Skoðið þið markið hans Hemma í 14:2 leiknum !

Þegar ég sökkti mér á sínum tíma niður í það, sem við fengum frá danska  sjónvarpinu af 14:2 leiknum fræga, sást vel, að það gekk allt upp hjá Dönunum, sem gátu leyft sér að taka við boltanum á lofti úr sendingu vel utan vítateigs og skjóta honum viðstöðulaust í samskeytin. 

Af því að þetta var svona svakalegur tapleikur gleymist hins vegar algert gullmark, sem Hemmi skoraði í leiknum og hægt er að sjá með því að fara inn á ruv.is og skoða samantektina, sem gerð var í lok útsendingar af nokkrum mörkum Hemma.

Í leikhléinu höfðu þeir Hemmi og Helgi Númason rætt um þann möguleika til að skora að þegar þeir væru með boltann á miðju, sendi Hemmi boltann til Helga, þeir hlypu báðir fram og Helgi sendi síðan boltann til Hemma, sem myndi klára þessa einföldustu sókn allra sókna.

Þetta gekk eftir og því miður sást aðdragandinn ekki allur í myndbrotinu í kvöld, en það sést, hvernig Hemmi hefur þetta galdravald á boltanum, sem aðeins snillingar hafa, platar þrjá danska varnarmenn með hárfínum gabbhreyfingum og skýtur síðan "sláttuvélar- ristarskoti í stöngina inn í gegnum glufuna, sem hann var búinn að búa til.

Hemmi var Pele Íslands, þegar hann var upp á sitt besta og átti líka árum saman markametið í landsleik i handbolta, 17 mörk!

Ég sá hann einu sinni vera einn með boltann á móti fjórum varnarmönnum, sem sóttu að honum, og get aldrei gleymt því hvernig hann plataði þá alla þannig að skyndilega var hann kominn í skotfæri og búinn að gabba þá til að hlaupa hver í sína áttina!

Það var ekki tilviljun að ég setti nöfn aðeins þriggja knattspyrnumanna í textann um Jóa útherja, þ. e. Hemma, Þórólfs Beck og Alberts Guðmundssonar.  

Hemmi hefði getað orðið í fremstu röð í hvaða íþróttagrein, sem hann hefði kosið sér, var til dæmis vel liðtækur körfuboltamaður og líka prýðis skákmaður.

Það er afar sjaldgæft að vera búinn jafn miklum og margvíslegum líkamlegum og andlegum hæfileikum og Hemmi var búinn.

Eftir 50 ára samferð í gegnum lífið, allt frá því að Hemmi var 16 ára, sakna ég þessa nána, trygga, skemmtilega og góða vinar míns ósegjanlega mikið.  


mbl.is Slóvenar sóttu þrjú stig í Laugardalinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Samhryggist þér Ómar. Hemmi var snillingur af Guðs náð. Það á enginn eftir að fara í skóna hans.

Pétur Björn Heimisson (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband