Stríðsárin fá smám saman uppreisn, - og þótt fyrr hefði verið.

Það er vel að loksins nú fái merkir atburðir og minjar um stríðsárin þá virðingu sem þeim ber. En því miður hafa glatast mikil verðmæti þá áratugi sem bagalegt sinnuleysi hefur ríkt um þau. 

Til dæmis er mikið verk óunnið hér í Reykjavík, til dæmis á flugvallarsvæðinu, í þessu efni.

Í samkeppni um skipulag Öskjuhlíðarinnar í fyrra fengu hugmyndir um varðveislu og notkun minja um stríðsárin brautargengi en eftir er að hrinda þeim í framkvæmd.

Ýmsar merkilegar flugvélar stríðsáranna fóru forgörðum á sínum tíma og litlu munaði að gamli flugturninn yrði rifinn.

Því miður var vatnsturninn á Kaldaðarnesflugvelli felldur fyrir rúmum áratug, en Kaldaðarnesflugvöllur gegndi mjög mikilvægu hlutverki áður en Keflavíkurflugvöllur var kominn í gagnið.

Til dæmis var það flugvél frá Kaldaðarnesflugvelli sem áorkaði því að færa fyrsta þýska kafbátinn til hafnar hjá bandamönnum.   

Ég kom við að Hnjóti í Patreksfirði í fyrradag og það er skömm fyrir Reykvíkinga að þar, langt fjarri höfuðborginni, verið viðhaldið merkum munum frá Reykjavíkurflugvelli á stríðsárunum, svo sem gasknúnum brautarljósum og ýmsum munum úr flugturninum gamla auk flugskýlisins, sem stóð í Vatnagörðum þar sem nú er Sundahöfn, en var á fjórða áratugnum stærsta bygging á Íslandi.

Því merkara var starf Egils Ólafssonar á sinni tíð við að bjarga verðmætum, sem annars hefðu farið í súginn.

Hermálið var heitasta langtímadeilumálið á Íslandi frá 1940 til 2006 og þjóðin skiptist í tvær fylkingar.

Kannski var það ein af ástæðunum fyrir fálætinu um herminjar hér á landi, - málið var svo viðkvæmt.

Nú ætti það að vera liðin tíð, enda fálætið búið að valda nógu tjóni.  


mbl.is Stórviðburðar minnst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Merkilegt með þetta flugskýli sem var í Vatnagörðunum. Það var byggt 1930-31 . Hýsti síðar sjóflugvélar Loftleiða . Þó held ég að Catalinu flugvélarnar hafi ekki haft þar aðstöðu a.m.k ekki að ráði Þær voru í Skerjafirði . Þekkti mjög vel til þessa flugskýlis, enda náinn nágranni þess frá 1947-1953. Það var um tíma stærsta bygging Íslands.

Sammála stríðsminjum var lítill eða enginn sómi sýndur - hvað þá að varðveita. Nú í dag væri margt af þessu vinsælt fyrir erlenda ferðamenn að skoða- í sögulegu samhengi.

Sævar Helgason, 5.7.2013 kl. 20:52

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði:



Þorsteinn Briem, 5.7.2013 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband