Var fólkinu ekki sjálfrátt?

Á sínum tíma sótti ég ásamt þúsundum annarra mótmælafundi Búsáhaldabyltingarinnar á Austurvelli.

Það sem mér fannst merkilegast var að hitta þarna tugi og jafnvel hundruð fólks sem ég þekkti alls staðar að úr þjóðfélaginu en hafði aldrei áður séð á stjórnmálalegum fundum, hvorki á borgarafundunm né mótmælafundum utan dyra.

Ég dró af þessu þá ályktun að þetta væru sjálfsprottnar aðgerðir yfirgnæfandi fólksins, sem þarna var.

Aldrei tók ég við fyrirmælum um það að koma á þessa fundi, hvað þá fyrirmælum um það á hvaða stöðum væri hægt að fara að Alþingishúsinu.  Ég og aðrir fórum þangað einfaldlega sjálf að eigin frumkvæði.

Nú virðist í gangi að umskrifa söguna af þessum atburðum og láta í veðri vaka að þingmenn innan dyra hafi stjórnað þessu og staðið fyrir því.

Ég hygg að ég mæli fyrir munn þúsunda þegar ég segi að með slíku er verið að kasta rýrð á sjálfstæða hugsun þeirra þúsunda sem mótmæltu þarna.

Þarna var innan um örlítill meirihluti ólátaseggja og grjóharðra öfgamanna sem komu óorði á alla hina með ofstopa sínum, enda fór svo að lokum að mótmælendur sjálfir slógu skjaldborg um lögregluna til að verja hana fyrir þessum óaldarlýð.

Það sýnir vel að mótmælendur voru sér vel meðvitaðir um það sem þeir voru að gera, og enginn talar um það að einhverjir þingmenn hafi stjórnað því.

Hygg ég að slíkt sé einsdæmi í mótmælaaðgerðum sem þessum og illa launuð þessi liðveisla sem lögreglan fékk, ef nú á að fara umskrifa þessa atburði.

Var mér og öðrum ekki sjálrátt að taka þátt í þessum mótmælum?  Hvað mig snertir sé ég ekki eftir neinu sem ég aðhafðist þarna þegar ég lít til baka og hugleiði þetta í ró og næði.

 

 


mbl.is Höfðu áhrif á mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar tekurðu ekki með í reikningin þá sem stýrðu fréttaflutningi þannig að ýtti undir mótmæli og þá sem skipulögðu og FJÁRMÖGNUÐU en lítið hefur heyrst í þeim eftir að leppstjórn Evrópusambndsins komst til valda þrátt fyrir að hún hafi reynt að gera þjóðina gjaldþrota með icesave samningum ásamt því að sækja um inngöngu í Evrópusambandið og velta óreiðu Efnahagsböðla þess yfir á almenning og að auki afhenda erlendum kröfuhöfum ólöglega stökkbreyttar skuldir almennings!

Örn Ægir (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 18:36

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Ekki byrjar kosningbarátta Geirs gæfulega.

hilmar jónsson, 26.2.2012 kl. 18:45

3 identicon

Þeir færa sig alltaf meir og meir upp á skaftið, Sjallabjálfarnir. Hrokinn og frekjan á víxl. Kannski er það frústrasjónin yfir því að sá fyrsti úr náhirðinn er á leiðinni í Litla-Hraun. Geir Haarde lendir þar líklega einnig, jafnvel í sama herbergi og Baldur. Kannski sofa þeir í sama rúmi, til fóta, eins og í gamla daga. En þar er víst mikið plássleysi. Bankabófunum verður fljótlega lesin kæran, en þeir voru undanteknarlaust flokksbundir Sjallar, margir með Valhallar diplom í vasanum. Sú var tíðin að mörgum þótti flott að vera Sjalli hér á skerinu, þeir voru stórastir, voldugastir. Margir gengu einnig með þá grillu í kollinum að þeir væru flokkkur allra landsmanna. Eins átti Mogginn að vera blað allra landsmanna. Blekking. Nú les enginn það blaða nema vegna minningargreina og FLokkurinn mun við næstu kosningar fá í mesta lagi 15%. Já, tímarnir breytast og mennirnir með.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 19:33

4 Smámynd: Sævar Helgason

Algjörlega sammála þér Ómar. Og oft stóð ég ekki fjarri þér þessar vikurnar á Austurvelli. Og á sjálfan Búsáhaldabyltingardaginn þann 20. jánúar-var það einn atburður sem hleypti öllu af stað svo ekki varð aftur snúið. Þessi örlagaatburður var :  1. mál á dagskrá Alþingis að loknu > mánaðarlöngu jólaleyfi - var tillaga Sigurðar Kára Kristjánssonar frá Sjálfstæðisflokki um að heimilt yrði á selja áfengi í matvöruverslunum.... Alþingi taldi að þetta væri brýnasta mál þjóðarinnar í upphafi algjörs efnahags og siðferðishruns þjóðarinnar. Þegar þetta spurðist út til okkar mótmælenda á Austurvelli- varð sprenging- og  krafan um tafarlausa afsögn ríkisstjórninar með sitt duglausa Seðlabanka og fjármálaeftirlitslið- fékk þúsundafallt vægi. Fólkið umkringdi Alþingishúsið-og barði glugga hvar sem þá var að finna...hver elti annan. Ég minnist þess að ég lenti óvart í þvögunni ekki langt frá þé,Ómar og oft kemur upp í hugan hvað samviskulega þú blést í flautuna þína á svona hálfrar mínutu fresti- milli þess sem  annað aktívitet hafði forgang.... Ógleymanleg stund í lífi þjóðar.

Sævar Helgason, 26.2.2012 kl. 19:37

5 identicon

Ég held að Geirjón hafi verið lykilmaður í að ekki fór allt í hnút á sínum tíma. Tók vel á hlutunum og mælti af stillingu.  En nú setti hann ofan blessaður.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 19:40

6 identicon

Brand new pólitíkus sem ætlar að gjörbylta Sjálfstæðisflokknum, ha ha ha!

Kannski er hann að vinna fyrir vinstri flokkana því þessi fyrsta herferð hans kemur ekkert nema niður á sjálfstæðismönnum.

Jonsi (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 20:13

7 Smámynd: Marteinn Sigurþór Arilíusson

Ómar þú segir,var fólkinu ekki sjálfrátt?Ég spyr á móti hvenær hefur vinstra liðinu verið sjálfrátt ?

Marteinn Sigurþór Arilíusson, 26.2.2012 kl. 21:00

8 identicon

Manneskjan er hópdýr og oft hægt að stjórna fólki án þess að það hafi hugmynd um það sjálft.

Hefði síðuritari farið einn niður á Austurvöll og staðið þar með mótmælaspjald?

Einhver passaði að það væri alltaf nægilegur skriðþungi á þessu til að það lognaðist ekki útaf, alltaf einhver kjarni sem mætti og nægilega fjölmennur til að meðalmanninum þætti hann ekki skera sig út úr.

Kannski er ekki rétt að tala um að stjórnmálafl hafi stjórnað mótmælunum, frekar virkjað þau.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 21:13

9 identicon

við fengum skipun beina leið á sms .....

erling ólafsson (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 21:20

10 Smámynd: hilmar  jónsson

VG fengu dáleiðara frá Kasikstan til þess að æsa upp fólkið. Hann gekk síðskeggjaður á meðal fólks, leit örsnöggt í augu þess og...vollla.. Þá er það komið fram.

hilmar jónsson, 26.2.2012 kl. 21:24

11 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það gæti verið fróðlegt að skoða tímasetninguna hjá Geir Jóni. Er eitthvað sem gæti tengt útspil hans við Landsdómsmálið gegn nafna hans? Er verið að ógna þingmönnum VG - nú sé enginn óhultur. Verði Geir Haarde sóttur til saka þá muni rannsókn hafin á atferli þingmanna - var ekki talað um refsingar vegna uppreisnar gegn valdstjórninni eða eitthvað í þeim dúr? Geir Jón segir: „Ég fékk það síðan staðfest að það hefðu þingmenn inni í þinghúsinu þegar mótmæli stóðu fyrir utan húsið og verið í samskiptum við lykilfólk sem tók þátt í mótmælunum.“

Hann hefur skýrslur frá lögreglumönnum „staðfestar“ , það ætti að duga til að gera þingmönnum lífið leitt þótt það endi kanski ekki með sakfellingu.

Hjálmtýr V Heiðdal, 26.2.2012 kl. 21:47

12 identicon

Það getur enginn tjáð sig um það hvernig lögreglumenn upplifðu þessa janúardaga 2009 nema lögreglumenn sjálfir. Landssamband lögreglumanna hefur ályktað vegna þessara alþingismanna og formaður þess tjáð sig í fjölmiðlum á sama hátt. Það var gert vegna þess að fjölmargir lögreglumenn sem stóðu vaktina við Alþingishúsið upplifðu það að sótt væri aðþeim innan frá og utan.

Þetta er upplifun lögreglumanna og þeir vita líka nákvæmlega að margir hópar fólks voru staddir á Austurvelli. Geirjón talar um ákveðinn hóp fólks væntanlega.

Það er enginn að endurskrifa söguna eða afbaka atburðina. Svona var upplifun margra tuga lögreglumanna og því fær enginn breytt.

Runólfur Þórhallsson (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 22:09

13 identicon

Samkvæmt Geir Jóni er hann að rannskamálið á vegum lögreglustjóra. Er það ekki brot á  trúnaði að birta málsgögn í miðjum klíðum, sér til fradráttar í kosningabaráttu til varaformans Sjálfstæðisflokkisns.????????????

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 22:16

14 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Málshefjandi oftúlkar orð lögreglumannsins og leggur þau þannig út að hann sé að halda því fram að öllum mótmælaaðgerðum hafi verið stjórnað innan úr Alþingishúsinu.

Ég held, eins og Runólfur hér fyrir ofan, að verið sé að rifja upp tiltekna atburði sem voru til umræðu fyrir þremur árum og snerust um að tiltekinn, nafngreindur þingmaður hafi verið staðinn að því að hringja í einstaklinga í hópi mótmælenda og leiðbeina þeim.

Skyldi sá hinn sami þingmaður ekki fagna því að rannsókn færi fram svo hægt væri að sanna sakleysi :-)

Flosi Kristjánsson, 26.2.2012 kl. 22:21

15 identicon

Mér finnst þetta nokkuð málefnaleg umræða þangað til að kemur að þessum Hilmari Jónssyni.

axel (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 23:12

16 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar, ég var á  mótmælafundum á Austurvelli á sínum tíma. Það voru deildar meiningar meðal þeirra sem vildu friðsöm mótmæli, og þeirra sem studdu ofbeldi lítils hóps. Hóps sem duldu andlit sín, og beittu ofbeldi.

Flestum var sjálfrátt, en það að friðsamir borgarar komu í veg fyrir frekari óhæfuvek ofbeldishópsins, kemur ekki í veg fyrir að ofbeldi sé rannsakað. Ef nauðgun hefði átt sér stað, ætti ekki að rannsaka hana?

Það sem er alvarlegast hefur fyrir löngu komið fram áður. Alfhildur Ingadóttir var af einhverjum ástæðum sökuð um að beita sér inn á Alþingi, til þess að hafa áhrif á hluta mótmælenda. Nú þegar nýjar upplýsingar eru komnar fram á skilyrðislaust að rannsaka málið. 

Sigurður Þorsteinsson, 26.2.2012 kl. 23:59

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aldrei mun neinn taka það af Geir Jóni hvílíka stillingu og lagni hann og hans menn sýndu þessa erfiðu daga. Ég tek ofan fyrir honum nú og ævinlega fyrir það.

En á stundum var það sérsveit eða óeirðaveit lögreglunnar sem fór á límingunum og verður Geir Jóni ekki kennt um það.

Um "upplifun" lögreglumannanna vil ég segja þetta: Hópur sérsveitarmanna lokaðist inni í sundi á bak við húsið og sneri baki í glervegginn. Þetta er ávallt hættuleg staða, því að innikróunartilfinning myndast við þessar aðstæður.

Eftir að foringi sérsveitarinnar hafði nokkrum sinnum beðið fólkið, sem þrýsti sér að lögreglumönnunum, að létta þessum þrýstingi af og færa sig aftar gerði fólkið það.

Ég var þarna framarlega í hópnum og fylgdist vel með og tók myndir. Ég hélt satt að segja að ró hefði myndast en þá tók foringinn allt í einu upp á því að stökkva fram með sínum mönnum æpandi hið fræga heróp "gas!" Gas!"

Friðurinn var rofinn því mótmælendahópurinn í sundinu hafði róast niður og ákveðið jafnvægi hafði komst á.

Allt fór á tjá og tundur og mótmælendahópnum var þröngvað út úr sundinu með aðgerðum sem voru miklu harðari en þörf hefði verið á.

Úðað var framan í ljósmyndara sem aðeins voru þarna til að taka taka heimildamyndir.

Ég get skilið að sérsveitarhópurinn hafi til að byrja með fyllst innilokunarkennd og upplifað hópinn sem þrýstist að þeim sem einhvers konar her undir herstjórn.

Því fór hins vegar greinilega víðs fjarri í raun. Nema að þeir hafi upplifað það sem utankomandi stjórnun þegar þeir fremstu í hópnum og flestir í sundinu, þeirra á meðal ég, tóku það upp hjá sér að hörfa aftur til að létta á þrýstingnum.

Þetta voru sjálfsprottin viðbrögð mín og annarra sem voru í kringum mig, þótt sérsveitarmennirnir hafi upplifað það öðruvísi.

Ómar Ragnarsson, 27.2.2012 kl. 01:03

18 identicon

'Landssamband lögreglumanna hefur ályktað vegna þessara alþingismanna og formaður þess tjáð sig í fjölmiðlum á sama hátt.' Runólfur

Snorri M formaður er aumur lygari. Hann hefur lítið annað gert en að flytja áróður fyrir Taser-Umboðið. Ef þú hefur áhuga þá skal ég benda þér á dæmi um það hversu siðblindur maðurinn er í skrifum sínum fyrir umboðið. 

magus (IP-tala skráð) 27.2.2012 kl. 02:52

19 identicon

Kæri Ómar

Allir lögreglumenn sem voru á vakt lutu yfirstjórn yfirmanna lögreglunnar í Reykjavík. Enginn almennur lögrelgumaður né sérsveitarmaður á Austurvelli tók ákvarðanir um táragasnotkun. Yfirstjórnin var staðsett annars staðar og tók ákvörðunina. Þegar þú vísar í atburði um miðja nótt virðist þú gleyma löngum aðdraganda að notkun táragassins og það sem lögreglumenn höfðu mátt þola. Þarna var einfaldlega komið nóg og atburðir tveggja daga sem lágu að baki ákvörðun um táragasnotkun.

Atburðir þeir sem Geir jón vísar í áttu sér ekki stað þarna um nóttina sem þú talar um. Það veistu vel og ert að draga athyglina frá því Ómar.

Runólfur Þórhallsson (IP-tala skráð) 27.2.2012 kl. 08:39

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Geir Jón talar aldrei um að mótmælendum hafi verið stjórnað, heldur einungis að þeim ofbeldisfyllstu hafi verið leiðbeint hvar best væri að bera sig að. Að sjálfsögðu á að rannsaka það mál. Álfheiður Ingadóttir er nefnd í þessu sambandi.

Þess má geta að þegar ofbeldisskríll réðist á lögreglustöðina og krafðist þess að þekktur mótmælandi sem þar var í haldi yrði látinn laus, þá kom eiginmaður Álfheiðar og borgaði sekt mótmælans og var hann látinn laus í kjölfarið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.2.2012 kl. 10:47

21 identicon

Það er í raun magnað að lesa eftir þig bullið Ómar. "Friðurinn var rofinn..." Löggan rauf friðinn sem sagt, það er þín útskýring á atburðum þarna. Það dæmir þig úr leik í skynsamlegri umræðu, því miður. "Meira að segja var úðað framan í ljósmyndara" Það ættir þú að vita manna best að ljósmyndarar fórna öryggi sínu fyrir góðar myndir.

Boltinn er hjá Álfheiði og Steingrími. Um er að ræða þann tíma sem þau voru stödd í þinghúsinu þessa daga og þau geta upplýst málið með því að leggja fram símaútskriftir sínar og kveða þessar sögusagnir í kútinn í eitt skipti fyrir öll. Alþingismenn sögðu lögreglumönnum að þeir hefðu heyrt þingmenn ræða við mótmælendur og upplýsa um hvar lögreglan væri staðsett og hvar best væri að vera í kringum Alþingi. Þetta á náttúrulega við lítinn hóp fólks en lítill hópur í mótmælum getur dregið með sér fullt af öðru fólki þó að því sé sjálfrátt. Enginn efast um að Ómari hafi verið sjálfrátt og langflestum öðrum sem voru á Austurvelli. En staðreyndin er sú að ákveðinn hópur fólks var mikið á ferðinni og til að missa ekki af neinu þá elti fullt af fólki þann hóp. Hópur fólks með fulla meðvitund og fullkomlega sjálfrátt.

Runólfur Þórhallsson (IP-tala skráð) 27.2.2012 kl. 11:44

22 Smámynd: hilmar  jónsson

Runólfur,mig grunar að tilfinnigar sem þú hefur ekki náð að vinna úr, séu nú að hlaupa með þig í gönur.

hilmar jónsson, 27.2.2012 kl. 12:16

23 Smámynd: hilmar  jónsson

Tilfinningar,,,átti það að vera.

hilmar jónsson, 27.2.2012 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband