Ef þjóðin týnir kirkjunni verður það á ábyrgð beggja aðila.

Ég sé engin teikn á lofti sem benda til þess að "þjóðin sé að týna kirkjunni" eins og vígslubiskupinn í Skálholti veltir fyrir sér, hvort geti gerst. Að vísu hefur hlutfall þeirra sem skráðir eru í hana lækkað niður undir 80% en engin stofnun eða félag hefur viðlíka hátt hlutfall.

Fækkunin stafar að hluta til af því að skrá meðlimi Þjóðkirkjunnar rétt og miða við jafnræðisreglu og trúfrelsisreglu.  

Kirkja og kristni hafa leikið svo stórt hlutverk í þjóðlífi og menningu okkar að það verður ekki þurrkað út á augabragði. Hver einasti Íslendingur tekur þátt í ótal athöfnum á hennar vegum, jafnvel þótt viðkomandi sé hvorki meðlimur í þjóðkirkjunni né kristinn.

Enn í dag innir Þjóðkirkjan af hendi ómetanlega þjónustu, gerir það vonandi áfram og vonandi kann þjóðin að meta það. 

Þjóðkirkjan sjálf hefur það mest í hendi sér hvort þjóðinni líkar vel tilvist hennar og starf og man eftir henni. "Ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það?" spurði Kristur. Ef dofnar yfir starfi og boðskap kirkjunnar og safnaðanna verður hætta á að þjóðin týni henni og gleymi henni.

Ef dofnar yfir áhuga þjóðarinnar á þessu starfi og boðskap kirkjunnar getur ákvæði í stjórnarskrá ekki breytt því nema menn vilji hundsa lýðræði, trúfrelsi og jafnræði.  

Það, hvort orðið þjóðkirkja sé sérstaklega nefnt í stjórnarskrá er aukaatriði, því að í frumvarpi stjórnlagaráðs er í raun sagt pass, þegar sagt er í 19. grein að ekki megi breyta "kirkjuskipan", það er, að ekki megi breyta núverandi stöðu kirkjudeilda, nema að þjóðaratkvæði fari fram um það.

Engin leið er að halda í framkvæmd núverandi stjórnarskrárákvæðis um það að "hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið styðja hana og vernda."

Það eru fleiri söfnuðir en þjóðkirkjusöfnuðir sem eru "evangelisk lúterskir" svo sem fríikirkjusöfnuðirnir og því skrýtið að aðeins ein evangelisk lútersk kirkjudeild skuli vera tekin út úr í stjórnarskrá og fengin þessi sérstaða.

Þegar yfir 80% þjóðarinnar eru skráðir í þjóðkirkjuna er einkennilegt að þjóðin megi ekki sjálf ráða því hvort orðið þjóðkirkja sé nefnt í stjórnarskrá eða ekki.

Í því felst mikil mótsögn og ósamræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um lýðræði, trúfrelsi og jafnræði.   

  


mbl.is Vígslubiskup spyr hvort þjóðin sé að týna kirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er allt í lagi að kirkjan sinni greftrunum og öðrum slíkum athöfnum, en þó án þess að starfsmenn hennar séu á ofurlaunum eins og tíðkast í dag. Ég myndi frekar vilja sjá leikskólakennara með þessi laun. Burt með þessa ofurlaunastefnu hjá kirkjunni!

Gottfredur (IP-tala skráð) 27.8.2012 kl. 18:09

2 identicon

Þetta er ekki kosningamál, þá eina sem er rétt í stöðunni er að afnema forréttindi/sérstöðu kirkjunnar.
Það er best fyrir alla að þetta sé afnumið... ég trúi því frekar að þjóðin muni afnema þessa vitleysu.. en enn og aftur, þetta er ekki kosningamál, ekki frekar en það að ég vilji að Batman verði yfirofurhetja Íslands

DoctorE (IP-tala skráð) 27.8.2012 kl. 18:57

3 Smámynd: Ingólfur

Þjóðkirkjan hefur vissulega sinn mikilvægu hlutverki. En hún getur þó aðeins sinnt hluta þjóðarinnar. Yfir 40% Íslendinga trúa ekki eða eru alveg trúlausir. Þorri hinna eiga sjálfsagt samleið með Þjóðkirkjunni en ekki allir.

Þannig þarf um helmingur þjóðarinnar annað hvort að finna aðra aðila til þess að sinna þessu hlutverki eða þá að sætta sig við þjónustu sem passar ekki við þeirra lífsskoðun.

Mér finnst það svo fráleitt að við séum að velta þessu fyrir okkur árið 2012. Núverandi fyrirkomulag er einfaldlega ekki réttlætanlegt, jafnvel þó svo að meirihluti þjóðarinnar staðfesti það.

P.S. Ég hef engan áhuga á því að þurka úr kirkju eða kristni. Þjóðkirkjan mun vera til áfram þó svo að hún hætti að fá ríkisframlög umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög.

Ingólfur, 27.8.2012 kl. 22:29

4 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Það eina sem gerist þegar kirkjan fer af spenanum er að hún mun þurfa að fara að berjast um sálirnar...

Er það svo slæmt...?

Sævar Óli Helgason, 28.8.2012 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband