Aftur 1945.

1945 sóttust Bandaríkjamenn eftir því að fá land undir þrjár herstöðvar leigt til 99 ára. Því höfnuðu íslenskir stjórnmálamenn nær einróma og var ein af aðalröksemdunum fyrir þeirri höfnun sú, að 99 ára leigusamningur væri í raun til eilífðar, sá væri hinn almenni skilningur á alþjóðavísu.IMG_0890

Hvað hefur breyst síðan 1945 ef við gerum þetta núna á þennan hátt og látum 300 ferkílómetra land frá okkur, langtum stærra landssvæði en dæmi eru um við höfum afsalað okkur áður til útlendinga?

Á myndinn hér fyrir ofan er horft yfir Grímsstaði á Fjöllum og blasir Herðubreið við í fjarska. 

Við erum með í lögum ákvæði um að enda þótt útlendingar megi fjárfesta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, verði meirihlutaeignin að vera í eigu Íslendinga.

Sama ætti að gilda að lágmarki um þá auðlind sem landið er.

Af hverju ríkir ekki sama sátt um það og eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja?

99 ára leigusamningur við Huang Nubo er miklu verri kostur en að selja honum 49% í sameigninni Grímsstöðum á Fjöllum þar sem Íslendingar ættu ótvírætt meirihlutann.

Nubo þarf ekki 300 ferkílómetra fyrir mannvirki sín frekar en eigendur hótela og annarra ferðamannamannvirkja.

Af hverju getum við ekki byggt upp ferðamannaþjónustu af forsjálni og ábyrgð í samstarfi við erlenda fjárfesta án þess að afsala okkur öllu og gefa þeim allt?  

Af hverju getum við ekki vandað okkur eins og Danir gerðu varðandi sitt land og sumarhús þegar þeir gengu í ESB?

Á sama tíma og þetta virðist vera að gerast ætla sofandi þingmenn að standa að framkvæmdum á Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns sem fela í sér stórfellda rányrkju á kostnað komandi kynslóða, sjá grein mína í Fréttablaðinu í vikunni og myndskreyttan pistil hér á undan, sem ég hvet fólk til að kynna sér.

Af hverju getum við ekki lifað í landinu í sátt við komandi kynslóðir án þess að hrifsa frá okkur sameign kynslóðanna og gefa annað frá okkur? 

Það er hægt að nýta háhita á sjálfbæran hátt án þess ofstopa sem fyrirhugaður er og það ætti að vera hægt að efla ferðaþjónustu með eða án erlendrar fjárfestingar án þess að gefa frá sér landsvæði sem er 60 sinnum stærra en Grímsey, eyjan sem hafnað var að gefa Noregskonungi.


mbl.is Huang fagni ekki of snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þetta er vel mælt hjá þér Ómar.

Það er fleira sem ástæða er til að nefna. Við lítum auðvitað á Kínverja með virðingu og góðum hug eins og alla aðra, en það þarf um leið að játa hreinskilningslega, að við erum ekki tilbúin að gefa frá okkur landið sem við byggjum. 

Það sem nú er talað um gagnvart Grímsstöðum er í raun allt of mikið landssvæði sem sett yrði undir erlent yfirráð. Eins og þú segir þá þarf ekki fjárfestirinn á þessu mikla landi að halda til að koma hugmyndum sínum um hótel á legg.

Mér heyrist aðeins Ögmundur innanríkisráðherra hafa uppi varnaðarorð af þeim sem sitja í ríkisstjórn og það er mjög miður.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 5.5.2012 kl. 17:00

2 identicon

Góður að vanda Ómar. Það er bara með þessar, svo ég noti lýsingu Sverris Stormskers, margkeyptu pólitísku mellur, sem allt er hér á niðurleið. Enginn stendur við eitt né neitt sem er lofað í kosningarbaráttu og öllu haldið hér niðri svo ný öfl og flokkar komist að. Þú hefur nú reynt það og kom best í ljós hvernig var haldið til haga flokkshagsmunum fjórflokksins á kostnaðs nýrra framboða.

Kveðja

Sigurdur Kristjan Hjaltested (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 17:19

3 identicon

Sæll Ómar.

Ég hef hef hvergi séð haldgóða greiningu  á þessum mikla áhuga kínverja á kínverskum   millilandaflugvelli og kínverskri  ferðamannaaðstöðu á  „kínverskum öræfum“  Norðausturlands við Grímsstaði á Fjöllum.

Telur þú að verið  gætu tengsl  við áform kínverskra um stórkostlegar námuvinnsluframkvæmdir víða á Grænlandi, sem þjónað yrði frá Grímsstöðum?  

Og kæmi  þá jafnvel síðar í ljós áhugi á að kaupa eins og eitt sjávarþorp í nágrenninu til að halda utanum sjóflutningahluta þjónustunnar.

Valgeir Ásmundsson (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 22:53

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sé fyrir mér möguleika á að Grímsstaðir verði á krossgötum landflutninga fólks og vöru á milli Akureyrar og Húsavíkur annars vegar og olíuhafna á Norðausturlandi.

Grímsstaðir eru við hringveginn og  liggja lika á krossgötum ferðamannastraums norðan úr Öxarfirði suður á hálendið eða austur á Hérað og á ásnum Akureyri-Mývatn-Egilsstaðir.

Hætta er á því að stóraukin umferð við Mývatn með tilsvarandi aukningu byggðar geti ógnað hinu einstæða lífríki vatnsins og að þess vegna verði nauðsynlegt að dreifa henni austur til Grímsstaða.

Nú liggur heilsársvegur að Dettifossi og algerlega ónýttir eru stórkostlegir möguleikar alls þessa svæðis að vetrarlagi, sem getur toppað Lappland.

En nauðsynleg uppbygging þarf að vera yfirveguð og róleg en ekki með þeim gassagangi og offorsi sem er svo algengur hér á landi.

Lappland selur myrkur, þögn, kulda og ósnortna náttúru og það eru  takmörk fyrir því hve mörgum á að hrúga inn á svæðið á stórkarlalegan hátt.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 23:27

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú eru nýjustu fréttir um innhald samninganna, sjá nýjustu bloggfærslu mína, þannig að öll hin mikla umfjöllun um þá undanfarna daga hefur verið byggð á síbreytilegum forsendum sem rugla málið mikið.

Ómar Ragnarsson, 6.5.2012 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband