Verður fróðlegt þegar þetta gerist við Mývatn.

Hellisheiðarvirkjun er 3-5 sinnum stærri en hún þyrfti að vera. Ef farið hefði verið að af öryggi og með gát sem helstu sérfræðingar okkar hafa mælt með, allt frá Guðmundi Pálmasyni fyrir 40 árum, hefði mátt gera þar tilraun með að svona virkjun stæðist kröfur um sjálfbæra þróun, sem við höfum undirgengist í Ríósáttmálanum að leita eftir.

En það var ekki gert og verður greinilega ekki gert, stundargræðgin ræður för.

 Með því að virkja þarna risastórt upp á þau býti að klára alla orkuna þarna á nokkrum áratugum er verið að stilla barnabörnum okkar upp frammi fyrir því að reyna að ná annars staðar í orku til húshitunar og til að fullnægja þeim raforkusölusamningum sem við í græðgi okkar stefnum að að gera á næstu árum.

Þetta liggur fyrir þótt logið sé upp í forsætisráðherra Kína og alla aðra að þarna sé hrein og endurnýjanleg orka. Verst að hann skyldi vera ekki vera þarna núna til að spyrja nokkurra spurninga.

Það er talað um að kínversk stjórnvöld feli sannleikann og varni því að hann komist á kreik. Hvað um íslensk stjórrnvöld?

Þarna ríða nú yfir skjálftar vegna niðurdælingar sem verið er að gera í tilraunaskyni án þess að séð sé fyrir endann á því hvernig það fer.

En hún misheppnast er óvíst nema að affallsvatnið muni á endanum skila sér niður í vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Virkja á í Eldvörpum og þrítugfalda Bjarnaflagsvirkjun upp í 90 megavött á þeim forsendum að niðurdæling heppnist.

Bjarnarflagsvirkjunin á að verða í aðeins 4 kílómetra fjarlægð frá hótelunum við Mývatn og nú þegar hefur affallsvatn frá aðeins 3ja megavatta virkjun skilað sér út í Grjótagjá og mengað vatnið þar.

Á meðfylgjandi mynd hér fyrir neðan sést hvað þegar er komið í gang. Virkjunin sést efst til hægri, síðan koma Jarðböðin neðar en frá þeim rennur síðan affallsvatn í átt til Mývatns.

Á myndinni sést aðeins það sem er á yfirborðinu, en vatnið er komið miklu lengra neðanjarðar útfyrir það sem sést á myndinni, annars væri vatnið í Grjótagjá ennþá tært.

Hvergerðingar kvarta yfir ónæði vegna skjálfta sem eru í 15 kílómetra fjarlægð frá þeim. Hvernig verður þetta við Mývatn?

Frá Bjarnaflagi hallar landi til Mývatns og allir tala um það sem sjálfsagðan hlut að reisa þarna 90 megavatta virkjun og helst að gera orkusölusamninga fyrirfram og fara út í glæfralegt áhættuspil varðandi það  einstaka lífríki og náttúru sem Mývatn og Laxá búa yfir.

Enginn veit út í hvað er að fara þarna eða við Svartsengi og Eldvörp því að okkar mottó er: Skjóta fyrst og spyrja svo. IMG_0913


mbl.is Jörð skelfur við Hellisheiðarvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna á að virkja skv aðferdinni "skjóttu fyrst, -spurðu svo".

Eðlileg aðferðafræði væri sú að fyrst eru boraðar niðurdælingarholur og gerðar fullnægan prófanir til að tryggja að dæiling heppnist. Ekki ætti að leyfa byggingu virkjunar nema LV geti sýnt fram á fullnægjandi hreinsun brennisteinsgasa úr útblæstri.

Einnig ætti að virkja í þrepum (ein vél í einu)og ekki veita leyfi fyrir stækkun nema sýnt þyki að varmanámið sé sjálfbært.

Bjarnarflagsvirkjun er í þéttbýli og í nágrenni helstu náttúruperlu Íslands og því þarf mun vandaðri undirbúning en annarsstaðar.

sigurður sunnanvindur (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 13:21

2 identicon

Bendi mönnum á að OR hefur verið að færa starfsmannahús Nesjavalla og Hellisheiðarvirkjana lengra frá virkjununum til að tryggja vélstjórunum heilsusamlegra andrúmsloft. Stjórnstöðvar gufuvirkjana eru í sérstöku lofthreinsuðu og yfirþrýstu rými sem búið er að hreinsa brennisteinsvetni úr loftinu þar sem það tærir kopar í rafbúnaði og tölvum á undraskömmum tíma.

sigurður sunnanvindur (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 13:27

3 identicon

Landsvirkjun er með framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni. Umhverfismat er frá árinu 2003. Er ekki ástæða að endurskoða það í ljósi reynslu frá Hellisheiðarvirkjun og Svartsengi? Og horfa þá til áhrifa frá brennisteinsvetni og aðferða við að koma frá affallsvatni virkjananna.

Affallið mun enda í Mývatni. Umdeild áhrif Kísiliðjunnar gætu reynst hreinustu smámunir hjá áhrifum virkjunar.

Ábyrgð Landsvirkjunar er mikil.

Mývatn er nefnilega dálítið merkilegt fyrirbæri, og á skilið að farið sé varlega.

norðri (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 16:28

4 identicon

Af hverju átta Íslendingar sig ekki á því hvað landið okkar er merkilegt jarðfræðilegt fyrirbæri? Það var miklu áhugaverðara að fara á sólarströnd, heldur en að skoða landið sitt.

Samt vilja flestir sjá eldgos. Er virkilega hagkvæmt að ganga svo á Nesjavallavirkjun að nýting hennar verði komin niður í 1/3 þegar árið 2036. Bresk hlón sem ég hitti við Fosshól 2009 og voru að koma úr Mývatnssveit voru sammála Ómari, þau væru búin að skoða ótal jarðhitasvæði, en það sem hér væri bæri af öllu. Þau voru að vona að "kreppan" mundi veita náttúrinni lið. Hvað með súrugufuna í Kröflu? Það er jafnvel verið að bollaleggja boranir undir Leirhnúk.

Það hefðu þurft að vera fleiri bormenn eins og Rögnvaldur Kjartansson.

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 17:17

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar, heldur þú að Jóhanna hafi sagt Wen sannleikann?

Sigurður Þorsteinsson, 22.4.2012 kl. 20:43

6 identicon

Ætli starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar séu orðnir svona langþreyttir að bíða eftir Suðurlandsskjálftanum, að þeir reyna eftir megni að framkalla hann sjálfir? Hvernig væri að hætta þessari vitleysu, áður en í óefni fer. Jarðvísindamenn vita ekkert um áhrifin af þessari niðurdælingu.

Steini (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 22:10

7 identicon

Svo er lofttegundin brennisteinsvetni eitraðri en blásýra (hydrogen cyanide) í hreinu formi. Svo loftið hér er ekki eins heilsusamlegt og af er látið. Húsmæður geta ekki átt borðsilfur. Það verður svart jafn óðum (silfur súlfíð myndast) af brennisteinsvetninu. Ef maður fer út úr húsi í Reykjavík í austanátt, er eins og allir bæjarbúar hafi leysi vind og látið hann um eyru þjóta.

Steini (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 22:19

8 identicon

Ég bý í Grafarvogi og hef tekið eftir hvað fellur óvenju hratt á silfrið mitt. Ég hef mikið notað sömu silfur lokkana undanfarin ár og er farin að þurfa hreinsa þá í hverri viku sem var ekki áður (fer ekki með þá í sturtu). Með borðsilfrið er ekker vandamál því ég pakka því í plast þarf næstum aldrei að pússa það:) Mæli með að geyma allt silfur í plastpokum;)

R. Sif (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 22:40

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar fyrir fimm árum sýndu mælingar að loftgæði í Reykjavík stóðust ekki í 40 daga á ári  lágmörkin, sem sett eru í Kaliforníu. Síðan þá hefur mikið verið borað og útstreymið hefur aukist.  

Ómar Ragnarsson, 23.4.2012 kl. 09:00

10 Smámynd: Stefán Stefánsson

Svona til að upplýsa ykkur aðeins er gott að það komi fram að talsverðu magni af affalsvatni er dælt niður í jörðina í Kröflu án þess að nokkur finni fyrir því og engir jarðskjálftar.

Við Mývatn þurfti ekki borholur hér áður fyrr til að félli á silfur vegna þess að umtalsvert magn af gasi streymir upp úr jörðinni hér og þar sem sprungur og augu eru.

Það eru bara því miður ekki til neinar mælingar frá þeim tíma.

Ómar, var ekki orsökin fyrir þessum 40 dögum þar sem loftgæði stóðust ekki af völdum svifriks vegna umferðarþunga á rykugum götum.... ja.... ég spyr nú bara svona??

Á Akureyri hafa loftgæði oft verið óviðunandi og ekki eru neinar borholur þar nærri.

Á Hellisheiði var það skilyrði að dæla skyldi vatninu niður á ákveðið dýpi til að til að varna því að vatnsból myndu mengast.

Ef ekki er hægt að losna við vatnið á þennan hátt er líklegt að leggja þurfi lögn alla leið niður í sjó til að losna við vatnið.... án gríns....

Stefán Stefánsson, 23.4.2012 kl. 20:08

11 identicon

Í hinum óvenjulegu vestanáttum sem ríktu sunnan lands í vetur mátti stundum greina brennisteinsfýlu alveg austur í Rangárvallasýslu. Mjög sérstakt.

Þetta var sterkari fnykur en í Gígjökulsgili. Maður þarf reyndar að fara þar nærri til að finna fnykinn, - það var vart brennisteinslykt að finna jafnvel undan vindi í Gosinu 2010.

Fari maður í bæinn er þetta orðið nokk samdauna. Bara eðlilegt eins og fjósalyktin er fjósamanninum :D

Jón Logi (IP-tala skráð) 23.4.2012 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband