Dæmalaust. Allt spilast upp í hendurnar á Sigmundi Davíð.

Dæmalaust ástand hefur skapast í íslenskum stjórnmálum, ef marka má könnun MMR: Helmingur stjórnmálaafls, sem hefur verið langstærsti flokkurinn í 90 ár, eða 15% allra kjósenda, ætla að rústa fylgi síns flokks og lyfta öðrum flokki í staðinn upp í hans sess, - vill frekar kjósa öflugan formann þess flokks en veikan formann síns flokks!

Allt spilast upp í hendurnar á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem hefur tekist að stjórna umræðunni þannig fyrir þessar kosningar, að allir aðrir hafa orðið eins og strengjabrúður hans.

Meira að segja þegar átti að sauma að honum í viðtalsþætti í sjónvarpinu í gærkvöldi, gerðist einmitt það sem kom Sigmundi Davíð best: Allur þátturinn fór í eina málið sem hann hefur gert að sínu aðalmáli. Og til að kóróna allt var síðan í lokin farið að tala við hann eins og hann væri þegar orðinn forsætisráðherra! 

Og til að bæta enn gráu ofan á svart var umræðuefnið sem Sigmundur Davíð elskaði, orðið svo geirneglt, að þegar hann sagði, eins og oft áður, að mjög miklu skipti að "auka útflutningstekjur", var ekki frekar nú en fyrri daginn fylgt eftir með því að spyrja: Meinarðu Helguvík og stóriðju- og virkjanaframkvæmdir?

En miðað við Helguvíkurmálið er það, hve miklir peningar fást út úr vogunarsjóðum, smámál, því að fyrir liggja yfirlýsingar Norðuráls um það að álver í Helguvík verði að vera minnst 360 þúsund tonn ef það á að verða arðbært, en slíkt risaálver myndi þurfa 625 megavött og þýða, að allt svæðið frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið yrði njörvað niður í samfellt svæði virkjanamannvirkja.

Og stór hluti virkjananna yrði með hreinni rányrkju á kostnað komandi kynslóða, auk gríðarlegra náttúrufórna, líka á kostnað þeirra. Háhitavirkjanir, sem endast aðeins í 50 ár, eru hrein rányrkja.

1971 tókst nýju framboði Hannibals Valdimarssonar að fella ríkisstjórn með því að gera eitt mál, Landhelgismálið, að aðalmáli kosninganna ásamt dyggri aðstoð þáverandi stjórnarandstöðu.

Og alveg eins og nú, skipti engu, þótt þáverandi ríkisstjórn benti á góða frammistöðu sína við að vinna úr mesta aflabresti sögunnar þannig að þjóðin væri aftur að rétta úr kútnum.

Hannbal tókst þó hvorki að búa til nýjan stærsta flokk þjóðarinnar né að verða forsætisráðherra.

Framsókn tókst að endurnýja lið sitt svo mjög núna, að tekist hefur að breiða yfir afgerandi þátt flokksins í að skapa grundvöllinn sem olli Hruninu. Og ekki bara það, heldur leggja grundvöll að því að gera þetta bara aftur! Fólkið þráir 2007 aftur!

Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar með "lík í lestinni" og það fleiri en eitt. Skoðanakönnunin sýnir það sem ég hef margheyrt hjá áður staðföstum Sjálfstæðismönnum í allan vetur. Eina von Bjarna og flokksins er að gamlir fylgjendur kjósi hann af vorkunnsemi þegar komið er í kjörklefann. En fólk kýs yfirleitt ekki leiðtoga af vorkunnsemi.

Og meira að segja dauði Thatchers kemur á versta tíma. Bloggarar þegar farnir að segja að Hanna Birna hefði ekki þorað það sem Thatcher þorði; að hjóla í formanninn !   


mbl.is Fylgið myndi aukast ef Hanna Birna væri formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Við Logi Ólafsson vorum vart komnir af fermingaaldri þegar við hófum að kenna á íþróttanámskeiðum í Garðabæ. Við þáðum aldrei nammi af krökkunum og hvöttum þau frekar að fá sér ávexti. (Við vorum fyrstu næringarfræðingarnir) Á einum heitasta sólardeginum eitt sumarið gengum við fram hja Kaupfélaginu í Garðabænum í hádegishléinu. Þá komu þrír strákar hlaupandi til okkur. Við gerðum undantekningu og þáðum ís frá einum þeirra. Eftir nokkra stund segir Logi. Hvað við Siggi erum heppnir að þú skyldir kaupa aukaísa. Þá svaraði annar fyrir vin sinn. Kaupa, hann stal 2 til viðbótar. Næstu bitar af ísnum, brögðuðust ekki eins vel og þeir fyrstu.

Sigurður Þorsteinsson, 11.4.2013 kl. 06:54

2 identicon

En fróðlegt væri að vita hvaða skoðun fólk hefur á vindorkuvirkjunum.

http://www.survey-xact.dk/LinkCollector?key=WJ9ZWHGF9KCJ

Endilega rennið í gegnum þessa könnun, tekur tvær til þrjár mínútur.

Birkir R (IP-tala skráð) 11.4.2013 kl. 07:00

3 identicon

Haltu bara áfram að hæla stjórninni og vorkenna bönkunum Ómar. Þeir eiga svo bágt að þeir eiga bágt með að fara að lögum. Þess vegna spilast allt upp í hendurnar á þeim. Hvað vill fólk meira?

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1200400/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.4.2013 kl. 09:18

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við því öllu hugur hrís,
hann fær ætíð gefins ís,
Íslands aldrei kúrinn kýs,
klón er Sigmundur úr SÍS.

Þorsteinn Briem, 11.4.2013 kl. 14:46

5 Smámynd: Sverrir Stormsker

Þetta var líka sagt um George Best; að allt spilaðist uppí hendurnar á honum...eða uppí fæturnar á honum öllu heldur. Það var hinsvegar hann sem sólaði andstæðingana og kunni að halda boltanum límdum við lappirnar á sér og lesa leikinn og skora. Hann var einfaldlega klárasti maðurinn á vellinum. Sigmundur er ekki að negla í lappirnar og punginn á andstæðingum sínum einsog þeir eru að reyna að gera við hann. Hann spilar fair game. Og skorar. Það má kannski segja að hann sé "heppinn" að því leyti að hinir flokkarnir gera lítið annað en að skora sjálfsmörk, en það er ekki honum að kenna. Boltinn yfir til þín

Sverrir Stormsker, 11.4.2013 kl. 14:46

6 identicon

Ís,

frýs

Plís

 Ekki meiri klón úr Sís.

Finnur (IP-tala skráð) 11.4.2013 kl. 14:54

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

21.8.2011:

"Til að veita mér aðhald og í þágu vísinda ætla ég að birta þyngdarmælingu á mánudögum næsta mánuðinn.

Byrjunarstaða: 108 kg.
"

Lokastaða: 150 kg.


Íslenski kúrinn - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Þorsteinn Briem, 11.4.2013 kl. 15:02

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

„Þeir fitna mest sem minnst hafa til þess unnið“, - kannski þetta verði vinsælasti málshátturinn sem landsmenn og þar með kjósendur Framsóknarflokksins megi vænta að finna í páskaeggjum sínum að ári.

Góðar stundir en EKKI undir stjórn Framsóknarflokksins. Megi biðja guðina að forða oss frá honum!

Guðjón Sigþór Jensson, 12.4.2013 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband