Færa starfið eftir birtunni, ekki hringla með klukkuna.

Svo illa vill til að þegar dag tekur að lengja eftir sólhvörf rétt fyrir jólin, þá lendir lenging dagsins aðallega á síðdeginu en ekki á morgninum. Þess vegna er það rétt sem kemur fram á frétt um Íslendinga úr takt við sólina, að mikið auka myrkur þarf að þola á morgnana allt fram í febrúar en minna myrkur og ekki eins langt fram í febrúar í lok vinnu síðdegis.

Þetta er það mikil skekkja að hún nemur hlutfallslega sem svarar tveimur klukkustundum á vestari hluta landsins.

Og líklega er það rétt að myrkrið á morgnana sé þungbærara sálrænt en síðdegis.

Ég held hins vegar að ekki sé rétt að hringla með klukkuna heldur laga starfstímann eftir aðstæðum.

Að mörgu leyti er hagkvæmt að hafa hér GMT tíma þrátt fyrir þessa skekkju, af því að hún auðveldar samskipti okkar við þær þjóðir sem við skiptum langmest við, þ. e. Evrópuþjóðir.

Ég þekki dæmi um vinnustaði sem færa vinnutímann fram um klukkustund, t. d. milli klukkan 8 og 16 á sumrin í stað 9 og 17.

Ástæðan er sú, að á svona norðlægri breiddargráðu er sólin ekki eins hátt á lofti og sunnar á hnettinum og þetta finnur fólk vel, til dæmis í borgum og bæjum, þar sem byggingar skyggja á sólina og því gott að lengja sólartímanna aðeins síðdegis og fá að njóta hærri sólar lengur.

Vegna hins mikla munar á sólargangi hér á landi á veturna og sumrin ætti að íhuga það að færa vinnutímann til eins og til þarf í átt að líkamsklukkunni, til dæmis með því að seinka upphafi vinnu um allt að tvær klukkustundir frá réttum sólartíma frá 15. nóvember til 15. febrúar, færa hana að réttum sólartíma frá 15. september til 15. nóvember á haustin og 15. febrúar til 15. apríl á vorin en fara síðan á GMT tímann, sem nú er hér á landi frá 15. apríl til 15. september.  


mbl.is Íslendingar úr takti við sólina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Það kemur á sama stað út, en það er einfaldari framkvæmd að breyta klukkunni. Að öðrum kosti þarf að endurskoða alla starfssamninga er tilgreina vinnutíma miðað við stundir dags.

Brjánn Guðjónsson, 7.2.2013 kl. 21:57

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Mér finnst óskaplega notalegt að koma heim úr vinnunni í björtu eins og í dag og er nákvæmlega sama þó ég fari í vinnuna í myrkri

Í Almanak Háskólans er fjöldi af töflum (sólargangur, sjávarföll, ...) sem þurfa að vera réttar. Við hvað á að miða þær ef tíminn er á sífelldu flakki vor og haust? Á að hafa töflurnar breytilegar eftir vetrartíma og sumartíma (getur verið varasamt og valdið misskilningi) eða festa þær á GMT, sem líka getur valdið ruglingi... Svo eru það alls konar sjálfvirk mælitæki og skráningarbúnaður sem eru með tímastimpluðum gögnum, tölvur og tól. Það er mikið óhagræði af breytilegri klukku í því sambandi. Bara af þeim sökum er miklu betra að vera með fastan tíma allt árið.

Hugsum okkur ef við þurfum að breyta, vor og haust, öllum klukkum og úrum á heimilinu, klukkunni í tölvunum, eldavélinni, gemsanum, myndavélunum, bílnum, o.s.frv.    

Börn og unglingar eru syfjuð á morgnanna vegna þess að þau fara of seint að sofa. Nú ef ekki er hægt að koma krökkunum tímanlega í bólið, þá á bara einfaldleaga að byrja skólann klukkutíma seinna á morgnanna. Þannig náum við nákvælega sama árangri og með því að breyta klukkunni, auk þess sem það hefði mjög góð áhrif á umferðarþungann sem er í hámarki um klukkan 8.

Svo má bæta því við, að á mínum vinnustað er sveigjanlegur vinnutími. Sumir mæta klukkan 7, flestir um 8 og enn aðrir rúmlega 9. Svo hætta menn í lok vinnudags missnemma í samræmi við það...

Sem sagt, fyrir alla muni, ekki fikta í klukkunni.

Ágúst H Bjarnason, 7.2.2013 kl. 22:41

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

1. gr. Hvarvetna á Íslandi skal telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich."

Lög um tímareikning á Íslandi nr. 6/1968


Tóku gildi 7. apríl 1968 kl. 01.00.

Þorsteinn Briem, 8.2.2013 kl. 07:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband