Er rómverskt skip grafið í sandinum við Hólm í Landbroti ?

Mjög líklegt er að í Róm sé að finna ýmislegt tengt Íslandi sem ekki hefur verið vitað um áður, og að Rómverjar hinir fornu hafi komið meira við sögu hér á landi en vitað er um nú.

Dæmi: Í tveimur íslenskum blöðum, Tímanum og Lesbók Morgunblaðsins, var greint frá merkilegum fundi í landi Hólms í Landbroti, sem er skammt fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur.

Greint er frá þessu nokkuð ítarlega í Lesbókinni 10. apríl 1932, þar sem sagt er frá því að þáverandi þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, hafi í hyggju að leita þá um sumarið að stóru skipi í farvegi Skaftár á mótum hans og lækjarfarvegar.

Runólfur Bjarnason, sem þá hafði falið syni sínum, Bjarna, forræði fyrir búinu, sagði frá því er hann og fleiri úr Landbroti fundu topp á stóru sívölu tré, sem stóð aðeins upp úr sandinum á ská, eftir að Skaftá hafði grafið sig niður þar um stundarsakir.

Skaftfellingar höfðu um aldir komið að strönduðum skipum á söndunum, og til dæmis fór afi minn, Þorfinnur Guðbrandsson, þá 17 ára, í eina af mörgum björgunarferðum þess tíma, og varð að vaða vatnið upp í mitti á leiðinni.

Runólfur Bjarnason sagði svo frá að sér sýndist þetta tré vera efsti hluti af mastri af stóru skipi, sem lægi hallandi á hlið eins og eftir strand.

Þetta gerðist einhvern tíman á áttunda áratug nítjándu aldar og fór hópur manna að trénu til þess að taka það upp. En það var pikkfast. Grófu þeir þá marga metra niður og var tréð því gildara eftir því sem neðar var komið, 30 sm í þvermál efst en 60 sm neðar.

Þegar svo neðarlega var komið var ekki hægt lengur að halda vatnsaganum í sandinum frá og voru leiðangursmenn ekki sammála um það hvað gera skyldi. Fyrst reyndu þeir að losa tréð með því að binda í það og toga í það allir í einu, en það gekk ekki.

Illu heilli var þá ákveðið að saga tréð (mastrið) í sundur eins neðarlega og hægt var og þar með voru örlög þess ráðin sem notadrjúgs viðar en á móti kom að þetta var hið mesta óráð, því að betra hefði verið að binda merkingu í topp mastursins sem hefði staðið áfram upp úr þeim sandi sem áin bar að staðnum, en sandurinn og áin voru sífelldum breytingum háð á þessum stað.

Stubbur mastursins grófst líka á örskömmum tíma niður í sandinn í vatnavöxtum og staðurinn týndist.

Runólfur taldi líklegt að þarna undir væri flak skips sem hefði strandað á sjávarfjöru þegar strandlengjan var á þessum slóðum áður en Skaftárhlaup og stærstu hraunstraumar á sögulegum tíma mannkyns höfðu fært landið langt út.

Jarðfræðingar telja ekki ólíklegt að ströndin hafi legið þarna fyrir 2000+ árum og Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur, telur að út frá forleifafræðilegum forsendum sé líklegra að Rómverjar hafi komið til Íslands fyrir landnám en Írar.

Fleiri siglingaþjóðir fornaldar en Rómverjar höfðu skip, þekkingu og burði til að sigla til Íslands fyrir meira en 2000 árum, svo sem Fönikíumenn og þjóðflokkur einn í Gallíu, sem bjó yfir mikilli siglingatækni.

Út frá þessari frásögn er ég byrjaður út frá 20 ára gamalli hugmynd að skrifa langstærsta bókmenntaverk, sem ég hef lagt í, og hef skrifað grind bókarinnar og nokkra kafla, alls um 100 blaðsíður.

Spurningin er hins vegar sú, hvort nútíma leitartækni geri það mögulegt að finna út gróflega hvaða staður það var, þar sem mastrið fannst, og athuga hvort hugsanlegir málmar í skipinu geti komið fram á leitartækjum, líkt og þegar togari fannst við strönd Skaftafellsfjöru fyrir 28 árum.  


mbl.is Óþekkt gögn um Ísland í Páfagarði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Helvíti er þetta merkilegt, þ.e. með skipið! Þetta skip bara verður að finna. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.4.2013 kl. 22:48

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Ómar, veist af hverju Matthías hætti við áform sín?

Rannsóknir sem gerðar voru í Maryland á sínum tíma, sem til eru á Þjóðminjasafni í gríðarmikilli skýrslu, sýna að gamlir skipaviðir og konstrúktsjónir varðveitast ekki í söndum á Suðurlandi. Því neituðu gullskipsmenn sálugir að trúa. Þeir fengu því gullskipið sitt í formi þýsks síðutogara, sem var furðuilla farinn. Þeim tókst meira að segja að láta Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörð,trúa því að nú væri gullskipið hollenska fundið. Þjóðminjasafnið kríaði nýja bifreið út úr Menntamálaráðuneytinu og var eina stofnunin sem græddi á ævintýrinu.

Ég er sammála bróðursyni þínum um að líklegra sé að Rómverjar hafi siglt af leið og borist til Íslands en Írar. Bjöllur, bækur og baglar sem Ari segir þá hafa skilið eftir eru minni úr helgisögum írskra munka sem þekktar voru á Íslandi sem og annars staðar á 12. öld (á tíma Ara fróða). Rómverskar myntir sem fundist hafa á Íslandi hafa fundist í miklum mæli frá þeim tíma sem land byggðist af norrænum mönnum. Algengar myntir Rómverja sem fundust í jörðu eða á víðavangi voru endurnotaðar sem gangfé eða safnað af forfeðrum okkar sem minjagripir.

Áður en þú líkur við skálsögu þína um Ridiculus, Pedicapus og Iocus á Íslandi og hefðafrúna Afgribbu, sem reistu sér torfvillu austur i Landbroti, og sem eru forfeður og móðir allra rauðhærðra Íslendinga, er ekki sá möguleiki að trjábolurinn hafi borist til landsins með hafstraumum og að bókverk þitt byggi á rekaviði?

FORNLEIFUR, 13.4.2013 kl. 05:04

4 identicon

Rekaldið hefur þá væntanlega verið....siglutré. En hvað varð um það?
Ég á hornstaur úr bæjarhúsi, jafnvel tvo. Það var rifið 1973, en reist á 19. öld, eftir jarðskjálftana, og lappað upp á eftir skjálftann sem var 1912 ef ég man rétt.
Viðir í húsum voru náttúrulega notaðir eins og þeir entust, og það gat verið öldum saman. Ég veit um hurð á hjörum sem er 500 ára gömul eða svo.
Aldrei hef ég heyrt um það að viður sem grefst í framburð skemmist mjög hratt, - þvert á móti. En járn í fjöru, usususssss. Held þó að leitarmenn Het Wapens hafi ekki verið að leita að timbri sko. Og spurning er hvort að hin meinta 16 tonna klukkukopars-kjölfesta þess mælist kannski frekar í nútímanum.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 07:35

5 identicon

Fornleifur, þú segir að timbur endist ekki svona lengi en leggur samt til þá kenningu að þetta hafi verið rekaviður (sem þá hittist svo á að standi upp á endann). Rök þau sem Ómar nefndi fyrir því að skipið hefði strandað fyrir 2000+ árum, byggja á því að ströndin hafi verið miklu innar á þeim tíma. Hafi þetta verið reka viður þá er hann líka frá þessum tíma.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 08:23

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Nei Bjarni Gunnlaugur, vísindamenn frá Bandaríska flotanum í Maryland, sem rannsökuðu sandana þar "gullskipið" átti að vera komust að þeirri niðurstöðu að skip og flök entust ekki lengi í sandinum vegna strauma og hreyfingar. Þar fyrir utan töldu þeir varðveisluskilyrði fyrir timbur í sandinum lélegt. Rekaviður er heldur ekki eins og viður í möstrum. Hann hefur verið "saltaður" í sjó og endist því ágætlega í nokkuð langan tíma í votu umhverfi. Rómverjar notuðu ekki rekavið í skipsmöstur!

Gaman hefði nú verið ef menn sem söguðu bolinn í Landbroti hefðu sagt okkur eitthvað um gerð viðarins. Var þetta eik, Ómar?

FORNLEIFUR, 13.4.2013 kl. 11:55

7 identicon

Það sem mig langaði að tæpa á var það, hvort enn væri eitthvað til af trénu. Þá væri hægt að aldursgreina.
Það kom upp timbur í borun oná þýska togarann, sem lá á 17 m. dýpi muni ég rétt. Það var alveg ferskt.
Og það að halda að siglutré séu ekki "sjóvarin" eins svert og rekaviður, - og það timbur yfirleitt sem liggur í flæðarmáli við suðurströnd lýsir hugmyndasneyð þess sem aldrei hefur smakkað saltbragð á dekki. puhhh.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 14:12

8 identicon

Það væri einnig gaman að vita hjá spekingum á þræði þessum hversu algengar siglingar miðjarðarhafsþjóða voru  vestur í gegn um Gíbraltarsund, og þá annað hvort norður eða suður um. Það er kúnst að komast þar vestur í gegn, því hafstraumurinn er nokkuð sterkur inn á hafið.
Nú spyrja menn sig að því hvort á þessum fornu tímum hafi menn haft skip sem þoldu veður Atlantshafsins. En það vill svo til, að veður innarlega á Miðjarðarhafi geta verið all svakaleg, og snögg til skipta, og gefa í ofsa sínum engu eftir leiðindunum á Atlantshafi. Að sumri til getur gert verri veður á "mare nostrum" en milli Íslands og Færeyja.
Svo er það hitt.....staðsetningarfræði.
Siglingarmenn Miðjarðarhafs á þessum tíma voru mjög vel að sér í því að sigla eftir himintunglum, og þekking þeirra er okkur enn að afjúpast. Frægt er "úrverk" nokkuð sem segir til um afstöðu himintungla (sól-máni & 5 reikistjörnur) og er talið vera frá Rhodos og vel fyrir Krist. Smíðin er þvílík að segja má að Evrópumenn hafi aldrei haft neitt viðlíka á sínum blómatíma nýlendustefnu og heims-siglinga (altso með segli).
En....gagnslaust þegar skýjað er, - þá vantar annað hvort sólstöðu eða mána.
Árangur norrænna manna við siglingar er að hluta til rakinn til leiðarsteinsins fræga, sem gaf sjéns á að sjá sólstefnuna í gegn um ský. Ekki vitum við hvort miðjarðarhafsbúar bjuggu yfir slíku, en á hinn bóginn gefur stundum óskýjaða daga á Atlantshafi, og menn geta verið heppnir jafnt sem óheppnir...
Mér finnst nú reyndar nær alltaf vera tóm "súpa" milli Íslands og Evrópu svona norðar til, og á það við bæði ofan frá og að neðan ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 14:32

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tré þetta gæti verið rekaviður úr bæ sem reistur hefur verið á þessu svæði, til dæmis á Landnámsöld, og allt eins borist töluverða leið með Skaftá.

"Rekaviður þykir endast mun lengur en innfluttur fúavarinn viður.

Ástæðan er sú að á ferð sinni í sjónum sem tekur oft mörg ár síast sjávarseltan inn í viðinn og verður að fyrirtaks fúavörn.

Þess vegna endast hlutir úr rekaviði mun lengur en hlutir úr öðrum viði.
"

"Talið er að fljótin í Síberíu beri rekaviðinn með sér út í Norður-Íshafið og þar nái hann aðalstraumnum frá Beringssundi sem stefnir að norðurheimskautinu, frjósi þar í ísnum og eftir um það bil þrjú ár losni hann á leiðinni milli Grænlands og Svalbarða eða síðar."

Skaftá


Rekaviður - Alþingi 1994

Þorsteinn Briem, 13.4.2013 kl. 15:56

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Æi hætti þessu, Rómverjar á Íslandi er bara vot ESB-hugsýn og viðrekstur, sem Jón Baldvin er meira að segja búinn að gefa upp á bátinn.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.4.2013 kl. 17:18

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég vissi ekki að Rómverska heimsveldið hefði verið í Evrópusambandinu.

Þar að auki er Evrópusambandið og evrusvæðið að minnka en ekki stækka.

Og Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson hefur búið nokkuð lengi í Danmörku, sem er í Evrópusambandinu.

Þorsteinn Briem, 13.4.2013 kl. 17:38

12 identicon

Það sem Steini brím segir er rétt. Margan hef ég staurinn niður-neglt úr reka, - þá síðustu bar á land í Árneshreppi, en áður margann gaurinn úr Landeyjum.
En hitt stendur, að seltan vinnur áfram hvort á úthafi sullast, eða í fjöru er saltblásið.
Og aldrei hef ég séð rekatré sem er með lag siglutrés. Siglutré leynir sér ekki, og ekki verður ruglast á því og rá. Og alls ekki rekaviði.
En gaman væri að vita hvað um drumbinn varð. Gæti enn staðið í byggingu eða sem hornstaur.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 17:41

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þar að auki er Evrópusambandið og evrusvæðið að stækka en ekki minnka, átti þetta að sjálfsögðu að vera.

Króatía
fær aðild að Evrópusambandinu 1. júlí næstkomandi og Lettland og Litháen fá fljótlega aðild að evrusvæðinu.

4.3.2013:


"Lettar sóttu í dag formlega um aðild að evrópska myntsamstarfinu og vonast til að geta tekið upp evru fyrir næstu áramót."

19.2.2013:


"Guardian hefur eftir Butkevicius, forsætisráðherra Litháens, að Litháar stefni að því að sækja um aðild að myntbandalaginu á næsta ári og taka upp evru árið eftir."

Þorsteinn Briem, 13.4.2013 kl. 17:53

14 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Steini Breim, svona er nú að búa í ESB og hefurðu ekki séð nýjustu fréttirnar fá Vilníus, þar sem Jón Baldvin er orðinn að antihero.

Jón Logi, líklegast hafa menn ekki verið eins vel að sér og þú í Landeyjunum. Langt á milli siglutrjáa þar.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.4.2013 kl. 18:11

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Menn gleyma alveg þjóðflokknum í Gallíu, sem ekki þurfti að sigla í gegnum Gíbraltarsund út á Atlantshaf.

Og menn virðast líka gleyma því að Rómverjar sigldu sannanlega til Bretlandseyja og lögðu all stóran hluta landsins undir sig.

Nema það sé líka tómt bull?

Ómar Ragnarsson, 13.4.2013 kl. 18:46

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tré þetta gæti hafa verið lagað til úr rekaviði og notað til að mynda sem mæniás í hús á þessu svæði, til dæmis á Landnámsöld.

Á Landnámsöld
náði ströndin mun nær Hólmi í Landbroti en nú og tréð gæti til dæmis hafa verið flutt frá ströndinni á milli tveggja hesta.

"Mæniás er tré sem notað er að endilöngu í húsmæni og heldur uppi húsþaki."

(Sjá Íslenska orðabók Menningarsjóðs.)

"Landnemar [hér á Íslandi] hafa eingöngu orðið að bjargast við þau byggingarefni sem til voru í landinu en þau voru torf og grjót, rekaviður og skógviður.

Veggir og stafnar húsa voru hlaðnir úr torfi og grjóti - oft eingöngu úr torfi - máttarviðir allir hafa verið rekaviður, en skógviður mun hafa verið notaður í árefti og tróð undir torfþök."

Landnámsbærinn


"Árefti - Langbönd eða (birki)lurkar milli rafta og þekju."

"Tróð - Lyng og (eða) fjalldrapi sett milli torfs og timburs í byggingu til að varna fúa í timbrinu."

"Raftur - Staur í hús-, torfþaki, milli mæniáss og vegglægju (til að halda uppi torfi)."

(Sjá Íslenska orðabók Menningarsjóðs.)

Þorsteinn Briem, 13.4.2013 kl. 18:56

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson,

Danska krónan
, og þar með færeyska krónan, er bundin gengi evrunnar.

Og þúsundir Íslendinga hafa fengið starf í Evrópusambandsríkjunum Danmörku og Svíþjóð undanfarin ár og áratugi.

Pólland
er einnig Evrópusambandsríki og þúsundir Pólverja hafa haldið íslenskri fiskvinnslu gangandi, enda er Evrópska efnahagssvæðið sameiginlegur vinnumarkaður.

Í Evrópusambandsríkjunum býr hálfur milljarður manna. Ísland er hins vegar örlítill vinnumarkaður.

Og Ísland er nú að minnsta kosti 70% í Evrópusambandinu, án þess að taka nokkurn þátt í að semja lög sambandsins.

Þar að auki á olíuríkið Noregur eins og Ísland aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og hefur mjög lítinn áhuga á að segja upp þeirri aðild, rétt eins og Ísland.

Og þúsundir Íslendinga hafa einnig fengið vinnu í Noregi.

Af þeim
33 sem samþykktu frumvarpið um Evrópska efnahagssvæðið voru 23 sjálfstæðismenn, eða 70% þeirra sem samþykktu frumvarpið.

Þorsteinn Briem, 13.4.2013 kl. 19:28

18 identicon

Nú er ég búinn að týna þér mr. Briem.

Tréð var tekið til brúks á ca 20 öld. Er kannski enn í brúki. Það var því væntanlega aldrei mænisás í húsi, standandi upp úr vatni, enda mænisásar viljandi gjörðir allt öðruvísi en nokkru sinni siglutré.

Og hvað með þetta ESB kjaftæði inni á þessum athyglisverða fornleifa-þræði. Það væri nær að leggjast á árina....uuuu.....siglutréð... og reyna að rukka Ómar um það hvað varð um lurkinn!!!

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 18:15

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jón Logi,

Ég var að svara Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni varðandi Evrópusambandið, eins og þú gætir séð ef þú læsir athugasemdir hans númer 10 og 14.

Og ekki gat hann nú sleppt því að uppnefna mig, frekar en aðrir öfgahægrimenn.

Þú hefur náttúrlega aldrei séð tré sem er gildast neðst og tré þetta gæti vel hafa verið rekaviður notaður sem mæniás, til dæmis á Landnámsöld, og allt eins borist töluverðan spöl með Skaftá áður en það fannst í landi Hólms í Landbroti.

"Viður, sem hefur legið lengi í sjó, er orðinn gegndrepa af salti og grjótharður, þannig að ending hans er ótrúleg eins og sjá má í sumum elztu byggingum landsins."

Rekaviður

Þorsteinn Briem, 14.4.2013 kl. 19:49

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Fjósið á Keldum [á Rangárvöllum] er ekki síst forvitnilegt vegna timburgrindarinnar sem heldur því uppi en þar er um að ræða svokallað þríása hús.

Tvær raðir innstafa eru eftir endilöngu húsinu.

Ofan á þeim liggja brúnásar sem skorðaðir eru með vaglbita.

Lóðrétt á vaglinum er lítil stoð, dvergur, sem heldur uppi mæniásnum.

Grindargerð þessa má rekja aftur í gráa forneskju
og hefur ef til vill verið algengasta grindargerðin á þjóðveldisöld."

Landnámsöld
870-930.

Þjóðveldisöld
930-1262.

Keldur á Rangárvöllum - Þjóðminjasafn Íslands

Þorsteinn Briem, 14.4.2013 kl. 23:14

21 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það sem gerir þetta mál sérkennilegt er að tréð stóð á ská upp úr sandinum en lá ekki eins og rekaviður, og að enginn leið var að kippa því upp.

Ómar Ragnarsson, 15.4.2013 kl. 01:28

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tré þetta gæti hafa farið ofan í djúpa gjótu og skorðast þar á milli stórra steina, til dæmis í miklum vatnavöxtum, og sandurinn svo smám saman umkringt grjótið og tréð.

En burtséð frá þessu tré gætu Rómverjar hafa komið hingað til Íslands löngu fyrir Landnámsöldina 870-930, til dæmis frá Britanníu, þar sem nú er England og Wales.

Imperium Romanum - Kort


Og skáldsaga er skáldsaga og engin ástæða til að leggja upp laupana með hana.

"Talið er að suðurströnd Íslands hafi færst fjóra kílómetra suður í Kötluhlaupinu 1918.

Þá myndaðist Kötlutangi sem var syðsti punktur Íslands í nokkra áratugi, uns hafið hafði nagað hann burt og borið efnið vestur með ströndinni og meðal annars bætt vel í ströndina hjá Vík í Mýrdal.

Á landnámsöld
, og allt til 1179, var Hjörleifshöfði að minnsta kosti að hluta umlukinn sjó og fyrir vestan hann var Kerlingarfjörður, hin ágætasta höfn, sem fylltist í Kötluhlaupi árið 1179 (Höfðárhlaupi).

Þessi tvö litlu dæmi sýna hve mikilvirk jökulhlaupin eru í því að mynda sandana á Suðurlandi — Kötluhlaup, Skaftárhlaup, Skeiðarárhlaup — en Katla hefur stundum hlaupið undan Sólheimajökli og myndað þannig Skógasand og Sólheimasand, auk þess sem hún hefur hlaupið niður í Þórsmörk og þannig lagt til aura Markarfljóts.

Þar fyrir utan bera jökulárnar kynstur af framburði til sjávar ár og síð
, frá Hvítá í vestri til Jökulsár í Lóni í austri."

Vísindavefurinn - Hvers vegna er suðurströnd Íslands sandströnd eða sandeyrar frá Djúpavogi að Þorlákshöfn?

Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 04:42

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 05:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband