Óreiðan í skipulagsmálunum.

Ekki þarf annað en að líta á kort, sem sýnir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til að sjá hvílíka óreiðu skipulag þessa svæðis býður upp á.

Tjónið af völdum þessa skrímslis má vafalaust telja í hundruðum milljarða króna frá því að þau grundvallarmistök voru gerð á miðjum sjötta áratugnum að sameina ekki Reykjavík og Kópavog. 

Það var skólabókardæmi um skaðlega skammsýni og sérhagsmunahyggju íslenskra stjórnmálamanna. 

Sjálfstæðismenn í Reykjavík máttu ekki til þess hugsa að "kommarnir" í Kópavogi yrðu teknir inn, því að þá væri hætta á að missa meirihlutann í Reykjavík. 

Á sama hátt fengu sósíalistarnir í Kópavogi grænar bólur við tilhugsunina að missa sinn meirihluta þar ef þeir sameinuðust "íhaldsbænum" Reykjavík. 

Óreiðan stingur í augu á svo mörgum stöðum og mörgum sviðum að allt of langt mál væri að telja það allt upp. 

Góð dæmi eru byggðamörk Reykjavíkur og Kópavogs sem eru hreinn brandari á köflum og einnig það hvernig Mosfellsbær aðskilur Kjalarneshluta Reykjavíkur frá meginborginni. 

Nefna má að til þess að aka á milli húsa, sem liggja 100 metra frá hvert öðru á mörkum Salahverfis í Kópavogi og Seljahverfis í Breiðholti, þarf að fara nærri fjögurra kílómetra aksturleið í heilan hring! 

Höfð voru uppi fögur orð á tímabili um samræmingu í skipulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en þau voru gersamlega svikin svo að ekki stóð steinn yfir steini eins og kom vel fram í fróðlegum þáttum Hjálmars Sveinssonar um þau mál í útvarpinu. 

Fyrir löngu hefði verið átt að sameina öll sveitarfélögin milli Kúagerðis og Kjalarnestanga undir einn hatt þar sem einstök hverfi á borð við Grafarvog-Grafarholt, Árbæjarhverfi og Breiðholt hefðu álíka mikla stjórn eigin mála innan hverfis og Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður. 

Heildarskipulagið væri hins vegar algerlega í höndum sameiginlegrar yfirstjórnar. 

Það er enn hægt að gera þetta ef vilji fyrir umbótum af þessu tagi er fyrir hendi. Að vísu erfitt að bæta fyrir mistök í skipulagsmálum sem erfitt er að leiðrétta. 

En viljinn til þess arna er nákvæmlega enginn. Þess vegna gerist ekki neitt. 


mbl.is Erfitt að skilja Kjalarnes frá Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar,

 Er einnmitt nýbúinn að ljúka Bs námi í Miljøplanlægning hér í Danmörku og af "tillitsemi" við mig þá var eitt af þeim dæmum sem notuð voru við kennsluna höfuðborgarsvæðið á Íslandi. Höfuðborgarsvæðið var tekið sem dæmi um svæði þar sem gríðarlegt kaos ríkti í skipulagsmálum með miklum neikvæðum umhverfis- og samfélags- og efnahagslegum afleiðingum. Þá var bent á að erfitt myndi reynast að finna dæmi þar sem samskiptaleysi, eða að minnsta kosti árangursleysi í samskiptum, skipulagsyfirvalda  væri jafn mikið á svo litlu svæði með svo augljósa sameiginlega hagsmuni af samstarfi í skipulagsmálum.

 Það góða við fyrirlesturinn var þó að bent var á að ekki væri öll von úti um að hægt væri að leiðrétta þau mistök sem gerð hafa verið, en jafnframt bent á að til að svo megi verði þurfi að öllum líkindum að sameina öll sveitarfélögin á svæðinu þar sem sagan sýni að þau geta ekki fundið út úr að vinna saman að skipulagsmálum.

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 5.5.2011 kl. 07:01

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Vandi Sala- og Seljahverfis er æpandi eins og þú bendir á Ómar.  Þessi hverfi er hins vegar ekki hægt að tengja saman með þeirri 100 metra götu sem pláss er fyrir fyrr en stofnbraut hefur verið lögð ofan byggðar í Seljahverfi frá Kópavogi og að Breiðholtsbraut. Annars myndi Jaðarselið, sem er safngata fyrir íbúðahverfi, breytast í stofnbraut fyrir þungaflutninga með öllu því ónæði og þeim hættum, sem slíkri umferðaræð fylgja.

Sigurbjörn Sveinsson, 5.5.2011 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband