Flugvöllur á réttum stað.

Núverandi Reykjavíkurflugvöllur er fjóra kílómetra frá stærstu krossgötum landsins og þar með höfuðborgarsvæðisins, en þær eru í kringum Elliðaárdal.

Hólmsheiði er álíka langt frá þessum krossgötum. Af þessum sökum er fráleitt að færa flugvöllinn upp á Hólmsheiði. Auk þess eru veðurskilyrði þar mun verri en á núverandi flugvallarstæði.

Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur lengir ferðaleið þess sem fer fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur um 164 kílómetra alls. Síðan hvenær telst slíkt vera framfarir í samgöngumálum?

Núverandi Reykjavíkurflugvöllur tekur álíka mikið rými og Reykjavíkurhöfn.

Myndi nokkrum manni detta í hug að leggja höfnina niður og reisa þar íbúðabyggð og gera í staðinn nýja höfn Skerjafjarðarmegin?

Eða að fara með allar skipasamgöngur Reykjavíkur suður til Njarðvíkur?

Miklabrautin ein tekur rými á við hálfan flugvöll. Dettur mönnum í hug að reisa þar íbúðabyggð af því að landið sé svo verðmætt sem brautin stendur á?

Vegir, hafnir og flugvellir eru æðakerfi og forsenda byggðar. Þessi mannvirki taka óhjákvæmilega rými.

Miðja samgangna Reykjavíkur og þar með landsins alls getur aldrei orðið við Reykjavíkurtjörn, úti á nesi um fimm kílómetra frá stærstu krossgötunum.

Hið hlálega er að Reykjavíkurflugvöllur á núverandi stað er eina samgöngumannvirkið sem beinir  þó straumi fólks inn á það svæði.

Reykjavík byggðist upphaflega við þær krossgötur sem voru á sínum tíma þar sem siglingaleið mætti landleið við gömlu Reykjavíkurhöfnina. Þangað komu dönsku konungarnir, Þorbergur og Laxness.

Þetta er löngu liðin tíð.

Vegna þess að það tekur aðeins rúma hálfa klukkustund að fara milli Akureyrar og Reykjavíkur er Akureyri í raun á atvinnusvæði Reykjavíkur líkt og Akranes, Borgarnes, Árborg og Suðurnes.

Með því að flytja flugið til Suðurnesja yrði í raun verið að henda sautján þúsund íbúa úthverfi borgarinnar í burtu.  

Flutningur innanlandsflugs til Suðurnesja jafngildir því í kílómetrum að skylda hvern Akurnesing eða Borgnesing til að aka fjórum sinnum fyrir Hvalfjörðinn á leið sinni fram og til baka til Reykjavíkur.

Borgir byggjast á samgöngum, greiðum og góðum, og þær byggjast nær alltaf við krossgötur.

Flugið er þráðurinn að ofan fyrir Reykjavík svo notuð sé samlíking við söguna um köngulóna.

Það er vel að hafa samgönguráðherra sem gerir sér grein fyrir þessu.

Breyta má og bæta Reykjavíkurflugvöll þegar tækifæri gefst, lengja austur-vestur brautina og leggja núverandi norður-suður braut niður en leggja aðra styttri frá brautarmótum og suður hjá núverandi olíustöð í Skerjafirði.

Við það myndi flugvöllurinn í raun hverfa úr gömlu miðborginni og losna rými fyrir húsabyggð, því að austur-vestur brautin yrði aðalbraut vallarins og litla norður-suður brautin aðeins notuð í hvössum sunnan- eða norðanáttum.

Slíkur Reykjavíkurflugvöllur yrði ekki lengur í Vatnsmýrinni heldur eingöngu á Skildinganesmelum og í Skerjafirði, því að eins og nú er, eru aðeins 30% vallarins í Vatnsmýri.


mbl.is Hætt við nýjan flugvöll á Hólmsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður, sammála þér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.7.2011 kl. 08:15

2 identicon

Þakka góðar ábendingar í þessu efni, ég er þér fullkomlega sammála.  Það að loka flugvellinum í Reykjavík einangrar borgina frá restini af landinu, sem er svo reyndar ósk margra sem utan borgarinnar búa, en það er önnur saga.

Kv.

Bjössi (IP-tala skráð) 6.7.2011 kl. 09:40

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Góður pistill og sannur

Axel Jóhann Hallgrímsson, 6.7.2011 kl. 10:00

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Alltaf jafn góður Ómar. Takk fyrir þennan ágæta pistil.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.7.2011 kl. 11:13

5 identicon

Það er óskandi að fleiri átti sig á því að það er engin lausn að "færa" innanlandsflugið til Keflavíkur - verði Reykjavíkurflugvelli lokað mun innanlandsflug líklega leggjast af í núverandi mynd. Ef Reykvíkingar vilja innanlandsflugið ekki í "sínum bakgarði" - þá hefur það ekki í neinn annan "bakgarð" að hverfa.

Það væri áhugavert að fá útskýringu á því hvernig borgarfulltrúi VG ætlar að "koma í veg fyrir áframhaldandi aukningu á einkabílanotkun" með því að loka Reykjavíkurflugvelli.

Annað tveggja myndi væntanlega gerast; meirihluti farþega í innanlandsflugi þyrfti að ferðast á milli Reykjavíkur og Keflavíkur (væntanlega með einhverju farartæki á hjólum) - eða, það sem kannski er líklegra - drjúgur hluti farþega a.m.k. til/frá Akureyri myndi einfaldlega keyra á milli fremur en að fljúga.

Lengri ferðatími og hærri kostnaður myndi óhjákvæmilega skerða samkeppnishæfni flugsins - þannig að fleiri myndu nota sinn einkabíl - og notkunin myndi þannig aukast, þvert á óskhyggju borgarfulltrúans.

Svo mætti bæta Laugardalnum á listann yfir þau svæði þar sem líklega engum myndi detta í hug að "þétta byggð".

TJ (IP-tala skráð) 6.7.2011 kl. 13:57

6 identicon

Svoleiðis alveg kórrétt.

Hver hefði svo sem þurft að byggja þarna? Fullt af hálfbyggðum hverfum á höfuðborgarsvæðinu!

Og hver á að skaffa pening til að leggja niður milljarða framkvæmdir og reisa þær svo annars staðar? Það er ekki eins og framkvæmdafé vaxi á trjánum í dag, og hvað þá ef nota á það til...einskins.

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.7.2011 kl. 16:10

7 Smámynd: Skeggi Skaftason

Flugvöllurinn er ekkert að fara og svolítið hjákátleg fyrirsögn Mogga, að "hætt" hafi verið við nýjan flugvöll á Hólmsheiði! Ég man ekki eftir að nokkurn tímann hafi verið tekin ákvörðun um að byggja flugvöll þar, og engan fagmann hef ég heyrt tala um það sem raunhæfan kost.

En við getum svo sem áfram rifist um flugvöllinn næstu áratugina og ákveðið á þriggja ára fresti að hafa hann áfram enn um sinn.

En slíkt þras má ekki tefja þarfar og gagnlegar endurbætur, svo sem minnkun vallarins eins og Ómar talar um, eða byggingu boðlegrar (en ekki óhóflegrar) nýrrar flugstöðvar.

Skeggi Skaftason, 6.7.2011 kl. 17:01

8 identicon

Í mínum huga er dæmið ekki flókið: Þar sem aðalsjúkrahús landsins er, þar verður að vera flugvöllur fyrir fólk sem þarf á slíku sjúkrahúsi að halda í okkar strjálbýla landi. Hugmyndir Ómars um framtíðarþróun flugvallarsvæðisins eru býsna góðar.

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.7.2011 kl. 19:03

9 Smámynd: Fannar frá Rifi

ef menn vilja þétta byggð í Reykjavík, hvernig væri þá að gera það sama og gert er í öðrum borgum þegar þétta á byggð? rífa hús og byggja ný og hærri? eða ef menn vilja varðveita einhver gömul hús að lyfta þeim upp og setja kjallara undir eða hækka með því að smíða ofan á þau í sama stíl og þau voru byggði í?

síðan er alveg gríðarlega mikið landpláss falið í görðum og graslendinu sem er í kringum alla vegina í Reykjavík. afhverju þarf hús í borg að vera með bæði garði fyrir framan og aftan húsið? þetta er úthverfa skipulag sem við höfum í miðri borginni.

og síðan ef menn vilja fara í dýrar framkvæmdir þá er hægt að gera tvennt:

1. það er hægt að grafa Miklubrautina og aðrar slíkar stofnbrautir ofan í jörðu á stórum köflum og byggja hús ofan á þeim.

2. færa nær öll bílastæði í Reykjavík undir yfirborðið. þe. skylda allar nýbyggingar til að vera með bílastæðakjallara en ekki bílastæði fyrir framan.

það er nóg pláss sem eytt er í ekki neitt í Reykjavík. að ráðast á flugvöllinn vegna pláss lýsir eingöngu takmörkuðum hugmyndum og getu Borgarfulltrúa til þess að horfa lengra fram á vegin en fram að næstu kosningum.

Fannar frá Rifi, 7.7.2011 kl. 09:58

10 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ég er sammála öllu í grein þinni Ómar. Nema því að minnka megi flugvöllinn.

Held það sé fljótfærni að klippa af brautir eða minnka hann. Strax er bruðlað og illa farið með spildurnar í kringum hann, HR er ekki viðunnandi, hraðbrautartengingarnar í HR óviðunnandi og ég vil benda á að kappakstursbrautin sem lögð var sunnan við BSÍ er sjálf eins og ein flugbraut að stærð, 1,25 km af malbiki, takk fyrir! Hvers vegna gefa eftir af landi flugvallarins þegar það er svona illa nýtt, verður hvort eð er meira og minna malbikað og lokar á mögulega útvíkkun á framtíðarþjónustu og það er bara allt í lagi að vélar fljúgi yfir miðbæinn. Válar fljúga þvers og kruss yfir Manhattan og meðan World Trade Center var og hét flugu þær þar rétt yfir í aðflugi á vellina í nágrenninu, hvort sem er í þrumuveðri eða góðu veðri.

Frekar á að stefna að stækkun Reykjavíkurflugvallar, gefa honum heilstæðara hlutverk og koma tengingum í gott horf. Ég prófaði t.d. einu sinni að fara úr Fokkernum í strætó og það var heldur betur flókið! Einfalt á það að vera og einföld á tengingin að vera með strætó í BSÍ og miðbæinn. Bein lína.

Í komandi framtíð verður þessi völlur áfram í lykilhlutverki og ég vil sjá eitthvað af millilandaflugi fara í Vatnsmýrina. Það mætti gera ráð fyrir því í nýrri flugstöð sem þarf að tengjast rútustöðinni á skýrann máta (strætó eða þ.h.). Ný flugstöð þarf ekki að vera flottræfilsbygging heldur bara eitthvað praktískt. Og það getur vel verið að þotur framtíðarinnar verði hljóðfrárri og sparnaðurinn við að sleppa keyrslu á Keflavíkurvegi er gríðarlegur. Stækkun vallarins er því nauðsynjamál og eðlileg þróun rétt eins og á öllum öðrum góðum flugvöllum.

Ólafur Þórðarson, 12.7.2011 kl. 03:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband