Lífið er lífshættulegt.

Lífið er lífshættulegt. Það kemst enginn í gegnum það án þess að drepast.

Íþróttir eru hættulegar. Einn Íslendingur hefur látið lífið í knattspyrnuleik. Óteljandi hafa hlotið minni og meiri meiðsli í þeirri íþrótt og mörgum öðrum. Margir hafa í gegnum aldirnar látið lífið eða örkumlast við það að detta af hestbaki.

Á sjötta áratugnum stóð yfir fjársöfnun handa lamaða íþróttamanninum, sem kom illa niður eftir stangarstökk.

Samkvæmt útreiknuðu áhættumati er viðbúið að einn Íslendingur deyi í rallakstri á hverri öld.

Reyndar hefur einn Íslendingur látist í rallakstri, en það var erlendis.

Það er lífshættulegt að lifa, því að jarðlíf okkar getur ekki endað nema með jarðneskum dauða. Spurningin er ekki um hvort, heldur hvenær.

Þar með snýst þetta um það að dauðanum sé frestað eins lengi og unnt er því að okkur er gefið lífið til að berjast fyrir því og fyrir og sem mestri velferð allra, - ekki bara núlifandi fólks, heldur afkomenda okkar um alla framtíð.

Aldrei verður hægt að finna upp svo fullkominn öryggisbúnað að hann geti alltaf bjargað öllum alltaf.

Meira að segja getur hann virkað öfugt við fyrstu sýn og er slysið í Laxá á Ásum gott dæmi um það. 

Þar gat ökumaður bíls sem steyptist á hvolf i á ekki losað beltið.

Ég þekki slíkar aðstæður af eigin raun, en í mínu tilfelli bjargaði það lífi mínu að vera í öryggisbelti sem kom í veg fyrir að ég færi allur á kaf í ísköldu vatninu og króknaði úr kulda, því að það tók drjúga stund að komast út úr bílnum.

Aðeins efri hluti höfuðs míns lenti í vatninu af því ég hékk í beltinu, og ég gat losað beltið af því að ég hef það sem reglu að æfa slíkt fyrirfram þegar ég læsi því og setja á minnið handtökin við að losa það.

Í tilfellinu í Laxá á Ásum getur verið fljótræði fólgið í því að álykta sem svo að betra hefði verið fyrir ökumanninn að vera óbundinn.

Hefði hann verið það er líklegt að hann hefði fengið mikið högg á höfuðið þegar bíllinn skall á hvolf ofan í ána og óvíst að hann hefði haldið meðvitund, hvað þá getað bjargað sér lemstraður.

Í Hollandi verða fleiri bílslys en í flestum öðrum löndum á þann hátt að bílar lendi í vatni.

Þó er ekki gefin nein undantekning í því landi frá bilbeltaskyldu.

Talið er skárra að vera bundinn þegar bílar steypast í vatn en að vera óbundinn vegna þess að hinn bundni fær á sig minna högg en hinn óbundni og er því betur á sig kominn við að bjarga sér en hinn óbundni.

Lífið er banvænt, en það er of dýrmæt gjöf til þess að gera það hættulegra en það þarf að vera.


mbl.is Lést eftir að hafa fengið bolta í sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Eitt er víst: maður kemst aldrei frá því lifandi!

Flosi Kristjánsson, 14.3.2012 kl. 22:03

2 identicon

"Das Leben ist lebensgefährlich und endet meistens tödlich."

Georg Kreisler, kabarettist.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.3.2012 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband