Einkahúmor þarf að vera undir ströngu eftirliti.

Flestir kannast við það að haft sé í frammi létt spaug sem á ekki að fara út fyrir þröngan hóp.

Raunar má segja að einkahúmorinn sem rataði á kaffipakka Tes & Kaffis,sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is  hafi verið afar lágu plani og ekki bjóðandi sem slíkur og þess vegna enn verra að hann fór á flakk fyrir almennings sjónir. 

Ég er ekki saklaus af því að hafa sem ungur maður gert eitthvað af þessu tagi en þó var gamanið langt frá því að vera jafn ósmekklegt og gróft að mínum dómi. 

En fór samt líklega yfir strikið og þurfti auk þess að sýna sérstaka nákvæmni til að ekkert færi úr böndum.  Ef það klikkaði var stórhneyksli dunið á. 

Það mátti ekki skeika nema nokkrum sekúndum til að hið gráa gaman hefði komið fyrir augu alþjóðar og þá sett allt á ánnan endann. 

Málavextir voru þeir að á tímabili var ég ritstjóri dagskrár Sjónvarpsins. Meðal hlutverka minna var að prenta dagskrána upp á pappírsstrimil sem síðan var settur fyrir framan myndavél í þuluherbergi, sem sjónvarpað var og blasti við á skjám landsmanna rétt fyrir útsendingu. 

Ég ákvað dag einn að búa til tvo strimla og hafa grínið á innri strimlinum en rétta dagskrá á strimli, sem var undir honum. Með því að svipta innri strimlinum frá myndavélinni nokkrum sekúndum áður en myndin fór í loftið blasti aðeins hin rétta dagskrá á ytri strimlinum við landsmönnum, en hins vegar blasti ranga dagskráin við á skjám innanhúss i ákveðinn tíma á undan. 

Á þessum tíma fylgdi oft stuttur útskýringartexti með nöfnu þáttanna. 

Ekki man ég hvað stóð á rétta strimlinum en á þeim ranga lék ég mér með nokkur þáttanöfn þessa tíma eða þessa dags, meðal annars: Dýrlingurinn, Lucy Ball, Á öndverðum meiði, Garðar ástarinnar, Fréttir, Stundin okkar, Pétur og úlfurinn o. s. frv. 

Til frekari útskýringar skal þetta nefnt:

Eiður Guðnason var helsti fréttahaukur þessa tíma. Pétur Guðfinnsson var framkvæmdastjóri og Jón Þórarinsson annar af dagskrárstjórunum en Emil Björnsson hinn. 

Um Emil orti Stefán Jónsson eitt sinn og fékk lánaða þekkta hendingu úr einu af ljóði Gríms Thomsens um Arnljót gellini.  

"Séra Emil giftir og grefur,

glatt er í himnaranninum.

eru á ferli úlfur og refur

í einum og sama manninum. 

Var séra Emil eðlilega alveg sérstaklega illa við þessa vísu, sem varð fleyg og birt í einu dagblaðanna. 

Séra Garðar Þorsteinsson í Hafnarfirði var umtalaður þessa daga vegna gróusagna um kvennamál hans. 

Guðrún Á. Símonar og Guðlaugur Rósenkranz voru nýbúin að rífast þannig í sjónvarpsþætti að ekki var talað um neitt annað en þau og þennan þátt þeirra þessa daga. 

Hér kemur svo sá hluti þessarar röngu dagskrá og hreinu bulli, sem blasti við fólki inni í sjónvarpshúsinu alveg fram að útsendingu: 

 

20:00  Fréttir, - nema að ekkert sé í fréttum, frekar en venjulega.

20:30  Á öndverðum Eiði. 

21:00  Lucy Ball. Skítugur bítill finnur lús i bol sínum. 

21:30  Garðar ástarinnar. Þáttur um nafngreindan prest á vegum kjaftakerlinga í Hafnarfirði

22:00  Dýrlingurinn.  Þáttur á vegum stuðningsmanna prestsins í Hafnarfirði. 

22:30  Pétur og úlfurinn - og Jón. Ópera um yfirmenn Sjónvarpsins. 

23:00  Stundin okkar.  Endurtekið rifrildi Guðlaugs Rósenkranz Þjóðleikhússtjóra og Guðrúnar Á.  Simonar. 

23:30  Dagskrárkok. Þegar sjónvarpsáhorfendur verða búnir að fá upp í kok af dagskránni. 

 

Skemmst er frá því að segja að allt fór á hvolf í húsinu þær mínútur sem þessi ósköp blöstu við þar, enda héldu flestir að þetta væri komið í útsendingu, Sjónvarpinu til gríðarlegrar og óbætanlegrar skammar.

Þegar fréttastjórinn kom hlaupandi inn í þulustúdíóið þar sem textinn var sendur út, og ætlaði að reka mig á staðnum hafði ég hins vegar kippt þessari platdagskrá í burtu fyrir fáeinum sekúndum  og falið strimilinn, þannig að hin rétta dagskrá blasti við, honum til jafnmikillar undrunar og hin fyrri.

Í framhaldinu varð samt mikil rekistefna og rannsókn með vitnaleiðslum og ég var "settur í frystikistuna" eins og það var orðað þegar starfsmenn voru taldir hafa brotið af sér og urðu að gjalda fyrir með því að falla í ónáð innanhúss um tiltekinn tíma og verða úthlutað hinum lélegustu verkefnum. 

Yfirmenn Sjónvarpsins höfðu það til síns máls að oft var utanhússfólk á ferli í húsinu og það jafnvel ráðherrar og aðrir ráðamenn þjóðarinnar, sem hefðu þá séð þessi ósköp. 

Sem betur fer reyndist svo ekki vera, annars hefði ég kannski lent í frystikistunni til frambúðar. 

 

 


mbl.is Einkahúmor sem gekk of langt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég sá einmitt þetta rifrildi Guðrúna Á. Símonar og Guðlaugs Rósenkranz þegar það var endursýnt fyrir stuttu. Einhverjir hneiksluðust á orðfæri Guðrúnar á sínum tíma en það sem hún sagði "eldist"vel. Hún var alveg frábær, enda hafði hún hárrétt fyrir sér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.7.2012 kl. 21:00

2 identicon

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 22:46

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Stefán orti þetta s.s. ekki um Emil. Umkvörtun hans í Alþýðublaðinu er skemmtileg aflestrar:

"Þessi staka var ekki kveðin um séra Emil Björnsson, og mun það hafa verið lítill vinur okkar beggja, sem greip hana ófrjálsri hendi og brenglaði, séra Emil til óverðugs hnjóðs, en mér til vansæmdar.

Ekki hirði ég að berja hér orðum þann klósiga á sæmdarhveli Alþýðublaðsins, sem þetta tiltæki er rétt ein kartnögl á. En hafi blaðið ævarandi skömm  fyrir meðferðina á vísunni minni, og heiti sá hvers manns níðingur, sem nokkru sinni fer með hana á annan veg en, hún var orkt og að framan er skrifað"

Snilld

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.7.2012 kl. 00:35

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dagblaðið Vísir - DV 30.11.2002:

"Séra Emil svaraði:

Heldur vil ég hýsa rebba
og huggulegan úlfafans
en fénaðinn sem Frétta-Stebba
fylgir eins og skugginn hans."

Þorsteinn Briem, 21.7.2012 kl. 01:44

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er auðvelt að gera grín að öllum fjandanum, þegar sá er grínið gerir, ber enga ábyrgð.

Halldór Egill Guðnason, 21.7.2012 kl. 03:02

6 identicon

Er þetta ekki Stefán, - pabbi Kára?

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.7.2012 kl. 17:02

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ó, jú, hinn stórgóði fréttamaður, rithöfundur og síðar alþingismaður. Séra Emil var snjall hagyrðingur þegar hann vildi það við hafa eins og nokkrar vísur, sem ég kann eftir hann, bera með sér.

Ómar Ragnarsson, 21.7.2012 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband