Spurning um valkost.

Mikið er spáð og spekúlerað um stjórnarslit þegar ágjöf er í stjórnarsamstarfinu. En um það gildir það sama og í lífinu sjálfu, að lokaspurningin hlýtur að snúast um hvað geti komið í staðinn.

Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kemur ekki til greina af tveimur ástæðum. 

Annars vegar vegna Evrópumálanna og hins vegar og ekki síður vegna þess að of skammt er um liðið síðan þessir flokkar stóðu að ríkisstjórnin sem í margra huga er enn "Hrunstjórnin" þótt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í tólf ár þar á undan hefði valdið meiru um hvernig fór. 

Íslenska bankakerfið hefði mjög líklega fallið 2008, hvort sem stefnubreyting hefði orðið 2007 eða ekki. 

Rætt er um þann möguleika að Framsóknarflokkurinn komi inn í stjórnarsamstarfið. Það hefði þann kost að þá getu 1-2 þingmenn í einu ekki leikið þann einleik, sem þeir geta nú af því að stjórnarmeirihlutinn er svo veikur. 

En á móti kemur að deiluefnunum myndi frekar fjölga en fækka og auk þess alltaf hætta á að í þriggja flokka samstarfi myndist ástand þar sem einn flokkurinn telur hina tvo hafa myndað bandalag gegn sér. 

Eina þriggja flokka stjórnin sem setið hefur út kjörtímabilið á lýðveldistímanum er stjórn Steingríms Hermannssonar 1988-91 en það var líkast til fyrst og fremst vegna einstæðra forystu- og samningahæfileika Steingríms Hermannssonar. 

Hvað um kosningar í vor og þriggja flokka stjórn Sf, VG og Framsóknar eftir það? 

Óvíst er að nokkur þessara flokka sé hrifinn af því. Því veldur hin griðarlega óvisssa um það hvað nýjum stjórnmálaöflum tækist að gera í slíkum kosningum, ekki síst ef í aðdraganda þeirra hefur ríkt mikið óróa- og upplausnarástand í stjórnmálunum. 

Hugsanleg stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eftir slíkar kosningar myndi þurfa að glíma við draug 12 ára stjórnar þessara flokka þegar hrunferillinn var settur upp. 

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn og VG myndu ná samstöðu um ESB-málin hefur stjórnarseta VG ekki gert þann kost fýsilegan fyrir Sjálfstæðismenn sem hafa hamrað stöðugt á því að VG sé á móti allri atvinnuuppbyggingu, hverju nafni sem nefnist. 

Líklegast er að núverandi stjórnarsamstarfi muni haldið áfram eins og lengi og unnt er, hvort sem örendið endist út kjörtímabilið eða ekki. 

Mestu um það mun ráða óvissan um það hvað komi upp ef slitnar upp úr núverandi stjórnarsamstarfi.  


mbl.is Alltaf má fá annað föruneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Þessari spurningu um stjórnarsamstarf er auðsvarað. Svarið er það sama og þið notið alltaf þegar talið berst að atvinnu uppbyggingu: EITTHVAÐ ANNAÐ

Hreinn Sigurðsson, 28.11.2011 kl. 00:24

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bara ein staðreynd: Tvöfölduð álframleiðsla á Íslandi og öll orka landsins í hana gefur 2% af vinnuaflinu störf í álverunum og jafnvel þótt menn gæfu sér að með "afleiddum störfum" fjórfaldaðist þessi tala, er EITTHVAÐ ANNAÐ eftir sem áður 92% af vinnuaflinu.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2011 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband