Hefur blasað við lengi en þaggað niður.

Hinn jákvæði og skæri ljómi sem á Íslandi er yfir fyrirbærinu "orkufrekur iðnaður" segir mikið um hugsunarhátt okkar Íslendinga. Það þýðir einfaldlega að magn neyslunnar,.eyðslunnar og bruðlsins er aðalatriðið í okkar huga.

Það hefur blasað við lengi sem nú er niðurstaða í rannsókn, að í stað þess að við Íslendingar getum staðið við það grobb okkar að við séum nánast af hugsjónaástæðum einum í fararbroddi í heiminum varðandi nýtingu sjálfbæra þróun og nýtingu endurnýjanlegra og hreinna orkugjafa, að ekki sé nú talað um hve nýtnir við séum, þá erum við neyslufrekasta þjóð heims og bruðlum með orku og mengum eins og mest við getum.

Ástæðan fyrir vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum á Íslandi var og er eingöngu af skammtímagróðasjónarmiðum og engu öðru. 

Þar að auki nýtum við aðeins 12% af orkunni, sem er aflað er á jarðvarmavirkjunarsvæðunum, en 88% fara ónýtt út í loftið og í ofanálag við viljum endilega selja orkuna á slikk til mestu orkubruðlara sem fyrirfinnast.

Til að kóróna hræsnina er það ekki til umræðu að pumpa orkunni hóflega upp í þessum virkjunum, heldur ætlum að klára hana á nokkrum áratugum í stað þess að fara að með varfærni og leita jafnvægis.

Við eigum mest mengandi bílaflota í Evópu. Þannig er hægt að halda áfram með dæmi af þessu tagi.

Við komum okkur upp í eitt af efstu sætum í mati á ástandi umhverfismála hjá þjóðum heims fyrir tíu árum með því að setja í dálkinn "ástand jarðvegs og gróðurs" stafina NA, þ. e. upplýsingar ekki fyrir hendi.

Vorum þar á bekk með nokkrum Austur-Evrópuþjóðum, sem voru með þau mál í ólestri.

Samt hafði Ólafur Arnalds fengið umhverfisverðlaun Norðurlandsráðs fyrir tímamóta- og brautryðjendarannsóknir sínar á ástandi jarðvegs og gróðurs á Íslandi.  


mbl.is Íslendingar neyslufrekasta þjóðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar við verðum komin í Evrópusambandið, sem sumir telja að verði í síðasta lagi í ársbyrjun 2018, þá verður íslenska ríkið sem og sveitarfélög að selja öll orkuvinnslu- og orkudreifingarfyrirtæki. Áður en sú stund rennur upp, þarf því að vera búið að ganga þannig frá lagaumhverfinu að ríki og/eða sveitarfélög fái tekjur af allri nýtingu náttúrunnar. Auðvitað mun það þýða gríðarmiklar hækkanir á orku til neytenda, það er ekki spurningin. En almenningur á Íslandi bruðlar líka með orku. Tökum sem dæmi hvað við höfum stutt milli götuljósa.Tökum sem dæmi hvernig við ofnotum hitaveitur. Tökum sem dæmi hvað hús eru almennt illa einangruð hér norður við heimskaut. Það er ekki eitt, það er nánast allt sem við þurfum að læra af norðmönnum.

Quinteiras (IP-tala skráð) 14.3.2012 kl. 09:13

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Þeir sem sjá öllu til foráttu í íslenskum orkumálum og orkunotkun færi betur að skoða þetta í víðara samhengi. Eins og Al Gore sagði: "ég hef ekkert að kenna ykkur í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa".

Umhverfisráðherra er orkufrekur: Svandís kemur í veg fyrir að við getum nýtt okkur hrattbráðnandi jökla. Talandi um bruðl!

Þótt þessar fáu hræður hér uppi á skeri leyfi sér að lifa eins og þeim sýnist og nýta eitthvað af orkunni, þá þurfum við ekki að skammast okkar gagnvart hinum 7 milljörðunum manna á jörðinni.

Ívar Pálsson, 14.3.2012 kl. 10:36

3 identicon

Forkólfur Norðurþings sagði nýlega að útgerð, landbúnaður, orkufrekur iðnaður og ferðaþjónusta væru þær undirstöðugreinar sem ættu að bera upp atvinnu þar í sveit.

Orkufrekur iðnaður er enginn og hefur aldrei verið í Norðurþingi og hvorki sveitarsjóður, einstaklingar eða fyrirtæki þar í sveit hyggja á slíka starfsemi. Framlag heimamanna gengur alfarið út á að fá e-h ótilgreint alþjóðlegt fyrirtæki til að byggja fabrikku, fá fyrirtæki í Grafarvogi til að flytja þangað orku og fyrirtæki við Háleitisbraut til að framleiða orkuna. Framlag heimamanna hefur falist í að gambla sveitarsjóði í boranir á Þeystareykjum. Þetta hefur kostað sveitarsjóð bæjarrafveituna og bæjar orkuverið.

Vænn hluti Húsvískrar útgerðar og fiskvinnslu er í höndum Suðurnesjamanna (ásamt dagvöruversluninni) og sveitarstjórnin er komin á flug við að hygla hinum Kínverska Nubo en vanrækir á sama tíma grasrót Þingeyskrar ferðaþjónustu.

Þessi orkufrekja er hluti af mun stæri klikkun og vanhæfni í stjórnsýslunni. Sveitarstjórnir og ríki eiga að skapa almenn skylirði til bætts mannlífs og atvinnustarfsemi en ekki að vasast endalaust í einstökum "hókus pókus" verkefnum sem byrja gjarnan á "Stór" og enda oftast á "Frekur".

Vert er að minna á að 90% vinnandi Íslendinga vinnur hjá fyrirtækjum með minna en 10 starfsmenn og því skipti mestu að sinna þeim þætti atvinnulífsins.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 14.3.2012 kl. 10:46

4 identicon

Svo að maður leyfi sér að minna á efni fréttarinnar í krækjunni, þá hef ég sitt hvað við það að athuga, og væri fróðlegt að sjá hvernig þetta er sett saman.

Mæli svo með að gúgla "online ecological footprint calculator" og taka nokkur próf, - ég er búinn með 5.

Það sést strax að parameterarnir eru margir þannig að óhentugir eru til að mæla okkur, t.d. allt þetta með "water savings" og slíkt. Og þótt ég telji mig lifa spart og nokk sjálfbært fæ ég niðurstöður allt frá 0.6 jörðum upp í 2.48 ef allir lifðu eins og ég.

Ef einhver finnur alvöru próf, endilega láta vita, - og ég mæli með þessu, - þetta er skemmtilegt ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.3.2012 kl. 11:19

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Al Gore hafði ekkert við meðferð okkar á jarðvarmanum að athuga af því að síbyljunni um sjálfbæra þróun og hreina og endurnýjanlega orku var haldið stíft að honum og annað fékk ekki að komast að, - hann fékk ekki að vita neitt annað.

Ég reyndi að ná tali af honum en kyrfilega var komið í veg fyrir það.

Ómar Ragnarsson, 14.3.2012 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband