Athyglisverð orð Aðalsteins Leifssonar.

Þau eru athyglisverð, þau orð Aðalsteins Leifssonar að loforð um ódýrt vinnuafl, lágt orkuverð og "sveigjanleika í umhverfismati" séu ekki rétta aðferðin til að laða erlenda fjárfestingu til Íslands. 

Þessi stefna var blygðunarlaust tekin upp með hinum fræga bæklingi sem Andri Snær Magnason svipti hulunni af og sendur var við upphaf samstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir 17 árum til helstu stóriðjufyrirtækja heims. 

Ég minnist þess að þegar bók Andra Snæs, Framtíðarlandi, kom út 2006, var þessi afhjúpun hans langstærsta fréttaefni bókarinnar. 

Hins vegar var lýsandi áhugaleysi og þöggun fjölmiðla varðandi þessar stórmerku upplýsingar bókarinnar. 

Með loforðunum um ódýrt vinnuafl, orkuverð og "sveigjanlegt umhverfismat" fóru stjórnvöld þess tíma án minnstu blygðunar út í það að keppa við fátækustu lönd heims í þessu efni og meira að segja standa við stóru orðin. 

Þarna var vörðuð sú leið ábyrgðarleysis sem smám saman leiddi af sér sívaxandi þenslu og ofvöxt einkavinavæðingarinnar í fjármálakerfinu sem leiddi til Hrunsins. 

17 árum síðar virðist eitthvað vera að rofa til í þessum efnum hjá mörgum en samt virðist þessi helstefna enn lifa furðu góðu lífi, því að flokkarnir tveir, sem hrintu þessu af stað 1995, njóta sívaxandi fylgis um þessar mundir og virðist þó grundvallarstefna þeirra varðandi hernaðinn gegn landinu og komandi kynslóðum ekkert hafa breyst. 

Að vísu er afar stór hluti þeirra, sem spurðir eru í skoðanakönnunum, óákveðinni í afstöðu sinni, svo að í raun njóta þessir tveir flokkar fylgis tryggs meirihluta, heldur getur margt gerst í því efni. 

Það er líka athyglisvert að þótt traust aðspurðra til stjórnarmeirihlutans á Alþingi sé lítið, er traustið á stjórnarandstöðunni næstum jafn lítið. 


mbl.is Umhverfið hér ófyrirsjáanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

en þú veist að ríkisstjórnin samþykkti í vor að gefa erlendum fjárfestum ca 15% afslátt af fjárfestingum hér á landi.  Er það ekki að selja landið ódýrt?

Lúðvík Júlíusson, 6.12.2011 kl. 13:55

2 Smámynd: Sævar Helgason

Ódýrt vinnuafl til stóriðjunnar ?

 Nú greiðir stóriðjan mjög góð laun á almennan mælikvarða. Hinsvegar er vinnuaflið miklu betur menntað en gerist í svona iðnaði erlendis-einkum tækni og háskólamenntun. T.d eru margir starfandi í þessum iðnaði hér sem hafa doktorsgráðu frá virtum erlendum háskólum.

 En oft myndast misvægi í launakostnaði fyrirtækjanna okkur í óhag vegna gengisbreytinga. Það skrifast mest á okkur sjálf við hagstjórn almennt.

 Þegar Ísalverksmiðjan í Straumsvík var sett á laggirnar voru sterkar kröfur frá okkur að vinnuaflsþörf yrði sem minnst - m.a vegna sjávarútvegs en þá voru sildveiðar fyrir Austurlandi í hámarki.

Þessvegna varð sú verksmiðja mjög tæknivædd á þeirra tíma mælikvarða.

Ekki voru nema um 100 verkfræðingar við störf á öllu landinu á þeim tíma.

 Aðalhvatinn fyrir samningum um álverið var gríðarleg þörf okkar sjálfra fyrir rafmagn. Það tókst að stórbæta það með Búrfellsvirkjun í samfloti við álverið í Straumsvík. Með starfseminni í Straumsvík varð mikill uppgangur í tækniþekkingu og nýtingu hennar um allt þjóðfélagið með árunum.

Einnig hefur umhverfisvernd verið mjög ofarlega hjá þessari fyrstu álverksmiðju okkar. Rekstur hennar er í fremstu röð í heiminum.

Við getum verið stolt af því.

 En það er raforkuverðið og arður okkar af þeirri auðlind sem fallvötn og jarðvarmi ætti að vera okkur til lífskjarabóta-þar skortir verulega á.

Bara svona að árétta þetta.

Sævar Helgason, 6.12.2011 kl. 14:05

3 identicon

Það á sama við um hinn íslenska NEYTANDA.

Umhverfið á Íslandi er ófyrsjáanlegt.  Það er engin leið að setja áætlanir til einhvers tíma. 

Skattar dagsins í dag eru allt aðrir á morgun, lífeyrinn sem þú reiknaðir með er allt annar á morgun, grunnlífeyrir er ekki lengur grunnlífeyrir heldur reiknast sem viðbótarlífeyrir og hverfur ef þú ert með einhverjar lífeyrisgreiðslur, lánin sem þú tókst eru með allt aðrar eftirstöðvar en þú gast nokkurn tíma látið þig dreyma um.

Það er engu að treysta hér, stjórnvöld og öðrum finnst sjálfsagt að breyta leikreglum eftir eigin höfði hvar og hvenær sem er.

Er það furða að fólk flýi skerið og leiti sér öruggara framtíðarheimilis ?

Neytandi væri löngu farinn ef hann væri ekki orðinn þetta gamall !

Neytandi (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 14:07

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég kannast vel við þau rök sem ollu því að ég var á sínum tíma samþykkur því að virkja Þjórsá við Búrfell og selja orku þaðan til álversins af því að á þann hátt fengum svið sjálf örugga orku á góðu verði til venjulegra nota.

Þetta er hins vegar löngu liðin tíð. Nú framleiðum við fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum til venjulegra innanlandsnota og stefnt er að því að við framleiðum minnst tíu sinnum meira en við þurfum sjálf. 

Ómar Ragnarsson, 6.12.2011 kl. 17:46

5 Smámynd: Sævar Helgason

Nú var ég aðeins að fara stutt yfir sögu varðandi þetta fyrsta álver hér á landi-og fram á þennan dag.

Virkjanir sem þetta álver nýtir eru allar á Þjórsársvæðinu-ofan byggða.

Nú síðast í röðinni er það Búðarhálsvirkjun sem á að afhenda orku til 40 þús/árstonna stækkunnar í Straumsvík.

 Ekki verður þess vart að ágreiningur sé um þá virkjun. Ég tel að sátt hafi ríkt um allar þessar framkvæmdir sem nú spanna 40 ára tímabil með stórfelldri rafvæðingu fyrir almenning .

En sú óða virkjanframkvæmd sem hófst eftir að þriðja kerskálanum var bætt við í Straumsvík á árunum 1994-97 - er hörmungarsaga - stórfellt umhverfisslys -bæði við Kárahnjúka og á Hellisheiði. Og nú fyrst eru þessi fyrirtæki  að viðurkenna æðubunuganginn -fyrirhyggjuleysið og tapaða fjármuni. Og sér ekki fyrir endan á því. Vonandi verður meira vit viðhaft í framtíðinni.

Sævar Helgason, 6.12.2011 kl. 19:31

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ágætt innlegg hjá þér, Sævar, en mig langar að spyrja þig varðandi

"...nú fyrst eru þessi fyrirtæki að viðurkenna æðubunuganginn -fyrirhyggjuleysið og tapaða fjármuni"

Hvernig rökstyður þú þetta varðandi Kárahnjúka, í ljósi þess að veruleg arðsemi er af þeirri framkvæmd, bæði af virkjuninni sjálfri en ekki síður í byggðalegu tilliti?

Afstaða Harðar Arnarssonar, forstj. LV. til arðseminnar er ekki fagleg, heldur af pólitískum toga. Það sést best að á því að hann velur að skoða arðsemi framkvæmdarinnar út frá rekstri hennar fyrstu fjögur árin, þegar fjármagnskostnaðurinn er lang mestur en ekki með því að skoða heildar arðsemina á líftíma virkjunarinnar. Þrátt fyrir að hann velji svona óhagstætt tímabil er arðsemin samt sem áður 3,5%, sem flest fyrirtæki væru afar sátt við fyrir tímabilið 2007-2011.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2011 kl. 21:33

7 Smámynd: Sævar Helgason

"Afstaða Harðar Arnarssonar, forstj. LV. til arðseminnar er ekki fagleg, heldur af pólitískum toga."

Núverandi forstjóri hefur allar forsendur til að setja mat á arðsemi Kárahnjúka -fram. Heiðar Már Guðjónsson ,fjárfestir sem seint verður talinn hallur undir núverandi stjórnvöld-telur arðsemi Kárahnjúka-enga.

Umhverfiseyðileggingin við gerða þessarar virkjunar-þar er ég sama sinnis og Ómar Ragnarsson hefur sett fram- um langt árabil.

 Varðandi jarðvarmavirkjanir hefur óðagotir og flumburgangurinn ekki haldist í hendur við mörk sem vinnsla á jarðvarma krefts. Þetta eru núverandi ábyrgðaraðilar þessara mála kynna fyrir okkur þessi misserin.

 Ég tek mark á þessum aðilum.

Sævar Helgason, 6.12.2011 kl. 21:54

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta svar, Sævar. Við verðum að vera sammála um að vera ósammála.

Um "umhverfiseyðilegginguna", þá er hún auðvitað hvorki rétt né röng, heldur verður hver og einn að leggja slíkt mat fyrir SIG. Matið endurspeglar þá smekk viðkomandi, en sýnir ekki staðreynd.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.12.2011 kl. 00:39

9 Smámynd: Snorri Hansson

Það var búið að klifa á þessum auglýsingatrikki í dagblöðum í áratugi. Svo að það er ekkert einkennilegt að fjölmiðlar yrðu ekki upprifnir útaf þessari „afhjúpun“ Andra Snæs.

Álverin hafa borgað sínu starfsfólki mjög þokkaleg laun og einnig öllum þeim verktakafyrirtækjum sem hafa hin margvíslegu verkefni hjá þeim.

Öryggismálin hafa verið í lagi og eru í sífelldri endurskoðun. Á sumum sviðum hafa þau verið til fyrirmyndar til dæmis gagnvart fólki sem hefur veikst og misst eitthvað af starfsfreki sínu.

Álverin á Íslandi hafa leist sín mengunarmál með sóma og eru og eru sífellt að bæta sig.

Það fyrsta sem ég heyrði um lög um verðlagningu á raforku til stóriðju var að það væri bannað að selja raforku með tapi og að orkuver skuli borga sig upp á 30 árum. Ég hef trú á því að eftir þessu hafi verið farið frá fyrstu tíð, án þess að geta fullyrt um það. Margir besser visserar hafa haldið öðru fram. Á nokkurra ára fresti er samið um orkuverð til álvera. Nú þegar orkuverð í heiminum er hækkandi og því er líklegt að innan skamms fari að vænkast hagur Landsvirkjunar. Ekki síst vegna þess að rekstur fyrirtækisins er í góðu lagi og skilar þegar nokkrum hagnaði. Það er líklegt að leiðsla til Evrópu muni bæta samningsstöðu orkufyrirtækisins.

Ég er mjög ánægður með stefnu forstjóra Landsvirkjunar. Megi honum ganga sem allra best.

Snorri Hansson, 7.12.2011 kl. 11:35

10 identicon

......alltaf mun finnast eitthvað ennþá minna.

......endimörk heimsins eru ekki til.

......ævinlega mun finnast eitthvað stærra.

......ofvaxið okkar skilningi.

......við vitum sífellt minna.

......óendanlegur sannleikur.

......hinn endanlegi sannleikur er ekki til, því að hann er óendanlegur og á sér engin takmörk.

 

Því miður, Ómar minn góður, en mjög svo fávís og barnaleg hugvekja.

Hér ertu kominn inn á svið sem er þér ofvaxið. Þig vantar menntun og þekkingu hvað þetta varðar. Brjóstvitið er gott veganesti, en í okkar vísindaheimi dugar það skammt.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 20:03

11 identicon

Biðst afsökunar, en þessi ummæli áttu ekki að vera hér. Sjá næsta pistil Ómars.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband