Kannski sú fjölmennasta í áraraðir?

Í kröfugöngu dagsins í dag bættust að þessu sinni um það bil fimm þúsund þátttakendur í aftasta hluta hennar, sem kölluðu sig Grænu gönguna. Þar voru uppi hafðar alþjóðlegar kröfur um sjálfbæra þróun eða góðyrkju í stað rányrkju og arðráns, kröfur til heilnæms vatns, lofts, hafs og aðgangs að óspilltri náttúru, sem ekki fela aðeins í sér lífsgæði og lífskjör, heldur skapar stóraukin eftirsókn ferðamanna eftir þeim gæðum þúsundir nýrra starfa.

Viðbót náttúruverndarfólksins gerði samanlagða göngu kannski þá stærstu, sem sést hefur 1. maí í mörg ár. 

En fyrst og fremst voru Græn ganga og útifundur helguð einstæðri náttúru Íslands, heimsgersemi sem okkiur ber sem vörslumenn að virða og vernda.   

Athöfn göngumanna á Austurvelli varð mikklu lengri en búist hafði verið við, því að það tók drjúgan tíma að bíða þar eftir göngunni, sem var svo löng, að þegar staðið var á horninu gatnamóta Austurstrætis og Pósthússstrætis sá ekki fyrir endann á henni handan við gatnamót Laugarvegar og Skólavörðustígs.

Enginn átti von á þessari miklu þátttöku og því voru aðeins gerðir eitt þúsund grænir fánar til að stinga niður í klukkustund fyrir framan Alþingishúsið. 

Nú eru stjórnmálaleiðtogar að möndla með málaflokka í stjórnarmyndunarviðræðum og því mátti það ekki seinna vera en að þverpólitísk fjöldahreyfing hvatti þá til að vinna gott starf varðandi umhverfismálin. 


mbl.is Fjölmenn kröfuganga í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var athyglisverður þáttur á RÚV Rás 1 eftir kvöldfréttir í kvöld, þar sem ágætur maður og áheyrilegur fjallaði um lífsgæði í víðasta skilningi þess orðs. Hann dró í efa áherslu verkalýðsforystunnar á hagvöxt og fjölgun starfa ef ekki væri tekið tillit til þanþols náttúrunnar og áhrifa vaxtarins á t.d. verðbólgu. Einnig fór hann nokkrum orðum um beint lýðræði og meiri þátttöku almennings í ákvarðanatöku um þá þætti, sem sköpuðu umhverfi mannlífsins. Það var eitt atriði, sem ég hefði viljað bæta við, en það eru þau áhrif, sem hækkandi meðal lífaldur hefur á lífsgæði fólks. Nú er það svo, að í flestum tilvikum (ekki öllum vel að merkja enda er ekkert absolut) verður lengri ævi ekki til að auka lífsgæði heldur þvert á móti, það er í alltof mörgum tilvikum verið að halda í líf sem er ekkert líf. Svo stynur fólk á góðum aldri undan þeim byrðum, sem eftirlaun og umönnun aldraðra leggur þeim á herðar, hvort sem um er að ræða gegnumstreymiskerfi ellilífeyris, sem í flestum tilvikum tekur sífellt stærri hluta af skatttekjum hins opinbera, ellegar þar sem eru uppsöfnunarsjóðir, sem þurfa sífellt meiri ávöxtun á þá fjármuni, sem þeir taka við, ávaxta og miðla til eftirlauna. Því miður held ég að mannkynið standi frammi fyrir því innan skemmri tíma en okkur grunar, að það þurfi að taka ákvörðun um hversu lengi eigi að leyfa fólki að lifa, eftir að það getur ekki lengur tekið þátt í að skapa verðmæti í samfélögunum. Þetta er mjög erfitt umræðuefni og áreiðanlega fáir, mjög fáir, sem þora að velta þessari spurningu fyrir sér, en mig grunar að við neyðumst til þess fyrr en síðar.

E (IP-tala skráð) 1.5.2013 kl. 20:05

2 identicon

Búsáhaldabyltingin var byrjunin og er farin að sýna árangur.

Viðhorf fólks til beinna aðgerða hefur breyst, vanhæfir fulltrúar vinnuveitenda og launaþega eru sendir í skammakrókinn, ekki lengur respekt og hlýðni.

Mér þætti ekki ólíklegt að búsáhaldabyltingin eigi eftir að marka tímamót í sögu þjóðarinnar.

Valdhafar verða að hlusta og „deliver“.

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.5.2013 kl. 20:09

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það varð bylting í stjórnmálum á Íslandi 27. apríl. Eini sanni stjórmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur haft græna litinn í öndvegi allt frá stofnun 1916, vann byltingarkenndan sigur í Alþingiskosningunum.Þeir flokkar sem aðhyllast öfga í umhvefisvernd og höfðu óspart veifað öfgum sem gera lítið annað en að hrekja fólk til úlanda vegna fátæktar,töpuðu helming fylgis síns.Það er búið að kjósa, öfgum öfgafólks sem heldur sig mest í 101 R, Vík. og er á ríkislaunum var hafnað. 

Sigurgeir Jónsson, 1.5.2013 kl. 20:55

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég vissi ekki að Samfylkingin væri á móti stóriðju.

Þorsteinn Briem, 1.5.2013 kl. 21:10

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Björt framtíð og Vinstri grænir eru grænir flokkar.

Og harla ólíklegt að Píratar séu stóriðjuflokkur.

Björt framtíð - Kosningaáherslur

Þorsteinn Briem, 1.5.2013 kl. 21:24

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í framboðsræðu til formanns á landsfundi flokksins árið 2011 að Sjálfstæðisflokkurinn væri pikkfastur í 36% fylgi og það væri eitthvað sem hún gæti ekki sætt sig við.

Þessi ummæli Hönnu Birnu hafa verið rifjuð upp í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,7% í kosningunum á laugardaginn, sem er næstminnsta fylgi flokksins í sögunni."

Hanna Birna sagði árið 2011 Sjálfstæðisflokkinn pikkfastan í 36% fylgi - Vildi setja markið miklu hærra

Þorsteinn Briem, 1.5.2013 kl. 21:45

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eysteinn Jónsson var formaður Náttúruverndarráðs um árabil og á hans tíma voru fleiri svæði friðuð eða sett á Nátturuminjaskrá en oftast áður eða síðan. Birgir Kjaran var öflugur náttúruverndarmaður.

Steingrímur Hermannsson var síðasti græni formaður Framsóknarflokksins, stofnaði Umhverfissamtök Íslands ásamt Vigdísi Finnbogadóttur og sat síðan í stjórn Landverndar, þar sem Vigdís er verndari. 

Með formennsku Halldórs Ásgrímssonar snerist flokkurinn á punktinum og hefur síðan haft forystu um verstu umhverfisspjöll Íslandssögunnar.  1995 var orka Íslands opinberlega boðin helstu arðránsfyrirtækjum veraldar á "lægsta orkuverði" með "sveigjanlegu umhverfismati." 

Steingrímur Hermannsson var grænn þangað til yfir lauk en frá 1995 er hinn græni litur Framsóknarflokksins eins og sauðargæra á úlfi. 

Nú stendur enn til að virkja 625 megavött í meira en tíu virkjunum allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið á tveimur stöðum fyrir aðeins eitt fyrirtæki sem gefur 0,2% af vinnuafli landsins, fær orkuna á spottprís og flytur tugmilljarða hagnað úr landi á ári hverju. 

Stór hluti virkjananna mun verða hrein rányrkja þar sem djöflast verður svo hratt við að dæla upp gufuorkunni á virkjanasvæðunum, að hún klárast á nokkrum áratugum. 

Ómar Ragnarsson, 1.5.2013 kl. 23:54

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mig langar til að þakka þér Ómar fyrir afburða góða ræðu þar sem þú komst svo mörgu á framfæri.

Það fannst mér einkennilegt að ekki var minnst á Grænu gönguna í fréttum RÚV en sagt frá sértrúarhjópnum Nei við Evrópusambandinu. Sá hópur byggir sína afstöðu að öllum líkindum á miklum misskilningi því sennilega verður hagur heimilanna best tryggður með aðild að Evrópusambandinu. Athygli vakti að öll skiltin voru eins, „verksmiðjuframleidd“ sennilega af einhverjum sem hefur tækifæri til þess. Öðru vísi var með Grænu gönguna sem líktist miklu Búsáhaldabyltingunni þar sem hver og einn kom með sitt heimatilbúna skilti.

En því miður telja sumir landar okkar að hag heimilanna verði best tryggð með sóun á náttúruauðlindum, að fleiri álbræðslur og virkjanir sé það sem stefna ber að. Fullyrða má að blindur leiði blindan, blindgötur stóriðjunnar verða sífellt augljósari en þursinn vill ekkert læra.

Við verðum að fara í sem flestar Grænar göngur til að minna fjölmiðla og stjórnvöld á okkur. Þöggunin er ekki óþekkt fyrirbæri. Eitt dæmi um það má benda á bjargvættinn mikla, Eirík bókavörð í Cambridge, en sýning um ævi og störf hans stendur nú í Landsbókasafni. Reynt var af vissum afturhaldsöflum að strika hann út úr sögunni.

Bestu kveðjur úr Mosfellsbæ

Guðjón Sigþór Jensson, 2.5.2013 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband