Okkur Helgu verður ekki haggað.

Það er rétt hjá þeim á Smartlandi að Valentínusardagurinn er innfluttur dagur. En það eitt nægir ekki til að hrinda honum úr þeim sessi sem hann hefur fengið síðustu árin, því að flestir aðrir tyllidagar okkar eru líka innfluttir.

Má þar nefna morgundaginn og þrjá næstu daga á eftir honum, bolludag, sprengidag og öskudag, sem allir eru tengdir kaþólskri trú, en Ísland hafði verið byggt af ásatrúarfólki mestan part í meira en 130 ár samfleytt þegar kristin trú með sínum merkisdögum var innleidd hér.

Sprengidagurinn samsvarar kjötkveðjuhátíð kristinna suðrænna þjóða. Einnig má nefna helgidaga páska, uppstigningardag, 1. maí og hvítasunnudagana.

Jólin mega hins vegar teljast heiðin hátíð í bland, þar sem hækkun sólar á ný var fagnað fyrir komu kristni til landsins.

Og Þorláksmessa, sumardagurinn fyrsti, 17. júní, frídagur verslunarmanna, dagur íslenskrar náttúru og dagur íslenskrar tungu eru íslensk fyrirbrigði.

Úr því að enginn íslenskur dagur elskenda var til og hvorki bóndadagur né konudagur helgaður nema öðru kyninu held ég að héðan af verði Valentínusardeginum ekki haggað.  

Og jafnvel þótt honum yrði vikið til hliðar og annar eða enginn kæmi í hans stað verður 14. febrúar sami tyllidagur hjá mér og Helgu konu minni og hann hefur verið árlega frá því að við hittumst fyrst 14. febrúar 1961.

Við vissum ekki þá og ekki fyrr aldarfjórðungi síðar að þetta væri Valentínusardagur þótt lagið "My funny Valentine" væri eitt af eftirlætislögum okkar.


mbl.is Valentínusardagurinn ekki allra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Einhver mesta bjartsýni sem erlendan ferðalang sem hingað kom, var þegar hann var staddur vestur á Fjörðum á sumardaginn fyrsta og varð áhorfandi að hátíðarhöldum í tilefni dagsins. Skrúðganga var um þorpið og mikil þótti erðamanninum bjartsýni Íslendinga vera mikmil þá þeir gengu syngjandi „Nú er sumar, gleðjist gumar“ og klofuðu snjóinn upp í mitti!

Guðjón Sigþór Jensson, 10.2.2013 kl. 22:40

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Minnir á ummæli Jónasar heitins stýrimanns, sem sagðist undrast þá bjartsýni Íslendinga að halda útihátíðir. Það væri eins og þeir héldu að það ringdi aldrei nema 17. júní!

Ómar Ragnarsson, 10.2.2013 kl. 23:23

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vorið byrjar alltaf 1. mars í Rússlandi en þann dag var ég í þrjátíu stiga frosti í Moskvu.

Alþjóðlegur dagur kvenna
, 8. mars, er frídagur í Rússlandi en nú er þar mikið selt af kortum í tilefni af Valentínusardeginum, 14. febrúar.

"Víðast hvar í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum eru árstíðirnar taldar jafnlangar, vetur er þá desember til febrúar, vorið mars til maí o.s.frv."

"Sumardagurinn fyrsti er hluti af misseristalinu, sem tíðkast hefur hér á landi frá landnámi. Árinu er þar skipt í tvo nærri jafnlanga helminga: sumarhelming og vetrarhelming.

Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum, því sumarið - frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin, er einmitt hlýrri helmingur ársins en veturinn sá kaldari.


Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við. Þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa."

Sumardagurinn fyrsti 1949-2005 - Veðurstofa Íslands


Alþjóðlegur dagur kvenna 100 ára

Þorsteinn Briem, 10.2.2013 kl. 23:42

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útihátíðir er hægt að halda í nánast hvaða veðri sem er, eins og dæmin sanna, til dæmis í Vestmannaeyjum.

Þorsteinn Briem, 11.2.2013 kl. 07:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband