að við vöndumst uppgripum og þenslu stríðsáranna, að sækja í það að eyða um efni fram.

Þetta kom meðal annars fram í stöðugum neikvæðum vöruskiptajöfnuði árum og áratugum saman. 

Hegðun okkar hefur oft verið lík og hjá hundum Pavlovs að það eitt hefur nægt að nefna einhvað sem minnir á þenslu og eyðslu, - þá höfum við slefað af löngun í gæðin. 

Ég hef áður minnst á eitt klassískasta dæmið frá miðsumri 2002 til hausts 2003, þegar hér fór af stað meiri þensla en dæmi hafði verið um um áraraðir vegna þess eins og Alcoa undirritaði samninga um Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði.

Á núvirði nam þessi þensla 20-30 milljörðum og skynugur sérfræðingur í Seðlabankanum, sem undraðist þetta, tók sér fyrir hendur að rekja ástæður þessa. 

Ekki gátu þær verið framkvæmdirnar fyrir austan því að þær hófust ekki fyrr en ári síðar og enga aðra ástæðu að finna. 

Að lokum komst hann að því að 85% af þenslunni og "gróðærinu" stafaði af því að fólk rauk til tugþúsundum saman og tók sér yfirdrátt á kreditkortum sínum til þess að kaupa sér bíla og hvers kyns gæði. 

Vorið 2003 vann Framsóknarflokkurinn síðasta sigur sinn á grundvelli loforða um stóraukin húsnæðislán, sem áttu sér enga raunverulega innistæðu og þar með fór lánasprengingin af stað þegar hinir nýlega einkavinavæddu bankar þustu af stað í bullandi lánveitingasamkeppni. 

Erfitt er að sjá hver grundvöllurinn er að vaxandi innkaupum landans á erlendri þjónustu og varningi nema svipuð viðbrögð og hjá hundum Pavlovs við orðum eins og "hagvaxtarspá", "Helguvík", "Búðarhálsvirkjun" o. s. frv.

Okkur virðist tamara að eyða fé en fjárfesta. 

 


mbl.is Hagvaxtarhorfur versnuðu til muna á örfáum mánuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Nú er ljóst að margir eiga mikla íslenska fjármuni eftir bankahrunið. Ríkistrygging á öllum innistæðum í íslenskum bönkum-bjargaði yfir 1000 milljörðum í ísl.kr. Vegna gjaldeyrishafta er ekki hægt að skipta þessum krónum í gjaldeyri nema í örsmáum mæli. Nú er lækkandi verð á USD og því alveg ómöguleg að geta ekki nýtt það. En hvað gerir Íslendingurinn sem á morð fjár í íslenskum kr. Hann fer að kaupa innfluttar vörur í stórum stíl - á meðan eitthvað fæst fyrir krónurnar. Og hvað þá ? Innflutningshöft ?  Sennilega... Við hinir eldri þekkjum ferilinn  frá liðinni tíð.

Sævar Helgason, 21.4.2011 kl. 14:12

2 identicon

Ég held að Sævar sé með þetta í stórum dráttum. Einstaklingar eiga mikið fé í bönkum landsins. Milljarða. Og allir vita að krónan er ónýtur gjaldmiðill. En hvað kemur til greina; fasteignir, svissnesk úr, listaverk, gull?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.4.2011 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband