Frægð að endemum er vond frægð.

Líklega eru það þrjú atriði sem skapa Íslandi mesta frægð um þessar mundir: Gosið í Eyjafjallajökli, Hrunið og Björk.

Hrunið mun lengi loða við okkur, jafnvel þótt önnur hrun og stærri verði á efnahagssviðinu víða um heim. Ástæðan er sú að íslenska hrunið kom fyrst og er því nefnt svo oft þegar svona mál ber á góma. 

Ég man eftir skömmtunar- og haftatímabilinu í lok stríðsins sem hófst 1948 og stóð að mestu til 1960.

Þá var uppi hávær krafa um að kaupmáttur launa yrði sá samai og hann hafði verið í lok stríðsgróðaáranna 1947 þótt allir gætu séð að það gróðæri hafði verið dæmalaust og gæti ekki komið aftur.

Ríkisstjórninni 1947-49 var bölvað í sand og ösku og henni fundið allt til foráttu og krafist betri kjara, að allt yrði eins og það var 1947. 

Stjórnarskipti 1950 breyttu engu um það, því að engin stjórn gat endurheimt stríðsgróðaástandið.

Margt frá þessum tíma minnir mig á ástandið nú. Nú er allt miðað við árið 2007, tekjur, mannfjöldi, atvinna og hvað eina.

Það er talið hið versta mál að kaupmáttur skuli vera svipaður og hann var við upphaf gróðærisbólunnar 2002, en mig minnir raunar að það hafi ekki ríkt neitt sérstakt hallæri í landinu það ár.

Að vísu verður að taka það stóra dæmi með í reikninginn að skuldir heimila og fyrirtækja hafa margfaldast og eru að sliga þjóðfélagið. En skuldirnar duttu ekki af himnum ofan yfir okkur. Við tókum lánin sjálf og máttum þó vita að kolskakkt gengi og uppskrúfað verð hlutabréfa gæti ekki enst til langframa.

Nú eru niðurstöður skoðanakannana túlkaðar þannig að þjóðin heimti aftur til valda þá sem stóðu mest að uppbyggingu gróðærisbólu stjórnlausrar útþenslu stóriðju- og fjármálakerfisbólunnar.

"Gef oss 1947 aftur!" gæti hafa verið ákallið sem hljómaði fyrir rúmum 60 árum.

Í dag gæti ákallið verið: "Gef oss 2007 aftur!" "Gef oss aftur það gríðarlega traust sem umheimurinn hafði á okkur 2007!"

En þegar rýnt er í tölurnar í skoðanakönnunum sést að allt niður í helmingur aðspurðra gefur ekki svar og að stjórnarandstaðan nýtur næstum jafn lítils trausts og stjórnarmeirihlutinn.

Við þessar aðstæður og á meðan Hrunið er einn af þremur helstu hornsteinum þess sem útlendingar vita um okkur, þar engan að undra að Ísland skorti traust, sama hvað hver hrópar og krefst. 

Það var botnlaust óraunsæi og ábyrgðarleysi sem skóp Gróðabóluna og Hrunið. Það er sams konar óraunsæi og ábyrgðarleysi sem virðist enn lifa svo góðu lífi hjá okkur, meðal annars með því að trúa á sömu stóriðju- og virkjanaæðisgræðgina og trúa á það að Ísland geti bara rétt si svona öðlast forna frægð trausts á íslensku efnahagslífi. 

Stundum er sagt að slæm auglýsing sé betri en engin auglýsing. Ég leyfi mér að efast um það. Frægð að endemum er vond frægð. 

 

 


mbl.is Ísland skortir traust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð og þörf áminning, Ómar. Við þurfum líka að horfast í augu við að svokallaðar vestrænar þjóðir, og þá ekki síður við en aðrar í þeim hópi, hafa gengið á auðlindir jarðar með mikilli ósvífni. Lífskjör jarðarbúa þarf að jafna, um það er ekki hægt að deila. Eins og málin standa verður að jafna þau ofan frá og niður, hin leiðin er ófær.

Ellilífeyrisþegi (IP-tala skráð) 15.12.2011 kl. 13:37

2 identicon

Við hefðum átt að láta Hrunflokkana, Sjallabjálfana + hækjuna moka skítinn eftir útrásarvíkinga, útrásarbanka og handónýta stjórnsýslu.

Flokkar hefðu líklega nær þurrkast út.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.12.2011 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband