Risastóra álftahreiðrið í Folavatni.

Með Kelduárstíflu og Kelduárlóni var sökkt fallegu litlu stöðuvatni með nokkrum grónum hólmum og grónu umhverfi austur af Snæfelli. 

P1010260

Útsýnið frá vatninu er frábært í góðu veðri. Á efstu myndinni sést yfir tvo af hólmunum í átt að austasta hluta Vatnajökuls, Eyjabakkajökli.

Í vestri blasir Snæfell við á myndunum hér fyrir neðan.

Fjölbreytileg nes prýddu þetta yndislega vatn og hólmarnir voru ólíkir.  

Drekking vatnsins í aurugt miðlunarlón var hluti af svonefndri Hraunaveitu, sem var hluti af Kárahnjúkavirkjun, en féll í skuggann af stóru stíflunum við Kárahnjúka.

Þó er Kelduárstífla 1600 metra löng og ein af stærstu stíflum landsins.  

Lengi vel stóð ég í þeirri meiningu að í þessari miklu hæð yfir sjó hlyti vatn eins og Folavatn að vera í gróðurvana umhverfi.

Annað kom í ljós þegar ég fór að skoða það. Allt umhverfis vatnið var gróður og þrír grösugir hólmar í því.

P1010431

Ég fékk lánaðan litla eins manns gúmmítuðru, ætlu til nota í sundlaugum, og reri út í hólmana.

Undrun mín varð mikil þegar ég kom í austasta hólmann.

Þar var langstærsta álftahreiður, sem ég hef séð, um 5 metrar í þvermál og mannhæð á hæð.

P1010377

Ég ræddi við fuglafræðing um þetta og taldi hann líklegt að þetta sama hreiðurstæði hefði verið þarna lengi, jafnvel öldum saman, kynslóð fram af kynslóð.

Vísindamenn, sem rannsökuðu Folavatn, töldu lífríki þess um sumt einstakt.

Það var léttvægt fundið og þrátt fyrir mikla baráttu mína fyrir því að Folavatni yrði þyrmt með því að láta Kelduárlón fara örfáum metrum hærra, var þessu ógleymanlega vatni fórnað.

Eftir standa nokkrar ljósmyndir og kvikmyndir, sem ég tók af því í ferðum mínum þangað.

Í síðustu ferðinni kom gat á gúmmítuðruna og mátti ég þakka fyrir að hún sökk ekki áður en ég næði landi.

Hún var orðin fyndin í laginu, tuðran, þegar komið var að bakkanum, - minnti á gervinefið á inspector Clouseau (Peter Sellers) sem var að bráðna, aflagast og leka níður í ógleymanlegri tanndráttarsenu hans og Herberts Lom.  

Aldrei þessu vant hafði ég gleymt að fara í björgunarvesti á leiðinni út í álftahólmann og hefði þess vegna getað drukknað í þessari síðustu ferð.

Ef það hefðu átt að verða örlög mín að farast við töku myndarinnar um Örkina, hefði ég varla geta valið mér flottari stað, - með þetta fallega fjallavatn og álftahólmann í baksýn og Snæfelli á höfði í bláma þess.  

Þess má geta, að í myndunum "Á meðan land byggist" og "In memoriam?"frá árinu 2003 er ekkert sýnt af því gríðarlega umróti sem virkjun Jökulsár í Fljótsdal hafði í för með sér, því að framkvæmdirnar austan Snæfells, svonefnd Hraunaveita, hófust ekki fyrr en eftir að búið var að umturna svæðinu sunnan Kárahnjúka.

Aðeins eru sýndir tveir stórfossar og nokkrir aðrir fossar í Jökulsá í Fljótsdal, sem voru á aftökulistanum ásamt tugum annarra vegna Hraunaveitu.

Ég fór til Akureyrar í dag vegna sýningar á "In memoriam?" í Hofi á fimmtudagskvöld.

Síðan myndin, sem upphaflega var gerð fyrir erlendan markað, var frumsýnd í Reykjavík fyrir rúmum mánuði hefur enn eitt tíu ára afmælið bæst við frá árinu 2003, árinu sem menn vilja endurlífga aftur með plús 600 megavatta virkjunum frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið handa 360 þúsund tonna álveri í Helguvík.

Það eru um tíu ár síðan Hellisheiðarvirkjun var komin á fullan skrið samhliða Kárahnjúkavirkjun og Heillisheiðarvirkjun heldur sjálf upp á afmælið með því að vera daglega í fréttum.


mbl.is Litið í hreiðrið hjá Svandísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og þú bendir réttilega á Ómar féllu þessar stórframkvæmdir á Hraunum í skuggan af öðrum hryðjuverkum á þessu svæði. Þetta er við dyr Eyjabakka og með stíflugerð og lónum hefur þessu svæði verið rústað og merkilegu lífríki með náttúrufegurð slátrað. Ekki aðeins á þessu nærsvæði, líka ám sem safnað hefur verið í göng af þessu svæði og þar með fallegum fossum sem með þessu hafa verið þurrkaðir út ásamt einstæðu lífríki sem þrífst við náttúruleg skilyrði.

Ég átti þess kost að ganga niður með Kelduá frá upptökum og niður í byggð áður en hún var þurrkuð út og það er ekki ofmælt að ég hreifst í nánast í hverju skrefi af fegurð árinnar ásamt einstæðu gróðurfari langt út fyrir bakka hennar svo ég tali nú ekki um alla fallegu fossana á þessari leið.

Mikið vildi ég að þetta svæði hefði verið betur kynnt og með ódýrum framkvæmdum verið gert aðgengilegra áður en ráðist var í þessi ósköp fyrir vafasaman ávinning.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 12.6.2013 kl. 20:59

2 identicon

Ég má til með að bæta við að það er ekki við þig að sakast Ómar, hvorki sem fréttamanns né baráttumanns gegn óaftrkræfum náttúruspjöllum, að einstæð náttúra hafi ekki verið kynnt áður en ráðist er gegn henni með tilliti til komandi kynslóða og okkar sjálfra. Þarna eiga stjórnvöld sök sem í stóriðjublindni sinni hafa tekið afdrifaríkar ákvarðanir án tillits til álits virtra vísindamanna, hagfræðinga og heitra tilfinninga fólks. Dæmigert ofríki gegn lýðræði.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 12.6.2013 kl. 21:54

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Því miður virðist þjóðin ekki hafa lært neitt af þeim mistökum sem alltaf var vitað að voru gerð með bestu vitund þeirra sem ákvörðun tóku um þessar óheillaframkvæmdir. Og nú vill næsta kynslóð virkjanavillinganna nýjan hernað gegn landinu. Byrjað er á að leggja Umhverfisráðuneytið niður og rífa niður Rammaáætlun.

Þetta byrjar í Bráðræði og endar í Ráðaleysu.

Guðjón Sigþór Jensson, 12.6.2013 kl. 22:08

4 identicon

Í gærkveldi sá ég myndina þína In memoriam? hér á Akureyri. Mögnuð mynd, takk fyrir. Meðan á sýningu stóð datt mér í hug eftirfarandi bæn eða ákall til þín:

Þegar kallið hinsta hljómar

og herrann segir „fylg þú mér“

– viltu ganga aftur, Ómar?

Enginn kemur líkur þér.

DHH

Davíð Hjálmar Haraldsson (IP-tala skráð) 14.6.2013 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband