"Djásnið í kórónu landsins."

"Endalaus teygir sig auðnin, svo víð,-

ögrun við tækniheim mannsins.

Kaga við himin með kraumandi hlíð

Kverkfjöll í hillingum sandsins.

Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð

við eldsmiðju darraðardansins.

Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð, -

djásnið í kórónu landsins.

 

Seytlar í sál

seiðandi mál:

Fjallanna firrð,

friður og kyrrð."

DSCF0623

Í þessum fátæklegu ljóðlínum er reynt að lýsa töfrum Kverkfjalla eins og þeir blasa við, þegar staðið er á söndunum norðan við Öskju og horft til þeirra á heitum sumardegi í "hillingum sandsins".

Undir Vatnajökli á öxlinum Grímsvötn-Bárðarbunga er miðja möttulstróksins sem er undir Íslandi og þar er öflugasta eldstöð landsins.

Möttulstrókurinn er annar af þeim tveimur stærstu  í heiminum, hinn er undir Hawai.  

Kverkfjöll eru ekki eins öflug og Grímsvötn en Sigurður heitinn Þórarinsson sagði við mig að þau væru efst á lista hans yfir náttúruundur Íslands.

Efst í fjöllunum eru tvö jökullón, hið vestara í svonefndum Efri-Hveradal, himinblátt með fljótandi jökum. Það hvarf í upphafi aldarinnar í nokkur ár en kom svo aftur.

Hið eystra var á tímabili með sjóðandi sandströnd og fljótandi ísjökum, þar sem hægt var að vaða í volgu vatni rétt við stöndina berfættur, mitt á milli ísmulningsins og sjóðandi strandarinnar.

Lóninu var gefið nafn á tímum eftirlætisorðs stjórnmálamanna, "Gengissig", en þeir notuðu þetta orð í staðinn fyrir orðið "gengisfelling" og sögðu meira að segja, að gengisfelling væri ekki gengisfelling heldur "gengissig í einu stökki" ! Samanber að virkjun þriggja stórfossa í Efri-Þjórsá er ekki virkjun, heldur veita !

Í sumar hefur hækkað í Gengissigi, en nú hefur orðið sannkallað "gengissig í einu stökki", vatn hlaupið úr því niður í ána Volgu, sem er, eins og nafnið bendir til, volg og rennur í gegnum íshelli, sem liggur ofan úr fjöllunum undir jökulinn.

Þar er stundum hægt að fara í volgt bað og fá sér kalda sturtu vatns, sem fellur niður í hellinn í gegnum lóðrétt gat. Hinum megin í fjöllunum er á einum stað hægt að síga niður 37 stiga heitan foss á sundskýlu einni fata.

Kverkfjöll eru lítið dæmi um þau undur, sem skipa hinum eldvirka hluta Íslands meðal helstu náttúruundra heims. Hinn heimsfrægi Yellowstone kemst ekki á blað í því efni og er það svæði þó með mestu orku Norður-Ameríku "heilög jörð" sem aldrei verður snert né heldur borað á tíu sinnum stærra svæði umhverfis, sem er á stærð við Ísland.

Og fossarnir í þjóðgarðinum verða heldur aldrei virkjaðir. Tökum saman fjögur af helstu undrum Íslands í einu erindi:  

 

"Í Gjástykki aðskiljast álfunar tvær.

Við Heklu´er sem himinninn bláni.

Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellsinn þvær.

í Öskju er jarðneskur máni.

Ísland er dýrgripur alls mannkynsins,

sem okkur er fenginn að láni.

Við eigum að vernda og elska það land

svo enginn það níði né smáni.

 

Seytlar í sál

seiðandi mál:

Fjallanna firrð,

friður og kyrrð,

íshvelið hátt,

heiðloftið blátt,

fegurðin ein,

eilíf og hrein.

 

P1010828


mbl.is Hægt hefur á vexti hlaupsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar!

Góður pistill!

Sé að þú hefur breytt 1. erindi frá því
sem birtist á síðu þinni 16. nóv 2007.
Fer ekki á milli mála að það er betra
hinu fyrra.

Þá sómir 4. erindið sér vel en
3. erindið virðist þurfa að líta
betur á.

Stafsetningarvillur eru enn í texta frá 16. nóv!
Margt er þó vel sagt í þeim sama texta.

Húsari. (IP-tala skráð) 16.8.2013 kl. 19:14

2 identicon

Húsarinn er fundvís og besta mál. Þegar ég hins vegar skoðaði þessa færslu og myndirnar góðu fyrr í dag lá við að mér vöknaði um augu og fannst til um einlæga ást þína landinu og hvernig þér tekst alltaf að koma hugsunum þínum til skila í bundnu og óbundnu máli. Það var upplifun mín eftir lesturinn.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 16.8.2013 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband