Nýir tímar, - ný viðmið.

Fyrir 20 árum var orðið "geimórar" notað um fyrstu hugmyndir manna um hvalaskoðanir og ummæli Jóhannesar Kjarvals um slíkt fyrir 1950 þóttu til marks um ýmar fjarstæðukennar hugmyndir hans og ummæli.

Fyrir 20 árum hefðu það þótt "geimórar" ef einhver hefði þá spáð fyrir um að eitt frægasta og vinsælasta náttúrufyrirbæri landsins ætti eftir að heita Laugavegur og vera gönguleið.

Það hefðu líksta til líka verirð nefnt "geimórar" ef einhver hefði spáð því árið 1990 að eftir 20 ár myndu 60 þúsund manns ganga á Esju á hverju ári.

En sumir geta alls ekki skilið þetta og er grein Jakobs Björnssonar í Morgunblaðinu um örnefni á virkjanasvæði Kárahnjúkavirkjunar gott dæmi um það.

Jakob telur örnefnagjöf fyrri kynslóða vera réttasta mælikvarðann á mati á náttúruverðmætum og örnefnafátækt á virkjanasvæði Kárahnjúkavirkjunar sýna hve lítils virði þetta svæði hafi verið sem náttúruverðmæti.  Gangnamönnum hafi fundist svo lítið til svæðisins koma að þeir hafi ekki hirt um að gefa fossum þar og fleiru nafn, og enn síður að velja tignarleg nöfn. 

Samkvæmt því voru stórfossarnir Kirkjufoss, Faxi og Kringilsárfoss ómerkilegir af því að þeir hétu ekki nógu mikilfenglegum nöfnum.  Og ónefndu fossarnir ennþá ómerkilegri.

Og úr því að nafnið Kirkjufoss er ekki nógu tignarlegt hlýtur Kirkjufellið við Grundarfjörð að vera fjarska ómerkilegur hóll.

Það er kostulegt í upphafi 21. aldarinnar að sjá svona löguðu haldið fram. Samkvæmt þessu ætti að bægja ferðafólki frá því að skoða vatnsfylltan gíg norður af Landmannalaugum, af því að fjárleitarmenn fyrri alda nefndu hann Ljótapoll.

Það hlýtur að vera alveg hræðilega vond landkynning að hafa þennan stað til sýnis og mikið þjóðþrifaverk að setja jarðýturnar á hann og jafna hann út.  

Að mati Jakobs hlýtur mat gagnamannanna að hafa sýnt hve hræðilega ljótur þessi "pollur" væri og ef við höldum áfram í svipuðum dúr og Jakob, þ. e. að sýna fram á hve þetta styðji virkjunarframkvæmdir á svæðinu, ætti Ljótipollur að vera alveg sérstaklega vel til þess fallinn til þess að þar sé reist falleg og snyrtileg virkjun og helst fyllt upp í þennan ljóta poll til þess að útrýma ljótleikanum!

Raunar er það alrangt hjá Jakobi að einhver sérstök örnefnafátækt sé á virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar. Það gæti hann séð ef hann fletti bókum Helga Hallgrímssonar um örnefni á þessum slóðum.

Í þeim sést að allt frá Hnitasporði fyrir utan Hafrahvammagljúfur og inn undir jökul er samfelld röð örnefna, - eða öllu heldur -  var - samfelld röð örnefna, því að eftirlæti Jakobs, drulla Hálslóns, er nú í óða önn að setjast ofan á þetta landslag og breyta því í flatar leirur þar sem áður var 180 metra djúpur og 25 kílómetra langur dalur.

Er raunar með ólíkindum hve mörg þessi örnefni eru miðað við það að menn komu ekki á svæðið nema einu sinni á hverju ári þegar þeir smöluðu það á haustin.  

Af samtölum mínum við fólk í Hrafnkelsdal og efst á Jökuldal og við hinn mjög svo staðkunnuga Völund Jóhannesson komst ég á snoðir um nokkur örnefni sem meira að segja Helga Hallgrímssyni sást yfir.

Nefni ég sem dæmi örnefnið "Stapar", marglita kletta og stuðlabergshamra, sem Jökla hafði mótað á innan við öld og því engin furða þótt gangnamenn fyrri alda hefðu ekki sett nafn á þá.

Einnig örnefnið "Flugvöllur" sem þekkt varð á efstu bæjum Jökuldals eftir að gangnamenn komu haustið 1940 að hlöðnum vörðum á ónefndum flötum mel við Sauðá og rifu þær niður, af því að þeir óttuðust að annað hvort Agnar Koefeod-Hansen flugmaður eða Emmy Todtmann, þýsk jarðvísindakona, hefðu hlaðið þær til leiðbeiningar fyrir Þjóðverja rétt fyrir stríðið, ef þeir vildu nota staðinn sem flugvöll.

Fram að því hafði gangnamönnum aldrei fundist tilefni til að gefa þessum stað nafn, en þar er nú, á þessu frábæra náttúrugerða flugvallarstæði,  kominn fjögurra brauta valtaður og merktur flugvöllur viðurkenndur af Flugmálastjórn, með nafninu Sauðárflugvöllur (einkennisstafir BISA).

Jakob Björnsson virðist trúa því að mat, þekking og sjónarmið fyrri tíma, sé marktækara en það mat sem  nýjustu rannsóknir og viðmið nútímans færa okkur.

Samkvæmt þessari skoðun hans er Ljótipollur líkast til ómerkilegasta og viðbjóðslegasta náttúrufyrirbæri Íslands og jörðin flöt en ekki hnöttótt, af því að færustu vísindamenn fyrri alda töldu svo vera.   


mbl.is Skálar Ferðafélagsins allir opnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ómar, það er ekki með nokkru móti hægt að ætlast til þess að allir sjái landið okkar með sömu augum og þínum. Til þess skortir einfaldlega flugvélar. 

Halldór Egill Guðnason, 17.6.2012 kl. 03:09

2 identicon

Sæll Ómar .Jakob er bara sammála Stalín sem sagði 1929 ." Vatn sem rennur ótruflaða til sjávar er sóun". Ég held hann sé boltaður fastur í þessari skoðun. Við höfum t.d. átt í einkanetsambandi. Nú gildir bara æðruleysis boðskapurinn að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt, viðhorf Jakobs Björnssonar til íslenskrar náttúru. Með fossana í Fljótsdal er það að segja að ég átti dásamlegan dag, þegar ég gekk með Völundi Jóhannessyni frá Snæfelli niður að Kleif í ferð FÍ 1975, óttalaus um örlög árinnar. Halldór, það er nú líka sjálf snertinginn við landið sem veitir unað. Flugið er kryddið.

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 09:55

3 identicon

Í þessum töluðu orðum er flugvélin TF-REX í háloftunum, - fór frá Garðsauka við Hvolsvöll kl 11:27 eða svo, og stefnan tekin inn Fljótshlíð, framhjá Fimmvörðuhálsi, síðan inn í Landmannalaugar, Veiðivötn, inn á Torfajökulssvæðið, þá eitthvað austur um, jafnvel svo langt sem yfir Ljótapoll, og ef skilyrði eru góð, austur að Langasjó.

Flugþol nærri 4 tímar, þannig að þetta tekst alveg.

Og þarna er á ferðinni atvinnuljósmyndari frá S-Þýskalandi, sem er alveg orðlaus yfir náttúru landsins.

Fór þennan hring í fyrra með ljósmyndara frá Lichtenstein, og það var alveg geggjað, enda Torfajökulssvæðið á skrá hjá UNESCO. Sá er á leiðinni aftur til landsins í Júlí, á þyrlu, og ætlar að tuskast þarna yfir í eina 5 daga til að ná myndum í ljósmyndabók sem hann er að smíða.

Viðfangsefnið er þetta dásamlega land okkar, og flugið er kryddið sem gerir okkur kleyft að sjá þessi undur öll á aðgengilegan hátt. Alvöru Chili-krydd :)

Jón Logi (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 12:24

4 identicon

Og ekki klikkaði þetta....

Eftir töluvert flug er lagsi lentur, og þó að hann eigi inni hjá mér tebolla, þá næ ég honum ekki frá myndavélinni sinni. Þarna fékk maður enn einn punkt um það að það er nánast ekkert á plánetunni sem toppar ljósmyndaflug yfir Torfajökulssvæðið.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband