Gömul saga og ný.

Það er gömul saga og ný, bæði hér á landi og erlendis, að útgjöld ríkis og sveitarfélaga vaxi næsta ár á undan kosningum.

Það var til dæmis varla einleikið hve margt og mikið var vígt og lokið við að framkvæma á árinu 1930.

Dýr og viðamikil Alþingishátíð var haldin á Þingvöllum í tilefni af þúsund ára afmæli þingsins og Landsspítalinn og Ríkisúvarpið voru meðan verkefna sem ljómi lék um þetta ár.

Á miðjum áratugnum á undan hafði gengi krónunnar verið hækkað og afleiðingarnar voru ekki ólíkar því sem gerðist 80 árum síðar í aðdraganda Hrunsins, eyðsla, neysla og framkvæmdir meiri en áður höfðu þekkst. Þetta var í bæði skiptin í takt við uppsveiflu erlendis sem endaði með fjármálahruni og kreppu í kjölfarið.

Í aðdraganda kosninganna 1956 var slakað á höftum og aðhaldi og gamalkunnugt einkenni slíks stakk upp kollinum, meiri innflutningur á bílum en verið hafði samtals sjö ár á undan.

1966 bar mörg einkenni síðasta árs kjörtímabilsins og enda þótt augljóst væri að gengi krónunnar væri allt of hátt, var það dregið fram yfir kosningar að fella gengið og dugði ekki ein gengisfelling til, heldur urðu þær tvær á sama árinu.

1974 var þjóðhátíðarár eins og 1930, en í þetta skiptið var það 1100 ára afmæli landnámsins sem var tilefnið.

Frá árinu áður hafði ríkisstjórnin smám saman misst tökin á fjármálunum og þensla og verðbólga óðu upp úr öllu valdi og náðu nýjum hæðum.

1982 til 1983 missti þáverandi ríkisstjórn stjórn á fjármálunum þegar eitt ár var í kosningar og enn nýtt met í verðbólgu leit dagsins ljós vorið 1983.

Síðasta ár ríkisstjórnarinnar 2003 til 2007 er enn í fersku minni og talan 2007 er orðið að tákni fyrir svona stjórnarhætti.

Fyrirbrigðið er þekkt í sveitarstjórnum, en svo sanngirni sé gætt er oft um það að ræða, að viðkomandi meirihluti hefur lofað ákveðnum hlutum fjórum árum fyrr og reynir að efna þau í tæka tíð fyrir kosningar.

Af því leiðir að margar vígslur alls konar mannvirkja á sama árinu en meginástæða þenslu á kosningaári er eftir sem áður slakara aðhald en önnur ár.  


mbl.is Vara við kosningafjárlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágæt upprifjun, okkar kynslóð er búin að upplifa margt á þessum rúmu sjötíu árum sem við höfum tórað. Varðandi 1974 þarf að hafa í huga, að ríkisstjórnin sem þá var að enda sinn feril hafði þurft að glíma við tvö ansi þung verkefni, þ.e. í fyrsta lagi olíukreppu af völdum styrjaldar við austanverð Miðjarðarhaf og hitt var náttúrulega Vestmannaeyjagosið, sem hafði gríðarlegar, efnahagslegar afleiðingar. Þjóðin hafði ekki rétt sig af eftir þær þrengingar, sem leiddu af hruni síldarstofnsins á síðari hluta sjöunda áratugarins. Samt var reynt að minnast 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar með reisn, enda vart annað hægt.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 17.5.2012 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband