Grænlendingar þurfa að halda vel á spilunum.

Hafi Íslendingar verið örþjóð í stóru og vegalausu landi á dögum Sigríðar í Brattholti, á það enn betur við um Grænlendinga öld síðar. Landið er meira en 20 sinnum stærra en Ísland og íbúarnir næstum því sex sinnum færri. Landið er enn vegalausara en Ísland var 1920.

Nú þegar standa Grænlendingar frammi fyrir því að geta orðið auðug þjóð vegna mikilli verðmæta, sem landið býr yfir en hafa verið lítið eða ekkert nýtt til þessa. 1920 munaði ekki miklu að Íslendingar stykkju á það mikla tækifæri, sem þá var veifað, að virkja Gullfoss, enda rökin fyrir virkjuninni afar sannfærandi.

Enn bjó stór hluti íslensku þjóðarinnar við rafmagnsleysi í torfbæjum og vegi skorti. Gullfossvirkjun hefði hlutfallslega orðið margfalt meira stóriðjustökk en öll samanlögð álver okkar tíma, svo örsmátt var íslenska hagkerfið þá.

Nú malar Gullfoss meiri peninga ósnortinn en hann hefði gert með því að vera settur í fallgöng til rafmagnsframleiðslu, -  en aðrar virkjanir, sem sátt varð um, framleiða næstum þrisvar sinnum meira rafmagn en við sjálf þurfum til eigin nota.

Mikil þörf er á því að Grænlendingar vandi til verka þegar stóriðjan og erlend stórfyrirtæki berja að dyrum hjá þeim.

Sumt, sem heyrist frá þeim, vekur bjartsýni á það. Þeir virðast til dæmis ætla að standa betur í lappirnar gagnvart erlendu vinnuafli en við gerðum við Kárahnjúkavirkjun.

Á hinn bóginn er hætt við að þeir muni eins og við fórna sérstæðum náttúru- og þjóðlífsfyrirbærum í meiri mæli en nauðsynlegt er.

Ég átti þess til dæmis kost fyrir þrettán árum að fara um fágætan eyðidal fyrir innan alþjóðaflugvöllinn í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði). Þetta var þá nokkurs konar Þórsmerkurleið Grænlendinga, slóð yfir eyðisand, óbrúaðar ár, eftir bökkum jökulsár með fossum og flúðum innst í dalnum meðfram jökulsporði, en þar fyrir innan, - áður en komið var upp á firnahjarn Grænlandsjökuls, - var misjafnlega gróinn bláfjallageimur heiða og fjalla þar sem hreindýrin voru konungar í ríki sínu.

Svæðið á engan sinn líka á Grænlandi, af því að þar er svo heitt og þurrt á sumrin að hlýrri slóðir er ekki að finna í júlí á Grænlandi eða í Skandinavíu. Í júlí er meðalhiti að degi til í Kangerlussuaq meira en 16 stig.

Þetta svæði hefðu Grænlendingar átt að friðlýsa og gera að ferðamannasvæði með hæfilegri umferð á borð við þá sem hefur verið í Þórsmörk. Alþjóðaflugvöllurinn er tilvalin miðstöð fyrir slíkt.

Í staðinn féllu þeir fyrir gylliboði risafyrirtækisins Volkswagen um að fá svæðið til umráða fyrir vegagerð alla leið upp á jökul til að reyna þar bíla sína.

Það eru nóg verkefni fyrir þarfari vegagerð á Grænlandi en þessa, en það sem vantar nú, er að Grænlendingar byrji á því að fá fjármagn, mannskap og ráðgjöf við að leggja mat á allt þetta víðlenda land sitt, taka frá til friðunar þau svæði, þar sem það á við vegna sérstæðrar náttúru eða einstæðra þjóðhátta, en fara af varfærni í það að hleypa inn stórvirkjum alþjóða auðmagnsins og rísandi stórvelda á borð við Kína.  

Og umfram allt: Ekki að fara í auglýsingaherferð krjúpandi á hnjánum eins og við Íslendingar gerðum 1995 og gerum enn: "Við bjóðum lægsta orkuverð heims, og sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum eftir þörfum."

Framtíð Grænlendinga getur verið björt ef þeir halda vel á spilunum.


mbl.is Gríðarlegir möguleikar á Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Grænlendingar eru á viðsjárverðum refilstigum þessa dagana.

Frumvarp um sk. "stórskala lög" hefur verið lagt fram en það kippir úr gildi flestm almennumu lögum um aðbúnað, öryggi, kjarasamninga og skattamál fyrir stóriðju og risanámur.

Alco hefur í fullri alvöru farið fram á að mega manna byggingu og rekstur álvers á vesturströndinni með Kínverjum á Kínversku kaupi og skattleysi til 80 ára!

Í framlínu Alcoa á Grænlandi er Islenskur spin-doktor sem áður starfaði við að selja Húsvíkingu ágæti og samfélagslega ábyrgð Alcoa. Svo virðist að hann sé að gera mun betri díl í Landi Fólksins en hann átti kost á í Þingeyjarsýslu!

Norðmenn standa keikir, gera hlutina sjálfir og halda öllum spilum í eigin hendi.

Ísland er nk orkunýlenda og hefur ekki arð sem skyldi af sinni auðlind en regluverk er innlent en þó með slæmum "stór" eftirgjöfum.

Grænlendaingar virðast eiga á hættu að lenda í skítnum og hafa lítið uppúr krafsinu annað en sóðaskapinn.

-en auðvitað er alltaf möguleiki fyrir einkaframtakið að gera sér gott úr umsvifunum http://sermitsiaq.ag/node/139452 (myndin er "cool")

http://sermitsiaq.ag/node/138583

http://www.google.com/cse?cx=017985204018829123372:i_prlc6jdu8&q=storskalaloven&oq=storskalaloven&gs_l=partner.12...0.0.1.7553.0.0.0.0.0.0.0.0..0.0.gsnos%2Cn%3D13..0.0.0jj1..1ac.#gsc.tab=0&gsc.q=storskalaloven&gsc.page=1

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 29.11.2012 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband