Sérkennilegur "grænn" flokkur.

Það er athyglisvert að lesa frásögnina af kynningu Hægri grænna á stefnumálum sínum í dag. Hvergi er í þessari frétt að sjá að minnst hafi verið á fundinum á umhverfismál, náttúruvernd, sjálfbæra þróun o. s. frv., mál sem eru meginstef græningja og grænna flokka víða um lönd.

Í DV um daginn var því hins vegar slegið upp að Hægri grænir vöruðu við "öfgaumhverfissinnum" og sagt að það sé sama fólkið og var andvígt því að ráðhúsið yrði byggt á núverandi stað !

Sömuleiðis er þar sagt að Hægri grænir vilji ólmir virkja í Neðri-Þjórsá, en um þessar mundir er tekist á um það hvort setja eigi þær í biðflokk um sinn meðan rannsóknir á áhrifum virkjananna eru leiddar til lykta.

Eru þeir sem hafa sett þessar virkjanir í biðflokk og náttúruverndarsamtök landsins þar með skilgreindir sem "öfgaumhverfisverndarfólk" og höfuðandstæðingar hins nýja græna flokks.

Verður ekki annað sagt en að þetta sé einn sérstæðasti græningjaflokkur sem dæmi eru um.

Þess má geta til samanburðar að fyrir kosningarnar 2007 skilgreindi Íslandshreyfingin - lifandi land sig sem þverpólitískan græningjaflokk með umhverfis- og náttúruverndarmál sem aðalmálefni og taldi sig eiga samhljóm og samleið í þeim málum með umhverfisverndarfólki í öllum hinum flokkunum, allt frá Sjálfstæðisflokknum til Vinstri grænna.

Hægri grænir setja sig hins vegar í upphafi upp á móti þorra þessa fólks sem höfuðandstæðinga sinna og vara sérstaklega við því.


mbl.is Hægri grænir kynntu stefnumál sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Að virkja þetta eins og við Íslendingar gerum þetta...þetta getur ekki verið meira vistvænna en það er....er ekki alltaf verið að tala um að við eigum að nýta auðlindir okkar...og þessi leið er sú besta...þessar virkjanir eru mjög svo snyrtilegar..og vel farið með....það gerist ekki mikið grænna en það...nema að vera með vindmyllur!!

Ægir Óskar Hallgrímsson, 26.4.2012 kl. 21:20

2 identicon

Umhverfismál hægri grænna

Takk Ómar fyrir áhugann á framboðinu. Allir Íslendingar eru í hjarta sínu náttúruverndarsinnar og vilja landi sínu vel. Það er löngu kominn tími á að losa náttúruvernd úr heljargreipum vinstri manna, sem hafa ekkert gert til þess að verskulda það að vera kallaðir grænir. Ég bendi þér á söguna í því samhengi. Einnig vil ég benda þér á  að þú sjálfur vilt virkja neðri hluta Þjórsár, þá er ég að vitna í þín eigin orð. Hér að neðan er stuttur útdráttur  af mörgum í umhverfistefnu Hægri grænna, en þú getur lesið þig til um flokkinn á WWW.XG.is.  Málafokkurinn, grænt hagkerfi sem fjallar um náttúruvernd, auðlindir og umhverfisvernd er viðameiri en allir kaflar í stefnuskrám allra hinna flokkanna til samans um þetta efni. Ég vonast til þess að sjá þig á skrifstofu Hægri grænna í Gömlu heilsuverndarstöðinni til skrafs og ráðagerða, því ekki veitir af að hafa menn eins og þig innanborðs í alvöru græningjaflokki. Með kærri kveðju, Guðmundur Franklín Jónsson

Í hnotskurn:

  • Flokkurinn er hnattrænn umhverfisverndarflokkur.
  • Endurvinnsla hvers íbúa er lykillinn grænni hugsun.
  • Lögleiða strax skylduflokkun sorps í sveitarfélögum í 3 flokka A) heimilssorp, B) plast, pappa, gler, málma o.fl., og C) lífrænan úrgang.
  • Taka upp sektir við að henda rusli á almannafæri.
  • Ísland gæti orðið stærsti þjóðgarður Evrópu, friðland dýralífs og náttúru.
  • Skylda Íslendinga er verndun náttúru og umgengni um landið af virðingu.
  • Fella niður alla tolla og vörugjöld af mengunarlitlum farartækjum.
  • Sjálbær nýting auðlinda og áhersla á ábyrgð einstaklingsins.
  • Heimila gjaldtöku til að vernda og stýra ferðamönnum á viðkvæmum svæðum.
  • Stöðva gróður- og jarðvegseyðingu og ræktun skjólbelta.
  • 25% ökutækja landsmanna keyri um á metangasi eða rafhleðslu á næstu árum.
  • Vernda ber hálendi Íslands og stofna þar til þjóðgarða og friðlanda.
  • Náttúruvernd - Endurvinnsla – Sjálfbærni.
  • Græn orka - Græn nýsköpun - Græn störf.
  • Græn bankastarfsemi - Græn ferðaþjónusta.
  • Græn framleiðsla - Grænt bókhald.
  • Grænt hagkerfi - Grænn hagvöxtur - Grænt velferðarsamfélag.
  • Lífræn ræktun – Uppgræðsla lands.
  • Endurreisn spilltrar náttúru og náttúrugæða.
  • Virka þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi.
  • Hita upp Hellisheiðina með umfram hita og gufu frá Hellisheiðarvirkjun.

Hægri grænir, flokkur fólksins (IP-tala skráð) 26.4.2012 kl. 21:23

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Er þetta úr þúsund blaðsíðna stefnuskránni?

Guðmundur Ásgeirsson, 27.4.2012 kl. 02:40

4 identicon

Á þýsku er þetta kallað; Etikettenschwindel.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.4.2012 kl. 06:07

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Því miður hefur forsvarsmönnum umhverfissamtaka tekist að koma öfgastimpli á allt sem viðkemur starfi þeirra. Það er einfaldlega bláköld staðreynd.

Ómar segir: "...um þessar mundir er tekist á um það hvort setja eigi þær [Neðri-Þjórsá] í biðflokk um sinn .."

Það var í raun ekkert tekist á um þetta atriði í rammaáætluninni, en öfgamenn í umhverfisvernd og hagsmunagæsla "Laxa-Orrra" hafa komið því þannig fyrir.

Hún ríður ekki við einteyming, þessi óláns vegferð vinstristjórnarinnar. Henni tekst að klúðra öllu sem hún kemur nálægt. Google, facebook og fleiri stórtækir gagnaversnotendur hafa horfið frá því að koma hingað. Gagnaver átti að vera hin umhverfisvæna stóriðja umhverfis og vinstrimanna. Þessi fyrirtæki hafa engan áhuga á að eiga viðskipti við þjóð sem hefur svona vitleysinga við völd.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2012 kl. 09:14

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gjaldeyrishöftin og hugsanlega hátt orkuverð í framtíðinni voru aðalatriðin sem tilgreind voru vegna þess að hætt hefur verið við erlenda fjárfestingu í gagnaveri á Blönduósi.

Gjaldeyrishöftin eru skilgetið afkvæmi þeirrar stefnu sem skóp Hrunið.

Sú stefna var að halda uppi þenslu sem skrúfaði gengi krónunnar 30 -40% upp fyrir eðlilegt gengi.

Afleiðing þess og tilheyrandi vaxtastig sópuðu svonefndum aflandskrónum upp á þúsund milljarða inn í hagkerfi okkar og allt þetta blasti við og var harðlega gagnrýnt af mönnum sem voru taldir "úrtölumenn" og "á móti framförum og atvinnuuppbyggingu."

Síðan þegar þetta hrundi allt eru þeir, sem mest mæltu með þessu Hrunsráðslagi, háværastir um það að þetta sé að engu leyti þeim að kenna sem ráku þessa stefnu, heldur hinna, sem reyna að vinna úr þessum hörmungum.

Hvað orkuverðið varðar liggur fyrir frá munni sjálfs forstjóra Landsvirkjunar, að það sé allt of lágt, en um leið og orðað er að hætta þessari útsölu á borð við þáð sem tíðkast í þróununarlöndunum, vilja gömlu Hrunverjarnir ólmir fara í sitt óskafar.

Ómar Ragnarsson, 27.4.2012 kl. 16:41

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er hlægilegt að sjá þig verja vini þína í ríkisstjórnarflokkunum. Ekkert af þessu sem þú nefnir, stenst nánari skoðun.

T.d. er gengið einmitt mjög hagstætt fyrir erlenda orkukaupendur, en ekki óhagstætt eins og þú heldur fram.

Stjórnvöld eru sökudólgurinn og ekkert annað, enda segja þessir erlendu aðilar einmitt það. Pólitískur óstöðugleiki og óvissa varðandi hugsanlega samninga.

Vinstriflokkarnir hafa borið (ó)hróður okkar víða, t.d. þegar þeir hafa verið með tilburði um eftiráskatta varðandi stóriðjuna. Stóriðjufyrirtækin gera samninga til langs tíma í góðri trú og í trausti þess að samningar standi. Það traust er farið og fréttir varðandi brostinn trúnað eru fljótar að berast um heimsbyggðina.

Orðsporið sem helferðarstjórnin hefur markað þjóðinni hverfur vonandi um leið og hún hrökklast frá völdum. Því miður er sennilega heilt ár í það og það eina sem þjóðin getur vonað er að skaðinn verði ekki meiri en orðið er.

Ég spái þó því að "lengi geti vont versnað"

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2012 kl. 20:01

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég held ég hafi ekki heyrt það vitlaust að gjaldeyrishöftin og hátt orkuverð hafi verið fremst í upptalningunni. Reynar var orðið óvissa nefnt varðandi orkuverðið og þá væntanlega haft í huga það sem forstjóri Landsvirkjunar og fleiri hafa gefið út um  það að verðið þurfi að hækka og muni hækka.

Ómar Ragnarsson, 27.4.2012 kl. 20:53

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það sem ég finn að varðandi málatilbúnað hægri grænna að slá því föstu að vinstri menn hafi "einokað" umhverfis- og náttúruverndarmál.

Þegar þjóðin skiptist í tvær jafnar fylkingar í skoðanakönnunum vegna Kárahnjúkavirkjunar var stærsti flokkspólitíski hópurinn, talið í einstaklingum, fólk sem sagðist styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Ráðamenn þess flokks hafa hins vegar barið allt slíkt niður með harðri hendi og dæmi um það var þegar Ólafur F. Magnússon var hrakinn með hrópum úr ræðustóli á landsfundi flokksins og Katrínu Fjeldsted refsað með því að setja hana til hliðar í flokknum.

Græn stefna og stefnumið fara ekki eftir línunum hægri-vinstri og því finnst mér miður þegar Hægri grænir setja á oddinn andstöðu við umhverfisverndarfólk annars staðar úr vinstra-hægri litrófinu.  

Ómar Ragnarsson, 27.4.2012 kl. 21:00

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er villandi hjá þér að segja að þjóðin hafi skipst í jafn stórar fylkingar, með og á móti Kárahnjúkum. Sú staða var jú uppu framan af þegar lyga og bull áróðurinn tröllreið öllum fjölmiðlum og hafðist ekki undan að leiðrétta það. Í lokin var munurinn ca. 60-40 virkjun í vil og enn meira í dag.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2012 kl. 21:41

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er alveg rétt hjá hægri grænum. VG og hluti samfó hafa þynglýst eign sinni á umhverfisvernd

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2012 kl. 21:46

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar verkalýðurinn uppgötvaði að vinstrimenn voru ekkert að gera fyrir þá, þá þurfti að finna sér einhverja aðra sérstöðu. Umhverfisvernd er hinn nýi sósíalismi

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2012 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband