Aftur til 1930,1950 og 1998 ?

Áður en rokið verður í að reisa að nýju áburðarverksmiðju á Íslandi væri ágætt að huga að því, af hverju sú, sem hér var í hálfa öld, var lögð niður.

Var það eingöngu vegna geðþótta eða var það vegna þess að hún var ekki samkeppnisfær við erlenda framleiðslu?

Mig grunar að hið síðarnefnda hafi verið ástæðan og ef svo er, vaknar spurningin um það hve langt eigi að ganga í reisa hér verksmiðjur sem reknar verði með tapi eða óviðunandi litlum aðri.

Þegar heimskreppan skall á 1930 brugðust þjóðir heims þannig við henni að þær reistu tollamúra og innanlands efnahagskerfi sem gerði þeim kleift að komast hjá því að þurfa að "eyða gjaldeyri" til þess að flytja inn iðnaðarvörur, matvöru og ýmsar aðrar nausynjar. Þetta var gert í griðarmiklum mæli hér á landi.

1950 var ákveðið að reisa sementsverksmiðju og áburðarverksmiðju hér á landi og var hinum miklu fjármunum, sem fólust í Marshallaðstoðinni, varið í það og auk þess til að reisa Írafossvirkjun í Soginu.

Um 1960 var ljóst að hin mikla haftastefna og gjaldeyrishöft höfðu lamandi áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar og Viðreisnarstjórnin beitti sér fyrir því að losa um þessi höft og ganga í EFTA.

Í framhaldinu lagðist að vísu af hér á landi margs kyns iðnaður, en hagræðið af frjálsum viðskiptum og því að nýta sér verkaskiptingu þjóðanna var mun meira.

Framsóknarmenn voru við völd bæði 1930 og 1950, í síðara skiptið í helmingaskiptastjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í lok aldarinnar tóku þessi flokkar upp á því að keyra í gegn orkuframkvæmdir sem stóðust ekki almennar kröfur um arðsemi til þess að þjóna þröngum skammtímaatvinnusjónarmiðum afmarkaðrar byggðar þar sem um 1% þjóðarinnar býr.

Þessir flokkar virðast afar hallir undir sovéskar lausnir, sem er furðulegt, af því að annar kennir sig við fjrálsan markað og hinn telur sig í hópi frjálslyndra flokka.

Áður en sagt er að það sé þjóðráð að reisa hér áburðarverksmiðju að nýju vil ég sjá að hægt sé að reka hana með viðunandi hagnaði. Ég óttast að Framsóknarmenn hafi ekki farið í gegnum það dæmi heldur séu þeir komnir aftur á svipað ról og 1930, 1950 og 1998.


mbl.is Vilja íslenska áburðarverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Þegar áburðarverksmiðjan var lögð niður undir stjórn Framsóknarmanna var gengi óhagstætt öllum iðnaði á Íslandi. Áburðarverksmiðjur nota að mestu rafmagn til framleiðslunar. Yara er eitt stærsta fyrirtæki Noregs og framleiðir áburð og getur keppt við Pólverja sem þurfa að nota kol eða gas við framleiðsluna. Íslendingar ættu sömuleiðis að getað flutt út áburð ef efnahagsstjórn væri í lagi. Framsóknarmenn ættu að berjast fyrir því að einstaklingar eða almenningshlutafélag stæðu að verksmiðjunni. Ríkið á ekki sem slíkt að reka áburðarverksmiðju.

Sigurður Antonsson, 10.2.2013 kl. 15:37

2 identicon

Það eina sem hægt er að framleiða í áburðarverksmiðju hér er köfnunarefnisáburður.  Hin tvö aðalefnin, kalín og fosfór, verður að flytja inn.  En venjulega er N aðalefnið og kannski borgar þetta sig og kannski ekki.  Kannski borgar þetta sig þegar litið er til alls pakkans, skatta, gjalda, atvinnu, ruðningsáhrifa etc., þótt jafnvel væri unnt að fá áburðinn ódýrari í beinum útgjöldum annars staðar.  Og þá vaknar spurning hvort fólkið sem ynni við framleiðsluna gerði eitthvað þarfara annars staðar.  Dæmið er dáltið flókið.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 10.2.2013 kl. 17:05

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Í ársbyrjun 1995 var einkaréttur Áburðarverksmiðjunnar til framleiðslu og sölu áburðar afnuminn og innflutningur á áburði varð frjáls.

Það var nauðsynlegt vegna ákvæðis í EES-samningnum um að samningsaðilar skuldbyndu sig til að sjá til þess að ríkiseinokun á hvers konar verslun mismuni ekki samkeppnisstöðu annarra aðildarlanda."

"Áburðarverksmiðjan var seld í mars 1999 fyrir 1.257 milljónir króna til einkaaðila."

"Reykjavíkurborg samdi árið 2002 við hluthafa Áburðarverksmiðjunnar hf. um stöðvun efnaframleiðslu og kaup borgarinnar á fasteignum og aðstöðu fyrirtækisins fyrir 1.280 milljónir króna."

"Í febrúar 2010 dæmi Hæstiréttur Íslands konu sem býr skammt frá áburðarverksmiðjunni 4,2 milljónir króna í skaðabætur fyrir líkamstjón og örorku vegna mengunar frá verksmiðjunni."

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi

Þorsteinn Briem, 10.2.2013 kl. 17:27

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Áburðarverksmiðjan var lögð niður vegna þess að það var orðið ódýrara að flytja inn áburðheldur en framleiða hann hér.

Núna er aftur orðið ódýrara að framleiða hann hér, og þess vegna er alls ekki galið að ætla að gera einmitt það. Reyndar er það frekar skynsamlegt.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.2.2013 kl. 19:53

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

MATVÆLAÖRYGGI BJARTS Í SUMARHÚSUM NÚ OG ÞÁ.

Meirihlutinn af
fatnaði og matvörum sem seldur er í verslunum hérlendis er erlendur.

Þar að auki eru erlend aðföng notuð í langflestar "íslenskar" vörur, þar á meðal matvörur.

Erlend aðföng í landbúnaði hérlendis
eru til að mynda dráttarvélar, alls kyns aðrar búvélar, varahlutir, tilbúinn áburður, heyrúlluplast, illgresis- og skordýraeitur, kjarnfóður og olía.

"Íslensk" fiskiskip eru langflest smíðuð í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins og þau nota að sjálfsögðu einnig olíu.

Og áður en vélvæðing hófst í landbúnaði hérlendis keyptu "Bjartur í Sumarhúsum" og hans kollegar INNFLUTTA ljái, lampaolíu, áfengi, kaffi, tóbak, sykur og hveiti.

Og hvaða hráefni er notað í "íslenskar" pönnukökur?!

Kexverksmiðjan Frón
notaði eitt þúsund tonn af hveiti og sykri í framleiðslu sína árið 2000 en formaður Framsóknarflokksins heldur náttúrlega að það hafi allt verið ræktað hérlendis og "Bjartur í Sumarhúsum" hafi slegið grasið með berum höndunum!

Leggist allir flutningar af hingað til Íslands leggst því allur 
"íslenskur" landbúnaður einnig af!

Þorsteinn Briem, 10.2.2013 kl. 20:02

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gengi íslensku krónunnar var einungis 0,37% hærra gagnvart evru og 0,31% lægra gagnvart norskri krónu 1. janúar 2008 en 1. janúar 2002.

Og áburðarverksmiðjunni í Gufunesi var lokað árið 2005.

1.3.2005:


Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi lokað

Þorsteinn Briem, 10.2.2013 kl. 21:17

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sigurður Kristján Friðriksson eldri, sem ég hitti í afmælisveislu barnabarns okkar áðan, sagði mér að Norðmenn hefðu "drepið" áburðarverksmiðjuna hér með því undirbjóða á markaðnum, en síðan hækkað verðið aftur þegar markmiðinu var náð.

Ef í ljós kemur að áburðarverksmiðja er þjóðhagslega arðbær og skilar nægu arði til einkaeigenda sinna er sjálfsagt að hún rísi hér ef einhver vill leggja í það fé.

En ég setti spurningamerki við fyrirsögn þessa pistils vegna þess að ég vil fá allar upplýsingar upp á borðið um málið áður en það verði ákveðið bara rétt si svona að reisa hér áburðarverksmiðju með ríkis-handafli.

Ómar Ragnarsson, 10.2.2013 kl. 22:00

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Kaupandi Áburðarverkssmiðjunnar fékk verksmiðjuna nánast á gjafaverði. Í kaupunum voru gríðarmiklar birgðir sem höfðu safnast fyrir á undanförnum árum sem kaupandinn seldi smám saman og þegar síðasti sekkurinn var seldur, hafði hann góðan arð af fjárfestingunni.

Svona var það nú. Einkennilegt að ríkið hafi ekki getað haft meira fé fyrir að leggja þessi starfsemi niður sem einkaframtakið naut góðs af.

Mýmörg dæmi eru um „sósílisma andskotans“ eins og þegar  Síldarverksmiðjur ríkisins og Þormóður rammi voru seldar. Skömmu áður hafði ríkið kostað til gríðarlegrar fjárfestingar vegna endurnýjunar verksmiðjanna sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér síðan fyrir að væru seldar einkaaðilum.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 10.2.2013 kl. 22:29

9 identicon

Þetta eru skemmtilegar umræður.  Ég vann í Áburðarverksmiðjunni frá 1970 til 1986, og þegar hún var gefin sýndu útreikningar að innfluttur áburður yrði ca 15% ódýrari.  Þetta hefði mátt brúa að miklu leiti með betri stjórnun.

Ég heyrði í útvarpi fréttir af sölunni, ásamt verðinu.  Næstu nótt var ég á næturvakt, og taldi þá allar áburðarbirgðir.  Fékk út mun hærri tölu en greiða átti fyrir verksmiðjuna.

Það er áhugavert að frétta af skaðabótum vegna mengunar frá Áburðarverksmiðjunni. Ég bjó í nokkur hundruð metra fjarlægð frá henni í ca 20 ár; og við vorum þar fimm fjölskyldur. Urðum lítið vör við mengun, nema hávaðamengun síðustu árin.  En það gengu sögur um að starfsmenn Gufunes Radio, sem voru mun lengra frá, fengju áhættuþóknun fyrir að vinna svona nálægt Áburðarverksmiðjunni, enda var hún flokkuð sem sprengiefnaframleiðsla hjá tryggingafélögum.

Steini Briem, mér þætti gaman að heyra meir um þetta skaðabótamál.

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 11.2.2013 kl. 08:48

10 identicon

Áburðarverksmiðjan fékkst fyrir gjafafé og var rekin með miklu ríkis-stífelsi um áratuga skeið.
Áburður var hér lengi fram eftir ca tvöfalt dýrari en í nágrannalöndunum, og merkilegt nokk, að það var lengi vel hægt að svæfa þann sannleika. Enda fyrir tíma netsins.
Svo var verksmiðjan seld athafnarmönnum, og salan tók í raun hæsta tilboði ef lagerstaðan var EKKI tekin með í reikningin. Áður hafði komið aðeins lægra tilboð, en muni ég rétt var það á þeim tíma sem sáralitlar birgðir voru til, - lagerinn tæmist jú nánast að vori.
Nýjir eigendur ætluðu sér að halda ballinu áfram, en það kom samkeppni þegar ljóst var hver verðmunurinn var.
Nú var þetta háa verð aldrei endilega svo vegna kostnaðar, heldur vegna óhagræðis og/eða hreinlega okurs.
Orkan í framleiðslu á N fékkst hér á stóriðjuverði, svo að ekki liggur það þar, og P og K (áburður er í grunnin þessi 3 frumefni) þurfti að flytja inn, en það gildir um næstum alla aðra! Mest allt P á heimsmarkaði er frá Marokkó, næstmest frá Rússlandi. K er víðar.
Bæði P og K væri hægt að vinna úr íslenskum auðlindum að einhverju magni, og er skoðandi fyrir það að það er ekki talið langt í að P verði á þrotum.
Norski áburðurinn var ekki sá ódýrasti, heldur sá austur-evrópski, og lá skýringin sú í blöndunaraðferðinni, - s.s. einkorna og fjölkorna. Það var aðeins meiri vinna við dreifinguna á þeim ódýrari.
Og Steini, - þegar við vorum undir Dönum þá var ljósmaturinn mikið til tólg og grútur, og ljáirnir hundónítur og skortur almennur, því að það þurfti jú að borga þetta með útflutningi á þeirra verði, sem og var um kaupverðið.
Að sjálfsögðu er landbúnaðurinn háður innflutningi, líkt og flest annað. Og helmingurinn af því sem þjóðin étur er innflutt, ef mælt er í hitaeiningum muni ég rétt. En....Bjartarnir í Sumarhúsum eru lúnknir við að breyta jarðargróðri í mat á þessu harðskeri, og hafa einstaklega litla ánægju að spandera í aðföng.

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.2.2013 kl. 09:07

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Úr dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2010:

"
I höfðaði mál og krafði Á[burðarverksmiðjuna] hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir 30. september 1998 vegna loftmengunar.

Atvik málsins voru þau að Á hf. ræsti sýruverksmiðju sína í Gufunesi, nálægt heimili I, [
Gufunesvegi 1] en við ræsinguna var hleypt út um 510 kg af ammoníaki í tveimur lotum, í formi heitrar gufu.

Talið var að I hefði leitt í ljós að starfsmenn Á hf. hefðu sýnt af sér saknæma vanrækslu er þeir létu undir höfuð leggjast að vara hana við losun ammoníaks og annarra loftegunda umræddan dag og gefa rangar upplýsingar í kjölfar þess að hún kvartaði fyrst um loftmengun.

Þá var talið nægilega sannað meðal annars með matsgerð dómkvaddra manna, og sérfræðilegri álitsgerð sem hún var reist á, að þessi losun Á hf. hefði valdið I líkamstjóni.

Á hf. hefði mátt sjá fyrir að þessar afleiðingar gætu orðið af hinni saknæmu háttsemi starfsamanna hennar og teldust þær því sennilegar. Fallist var á skaðabótaábyrgð Á hf. og I dæmdar bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku.
"

Þorsteinn Briem, 11.2.2013 kl. 09:18

12 Smámynd: Bjarni Óskar Halldórsson

Sammála Ómari.

Áburðarverksmiðja er kannski hið besta mál en ef svo þá þarf slíkt að byggjast á viðskiptalegum forsendum - ekki pólitískum. Hvað ætlar Framsókn að gera: Ríkisverksmiðja og  einkavinavæðing (aftur) ?. Vonandi tekst "nýrri Framsókn" að slíta sig burt frá þessarri fortíðar þvælu og vitleysu. Svona átti að hverfa endanlega með Valge(r)ði og co.

Bjarni Óskar Halldórsson, 11.2.2013 kl. 09:34

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Eldur kom upp í ammoníaksgeymi í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi 15. apríl 1990.

Í kjölfar þess lýstu íbúar í Grafarvogi áhyggjum sínum af staðsetningu áburðarverksmiðjunnar svo nálægt íbúðahverfi. Og borgarráð samþykkti í apríl 1990 að krefjast þess að rekstri verksmiðjunnar yrði hætt.

Öflug sprenging varð í áburðarverksmiðjunni 1. október 2001.
"

"Sagt var að hús í Grafarvogi hafi nötrað og margir íbúar þar hafi fundið loftþrýstibylgju. Þetta varð til þess að framleiðslu í verksmiðjunni var hætt fyrr en ella."

2.10.2001:


Öflug sprenging í áburðarverksmiðjunni í Gufunesi:


"Sprengingin varð í rafmagnstöflusal í enda húss, þar sem fram fer framleiðsla á vetni og ammóníaki."

"Í fyrstu var talin mikil hætta á loftmengun vegna sprengingarinnar en vindátt var hagstæð og stóð vindur á haf út."

Þorsteinn Briem, 11.2.2013 kl. 09:53

14 identicon

Alltaf er það skondið að sjá, eins og Steini bendir á "lýstu íbúar í Grafarvogi áhyggjum sínum af staðsetningu áburðarverksmiðjunnar svo nálægt íbúðahverfi" en hvort kom á undan, ibúðabyggð eða verksmiðja. Hver man eftir brunanum í Ísaga á Rauðarárstíg ? Eftir hann kom upp umræða að það væri skelfilegt að slíkur iðnaður væri inní íbúðahverfi, enginn nefndi að þegar byggt var þá var hún lang upp í sveit. Eftir brunann var ákveðið að byggja að nýju og nú langt frá byggð, nú uppá Ártúnshöfða, enn bíddu við hvað hefur gerst, iðnaðarhverfi þétt að til suðurs og íbúðarhverfi rétt norður af. Það er ekki fyrirtækjunum að kenna að borgarskipulagið þrengi að verksmiðjum.

Kjartan (IP-tala skráð) 11.2.2013 kl. 11:50

15 identicon

Ég hélt að Steini vissi betur. Hvort kom á undan hænan eða eggið.....
Hver ber ábyrgðina þegar íbúðarbyggð sækir inn á svæði þar sem sver iðnaður er í gangi og hefur verið um gott skeið.
Það kemur kannski linkur um framrás höfuðborgarbyggðarinnar s.l. 60 ár?

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.2.2013 kl. 12:56

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Reykjavíkurborg samdi árið 2002 við hluthafa Áburðarverksmiðjunnar hf. um stöðvun efnaframleiðslu og kaup borgarinnar á fasteignum og aðstöðu fyrirtækisins fyrir 1.280 milljónir króna."

Þorsteinn Briem, 11.2.2013 kl. 13:04

17 identicon

Samkvæmt fréttum, síðast á síðu Haralds Sigurðssonar jarðfræðings, er ekki nema birgðir í heiminum á Fosfori sem mikilvægasta efni í áburðarframeiðslu til ca 30ára og þá verða þær búnar. Áburðaverksmiðjan myndi þá verða sjálfhætt.

Það sem íslendingar þurfa að gera fljótlega að nyta allan saur og lífrænan úrgang til að búa til úr honum áburð, í staðin fyrir að dæla honum út í sjó.

albert (IP-tala skráð) 11.2.2013 kl. 15:53

18 identicon

Svo er rétt að benda mönnum sem vilja reisa þessa verksmiðju að hún býr ekki til nein störf.

Þegar við sem unnum þarna árin áður en henni var lokað munum að verksmiðjan var nánast orðin sjálfvirk og unnu aðeins nokkrir kallar þarna og sölufólk á skrifstofunni. 

Steini Brím, ástæðan fyrir því að konan fékk bætur eru vegna þess að dómarinn trúði þessu bulli í henni, viltu útskýra, hvers vegna starfsmenn sem unnu þarna  alla sýna starfsævi hafi náð háum aldri, sumir, unnu við að byggja hana og unnu síðan næstum því þangað til henni var lokað. Og hvers vegna erum við sem önduðum að okkur ammoníaki í miklu, miklu, miklu,hærri styrk við fína heilsu?

albert (IP-tala skráð) 11.2.2013 kl. 16:25

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Úr dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2010:

"Í ljósi fyrra heilsufars aðaláfrýjanda og matsgerðar dómkvaddra manna, og sérfræðilegrar álitsgerðar sem hún er að hluta reist á, og staðfest var fyrir dómi af þeim er hana ritaði, er nægilega sannað að hinn varanlegi miski og varanlega örorka aðaláfrýjanda, sem áður greinir, verði rakin til þess að hún andaði að sér ammoníaki og öðrum lofttegundum sem gagnáfrýjandi ber ábyrgð á að fóru út í andrúmsloftið við ræsingu og endurræsingu sýruverksmiðjunnar 30. september 1998."

Ég geri ráð fyrir að fólk þoli misjafnlega vel að anda að sér ammoníaki, rétt eins og fólk þolir til að mynda tóbaksreykingar misjafnlega vel.

Sumir eru með ónýt lungu eftir reykingar í örfá ár en aðrir eru með lungu eins og barn eftir margra áratuga reykingar.

Þorsteinn Briem, 11.2.2013 kl. 17:15

20 identicon

Semsagt, - hún hefði ekki verið vel sett í Ruhrhéraðinu, hvað þá í frystihúsi. Leggja bæði niður strax!

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 09:05

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

21.2.2012:

"Greint var frá því í fréttum í morgun að tveir starfsmenn HB Granda á Vopnafirði hafi verið fluttir til Akureyrar, þar eð ammoníaksleka varð vart í fiskiðjuveri félagsins í gærkvöldi."

Vopnafjörður - Ammoníaksleki í fiskiðjuveri HB Granda

Þorsteinn Briem, 12.2.2013 kl. 10:24

22 identicon

Ég hef unnið þar sem var helv. pest af þessu. Það var í frystihúsi. Varð nú ekki var við nein alvöru óþægindu utan við lyktina.
Þetta er rokgjarnt og fljótt að fara ef það kemst út úr lokuðu rými.
Aldrei fann ég svo mikið sem ögn af ammoníakslykt þegar ég kom í Áburðarverksmiðjuna.

Annars er svo sem nóg af algjörum óþverra í loftinu, t.d. Svifryki, brennisteinsgufum o.fl.

Sú fýla sem maður finnur helst í Reykjavík er bílabræla og svo hin ný-ábætta pest af Hellisheiði. En mitt glögga nef fann aldrei lykt af Gufunesi utan smá sorpdaun.

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband