Það er ekki lengra síðan.

Undanfarin dægur hefur farið fram lífleg umræða á netinu um það hvort á Íslandi hafi verið stéttlaust þjóðfélag og flutningur fjórðungs þjóðarinnar til Ameríku á árunum 1870-1890 hafi mestan part verið vegna slæms árferðis en ekki vegna fátæktar og misréttis. 

Augljóst ætti vera að jafn stórfelldur flótti landsmanna úr landi og  flutningur fjórðungs þjóðarinnar til Ameríku á minna en aldarfjórðungi getur ekki hafa stafað að mestu vegna slæms árferðis þótt Öskjugosið 1875 ylli því að flutningarnir væru mestir frá Austurlandi. 

Rannsóknir sagnfræðinga undanfarna áratugi sýna, að megin orsökin var sú, að íslensk valda- og auðstétt hélt þjóðfélaginu í heljargreipum, kom í hátt á aðra öld í veg hafnarbætur og bættan skipakost og þar með í veg fyrir myndun þéttbýlis við sjóinn, sem gæti ógnað völdum hinna útvöldu.

Myndun þéttbýlis með auknum fiskafla, vinnslu, iðnaði, siglingum, samgöngum og verslun var eina leiðin til að uppfylla þarfir þjóðar, sem fjölgað hafði úr 50 þúsund í 70 þúsund á nítjándu öld, en frumstæður landbúnaður gat ekki framfleytt án neyðar, skorts og ófrelsis hjá þorra landsmanna.

Aðeins 5% bænda átti jarðirnar, sem þeir bjuggu á, en 95% voru leiguleiðar. Það ríkti í raun lénsskipulag þar sem stórbændur og embættismenn áttu landið og voru íslensk aðalstétt.

Svo sterk var þessi stétt að í doktorsritgerð og bók sænska sagnfræðingsins Hans Gustavsson, "Fraan kung til almuge" er sýnt fram á að hvergi í Evrópu var einvaldskonungur eins valdalítill og á Íslandi.

Kristján 7. stofnaði svonefnda Landsnefnd 1770 með tíu framfaraverkefni til meðferðar varðandi samgöngur, iðnað, verslun og byggð.  Á þeim tíma fjölgaði fólki alls staðar hratt á Norðurlöndum á sama tíma sem því fækkaði ef eitthvað var, á Íslandi. Það hlaut eitthvað mikið að vera að á Íslandi. 

Nefndin skilaði merkum tillögum til umbóta. Þær voru að engu hafðar og í þeirri Íslands sögu, sem flestir Íslendingar hafa lært, er ekki minnst á Landsnefndina. Það passar ekki inn í þá kenningu að allt illt hafi verið Dönum að kenna eða slæmu árferði, en ekkert Íslendingum sjálfum.  

Íslenski aðallinn naut ekki einasta að mestu forréttinda dansks aðals, til dæmis hvað snerti aðgang sona sinna að dönskum skólum, heldur þurfti íslenski aðallinn ekki að senda syni sína í herþjónustu eins og sá danski. 

Í sögunni, sem okkur var kennt, þegar brýna þurfti þjóðina í sjálfstæðisbaráttunni, mátti skilja flest sem svo að illir Danir hefðu einir staðið fyrir allri kúgun á Íslandi og að menn eins og Skúli fógeti hefðu nánast algerlega af eigin rammleik risið til andófs.

Auðvitað gátu íslenskir umbótasinnar ekki náð neinum árangri án þess að fá til þess stuðning umbótaafla í Kaupmannahöfn, sem tókust þar á við danska valdastétt.  En íslenski aðallinn og sá danski höfðu af því sameiginlegan hag að bæla umbætur niður eftir því sem unnt var.  

Íslensku þjóðinni var haldið í hlekkjum hugarfarsins líkt og Baldur Hermannsson lýsti í sjónvarpsþáttum sínum, og það er ekki lengra síðan að þessari áþján og ófrelsi lauk, að á bænum sem ég var á sveit sem strákur voru fimm konur niðursetningar, allar fórnarlömb misréttis og fátæktar.

Tvær þeirra að minnsta kosti, voru hæfileikaríkar og svo eftirminnilegar, að ég skrifaði um þær og fleira bókina "Manga með svartan vanga" fyrir réttum 20 árum.

Ásdís Jónsdóttir skáldkona, sem þraukaði við illan kost í örreytiskotinu Rugludal langt frammi á Auðkúluheiði með bónda sínum og tveimur dætrum, í meira en 400 metra hæð yfir sjávarmáli, varð að gefast upp og lenti síðar á vergangi. Endaði ævi sína á ömurlegan hátt í hálfhrundum torbæ.

Ég hef undir höndum bónarbréf, sem hún skrifaði vinkonu sinni, þar sem hún sárbað um hjálp; -  "ögn af sméri eða keti", er allt sem hún biður um í þessu bréfi, sem segir meira um kjör þorra þjóðarinnar en öll þau hundruð bréfa höfðingja og embættismanna sem varðveitt eru í söfnum.  

Margrét Sigurðardóttir, fædd 1869, mátti frá barnæsku þola "hallæri, hungur og fár" eins og ég orða það í ljóðinu "Íslenska konan", var niðursetningur þegar í barnæsku og hraktist á milli bæja og sveita.

Hún og Ásdís voru í hópi  einhvers ófrjálsasta fólks, sem lifað hefur á Íslandi, fæddust of seint til að nýta sér vesturferðirnar og voru orðnar of gamlar og örlög þeirra ráðin, þegar aðeins lifnaði yfir ferðunum og þjóðlífinu undir aldamótin 1900.

Manga kynntist heiminum, heimsbókmenntunum og íslenskum og erlendum skáldum við lestur bóka á höfðubólunum þar sem hún þrælaði sem vinnuhjú, og kvöl hennar var meiri en ella við það að vita, hvað heimurinn bauð upp á en geta ekki notið þess. Hún kunni verk íslensku og norsku stórskáldanna að mestu utanað.

Hún var ekki fríð en skörp og skýr, og von kviknaði þegar hún varð barnshafandi eftir myndarlegan vinnumann og kannski möguleiki á að komast með honum til búskapar á einhverju kotinu eða heiðarbýlinu.

En vinnuharkan var svo mikil, að hún missti barnið í fæðingu. Þar með voru ömurleg örlög hennar ráðin.  Eftir það uppnefndu sumir hana því miskunnarlausa viðurnefni "Gelda-Manga".

Systir hennar, Steinunn, vinnuhjú á bæ í Vatnsdal, þráði að hitta barn sitt sem var vistað á bæ í Víðidal. Hún hreppti slæmt veður á þeirri leið að vetrarlagi, lá í fönn og missti báða fæturna fyrir neðan hné. Var eftir það aldrei kölluð neitt annað en Steinunn fótalausa.

Tvær systur, tveir litilmagnar, aðstæður réðu því að önnur þráði barn en missti það, hin þráði að hitta barn sitt en missti fæturna.

Gelda Manga og Steinunn fótalausa. Þetta var nú öll mannúðin og stéttleysið oft á tíðum.

Ég er að tala um fólk, sem var á sama bæ og ég. Það er ekki lengra siðan. Þetta er ekki fjær okkur en þetta.   

Afi minn gekk átta vetur á aldrinum 18-26 ára í janúar alla leið frá Hörgslandi á Síðu vestur í Garð á Suðurnesjum um vegleysur og yfir óbrúaðar ár til þess að þræla í vosbúð og sjávarháska á vertíð og gekk aftur til baka í mai til þess að færa húsbónda sínum mestallan afraksturinn. Þetta var nú allt stéttleysið.

Og ég er að tala um afa minn, - það er ekki lengra síðan. Þetta er ekki fjær okkur en þetta. 

Þegar amma mín var sjö ára gisti vel stæður bóndi frá höfuðbóli í Öræfum að Hólmi í Landbroti, þar sem hún var alast upp. Svinafellsbóndanum  rann til rifja ómegðin, fátæktin og sulturinn á bænum og gerði langömmu og langafa tilboð, sem þau gátu ekki hafnað.

Það voru slétt skipti; - hann vantaði vinnukraft, þau vantaði kú.

Amma var á réttum aldri, nógu ung til þess að geta þjónað húsbóndanum austur í Öræfum sem lengst og nógu gömul til þess að geta rakað með hrífu. Það var því farið með ömmu austur í Öræfi og leidd kú til baka.

Það var ekki um annað að ræða. Langafi hlýddi köllun sinni að líkna nauðstöddu fólki, bæði heima og að heiman,og langamma hjálpaði honum oft heima við en þurfti að sjá um búið þegar hann var langdvölum að heiman. Það var ekki hægt að hringja á lækni, sjúkrabíl eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Enginn veit hve mörgum mannslífum þau björguðu.

Svínafellsbóndinn gat ekkert annað en boðið eina ráið við sultinum: Að fækka munnunum í Hólmi og koma með lífsbjörg þangað. Hann var góðmenni. Annars hefði amma ekki skírt frumburð sinn í höfuðið á honum. Dóttir mín heitir líka Jónína.  

Svona var þetta þegar kýr gat verið fjarlægur lúxus hjá fátæku bændafólki og sá sem gat séð af kú var óendanlega mikið ríkari en hinn sem átti enga. 

Bróðir ömmu, Valdimar, þremur árum yngri en hún, var líka leiddur burt á hesti til fósturs. Ekki fylgir sögunni hvort kýr kom í staðinn, - sennilega ekki.  

Amma mín náði sér aldrei eftir þá hrikalegu höfnun, sem henni fannst hún upplifa, að vera skiptimynt fyrir kú. 

93ja ára gömul sat hún á rúmstokknum á Hrafnistu og talaði enn um það, sem gerst hafði þegar hún var sjö ára og velti fyrir sér spurningum eins og:  "Var það vegna þess að ég var lakasta barnið, að ég var send burtu?" Og bætti síðan við: "En kannski lifðu systkini mín af vegna þess."  

Ég er að tala um ömmu mína, - það er ekki lengra síðan. Þetta er ekki fjær okkur en þetta. 

Síðan heyrir maður talað um í fullri alvöru, jafnvel á hátíðarstundum, að hér á landi hafi alltaf verið stéttlaust þjóðfélag án misréttis.

1976 ók ég með hjón af íslenskum ættum, sem komu frá Manitoba til ættarslóða sinna, og vildu sjá bústað ömmu og afa. 

Þegar þau stóðu yfir húsatóftunum uppi á Aðalbólsheiði með Eiríksjökul gnæfandi yfir heiðina í sindrandi sólarbirtu fjarskans, hágrétu þau svo tárin féllu á tóftir heiðabýlisins litla.

Þegar ég spurði þau hvort þau grétu af hrifningu yfir því magnaða umhverfi sem formæður og feður þeirra höfðu lifað í og yfirgefið, svöruðu þau:

"Nei, þvert á móti. Það var gefið í skyn vestra að þau hefðu flúið að óþörfu frá svo stórkostlegu og fallegu landi sem Ísland væri, og það var talað um það í þeim tóni, að þau hefðu guggnað og svikið land sitt og þjóð. Nú sjáum við hvílík kjör þau bjuggu í raun. Þéss vegna grátum við.

Þau hafa fengi uppreisn æru í okkar huga. Við sjáum líf þeirra og kjör í nýju ljósi, skiljum af hverju þau voru neydd til þess að taka sig upp og fara um óraveg til að komast úr ófrelsi skortsins, og við erum stolt af því að þau skyldu hafa þrek og dug til að gera það."

Þetta var 1976. Það er ekki lengra síðan. Þetta er ekki fjær okkur en þetta.

Og kannski er sitthvað hliðstætt nær okkur í tíma og rúmi en við teljum okkur trú um. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Einhver besta bloggfærsla þín sem ég hef lesið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.8.2013 kl. 20:16

2 Smámynd: Már Elíson

Frábær frásögn, Ómar...og hugurinn reikar....

Már Elíson, 1.8.2013 kl. 20:30

3 identicon

Mjög kraftmikil skrif um mikilvæga atburði í sögu þjóðarinnar.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 20:35

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ekki aðeins var og er hér mikil stéttaskipting heldur er og hefur alltaf verið níðst á þeim sem minna mega sín. Og það er smánarblettur sem enginn sögufalsari getur þvegið af hinum íslenska aðli.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.8.2013 kl. 20:44

5 identicon

"Framkoma íslenskrar valdastéttar átti einnig mikinn þátt í því að margir litu svo á að framtíðin væri bjartari vestanhafs. Má í því sambandi vitna til frægra orða Þorsteins Þ. Þorsteinssonar sem fyrstur manna skráði sögu Íslendinga í Vesturheimi:

Ósanngirni og fullkomið ranglæti sem ill lög og vondar venjur sköpuðu í landinu á ótal sviðum, en ekki síst í tilliti til kaupgjalds og vinnulauna, skapaði megna óánægju og ýtti með fullum krafti á eftir unga fólkinu út á hafið. Og hvað sem menn kunna nú að halda um þá speki, þá var það fyrrum mjög almenn skoðun Íslendinga í Vesturheimi að réttlæti væri fremur fágætt á Íslandi, allt frá yfirrétti niður til hreppsþinga, en hin óteljandi bönd og höft á öllu mögulegu flæktu og fjötruðu hendur og fætur almennings svo ekki væri við það unað né lifandi."http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=56117

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 20:49

6 identicon

Takk fyrir þessa færslu Ómar, -hún ætti að vera skyldulesning.

Réttarbætur almennings hafa alltaf komið utanfrá. Vistarbandið lagðist af með breyttri Danskri stjórnarskrá sem ráðandi öfl hérlendis voru mjög ósátt við.

Það voru ekki lögræðingafélagið eða lögspekingar í Háskólandum sem börðust fyrir aðskilnaði lögregluvalds og dómsvalds! -Það Jón Kristjánsson og Evrópsk mannréttindalöggjöf sem vann þann slag.

-En Lögfræðingastóðið og ráðandi öfl vinna enn gegn hagsmunum almennings eins og gerlega kom í ljós í stjórnarskrármálinu.

Það er ekki nema von að sumir vilji samganginn við Evrópu sem minnstan.

Krónan er vistarband okkar kynslóðar. Ég er vongóður um að börnin mín eigi eftir að búa við nothæfann gjaldmiðil. En ég efast um að það verði hérlendis.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 21:00

7 identicon

..þegar tekin eru svona persónuleg dæmi grætur maður í koddann sinn. við eigum þau mörg. ekkert nýtt í því. nema ef vear skyldi umræðan um reynsluna? erum við komin svona langt frá sögunni? sem er ekki löng  ..

´hallgeður pétursdóttir (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 21:07

8 identicon

Til hamingju með þennan pistil Ómar. Mjög vel gert!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 21:13

9 identicon

Merkilegur pistill og raunalegur. Theódór Friðriksson og Tryggvi Emilsson hafa skrifað um kjör almúgans í "stéttlausa" landinu okkar, bækur sem ættu að vera skyldulesning í skólum landsins. Hef ekki lesið Möngu Ómars en mun vinda að því bráðan bug nú um verslunarmannahelgina.

Eðvarð (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 21:19

10 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Afskaplega vel skrifuð og áhrifamikil grein sem ætti að vera skyldulesning. Takk fyrir mig.

Þetta rifjar upp margt sem ég hef fengið að heyra af fólkinu mínu frá fyrri hluta síðustu aldar.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 1.8.2013 kl. 21:23

11 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þjóð í hlekkjum hugarfarsins:

http://blog.pressan.is/larahanna/2013/02/16/thjod-i-hlekkjum-hugarfarsins/

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.8.2013 kl. 21:33

12 identicon

Frábær pistill! Einnig áhugavert að skoða sögu menntunar á Íslandi. Bæði hvernig Danir neyddu okkur til að kenna börnunum okkar að lesa því ólæsi var mikið og einnig hvernig barist var gegn því að komá á grunnskóla fyrir almenning í byrjun síðustu aldar.

Davíð Rúrik Martinsson (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 21:33

13 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Útlendingar sem komu til Íslands á 18 og 19 öld sáu enga óðalsbændur eða auðkýfinga í íslenskum sveitum, bara vesöld og hungur.Glöggt er gestsaugað.Þeir hefðu örugglega sagt frá því ef bændur hefðu lifað í vellystingum meðan þeir píndu hjú sín.Þegar farið er yfir skrif útlendinga frá þessum tíma sér þess hvergi stað sem seinni tíma fólk í 101 R.Vík heldur fram að íslenskir bændur hafi lifað í vellystingum meðan þeir píndu hjú sín.Því miður er Ómar Ragnarsson ekki einn um þessa sögufölsun.Og það voru engir stórbændur í Öræfasveit á 19. öld. Og ekki heldur á Síðu.Og það hefði ekki heldur verið hægt að gera út stórskip í Öræfum og á Síðu á 19. öld.Ekki frekar en nú.

Sigurgeir Jónsson, 1.8.2013 kl. 21:49

14 identicon

Hallo! Haldið þið virkilega, að Ísland hafi alltaf verið eins og það er núna? Hvernig byggir maður sjávarþorp, þegar hafísinn liggur við land frá Arnafirði, austur fyrir land, suður fyrir, svo ganga má út til vestmannaeyja, með íshröngl norður fyrir Reykjanes?  Þegar askan frá Heklu liggur þétt yfir landinu, frá Hrútafirði til Jökulsár á fjöllum, Skagstrendingar ganga á hafísnum langt út á flóa, að veiða sel, og hákarl, vegna þess að 6000 ær eru dauðar úr harðindunum á skaganum einum?  Um miðja nítjándu öld varð í Öskju eitt mesta öskugos sögunnar, en þessar hamfarir voru með nokkurra ára millibili frá 15. öld.

Kristján Hall (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 22:02

15 identicon

Frábær grein

Eirikur Rafn Magnusson (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 22:19

16 identicon

Ég spyr af forvitni: Hvaða ár réri afi þinn úr Garðinum? Hjá hvaða formanni réri hann?

Eiður (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 22:35

17 identicon

Frábær pistill. Það er mjög mikil stéttaskipting á Íslandi og hefur alltaf verið. Sorglegt er að lesa hvernig farið var með vinnuhjú, þrældómurinn, vistarbönd, vinnufólk mátti ekki gifta sig vegna húsnæðisleysis, konur þurftu að láta frá sér börn vegna fátæktar. Við höfum það miklu miklu betra núna en misskiptingin er hrikaleg. Maður þarf ekki annað en að fletta tekjublöðunum til að sjá misskiptinguna svart á hvítu.

Margret S (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 22:41

18 identicon

Skyldulesning. Ómar er frábær!

Viðar Stefánsson (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 22:56

19 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Takk fyrir þetta

Brjánn Guðjónsson, 1.8.2013 kl. 23:01

20 Smámynd: Sigurður Antonsson

Mikill einföldun er að segja að hér hafi stórbændaaðal níðst á fátæku fólki. Komið í veg fyrir framfarir. Hallast meir að skýringum Sigurgeirs. Fátækt og getuleysi. Það var ekki fyrr en ný tækni og vélbátar komu til sögunnar að hagur vænkaðist

Í Rússlandi á nítjándu öld var hlutfall leiguliða svipað og hér. Dostójevskí segir að jafnaðarmenn séu afkomendur leigusala.

Um daginn var höfundur í Fréttablaðinu sem ól á þeirri kenningu að hér hefði öll fátækt verið stórbændum um að kenna. Óþarfi að taka þá "sagnfræði" upp. Einangrun landsins var höfuðóvinur fátæktar. Strax og menn gátu keypt vélar í smábáta vænkaðist hagurinn. Þegar frjáls verslun blómgast eykst hagur manna. Afi minn gat selt fisk til Spánar og keypt hús í Noregi í byrjun tuttugustu aldar.

Sigurður Antonsson, 1.8.2013 kl. 23:05

21 identicon

Amma mín var fædd 1914 af fátækri vinnukonu, hún var 6 ára tekin frá móður sinni og sett í þrældóm. Lýsingar hennar stemma alveg við frásögn Ómars, tek meira mark á manneskju sem að upplifði þessa ánauð og misskiptingu en ykkur efasemdarmönnum hér að ofan. Bestu þakkir Ómar fyrir frábær skrif.

Jón Óðinn Waage (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 23:15

22 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Takk fyrir þennan pistil Ómar.  Alveg frábær!  Það er ennþá hrikaleg misskipting á Íslandi.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 1.8.2013 kl. 23:23

23 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svar til Eiðs: Afi reri úr Garðinum árin 1908 til 1916. Því miður veit ég ekki hjá hvaða formanni en ætti kannski að reyna að grafa það upp.

Ómar Ragnarsson, 1.8.2013 kl. 23:27

24 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Það voru engir stórbændur í Öræfum á 19. öld" er sagt í athugasemd hér að ofan. Hún á greinilega að sanna að frásögnin af ömmu mínni séu uppspuni og að það hafi ekki verið neinn bóndi svo vel stæður í Öræfum að hann gæti séð af kú?

Staðreyndirnar sem koma fram hvað varðar frásagnirnar af ömmu minni og afa eru hins vegar það vel vottfestar og skráðar að þær eru óvéfengjanlegar þótt svo sé að sjá að til séu menn sem vilji hrekja þær og gera mig að ómerkingi.

Jón Sigurðsson á hinu forna og nýja höfuðbóli Svínafelli var stórbóndi miðað við langflesta bændur í Skaftafellssýlu. Hann var það vel stæður að hann gat séð af kú til langafa míns.

Jón reyndist ömmu minni vel, svo vel að hún skírði dóttur sína Jónínu, sem aftur eignaðist nöfnu í dóttur minnni, Jónínu.

En kannski er það allt bara uppspuni hjá mér?

Ómar Ragnarsson, 1.8.2013 kl. 23:38

25 identicon

Þessu skylt og það bezta sem ég hef lesið um fátækt og vesöld er trílógía Einars Más Guðmundssonar þar sem hann segir frá föðurfjölskyldu sinni. Átakanlegar lýsingar en alveg lausar við tilfinningavellu. Og Margrét Hafsteinsdóttir, fátækt og misskipting eru tennt ólíkt þótt þær fari stundum saman.

áslaug ragnars (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 23:39

26 identicon

Takk fyrir frábæran pistil

Einar Finnur (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 23:59

27 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Alveg með ólíkindum að sjá fólk hér í hrönnum mæra sögufölsun.

Ómar segir:

 "Rannsóknir sagnfræðinga undanfarna áratugi sýna, að megin orsökin var sú, [fólksflótti til vesturheims] að íslensk valda- og auðstétt hélt þjóðfélaginu í heljargreipum"

Þetta er einfaldlega rangt, þó einhverjir sagnfræðingar haldi þessu fram. Hér fyrir neðan skiptast menn á skoðunum, m.a. um vistarbandið og kúgun alþýðunnar sem var reyndar ekki við lýði þegar fólksflutningarnir vestur áttu sér stað.

http://www.youtube.com/watch?v=PZxxhowKwNs#at=807

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 00:00

28 identicon

Ómar  - ég vil þakka þér fyrir pistilinn. 

Rúnar Vernharðsson (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 00:17

29 identicon

Takk fyrir thessi átakanlegu en fallegu skrif Ómar. Kvedja ad vestan.

Gudjon Atlason (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 02:28

30 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk Ómar. Frábær færsla. Er ekki kominn timi til að börn læri þetta í skólum, frekar en endalaust röfl um biskupa, kónga og svokallaðar sjálfstæðishetjur. 

Hörður Þórðarson, 2.8.2013 kl. 05:15

31 Smámynd: Þorsteinn Briem

Og enn hamast sumir gegn Reykjavík, einnig í athugasemdum hér að ofan.

Þorsteinn Briem, 2.8.2013 kl. 05:30

32 identicon

Góður pistill hjá Ómari, einn sá magnaðasti sem maður hefur lesið til þessa. Má hér bæta við, að til skamms tíma var hér í skólum kennd hin fasiska Íslandssaga Hriflu-Jónasar, sem alltof margir enn í dag taka sem stóra sannleik. Á þeim grundvelli hvílir hinn fáránlegi kosningasigur framsóknar.

E (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 06:06

33 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Takk fyrir góða bloggfærslu, Ómar!

Það er mikið til í þessu hjá þér - þótt ég sé ekki að öllu sammála þér. Það er t.d. ónákvæmt að tala um íslenskan og danskan aðal sem sambærilegt - danskur aðall var forréttindastétt að lögum (greifar osfrv.), slíkt var aldrei til á Íslandi.

En danskir sjálfseignarbændur voru mjög sambærileg stétt við íslenska sjálfseignarbændur, Danir voru með sambærilega stéttaskiptingu við Ísland þegar aðlinum er sleppt. Leiguliðar, vinnuhjú, vistarband, sultur og vesæld, allt var þetta jafn algengt í Danmörku og á Íslandi.

En á Íslandi var staðan samt að mörgu leyti öðruvísi. Hér stunduðu hrepparnir fátækrahjálp, nokkuð sem þekktist ekki í Danmörku þar sem fátæklingar sultu og dóu drottni sínum án afskifta, allt frá siðaskiptum og þar til konungsvaldið tók að setja lög um fátækrahjálp. Það var ekki gaman að vera niðursetningur á Íslandi, en það var samt talsvert betra en það sem bauðst í Danmörku lengst af. En á 19. öldinni hafa Danir eflaust farið fram úr okkur í velferðarmálum.

Annar stór munur var hinn eilífi skortur á vinnuafli sem hér var, en var lengst af ekki vandamál í Danmörku, frekar að þar hafi verið offramboð. Þessi vinnuaflsskortur gerði það að verkum að bændur héldu í hjú sín með öllum tiltækum ráðum, m.a. með því að koma í veg fyrir efnahagslegt sjálfstæði þeirra.

Baráttan um vinnuafl kom í veg fyrir uppbyggingu sjávarplássa hér, en með stjórnarskránni 1874 var vistarbandi aflétt og atvinnufrelsi innleitt. Útgerðarmenn hófu að reisa þorp og stofnuðu barnaskóla í samkeppni um vinnuaflið. Bændur voru á móti barnaskólum enda sótti fólk í að búa þar sem börnin gátu fengið menntun. Sumir bændur gripu einnig til þess ráðs að setja á stofn barnaskóla til að halda í fólk, t.d. skólinn að Leirá um 1880.

Danmörk er landbúnaðarland fyrst og fremst. Ísland hefur alltaf haft tvær stoðir undir matvælaöflun, landbúnað og fiskveiðar. Sjálfstæð þróun sjávarútvegs gat ekki hafist fyrr en með afnámi vistarbandsins. Tæknin hafði líka sitt að segja, en fyrstu þorpin voru komin áður en vélbáturinn kom til sögunnar (t.d. Bolungarvík, einnig var reist þorp yst í Reyðarfirði sem lagðist af við tilkomu vélbátanna).

Ísland var ekki svo frábrugðið Danmörku þegar kom að stéttaskiptingu og misrétti. Um 300.000 Danir fluttu til betra lífs í Vesturheimi á seinni helmingi 19. aldar, samsvarandi 1/4 af íbúafjöldanum 1840.

Það eru hvorki vondir Danir né vondur íslenskur aðall. Það var miklu frekar forheimskun og andleg fátækt fyrri alda sem skapaði það samfélag misskiptingar sem finna mátti nánast alls staðar á byggðu bóli, og finnst víða enn. Ísland var að sumu leyti skárra, stundum, en í öllum höfuðdráttum var ástandið hér það sama og annars staðar.

Brynjólfur Þorvarðsson, 2.8.2013 kl. 06:29

34 identicon

Takk fyrir frábæran pistil, eins og fréttir gærdagsins staðfesta virðast margir af þeim kjósendum sem létu Framsóknarflokkinn fífla sig í síðustu kosningum nú þegar vera komnir með óbragð í munninn.

Þórður (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 08:32

35 Smámynd: Jörundur Þórðarson

Svona horfði þetta við ömmu þinni. Þetta var óskapa basl og stöðug barátta til þess að komast af. Þeir bændur sem voru svo lánsamir að búa á betri býlum þræluðu líka myrkra á milli en fengu þó eitthvað að borða.

Kannski höfðu kaupmennirnir það best, réðu verði á öllu, lengi vel bannað að skipta við annan kaupmann.

Og af því að þú segir að ekkert hafi verið gert með tillögur landsnefndar. Þurfti ekki fjárframlag frá Dönum til þess?

Jörundur Þórðarson, 2.8.2013 kl. 09:17

36 Smámynd: Haraldur Baldursson

Frábær færsla og umhugsunarverð

Haraldur Baldursson, 2.8.2013 kl. 09:46

37 identicon

Um 1700 voru Íslendingar liðlega 50.000 talsins. Þá var jarðeign grundvöllur ríkidæmis. Kirkja og krúna áttu þá tæpan helming allra jarðeigna í landinu en rúmur helmingur var í eigu einstaklinga. Þeir sem áttu jörð eða jarðarpart voru þá rúmlega 1300 og af þeim áttu um 240 um 74% allra jarðanna. Af þeim voru raunar 80 einstaklingar sem áttu helming alls jarðnæðis í einkaeign. Meðaleign þeirra var um 280 hundruð sem jafngilti um 12 meðaljörðum. Ef gert er ráð fyrir að hver þessara 80 einstaklinga hafi staðið fyrir heimili þá var það um 1% allra heimila í landinu. Það er komin hin raunverulega yfirstétt á Íslandi í byrjun 18. aldar.

Um þetta allt saman má m.a. fræðast í Landbúnaðarsögu Íslands sem kemur út í haust.

Steingrímur Steinþórsson (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 10:29

38 identicon

Takk fyrir magnaðan pistil Ómar. Brynjólfur skrifar: "Það var forheimskun og andleg fátækt fyrri alda sem skapaði það samfélag misskiptingar sem finna mátti nánast alls staðar á byggðu bóli, og finnst víða enn." Sammála þessu. Mikið eigum við þeim að þakka upplýsingarmönnunum sem slitu hug sinn lausan mitt í forheimskun og kirkjukreddum. Þeim sem stofnuðu Bandaríkin 1776, og frönsku byltingarmönnunum 1789. En fyrst kom hin ótrúlegi Struense, sem hirti völdin af geðveikum konunginum Danmörku 1770 og birti yfir 1000 framfarasinnaðar tilskipanir það rúma ár sem hann hélt völdum þar til aðalsmennirnir náðu loks að handtaka hann og hálshöggva. Í pistlinum skrifar þú Ómar: "Kristján 7. stofnaði svonefnda Landsnefnd 1770. Nefndin skilaði merkum tillögum til umbóta. Þær voru að engu hafðar". Konungar stofnuðu yfirleitt engar framfaranefndir, og alls ekki geðveikir konungar. Ég hef það mjög sterklega á tilfinningunni að það hafi verið Struense og enginn annar sem hefur staðið fyrir skipun Landsnefndarinnar, þó svo að hún væri auðvitað að nafninu til stofnuð af konunginum. Ég sé á wikipedia að Struense nær ekki fullum völdum fyrren í desember 1770, þ.a. ég er ekki alveg viss. Gaman væri ef einhver sagnfræðingur gæti upplýst okkur um þetta. Það er sjaldan minnst á Struense í íslenskum bókum, ég held að það sé ekki minnst á hann einu orði í "Öldin átjánda" bókinni. Jörundur hundadagakonungur hamhleypa og upplýsingaraldarmaður, hann er er kynntur til sögunnar sem hálfgerður trúður. Hvet menn til að lesa um Struense á Wikipedia. Ég rakst á fyrir tilviljun á frásagnarþátt um Struense í gamalli íslenskri bók, mig minnir að bókin heiti "Af spjöldum sögunnar" og sé eftir Jón Hjálmarsson.

Jón Magnússon (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 10:51

39 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gleymum því ekki hverjar voru hugsjónir Framsóknarmanna eins og Jónaaar frá Hriflu í öndverðu. Björg Runólfsdóttir, ömmusystir mín, hélt hlífiskildi yfir niðursetningunum voluðu á bæ sínum og var gegnheil umbótasinnuð Framsóknarmanneskja, full mánnúðar og manngæsku.

Það var líka Bjarni bróðir hennar í Hólmi, sá mikli framfarafrömuður.

Ég hef séð vitnað í facebook í 100 ára gömul skrif Hriflu-Jónasar, sem eiga eins vel við í dag eða rétt fyrir Hrunið eins og þegar þau voru rituð.

Hvað snertir yfrburða lagalega stöðu danska aðalsins miðað við hinn íslenska, verður að gæta þess, að sá íslenski þurfti ekki að hafa völd sín og sérréttindi lögfest. Hann hafði þau samt, svipað og sovéski aðallinn í landi einhvers mestu kúgunar og einveldisglæpa heims, þar sem gilti þó einhver fallegasta stjórnarskrá heims með "alræði öreiganna" þar sem allir voru jafnir, en sumir bara jafnari en aðrir.

Ómar Ragnarsson, 2.8.2013 kl. 11:00

40 identicon

Frábær skrif hjá þér Ómar. Fyrir nokkrum árum eignaðist ég bókina 'Fár undir fjöllum' eftir Kristinn Helgason. Þar tekur höfundur saman úr dómsskjölum ótrúlega aðför yfirvalda, með dyggri aðstoð óðalsbónda, gegn fátækum bændum undir Eyjafjöllum. Þar voru menn dæmdir í fangelsi og sektir m.a. fyrir að stela rekavið. Fátækir bændur sem voru að reyna að komast af. Fjölskyldur sundruðust. Það eru ekki nema rúm hundrað ár síðan. Ég held því miður Ómar að þessi skrif þín og bók sú sem ég nefni séu ekkert einsdæmi um hvernig farið var með almúgann hér. Þessar frásagnir hafa alveg gleymst í sögubókum. Kannski fyrir tilviljun?

Sigurður Ragnar Viðarsson (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 11:04

41 identicon

Hafðu þökk fyrir frábæra grein Ómar.  Það er annars einkennilegt hvað margir eru viðkvæmir fyrir því að rýnt sé í  fortíðina með tilliti til félagslegra aðstæðna fólk á nítjándu öldinni.  Það hlýtur hverjum manni að vera ljóst að þó að vistarbandið hafi verið aflagt með konungsskipun 1874 var ekki þar með sagt að fólk gæti nýtt sér það til betra lífs hér á landi.  Með vali á að ákveða eigin örlög fékkst ekki endilega frelsi til að betra lífs.  Til þess þurfti tækifæri til atvinnu og búsetu þar sem annað var í boði en leiguland.  Það er hollt að skoða  kosningarlög landsins þar sem þeir einir höfðu rétt til að kjósa sem voru fjárhagslega sjálfstæðir, þ.e. eignarmenn.  95% lands var á þessum tíma í eigu 800 lögaðila og eina sem vinnufólk bauðst var að taka við leigukotbýlum sem aðrir höfðu gefist upp á.  Því var það eðlilegt að fátækir leiguliðar hér sem og annars staðar tækju saman eigur sínar, seldu bústofn og flyttu búferlum til Vesturheims.  Í ljósi  þess   ættu ráðamenn þjóðarinnar  að leggja af þann ljóta sið að halda því fram  að hér hafi allir verið jafnir þó að íslensk yfirstétt hafi ekki borið greifatitla eins og hún danska.  Það er beinlínis óvirðing við forfeður okkar og mæður að reyna að kenna  harðbýli landins eingöngu um hungur og félagslegt óréttlæti fyrri tíma. 

Kjartan Ingvason (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 11:11

42 identicon

Það eru ultra hægri straumar í íslensku samfélagi, sem koma manni jafnvel á óvart. Ég í minni einfeldni hafði haldið að slíkt væri ekki í samræmi við þjóðarsálina. Sjallarnir sérstaklega, frekar en hækjan (hún vill bara græða), eru að nálgast róttæka kapítalista í USA, hópa sem eru ekki lengir í neinum tengslum við alþýðufólk, veifandi bíblíunni, bullandi um „faith and Jesus, and may God bless you“. „Fucking shit“, rasistar.

Nú skal senda óþroskaða Valhallar krakka á námskeið í Cato Institute þeirra Koch bræðra, eins og ekki væru búið að rugla þessi grey nógu mikið í Valhöll. Væri ekki þarna verkefni fyrir unglingavernd?

Verið er að gefa sjúkrastofnunum tæki og tól, molar af afrakstri siðlausra fjármálagjörninga elítunnar. Og fréttamenn á staðnum, slefandi, ef ekki tárvotir af hrifningu.

En þetta kjósa analphabetarnir á klakanum, aftur og aftur, trekk í trekk.

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 11:17

43 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Öll mannréttinda- og neytendavernd hefur komið frá Evrópu; óumbeðin og í óþökk íslenskra yfirvalda; allt frá mannvirðingarákvæðum í stjórnarskránni frá 1874 og að þessum nýjustu mannréttindadómum."

Þorsteinn Briem, 2.8.2013 kl. 11:27

44 identicon

Hægt að kalla þetta alvöru HUGVEKJU !

En það er ekki lengra síðan en 1970-1980 að börn voru send sem vinnumenn í sveit vegna fátæktar !

Það er ekki enn ljóst hversu margir munu flytja af landi brott í núverandi fjárhags og fátæktar hörmungum !

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 11:51

45 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Ómar, varðandi notkunina á nafninu "aðall" þá er danskur (og rússneskur osfrv.) aðall allt annað en hugsanlegur íslenskur "aðall", þ.e. ef menn vilja vera nákvæmir. Aðalsstéttir erlendis höfðu lagaleg sérréttindi sem oftast erfðust. Þær voru mikilvæg og oft mjgö sterk andstaða við konungsvaldið, í Danmörku þurfti borgarastyrjöld til að tryggja yfirráð konungs gegn aðalsstéttinni.

Íslenskur "aðall" eins og þú notar orðið virðist fyrst og fremst vera sjálfseignarbændur. Sú stétt fannst líka í Danmörku og var ekkert skárri (eða verri) þar en hér, en hún telst ekki til "aðals". Stóreignarmenn, aftur á móti, þeir sem eiga margar jarðir, geta talist til "aðals" í algengri merkingu (þó ekki nákvæmri). Á Íslandi voru slíkir menn til, og ættir þeirra voru "aðalsættir" í mörgum skilningi, þó ekki sama skilningi og t.d. danskar aðalsættir. T.d. eru flestar þessar íslensku aðalsættir horfnar í dag.

Heila málið er kannski það að þetta snýst hvorki um Dani né Íslendinga, aðal eða ekki aðal. Þetta snýst um tilhneigingu allra eignamanna að láta sérhagsmuni ráða umfram þjóðarhagsmuni. Þannig hefur það alltaf verið. Upplýst (einrátt) konungsvald var einmitt hugsað sem mótvægi við sérhagsmuni stóreignarstétta, enda var konungurinn yfirleitt á móti aðalnum og með almúganum (eins og Danir túlka það).

Í dag höfum við lýðræði og réttarríki og ef við viljum ekki hverfa aftur til fortíðar þurfum við að standa vörð um frelsi einstaklinga til orðs og æðis, um málfrelsi, skoðanafrelsi og þátttökurétt í stjórnmálum. Þar skiptir engu hvort um Dani eða Íslendinga er að ræða.

Rétt í lokin, ef einhverjir áttu sök á hörmungum á Íslandi þá var það íslensk eignastétt - ekki dönsk yfirvöld. Sama gilti í Danmörku, hörmungar fátæklinga (sem voru oftast mun meiri en á Íslandi) voru ekki að vilja stjórnvalda, þær spruttu af sjálfshyggju eignamanna.

Brynjólfur Þorvarðsson, 2.8.2013 kl. 11:55

46 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Það er sagt vera algengt í vanþróuðum landbúnaðarsamfélögum að fólk leitist við að takmarka aðra atvinnuvegi, svo sem verslun, og loka þá úti frá samfélaginu.

Slíkt er að sjálfsögðu að einhverju leyti gert með fordæmingu.

Á Íslandi kemur andúð á verslun fram strax í Íslendingasögum, einkum verslun sem stunduð er í ábataskyni.

Á sama tíma er líka tekið að takmarka leyfi fólks til að stofna heimili án þess að hafa jarðnæði og búfé til að lifa á og hefur því banni einkum verið stefnt gegn því að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu."

"Slíkar takmarkanir á öðrum búskap en sveitabúskap ganga í gegnum Íslandssöguna í dálítið ólíkum og misströngum myndum.

Svo seint sem árið 1887 samþykkti Alþingi lög, sem gengu í gildi árið eftir, þar sem mönnum var bannað að setjast að í þurrabúð nema með skriflegu leyfi hreppsnefndar, eftir að hafa sannað með vottorðum tveggja skilríkra manna að þeir væru reglumenn og ráðdeildarsamir."

Vísindavefurinn - Af hverju voru yfirvöld á Íslandi á móti borgarsamfélagi og Reykjavík?

Þorsteinn Briem, 2.8.2013 kl. 11:58

47 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þurrabúð:

1.
Það að vera sjómaður eða daglaunamaður í verstöð, kauptúni, en hafa ekki afnot af jörð eða halda húsdýr: þurrabúðarmaður, - fólk.

2.
Býli þar sem þess konar maður býr, tómthús.

(Íslensk orðabók Menningarsjóðs.)

Þorsteinn Briem, 2.8.2013 kl. 12:15

48 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Ómar: Afar góð hugvegkja hjá þér og þörf lesning fyrir alla núlifandi Íslendina. Þetta er ótrúlega stuttur tími síðan að ástandið var víða, ef ekki í öllum landshlutum, eins og þú dregur upp myndglefsur af samkvæmt heimildum þínum. Ég heyrði hliðstæðar sögur hjá afa mínum og móður um aðstæður sem þau urðu vitni að á sínum tíma ung að árum. Þú talar um "áþján og ófrelsi" alþýðunnar á þessum tímum og fyrri öldum. Þrældómur hefur á sér ýmsar birtingarmyndir. Þá var stór hluti almennings, "alþýðan", háð stór-fjáreigendum sem áttu tiltölulega mikið fé í húsum, og þrælkaði fyrir mat sínum upp á þeirra náð og sumir meira segja án slíkrar "náðar" úti á Guði og gaddinum sem förufólk.
Í dag þrælar almenningur, skuldarar landsins, fyrir fjáreigendur nútímans sem eiga fé sitt í bönkum og fjármálastofnunum. Leiga leiguliða nútímans til fjáreigenda felst í ofurvöxtum og verðbótum sem hneppir þá í skuldafjötra stóran hluta ævinnar, ef ekki alla ævi. Þessari þrælkun, "áþján og ófrelsi", þarf að linna.

Kristinn Snævar Jónsson, 2.8.2013 kl. 12:23

49 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Takk fyrir þessa frábæru færslu. Ef ég lít til þeirra sagna sem ég hef lesið, sé ég enga óraunveruleikaþætti í þínum skrifum. Óumdeilanlegt er að hér var mjög mikil stéttaskipting og lítil reisn yfir meðferð á fólki sem ekki gat sjálft bjargað sér; eða mátti ekki bjarga sér vegna vistarbanda. Mér er kunnugt um að langt fram á 5. áratug síðustu aldar var nokkuð um að fólk væri gert út af húsbændum sínum, til erfiðisvinnu eða sjósókna. Þetta fólk færði svo húsbændum sínum vinnlaun sín, ósnert, og naut einskis af afrakstri vinnu sinnar. Samkvæmt mínum heimildum, var það á árinu 1943 eða 1944, sem skipstjóri á togara komst að því að einn hásetanna var í vistarbandi og fengi ekkert af kaupi sínu. Lét þessi skipstjóri þennan man fara með sér á skrifstofu sýslumanns og kaupa sér svonefnt "lausamannsbréf", til þess að hann mætti verða frjáls maður og eiga sín vinnulaun sjálfur.

Góðmennska hreppsnefnda gagnvart þeim sem minna mega sín er tilgreind í einu innlegginu. Vafalaust hafa verið til einhverjir góðir aðilar en þeir voru ekki mikið áberandi, og eru það í raun og veru ekki enn. Þannig henti það föður minn, löngu áður en ég fæddist, að verða óvinnufær vegna óhollrar starfsaðstöðu, en hann var kyndari á togara. Fjölskyldan var því ekki sjálfbjarga um framfærlsufé. Þar sem þau bjuggu ekki í fæðingarhreppi föður míns, var fjölskyldan flutt hreppaflutningum þangað og þar voru börnin rifin frá móður sinni og þeim komið fyrir á ýmsum bæjum, en hún (móðir mín), var sett á lítið kot með yngsta barnið og veikann manninn.

Enn í dag heyrum við svona frásagnir, að fjölskyldum og systkynum sé tvístrað í stað þess að leysa vandamál fjölskyldunnar sem heildar. Öll svona dæmi eru ljót upplifunar og aflestrar en þó toppar líklega dæmi frá árinum 1963, þegar hreppsnefnd úti á landi, stal dánarbúi hjóna í þorpinu, sem bæði létust á því ári. Bæði voru gömlu hjónin á sjúkdahúsum á höfuðborgarsvæðinu, (ekki á sama sjúkrahúsi), en yngsti sonur konunnar og fóstursonur mannsins, bjó í húsinu og hafði búið þar í hart nær tvo áratugi. Meðan sonurinn var við útför foreldris síns í Reykjavík, stal hreppsnefndin húsinu og sett allt innbú dánarbúsins, ásamt veraldlegum eigum sonarins, út í opinn þurkhjall. Og þar sem þetta var í nóvember um haustið, snjóaði innbúið á kaf þarna og eyðilegðist allt, eins og það lagði sig.

Enn í dag hafa viðkomandi hreppsnefndarmenn ekki beðist afsökunar á framkomu sinni og engar bætur verið greiddar. Ég hef því miður sjaldan orðið var við mannúð eða mankærleika hjá fólki sem á , starfs síns og stöðu vegna, að veita skjól þeim sem þurfa að leita sér hjálpar. Mitt álit er því að enn sé mjög alvarleg stéttaskipting hér á landi, sem allir virðast horfa framhjá.

Guðbjörn Jónsson, 2.8.2013 kl. 12:27

50 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar frá 1874 og aðdragandi að setningu hennar:"

"Sérstök mótstaða var hér á landi við atvinnufrelsið enda var það talið höggva að undirstöðum hins fábreytta íslenska bændasamfélags þar sem gildandi voru strangar reglur um vistarbönd og vistarskyldu vinnufólks og lausamennska var litin hornauga.

Fyrir setningu stjórnarskrárinnar 1874 hafnaði Alþingi þannig öllum tillögum dönsku stjórnarinnar um afnám hafta á atvinnufrelsinu."

"Að ýmsu leyti gengu tillögur dönsku stjórnarinnar lengra en þær kröfur sem Íslendingar sjálfir gerðu."

"Hér á landi var við lýði fábreytt og íhaldssamt bændasamfélag sem tók hugmyndum um ýmis frelsisréttindi borgaranna fremur fálega.

"Þannig voru Danastjórn og fulltrúar hennar í raun þau öfl á Alþingi sem voru helstu boðberar aukins frjálslyndis og ýmissa frelsisréttinda á Íslandi á síðari hluta 19. aldar."

(Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Stjórnskipunarréttur og mannréttindi, útg. 2008, bls. 27-30.)

Þorsteinn Briem, 2.8.2013 kl. 12:55

51 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Aðeins vegna hreppanna: Fátækrahjálp var í höndum hreppanna alla tíð, m.a. staðfest í tíundarlögum 1096 þar sem fátækratíundin, 1/3 tíundar, gekk til hreppanna.

Hreppaflutningar var ein afleiðing þessa fyrirkomulags. Hrepparnir sinntu "velferðarþjónustu" þess tíma samkvæmt lögum, fengu til þess tekjur og reyndu að fara eins sparlega með og hægt var. Samúð eða góðmennska var sjálfsagt látin sæta afgangi. En það er mikilvægt að hafa í huga að hér á Íslandi hefur alltaf verið skipulögð fátækrahjálp! Í Danmörku voru engir niðursetningar, þar fékk fólk að deyja drottni sínum. Kaþólska kirkjan stundaði auðvitað alltaf fátækrahjálp, en eftir siðaskipti lagðist það af. Með tilkomu upplýsingarinnar hóf ríkisvaldið að gera ráðstafanir til hjálpar fátæklingum, en þá vor liðnar 3 aldir án nokkurs sem heitir fátækrahjálp í Danmörku.

Þ.a. þótt aðbúnaður fátækra hafi verið hörmulegur á Íslandi var hann þó skárri en í "herralandinu" lengst af.

Brynjólfur Þorvarðsson, 2.8.2013 kl. 12:57

52 identicon

Takk fyrir góðan pistil Ómar Ragnarsson.

Mörg okkar eiga persónulegar frásagnir af öfum og ömmum okkar frá þeirra tíma; Við systur áttum ömmu sem var vinnuhjú á heimili prests. Hún eignaðist barn í vinnumennskunni og missti það fárra ára gamalt. Hún þurfti að vinna í 7 ár launalaust til að greiða fyrir útför barnsins síns. Slíkt var réttlæti þeirra tíma. Það er ekki lengra síðan.

Á.Þ.

Ásta Þórarinsdóttir (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 13:17

53 identicon

Mjög góður pistill. Nú nýverið hef ég verið að lesa sögulegar heimildir sem Bragi Þórðarson hefur verið að skrá. M.a um ekkju sem flutt var frá Akranesi á báti yfir í Kjósina þar sem haldið var uppboð á börnunum og konunni. Konan hafði mist mann sinn og gat ekki séð fyrir börnum sínum sökum fátæktar. Saga sem einkennist af mannfyrirlitningu. Þarna sáu bændur í Kjós kauptækifæri til framtíar horft með vinnufólk. Sennilega hefur mismunur á þeim í efstu lögum og þeirra sem voru á botninum verið meiri í þá daga en nú. Pistill þinn Ómar er stór góður og hreyfir greinilega við fólki.  

Egill Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 13:20

54 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kristinn Snævar Jónsson,

"Leiga leiguliða nútímans til fjáreigenda felst í ofurvöxtum og verðbótum sem hneppir þá í skuldafjötra stóran hluta ævinnar, ef ekki alla ævi. Þessari þrælkun, "áþján og ófrelsi", þarf að linna."

Þessir "fjáreigendur" er meðal annars fólk sem er að leggja fyrir, oftast í nokkur ár, til að geta keypt sína fyrstu íbúð.

Og þeir sem fá lán hjá þessum sparifjáreigendum í gegnum bankana er til dæmis fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð eða stærri íbúð en það á fyrir.

Fyrirtæki fá einnig lán hjá heimilum
sem eru að leggja fyrir og fyrirtæki eiga yfirleitt ekki háar fjárhæðir á bankareikningum, sem greiða arð til sinna hluthafa.

Heimilin eru því aðaleigendur sparifjár í bönkum.


Verðbólgan
hér á Íslandi hefur verið miklu hærri en á evrusvæðinu og raunvextir hér á Íslandi hafa yfirleitt ekki verið háir.

Og hér áður voru raunvextir hérlendis gríðarlega neikvæðir, sem sagt mun lægri en verðbólgan fyrir víðtæka upptöku verðtryggingar hér árið 1979, þegar engir áttu peninga í banka nema börn og gamalmenni.

Ef verðtryggingin yrði lögð af verða veitt hér óverðtryggð lán með vöxtum sem lánveitendur hafa að sjálfsögðu hærri en sem nemur hugsanlegri verðbólgu hér á Íslandi á lánstímanum.

Og þessir óverðtryggðu vextir verða að sjálfsögðu ekki lágir, þar sem enginn hefði hugmynd um hversu mikil verðbólgan yrði hérlendis á lánstímanum.

Verðbólga hér á Íslandi 1940-2008


Í löndum sem styðjast við sterka gjaldmiðla og
hafa langa sögu um nokkuð góðan árangur í baráttu við verðbólgu er hins vegar algengt að gerðir séu langtímasamningar í viðkomandi mynt, jafnvel með föstum vöxtum.

Húsnæðislán í Svíþjóð:


Handelsbanken - Aktuella boräntor


Og peningar eru að sjálfsögðu eign, rétt eins og til að mynda íbúðir sem aftur er hægt að selja fyrir peninga.

"72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir."

Stjórnarskrá Íslands

Þorsteinn Briem, 2.8.2013 kl. 14:01

55 identicon

Takk fyrir Ómar. Það var lærdómsríkt að þesa þennan pistil.

Sigríður Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 14:10

56 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Það er merkilegt að sjá fólk nota orðið sögufölsun um þessa kjarnyrtu frásögn. Slík fullyrðing er bara "fínt" orðalag að pistilskrifari sé að ljúga.

Það er að sjálfsögðu staðreynd að stéttaskipting var til staðar á Íslandi. Og ákveðnir aðilar héldu heilu sveitarfélögunum og þjóðfélaginu í heljargreipum. En svo er nefnilega enn að hluta til, hvað bæði þessi atriði varðar.

Erlingur Alfreð Jónsson, 2.8.2013 kl. 16:39

57 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Erlingur, ég var ekki að dæma frásögnina í heild sem sögufölsun, heldur um ástæður Vesturferðanna. Og mynd Baldurs Hermannssonar, "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" fékk slæma útreið hjá sagnfræðingum. Ekki að hún væri öll staðlausir stafir, heldur fyrir að vera full af alhæfingum og bera vott um skoðanir höfundar, fremur en "sagnfræði".

Sömu sögu má segja um halalújakórinn hér. Þetta eru persónulegar skoðanir en ekki sagnfræði.

Ég skora á ykkur að horfa á þennan fróðlega umræðuþátt um þetta málefni sem Sigurður Valgeirsson stjórnar og pósta því þennan hlekk aftur:

http://www.youtube.com/watch?v=PZxxhowKwNs#at=807 

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 17:20

58 Smámynd: Sigurður Antonsson

Vondur guð hjá vondu fólki?

Amma mín dó af barnsförum 1912. Heimilið leystist upp og börnin fimm voru tekin í fóstur af venslafólki. Börnin áttu bágt með skilja síðar meir af hverju afi reyndi ekki að halda fjölskyldunni saman á eigin heimili. Erfitt er að dæma um fyrri aðstæður því breytingarnar eru það miklar og orsakir margar.

Engin samhjálp var til sem gat borið uppi heilu fjölskyldurnar. Þegar fyrirvinnan dó skyndilega var fátt um úrræði. Tíð hörmuleg sjóslys voru næsta daglegt brauð og meðalaldurinn lágur. Gagnlegt að rifja þessa þætti upp með Ómari. Gott að vera þakklátur fyrir framfarirnar þótt alltaf megi gera betur.

Sigurður Antonsson, 2.8.2013 kl. 17:40

59 identicon

frábær pistill Ómar, ég er ekki orðinn fimmtugur, én ég átti afa sem fæddist vinnuhjú árið 1900 á Rauðasandi fyrir vestan langamma átti annan dreng ári seinna og þá var þeim sagt upp í vistinni þar sem "vinnuhjúin" voru farin að hrúga niður börnum fóru þaðan í vinnumensku með afa og bróðir hans í Kollsvík og árið 1918 keypti afi sig lausan úr þrældómnum eftir að hafa farið 3 vertíðir tilGrindavíkur að skipun bóndans í kollsvík og hann hyrt launin hans, en lausamans bréfið er til og kostaði sem samsvaraði árslaunum verkamans, það er ekki lengra síðan að þrældómur viðgengst og var kallaður vistarbönd.

Guðmundur Helgason (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 17:46

60 identicon

Ástæður vesturferða Íslendinga og annarra Evrópumanna voru auðvitað margar, svo sem fátækt, þröngbýli, misrétti og jafnvel hungur.

En kveikjan að pistli Ómars og umræðunni allri var hin heimskulega og þjóðrembda ræða forsætisráðherrans 17. júní.

Kögunarstrákurinn, einn af ný-ríkustu mönnum landsins, belgdi sig út með ofuráherslu á þjóðerni, trúarstefnu og nesjamennsku Heimssýnar. Fullyrti blákalt að á Íslandi hafi aldrei verið efnahagsleg stéttarskipting. Kolrugluð söguskoðun!

Minnti á heimsfrægar bullræður forseta ræfilsins um yfirburði útrásarbófanna, sem áttu rætur sínar í arfleifð frjálsra víkinga, skálda og landkönnuða. En vegna yfirburða þekkingar Ólafs í „molecular biology“, gékk hann þó lengra en Sigmundur Davíð og var einnig með erfðafræðilegar skýringar á ofurmennsku Íslendinga.

Tveir vindhanar, ósvífnir pólitíkusar, báðir þjóð okkar til skammar.

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 18:46

61 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Haukur, Sigmundur nefndi aldrei efnahagslega stéttaskiptingu. Hún hefur alla tíð verið við lýði. Stéttaskipting á erlendan mælikvarða hefur aldrei þekkst á Íslandi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 19:24

62 identicon

Orð í tíma töluð. Verðum að sjá hvernig hlutirnir voru í raun.

Sólveig Hannesdóttir (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 19:27

63 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Stéttaskiptin á erlendan mælikvarða hefur aldrei þekkst á Íslandi."

Jæja? Var ekki þrælahald löglegt frá landnámi fram yfir árið 1000?

Í framhaldi af því var bara fundin upp önnur stéttaskipting, sem vistarbandið var hluti af.

Allt fram eftir miðja nítjándu öld var það refsivert ef vinnuhjú fór í leyfisleysi út af jörðinni eða inn á afrétt, og má sjá dóma yfir fólki, sem braut það af sér.

Ómar Ragnarsson, 2.8.2013 kl. 19:48

64 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Náði því Gunnar, mér finnst engu að síður alrangt af þér að halda því fram að staðhæfing í bloggfærslu sé sögufölsun. Hvernig má það vera? Ef þér finnst staðhæfingin röng þá er einfaldlega um rangfærslu að ræða að þínu mati, en ekki sögufölsun. Sögufölsun er mun umfangsmeira fyrirbæri (að mínu mati).

"Stéttaskipting á erlendan mælikvarða..." Hvers konar stéttaskipting er það? Og hvernig er hún öðruvísi en önnur stéttaskipting?

Erlingur Alfreð Jónsson, 2.8.2013 kl. 20:16

65 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hún getur t.d. verið fólgin í sérréttindum ýmiskonar m.a. fengin með erfðum.

Í dag er yfirleitt talað um tvær stéttir á vesturlöndum; borgarstétt og og verkalýð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 20:43

66 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

borgarastétt

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 20:43

67 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Aðallinn áður fyrr var á sumum sviðum hafin yfir lög sem hinn almenni borgari varð að lúta. Það er sem betur fer liðin tíð, þó ekki alveg alsstaðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 20:47

68 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Í manntalinu árið 1703 töldust Íslendingar 50 þúsund. Hlutfallsleg skipting þeirra var eftirfarandi: húsbændur og húsmæður 28%, börn í foreldrahúsum 31%, ættingjar og fósturbörn húsbænda 8%, vinnufólk 19%, flakkarar og niðursetningar 14%. (Tekið úr Fornir tímar eftir Gunnar Karlsson ofl  bls. 237)"

http://pallvil.blog.is/blog/pall_vilhjalmsson/entry/1307953/ )

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 20:48

69 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það sem gefur þessari færslu gildi er ekki sagnfræðin, sem um má deila, heldur þessi sterka samkennd bloggarans með fólki.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.8.2013 kl. 20:58

70 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Mig grunaði reyndar að átt hefði verið við aðalstétt eða yfirstétt einhvers konar (s.s. aristocracy). Það er bara fásinna að halda því fram að fyrst ekki var til stétt (ofurríkra?) fyrirmenna á "erlendan mælikvarða" að þar með hafi ekki verið stéttaskipting í landinu. Bara af því flestir töldust til bænda voru þá allir jafnir að mestu?

Sérréttindi geta skapast vegna fleiri aðstæðna en erfða, m.a. efnhags (eins og Ómar bendir á varðandi ömmu sína sem var skipt fyrir kú), en einnig ægivalds yfir náunganum af ýmsum ástæðum.

Upptalningin úr manntalinu frá 1703 segir því miður ekkert til um hverjir voru leiguliðar og hverjir eignafólk og hvort stéttaskipting var ríkjandi eður ei.

Erlingur Alfreð Jónsson, 2.8.2013 kl. 21:52

71 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í meira en hundrað sinnum fjölmennari löndum voru hinir ríkustu auðvitað margfalt ríkari en hinir ríkustu á Íslandi.

En manneskja sem á næstunm ekki neitt er alveg jafn fátæk gagnvart ríkum manni á íslenskan mælikvarða og ríkum manni á erlendan mælikvarða.

Ómar Ragnarsson, 2.8.2013 kl. 22:28

72 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ríkir og fátækir sátu hlið við hlið í kirkjum og öðrum samkomum á Íslandi. Nokkuð sem var óhugsandi í flestum öðrum löndum. Allir gátu talað við alla hér og svo er enn.

Sænskur maður sem ég þekki vann í banka í Svíþjóð sem Kaupþing yfirtók. Áður en það varð, þá talaði fólkið "á gólfinu" ekki við toppana. Skilaboð þurftu að fara eftir stéttskiptum boðleiðum. Eftir að Íslendingarnir tóku yfir (Hreiðar o.co.) þá gjörbreyttist þetta. Topparnir sátu með hverjum sem var og spjölluðu um hvað sem var, nokkuð sem var óhugsandi fyrir íslensku innrásina.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 23:21

73 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrir nokkrum árum sat ég í flugvél innanlands við hliðina á utanríkisráðherra Íslands sem ég þekkti ekkert persónulega. Við spjölluðum um daginn og veginn. Ólíklegt að slíkt ætti sér stað í öðrum löndum.

Ég var eitt sinn einkabílstjóri starfsmanns franska utanríkisráðuneytisins. Honum fannst yndislegt hve Ísland virkaði stéttlaust þjóðfélag, ólíkt Frakklandi. Í stjórnsýslunni þar er hrikaleg goggunarröð í samskiptum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2013 kl. 23:26

74 identicon

Athugasemd við athugasemd No: 57   Gunnar þar segir þú "Þetta eru persónulegar skoðanir en ekki sagnfræði" væntanlega á það líka við þínar ágiskanir.

 "Í stjórnsýslunni þar er hrikaleg goggunarröð í samskiptum."   Talar þú af reynslu? eða eru með persónlegar skoðanir ekki sagnfræði?

thin (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 00:19

75 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég var að vitna í þann franska

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.8.2013 kl. 00:42

76 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

... og þetta með "persónulegar skoðanir" er tilvitnun í sagnfræðinga sem koma fram í umræðuþættinum sem ég visa í.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.8.2013 kl. 00:44

77 identicon

Þessi grein þin, Ómar, er "classic" í þeim skilningi, að þegar allt fjasið, niðrunin og bullið er gleymt og grafið, þá blífur þessi grein. Hún er aldarfarslýsing. Þú berð sannleikanum vitni. Einhvern tíma sagði ég við þig, að það ætti að taka saman í bók eða á disk húmoreskur þínar - háð þitt og spott, spaug og spé - sem þú byrjaðir á menntaskólaárum og fram á okkar öld, og það yrði betri aldarspegill en flest annað úr þeirri samtíð. Ég held, að þú eigir ekki þinn líka með öðrum þjóðum í því að geta brugðið upp spegli tíðarandans í bráðum sextíu ár af frumleik, atorku, hagmælsku, óbrigðulu minni og hamslausu líkamlegu fjöri. Nefnið mér annan, ef þið þekkið hann.

Þetta með sagnfræðina er reyndar, ef eitthvað er, öllu verra en það sem fram kom í þáttum Baldurs Hermannssonar: "Í hlekkjum hugarfarsins".Borgarmyndun í Evrópu skapaði eftirspurn eftir sjávarafurðum, umfram það sem fullnægt varð af heimamiðum. Baskar, Bretonar, Frakkar, Bretar, Hollendingar, Þjóðverjar og Skandínavar leituðu hver á fætur öðrum á Íslandsmið (og frá 16du öld á Nýfundnalandsmið) til þess að fullnægja eftirspurn.

Í sögu þorsksins (History of Cod)eftir portúgalskan fræðimann í þýðingu Ólafs bróður míns, segir, að þorskurinn hafi flutt meiri auð til Evrópu en allt gull og silfur nýlenduræningja Spánverja í nýja heiminum öldum saman.

Þeir sem komu í veg fyrir, að Íslendingar gætu tekið þátt í þessari auðsköpun með útgerð og útflutningi, bera mikla ábyrgð á örbyrgð þjóðarinnar og landflótta. Það er ekki nóg að nefna náttúruhamfarir. Harmkvælin voru heimabúin. Kjarni málsins er sá, að landeigendayfirstéttin íslenska (umbjóðendur danska verslunarvaldsins) hindraði fólksflutninga að sjávarsíðu í skjóli valds. Þetta frestaði efnahagsframförum á Íslandi um hálft árþúsund eða svo.

Arftakar þessa landeigendavalds hafa nú aftur hreiðrað um sig á valdastólum (eftir að hafa flúið land í bili í kjölfar hruns). Það er von að Ómar spyrji: Mun saga landflóttans endurtaka sig?

Jón Baldvin (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 00:50

78 identicon

"Kjarni málsins er sá, að landeigendayfirstéttin íslenska (umbjóðendur danska verslunarvaldsins) hindraði fólksflutninga að sjávarsíðu í skjóli valds. Þetta frestaði efnahagsframförum á Íslandi um hálft árþúsund eða svo. "

Þetta er eiginlega snargalin söguskoðun hjá þér Jón, eða hvað með landeigendayfirstéttir t.d. í Danmörku, af hverju hindraði hún ekki þá á sama  hátt þéttbýlismyndun?

Ætli hluti skýringarinnar á andúðinni við flutning að sjávarsíðunni hafi verið hin tíðu sjóslys sem einmitt vegna ábyrgðarkendar hreppanna lenti á þeim Þ.e. í gegn um velferðarkerfi þess tíma.
Sbr. ágætar athugasemdir Brynjólfs hér að ofan.

Mjög fróðlegt er  á hinn bóginn að velta fyrir sér hvort framfarasprengingin sem varð upp úr 1900 hafi fyrst og fremst stafað af krónunni, kostum hennar sem um leið geta orðið gallarnir.  Fram að því hafi skortur á gjaldmiðli gert menn raga við framkvæmdir þar sem ekkert varð gert nema að "eiga fyrir því" en með upptöku eigin gjaldmiðils hafi Íslendingar náð að prenta peninga sem ávísun á framtíðarverðmæti svo sem það að setja velar í árabátana. 

        Nú þegar gallar þessarar sömu krónu ætla okkur lifandi að drepa, líklega vegna misnotkunar á þessari sömu peningaprentunaraðferð, þá gæti verið holt að stúdera betur hvað gerðist hér raunverulega upp úr 1900.

Ómar er náttúrulega þjóðargersemi að frumleik og ferskleika en heldur mætti hann nú spara lofið á bullið í Baldri Hermannssyni hér um árið.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 01:42

79 identicon

Þetta er frábær grein og segir frá staðreyndum sem vissulega er hægt að lesa í æfiskrám og frásögnum frá þessum tíma.

Fyrir mér er það umhugsunarefni að á öllum tímaskeiðum finnst þessi munur. Sem bendir til að mínu mati að það sé til fólk á öllum tímum sem finnur enga samkennd með meðbræðrum sínum og systrum. Við sjáum dæmi frá hrunverjum, stjórnmála og embættisaðlinum. Bankafólk með sín ofurlaun og hlutabréfahvata þar fyrir utan. Við sjáum forstjóra og útgerðarmannaliðið, telja sjálfsagt þennan mikla launamismun. Á sama tíma koma þessir kónar fram og telja að við verðum að setja hófstilltar kröfur fyrir almennt launafólk og blóta öllu í sand og ösku um há veiðigjöld. Þesskonar málflutningur benda á aðalsmenna hugsunargang og hroka.; Auðvitað á ég þetta meira en skilið;, en til þess að það gangi upp, ber ykkur almúganum að spenna að minnsta kosti um eitt gat. Aldraðir og öryrkjar mega lifa á 180.000 kr á mánuði fyrir skatta. Og engin af þessu fólki sér minnstu ástæðu til að leiðrétta þetta. Hefur eitthvað breyst hugafallslega á 250 árum??

Stefán Þórðarson (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 10:44

80 identicon

Með tilvísun í #77: Bryndís er konungsgersemi, en Ómar er þjóðargersemi.  

Smári Ragnars (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 11:17

81 identicon

Fyrr ég aldrei fann hvað hörðfátækt orkað getur,hún frá minni móðurjörðmig í útlegð setur. Eftir hálfrar aldar-töfónýtt starf og mæðileita ég mér loks að gröflangt frá ættar-svæði. Gnauðar mér um grátna kinngæfu-mótbyr svalur.Þig ég kveð í síðsta sinnsveit mín Aðaldalur Kveð ég vini, fyrða og fljóð,ferða til ei hlakka,kærleik, dyggð og kynni góðklökkur öllum þakka. Sigurbjörn Jóhannesson, frá Fótaskinni í Aðaldal. 

Sigurbjörn, fimmtugur bóndi,  flutti til Vesturheims 1889. Hans dóttir var Jakobína Sigurbjörnsdóttir Johnson, sem varð frægt skáld í Vesturheimi, orti bæði á íslensku og ensku.

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 11:34

82 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þættir Baldurs Hermannssonar voru ekki gallalausir. Of mikið var um alhæfingar að mínu mati sem skemmdu fyrir og gáfu gagnrýnendum óþarfa höggstaði. En þeir komu eins og hvítur stormsveipur inn í þjóðfélagsumræðuna þegar hún þurfti þess mjög við.

Þættir hans voru brýnt innlegg inn í hana og það þurfti að hrista upp í henni.

Það sem var grátlegast við umræðuna þá um þessa þætti var það, að nútíma bændur skyldu telja að sér og forfeðrum sínum vegið sem heildar.

Þetta var þveröfugt. Baldur reis til varnar um 90% íslenskra bænda, sem voru leiguliðar og áttu allt undir þeim hlutfallslega fáu, sem höfðu haldið þjóðinni "í hlekkjum hugarfarsins".

Ómar Ragnarsson, 3.8.2013 kl. 11:44

83 identicon

Sæll ómar

Afi minn, (1868 - 1942, sem reyndar var afi Guðbjarts Hannessonar líka) Þurfti að segja sig á sveit árið 1908 og missti við það kosningaréttinn. Hann fékk hann ekki aftur fyrr en 1930. Hann missti sjálfræðið i búskap sínum og þurfti að lokum að bregða búi á leigujörðinni. Það er ekki lengra síðan - þetta var afi minn og ég er 58 ára gamall.

Bjørn Larusson (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 11:51

84 identicon

Fyrr ég aldrei fann hvað hörð

fátækt orkað getur,

hún frá minni móðurjörð

mig í útlegð setur. 

Eftir hálfrar aldar-töf

ónýtt starf og mæði

leita ég mér loks að gröf

langt frá ættar-svæði. 

Gnauðar mér um grátna kinn

gæfu-mótbyr svalur.

Þig ég kveð í síðsta sinn

sveit mín Aðaldalur.

Kveð ég vini, fyrða og fljóð,

ferða til ei hlakka,

kærleik, dyggð og kynni góð

klökkur öllum þakka. 

Sigurbjörn Jóhannesson, frá Fótaskinni í Aðaldal. 

Sigurbjörn, fimmtugur bóndi,  flutti til Vesturheims 1889. Hans dóttir var Jakobína Sigurbjörnsdóttir Johnson, sem varð frægt skáld í Vesturheimi, orti bæði á íslensku og ensku.

Sæll, Ómar. Bið þig að fjarlægja ummæli 81. Copy/paste heppnaðist ekki. Þetta ljóð eftir Sigurbjörn ættu allir Íslendingar að lesa, jafnvel læra. Kv. HK.

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 11:56

85 identicon

Sammála því Ómar að mynd Baldurs var ekki gallalaus. Og menn (ekki síst bændur) tóku því sem svo að verið væri að segja að bændur almennt á Íslandi hefðu verið alveg sérlegar skepnur.

Málið er að þeir sem betur máttu sín fóru gjarnan illa með þá minni máttar og það var ekkert sér íslenskt fyrirbæri og ekkert auðkenni bænda frekar en annarra.

Baldur stillti því þannig upp að bændur hefðu komið í veg fyrir þéttbýlismyndun og að þess vegna hefði allt verið svona hörmulegt. En þeir sem hafa kynnt sér kjör fátækra og munaðarlausra í París og London á þessum tíma sjá glöggt að þeirra líf var engin dans á rósum heldur. Má um það deila hvort skárra var að vera munaðarleysingi í borgum Evrópu eða niðursetningur á Íslandi á þessum tímum.

Jón Bragi Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 12:06

86 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar Hansen leikstjóri taldi 1953 að götubörnin væru mestu vesalingar heimsins og að þannig skyldi liti á hlutverk götudrengsins í verki Hugos.

Nú eru götubörnin fjölmennustu vesalingarnir með stækkandi borgum.

Ómar Ragnarsson, 3.8.2013 kl. 13:26

87 Smámynd: Tryggvi Helgason

Þessi grein þín, Ómar, er frábær, - greinin er hrein snilld og ég vil þakka þér kærlega fyrir þessa grein.

Óneitanlega þá vekja skrif þín upp ýmsar áleitnar spurningar. Almenningur virðist enn vera rígbundinn á klafa vistarbandanna, rétt eins og á fyrri tímum, þótt nú sé með öðru sniði.

Í stað jarðeignarbændanna er nú komin önnur gerð óðalsbænda, en það eru "kvóta-bændurnir" !

Og líkt og jarðeignabændurnir héldu vinnuhjúum í fjötrum vistarbandanna, þá halda kvóta bændurnir, - (útgerðarmenn með fiskveiðiheimildirnar, "kvótana" svokölluðu) - öllum íslendskum sjómönnum í heljargreipum hinna nýmóðins vistarbanda, þar sem enginn sjálfstæður sjómaður er frjáls að stunda sína atvinnu.

Sparisjóðir og lífeyrissjóðir er svo annað form nútíma vistarbanda þar sem launþegar eru þvingaðir til þess að afsala sér hluta launa sinna í ákveðna sjóði. Hluti sjóðanna er síðan lánaður til fólks til húsakaupa, en með ofurkjörum vísitölubindinga. Það er enn eitt vistarbandið.

Og "Stóri-Bóndi" - "Alþingi" - setur svo lög til þess að viðhalda þessu ófrelsi, - nútíma vistarböndunum. Hvenær ætla hinir kúguðu að vakna ?

Tryggvi Helgason, 3.8.2013 kl. 14:41

88 identicon

Takk, Ómar, fyrir frábæra færslu.

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 15:23

89 identicon

Athygliverð hugvekja.  Hverjum er fortíðin að kenna ? Hverjum er nútíðin að kenna ? Náttúrulega aðli allra tíma!  Ekki er okkur smælingjunum með afvelta ömmur að kenna... Ég held að innri vistarböndin séu verst.

Helgi Þórsson (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 20:09

90 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú í kvöld fékk ég vitneskju um enn eitt dæmið um varnarleysi smælingja, sem er ekki eldra en það, að um var mann, sem enn er á lífi en var sex ára tekinn af heimili sínu á Suðurlandi og komið fyrir í Stykkishólmi.

Hann strauk þaðan og komst alla leið heim til sín!

Móðir hans sagði þá að það væri greinilegt að erfitt væri að koma tauti fyrir hann og sendi annað barn sitt til Stykkishólms í staðinn.

Ómar Ragnarsson, 4.8.2013 kl. 02:41

91 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Bóndinn í Svinafelli í Öræfum sem gat látið frá sér eina kú,var efnaður í huga þess sem átti enga.Á sumum svæðum í Afríku gildir hið sama en í dag.í raun voru engir auðkýfingar á íslandi, jafnvel ekki þótt hér væru dnskir kaupmenn.Vistarbendið var ekki íslensk uppfinning.Í grunninn er þessi sögufölsun um að íslenskir bændur hafi á fyrri öldum verið auðkýfingar, sem hafi pínt leiguliða og vinnuhjú, partur af þeim áróðri sem er gegn íslenskum bændum í dag.Fátæklingar komust jafnvel til mennta á átjándu öld. Jón Eiríksson frá Skálafelli í Suðursveit er dæmi um það.En þótt bóndinn í Svínafelli gæti látið frá sér eina kú,þá var hann ekki efnaður.Hægt er að skoða upplýsingar um bústærð hans til að ganga úr skugga um það.

Sigurgeir Jónsson, 4.8.2013 kl. 08:06

92 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Danski Kóngurinn var stærsti

Sigurgeir Jónsson, 4.8.2013 kl. 08:13

93 identicon

Mikið gersemi ert þú Ómar! Hafðu mikla þökk fyrir innblásna grein, sem ég held að menn muni lengi minnast. Þegar ég var að kenna Íslandssögu í MA fyrir meir en mannsaldri sagði ég stundum bæði í gamni og alvöru: Svo var forsjóninnni fyrir að þakka að Íslendingar lentu undir Dönum en ekki Bretum sem hefðu áreiðanlega barið burt allan frelsisanda með þjóðinni, en mest ógæfa Íslandinga fyrr og síðar hefur verið íslensk höfðingjastétt sem markvisst kom í veg fyrir þéttbýlismyndun frá því að skreið tók að hækka í verði í upphafi 15. aldar vegna stífara helgihalds í Evrópu. Fyrst með aðförinni að Guðmundi Arasyni á Reykhólum síðan með Píningsdómi sem beinlínis kom í veg fyrir þéttbýlismyndun og þar með samkeppni um vinnuafl og til lagasetningar um gjafakvóta og verðtryggingu lánsfjár - en það hvort tveggja eru vistarbönd okkar tíma. Þættir Baldurs Hermannssonar voru firnagóðir þótt einhverja annmarka megi á þeim sjá. Þeir voru tæpitungulausir og lausir við þá geldu söguskoðun sem hér hefur lengi verið dýrkuð til að þóknast valdhöfum sem stýra öllum sjóðum og greiðslum til sagnfræðirannsókna.

Bárður G Halldórsson (IP-tala skráð) 4.8.2013 kl. 08:54

94 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Danski kóngurinn var stærsti eigandi jarða á íslandi lengi vel.Íslenskir bændur höfðu enga burði til að kaupa þilskip til útgerðar á fyrri öldum, það er sögufölsun að halda því fram að þeir hefðu getað það.Og einokunarverslunin bætti ekki úr skák hvað það snerti.Þær þjóðir sem stunduðu hér fiskveiðar og voru að reyna að koma af stað sjávarútvegi á Íslandi, á árunum fyrir 15 hundruð, Þjóðverjar og Englendingar kom danski kóngurinn burtu.Geldingarnir í Kína vissu hvernig átti að gara hlutina, en gátu það ekki sjálfir.Svo er einnig um þá sem agnúast nú út í íslenskan sjávarútveg og landbúnað, íslenska sjómenn, útgerðarmenn og íslenska bændur.Krataáróðurinn er ekki hættur þótt mannskapurinn hafi verið rassskeltur 27. apríl.

Sigurgeir Jónsson, 4.8.2013 kl. 09:52

95 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Líka má spyrja hefðu foreldrar ömmu Ómars Ragnarssonar verið betur sett ef bóndinn í Svínafelli hefði ekki gefið þeim kú.Bóndinn var augsýnilega mikið góðmenni.Hann tekur barn í fóstur af fátækum foreldrum og gefur þeim kú að auki.Að gefa það í skyn að hann hafii ætlað að þræla sjö ára barni út til vinnu er fjarstæða og ekki þeim til sóma sem gefur  í skin að barnið hafi í raun verið selt.Öræfingar á seinni hluta 19 aldar höfðu gott orð á sér, og hafa en, og engum þar um slóðir hefði dottið slíkt í hug.

Sigurgeir Jónsson, 4.8.2013 kl. 10:04

96 identicon

Alltaf áhugavert þegar Ómar Ragnarsson tekur sig til og túlkar söguna með sínum hætti:

"Augljóst ætti vera að jafn stórfelldur flótti landsmanna úr landi og flutningur fjórðungs þjóðarinnar til Ameríku á minna en aldarfjórðungi getur ekki hafa stafað að mestu vegna slæms árferðis þótt Öskjugosið 1875 ylli því að flutningarnir væru mestir frá Austurlandi."

"Hvers vegna fóru svo margir?

Engin ein ástæða er fyrir því að fólk flutti vestur um haf. Fjöldi fólks fór vegna erfiðra aðstæðna en margir fóru beinlínis í leit að ævintýrum og nýjum tækifærum. Seinni hluti 19. aldar var erfiður veðurfarslega og markaðist einnig af miklum náttúruhamförum sem leiddu af sér efnahagslega erfiðleika. Hver kaldi veturinn rak annan með köldum sumrum í kjölfarið , ís lá að landinu, stormar, sandfok og snjókyngi leiddu til landfoks, uppskerubresta, heyskorts og falli búpenings um gjörvallt landið. Öskjugos árið 1875 þakti landið ösku norðan- og austanvert og eitrað gas jók enn við erfiðleika bænda í örvæntingarfullri lífsbaráttu þeirra. Fréttir utan úr heimi bárust til landsins um fjöldafólksflutninga til Norður-Ameríku frá Evrópu og líkt og í Evrópu voru Íslendingar að upplifa fjölmargar breytingar, svo sem ónóg tækifæri til að efnast af búskap sínum og fá notið annarra atvinnutækifæra. Margir hugsuðu til þess að geta eignast eigið landrými og fá notið hagstæðari tækifæra og losað sig úr þeim vonlitlu aðstæðum sem þeir bjuggu við.

Nokkrir velmegandi Íslendingar hrifust af ævintýrinu og voninni um hagnað. Ákvörðun þeirra var tekin af fúsum og frjálsum vilja frekar en af illri nauðsyn. Á seinni árum brottflutninganna fóru margir einnig til að tengjast fjölskyldu og vinum sem sestir voru að og voru tilbúnir til að veita þeim aðstoð og hjálp við að koma sér fyrir." (http://www.hofsos.is/?c=webpage&id=70&lid=79&option=links)

Bíddu nú við Ómar minn, eigum við ekki að lesa þetta saman aftur:

"Seinni hluti 19. aldar var erfiður veðurfarslega og markaðist einnig af miklum náttúruhamförum sem leiddu af sér efnahagslega erfiðleika. Hver kaldi veturinn rak annan með köldum sumrum í kjölfarið , ís lá að landinu, stormar, sandfok og snjókyngi leiddu til landfoks, uppskerubresta, heyskorts og falli búpenings um gjörvallt landið."

Það er e.t.v. erfitt fyrir einlægan aðdáanda Al Gore og kolefniskirkjunnar að viðurkenna að erfitt veðurfar geti spilað inn í ákvarðanatöku fólks . . . ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.8.2013 kl. 11:34

97 identicon

Kvílík mögnuð skrif hjá þér,afhverju í ósköpum varst þú ekki búin að segja okkur þetta miklu fyrr kæri Ómar ?

Eða varst þú kanske búin að því ? Eða ??

Takk fyrir, við hjónin ætlum að lesa pistil þinn aftur og copyera hann á rafrænt form til aðgengis um aldur og deila með börnum okkar og barnabörnum. Enn og aftur takk fyrir skrif þín og FRÓÐLEIK

Höfum horft á samantekt Láru Hönnu margoft, látum linkin fylgja hér líka eins og Lára Hanna hefur sjálf gert hér að ofan.

Þjóð í hlekkjum hugarfarsins:

http://blog.pressan.is/larahanna/2013/02/16/thjod-i-hlekkjum-hugarfarsins/

Kristinn J (IP-tala skráð) 5.8.2013 kl. 13:40

98 identicon

Bestu þakkir fyrir frábæran pistil, Ómar.

Veturliði (IP-tala skráð) 5.8.2013 kl. 17:09

99 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þeim sem hafa hug á að komast að því sanna um stéttskiptingu á átjándu öld og fram á þá nítjándu er bent á að lesa Öldin átjánda, bæði bindin og jafnframt Sögu Húnvetninga 1-3 eftir Gísla Konráðsson sagnfræðing.

1762. Sýslumaður Ísfirðinga dæmdur frá embætti í þriðja sinn fyrir margs konar misferli.

"Erlendur Ólafsson sýslumaður í Ísafjarðarsýslu var í þriðja sinn á tæpum áratug dæmdur frá embætti á Öxarárþingi nú á dögunum. Er hann borinn mörgum ófögrum sökum, bæði fyrr og síðar, svo sem því að hafa látið morðingja leika lausum hala í sýslunni, drepið sjálfur mann og brennimerkt fanga eftir eigin dómi að ósannaðri sök og áfrýjuðu máli og gert eigur hans upptækar". Um mál þessa sýslumanns er langur kafli í Öldinni átjándu og má þar glöggt sjá að umræddur sýslumaður hefur verið glæpamaður og óþokki af stærri gráðu en margir þeir úr alþýðustétt sem varð fótaskortur á götu réttvísinnar. (Þess má geta að umræddur sýslumaður var bróðir Jóns Ólafssonar Grunnvíkings.) Af framburði vitna komu fram sterkar líkur á að sýslumaður hefði barið smalamann sinn til dauðs fyrir að finna ekki allt féð, þann hans síðasta smaladag.

Svo er annað mál hvort framsóknarmenn hafa sömu viðmið í stéttleysi og almenningur í þessu landi.

Árni Gunnarsson, 5.8.2013 kl. 17:40

100 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Illvirki tiltekinna manna bera ekki vitni um stéttaskiptingu, Árni, einungis um misjafna menn

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2013 kl. 20:25

101 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Að lokum þetta: Fólkið, sem ég nefni í pistli mínum, var allt fórnarlömb aðstæðna og nauðsynlegt er að horfa á gerðir þess af skilningi.

Langafi minn var hugsjónamaður hvað varðaði lækningarnar, sem hann stundaði og byggði á fáanlegum heimildum um það.

Á hans tíma var ekki hægt að hringja á lækni, skjúkrabíl eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Hann svaraði neyðarköllum fólksins og líknaði því, oft ásamt langömmu, hvenær sem var. Ótaldar voru kirkjuferðirnar sem þau gátu ekki farið og fleira, sem þau gátu ekki veitt sér, vegna sjúklinganna, sem voru inni á gafli hjá þeim oft á tíðum.

Enginn veit hve mörgum mannslífum þau björguðu.

Hann var langdvölum að heiman vegna lækninganna og hún varð að berjast áfram með allan barnahópinn og sýna af sér hörku.

Jón Sigurðsson frá Svínafelli komst við að sjá ástandið á heimilinu og enda þótt viðskiptin barn fyrir kú, vinnukraftur fyrir fæðu, virtist grimmur, var þetta eina leiðin til að að bjarga fjölskyldunni frá sulti, að fækka munnunum og stækka lífsbjörgina.

Langafi lofaði ömmu að koma aftur og sækja hana. Hann kom aldrei og hún sagðist síðar hafa lesið það úr augum hans þegar hann sagði það að þannig myndi það verða.

Á hverju vori vaknaði vonin hjá henni en dó jafnharðan.

Honum var vorkunn. Hver lætur sig ekki dreyma um betri tíð með blóm í haga?

Svo einfalt var þetta, afleiðing af fátækt þjóðarinnar, sem bitnaði mest og verst á þeim fátækustu.

Sá, sem gat látið frá sér kú, var kannski ekki ríkur á nútíma vísu, en á mælikvarða þess sem átti enga kú, var hann moldríkur og misskiptingin sár.  

Ómar Ragnarsson, 5.8.2013 kl. 23:19

102 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er staðreynd, að engri af öllum þeim umbótatillögum, sem fram komu í starfi Landsnefndarinnar, var hrint í framkvæmd. Sameinaðar sáu ríkjandi valdastéttir í Danmörku og á Íslandi um það.

Hitt er svo dálítið skondin mótsögn, að þegar skilyrði sköpuðust á Íslandi til að efnast vel með auknum sjávarafla og skipatækni um aldamótin 1900 barðist rikjandi valdastétt á Íslandi vel fyrir sjálfstæðinu, einfaldlega af því að það gagnaðist henni sjálfri best, - hún þurfti ekki lengur á hinni dönsku að halda, heldur vildi eiga afraksturinn af auðlindum Íslands sjálf.

Þar með hentaði það öllum vel að úthrópa Dani sem mest og láta það koma fram í þeirri Íslands sögu sem var kennd nær alla síðustu öld.

Danir voru að sönnu harðdrægir eins og aðrar nýlenduþjóðir en samt þeir skástu herrar sem Íslendingar gátu hreppt. Það gleymdist bara að geta þess.

Nú eru athugasemdir við þennan bloggpistil komnar á annað hundraðið og er það vel.

Kann ég öllum bestu þakkir fyrir þau skoðanaskipti og þær upplýsingar sem hafa komið fram.

Ómar Ragnarsson, 6.8.2013 kl. 01:34

103 Smámynd: GunniS

ég las aðeins fyrstu línurunar, en það sem kom upp í hugann er ástandið í dag, var fólk ekki að flytja úr landi til að geta fengið vinnu til að hafa í sig og á, og er sama staða ekki komin upp í dag, er mikla vinnu að hafa á íslandi núna ? er fólk ekki að flytja til noregs , danmerkur og cananda til að geta haft vinnu og lifað mannsæmandi lífi, bendir þetta ekki til að alþingi og yfirstéttinni sé alveg innilega sama um hvort það sé hægt að lifa hér á skerinu.

GunniS, 7.8.2013 kl. 14:16

104 identicon

Svona saga sagði afi okkar af föru sinni til Kanada á seinustu aldamótum.  Hann var stoltur að því að vera Íslendingur en sagði að Ísland hafi verð 'mesta skíta-land' á þeim tíma sem hann flutti út.  Hann var aldrei með neina heimþrá né laungunn til þess að heimsækja gamla landið.  Mjög skemmtileg grein. Ég þakka þessum sama afa fyrir það að ég, sem er þriðju kinnslóð Kannadisk get lesið hana á Íslensku.

Elva Sæmundsson (IP-tala skráð) 7.8.2013 kl. 15:06

105 identicon

Ómar Ragnarsson,

Síðustu setningarnar frá þér eiga e.t.v. að vera síðasta orðið, en

ég vil samt bæta einu atriði við, með þínu leyfi: Þú skrifar: "Danir voru að sönnu

harðdrægir eins og aðrar nýlenduþjóðir en samt þeir skástu herrar sem Íslendingar

gátu hreppt. Það gleymdist bara að geta þess".

Það gleymdist, að réttarstaða Íslands var aldrei staða NÝLENDU. heldur hafði Ísland

upphaflega aðeins gert samning við Noregskonung, eins og stjórnlagafræðingurinn

Konrad Maurer, prófessor við háskólanní München, Þýskalandi, benti á og gaf Jóni

Sigurðssyni þarmeð sterk rök í sjálfstæóisbaráttunni.  En Danir litu á Island sem

nýlendu og komu fram við Íslendinga í samræmi við það. En hvort Ísland hefði megnað

að standa á egin fótum í gegnum ár og aldir, skal ósagt látið, við vitum það ekki.

að standa á eigin fótum í gegnum ár og aldir, skal látið ósagt. 

Sigurlaug Sæmundsdóttir (IP-tala skráð) 7.8.2013 kl. 15:43

106 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Veit ég vel, Sigurlaug, að Íslendingar voru aldrei formlega nýlenda Dana, en vegna þess hvernig Danir umgengust Íslendinga hliðstæt því sem nýlenduþjóðir Evrópu umgengust nýelendurnar, hef ég notað hugtakið.

Íslendingar áttu aldrei möguleika á að standa á eigin fótum eftir að innanlandsófriður, rányrkja gegn landinu og kólnandi veðurfar neyddi þá til að þeirrar þjóðar, sem næst stóð, Noregs.

Eitt stærsta atriðið var að Íslendingar áttu ekki skóga til að höggva við í til að smíða nógu góð skip til flutninga og veiða.

Á fimmtándu öld og öldunum þar á eftir byrjuðu Englendingar, Þjóðverjar, Spánverjar og Frakkar í krafti yfirburða í skipakosti að nýta Íslandsmið.

Eini Íslendingurinn, sem reyndi að rísa gegn þessu og gera út stærri ög öflugri fiskiskip var Páll Björnsson í Selárdal, en aðrir íslenskir valdamenn einblíndu á landbúnaðarhagsmuni sína og höfðu ekki áhuga á því að taka höndum saman um betri hafnir og myndun þéttbýlis við sjóinn, sem var nauðsynlegt til að öflugri sjávarútvegur nýttist og borgarastétt myndaðist eins og í öðrum löndum.

Meðan þannig var í pottinn búið og landgæðum hrakaði í köldu veðurfari þessara alda var borin von að Íslendingar gætu hlotið sjálfstæði.

Örsmátt hagkerfi hins einhæfa og frumstæða bændasamfélags ´var alltof lítið   

Ómar Ragnarsson, 8.8.2013 kl. 00:37

107 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við harðbýlið á Íslandi mátti ekkert út af bregða, því þá blasti hungursneið við. 50-70 þúsund manna örsnautt þjóðfélag mátti sín lítils gagnvart fiskveiðiþjóðum Evrópu.

Það var heldur ekki nóg að byrja bara að fiska, það þurfti að selja afurðina og það var ekki einfalt. T.d. var um einokun að ræða á fiskmörkuðum Bretlands og víðar á öldum áður, eins og lesa má í Ævisaga þorsksins  í þýðingu Ólafs Hannibalssonar. Menn óður þar ekkert inn og byrjuðu bara að selja! 

Auk þess var ekki á vísann að róa, í bókstaflegri merkingu varðandi aflabrögð. Sum ár var ördeyða á Íslandsmiðum en önnur afar gjöful. Að setja allt sitt traust sitt á eina atvinnugrein umfram aðra var óðs manns æði á þessum árum. Fyrir stórþjóðir Evrópu var afli af Íslandsmiðum aðeins brot af heildarafla og eitt og eitt mislukkað ár frá Íslandi skipti ekki sköpum. Auk þess komu mannskaðar vegna ferða yfir hafið ekki við þá eins og hér í fámenninu.

Hafnleysi var ekki vandamál, eins og Ómar heldur fram. Margar góðar náttúrulegar hafnir eru víða um land fyrir skipakost þessa tíma. Meint hafnleysi aftraði ekki Frökkum á 19. öld frá því að leggja undir sig Fáskrúðsfjörð í áratugi. Á Vestfjörðum voru Spánverjar, Hollendingar og Bretar í hverjum firði og áttu viðskipti við landkrabbana.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2013 kl. 06:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband