Aðferð strútsins.

Í sjúkdómafræði er talað um áunna sykursýki. Á Íslandi virðist andlegur sjúkdómur herja á marga, sem nefna má áunna vanþekkingu.

Forðast er að afla upplýsinga, veita upplýsingar eða að meðtaka upplýsingar eins og til dæmis þá mynd af Gálgahrauni, sem tekin er úr vestri og sýnir hvernig þessi ysti endi Búrfellshrauns, sem er heildarheiti yfir hraunið, sem kom úr Búrfelli 12 kílómetrum fyrir um 7300 árum, teygir sig til vesturs eins og fremsti hluti skrúðgöngu.IMG_8182_b

Það sést vel hvernig hraunjaðarinn sker sig frá gróna landinu neðst í hægra horninu á myndinni.

Þessi síðasti einn og hálfi kílómetri, sem hraunið úr Búrfelli rann, er innan við 1% af byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu.

Aldrei þessu vant hef ég átt andvökur síðustu tvær nætur, hugsi yfir því sem gerst hefur síðustu daga.

Við sátum á fundi náttúruverndarmanna fyrir viku til að setja á flot einfalda auglýsingu um eðli Gálgahraunsmálsins svo að fólk gæti myndað sér skoðun um það, eins og rætt er um í tengdri frétt á mbl.is.

Ekk óraði okkur fyrir að aðeins tveimur dögum síðar myndu Vegagerðin  og bæjaryfirvöld í Garðabæ grípa til þess að taka lögin í eigin hendur með því að siga vélaherdeildum á þá sem beðið hafa um að Gálgahraun fengi að vera í friði, að minnsta kosti þar til dómstólar hefðu afgreitt það mál.

Gálgahraun var og er síðasta vígið í 18 ára baráttu náttúruverndarfólks á svæðinu gegn því offorsi framkvæmda sem hefur verið í gangi gegn einstökum hlutum Búrfellshrauns, þeirra á meðal Gálgahrauni.

Það var búið að hrekja Hraunavini út í horn eftir búið var að marghrauna yfir þá annars staðar. Þess vegna er svo sárt að horfa upp á jafn svartan dag í sögu þjóðarinnar og var þegar hraunað var yfir okkur og dómstóla og réttarfar á landinu síðastliðinn mánudag.


mbl.is „Höfum líka skoðun á Gálgahrauni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Þetta er flott barátta hjá ykkur Ómar

Við Íslendingar höldum kannski að við eigum nóg af hraunum, en fatta ekki hversu einstakt það er að hafa þvílíka náttúrugersemi í borgarjaðrinum.

Mér finnst stórmerkilegt að á meðan skorið er niður til innviða friðlýstra svæða, rannsóknarsjóðs og menntakerfisins, þá er til peningur til að leggja veg í gegnum hraun.

Hvað í ósköpunum á þessi Gálgahraunsvegur að kosta mikið?

Arnar Pálsson, 25.10.2013 kl. 09:52

2 identicon

Þjark.

Nokkurt hættuástand skapaðist kl. 9:5o í morgun þegar umsjónarmaður morgunleikfiminnar lagði fyrir hlustendur  að ganga á jörkunum.  Margir tóku að þjarka og ekkert gekk. Eftir smá hik ruku sumir í fatahengið og tröðkuðu á jökkunum af miklu offorsi.  Einstaka menn gengu af göflunum.  Fíflagangur braust út og gæsagangs varð vart.  Enn aðrir gengu fram af sér  og enduðu í niðurgangi. Einhver  sást ganga í  hægðum sínum.

Ég gekk hörkulega að tölvunni og fletti upp:

Jarki : Ytri brún fótar. 

Svo gekk ég  á föðurlandinu inn í stofu og hélt áfram morgunleikfiminni.

Gangið á guðs vegum -  ekki á jörkunum.

Þjóðólfur

Þjóðólfur (IP-tala skráð) 25.10.2013 kl. 10:57

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þá má ekki gleyma þeirri aðferð að minnast einungis á það sem kemur sér vel en sleppa öðru.

Þessi ákvörðun að beita lögreglu við hagsmunagæslu og handtaka pólitíska andstæðinga sem telja sig vera í fullum rétti, færir okkur áratugi aftur í tímann í áttina að fasisma. Herforingjastjórnir og öfgafullir stjórnmálamenn hafa fallið í þessa freistni.

Nú þarf Hanna Birna að biðjast afsökunar, bjóða öllum sem handteknir voru og urðu fyrir hnasjki eða meiðslum bætur. Og ekki gleyma að kalla vélaherdeild verktakans burt af ágreiningssvæðinu uns Hæstiréttur hefur sagt síðasta orðið í þessari deilu.

Nú kann að vera að hún átti sig ekki á þessu og má því verða nefnd stjórnmálamaðurinn sem innleiddi fasisma að nýju á Íslandi.

Guðjón Sigþór Jensson, 25.10.2013 kl. 13:03

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Á þeim tíma þegar ég var 13 til 18 ára þá var nánast eingin byggð við Álftarnesveg frá Engidal í vestur að  Goðagryfjum, og svo kom að  einhverju hesthúsi sem að kunningi minn álpaðist inn í á leið í austur frá Bessastöðum á sínum Ford 1942 og kunnu hestar þar honum enga þökk fyrir ónæðið.

En nú í dag er ekki hægt að þverfóta þarna fyrir fólki og húsum , sem vill ekki nýjan veg.  En gamla veginn sem ekkert hús var við hér áður fyrr er búið að byggja allt um hring svo nú er ekki lengur hægt að þróa hann til þjónkunar við kröfuharða.  

Það hlýtur allt að skrifast á reikning skipulagsvalda á svæðinu.  Ég held að Hanna Byrna hafi ekkert verið með puttana í því.      

Hrólfur Þ Hraundal, 25.10.2013 kl. 14:04

5 identicon

Græðgin hefur tröllriðið vissum klíkuhópum sjallabjálfanna í höfuðborginni. Grilla og græða, meira, meira.

Þingmenn bófaflokksins eru nær undantekningarlaust umbar klíkunnar. Fá einhverja bónusa fyrir skítverkið. Skelfilega lágkúrulegt og banal. Jafnvel verra en bananalýðveldi.

En áður en þetta verður að fasisma mun þjóðin fletta niður um fíflin og flengja þau.

Það verður kannski ekki fyrr en við losnum við vimdhanann og ræfilinn á Bessastöðum.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 25.10.2013 kl. 15:45

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Því miður verður ekki rökrætt við þverhausa sem snúa öllum staðreyndum meira og minna á hvolf. Nú er komið upp nýtt mál tengdu dýraníði og um það má segja sama, að viðhorfin gagnvart dýravernd og náttúruvernd virðist ekki hafa komist neitt markvert áleiðis í heila öld. Meira að segja ráðamenn vilja brjóta niður mannréttindi og beita lögreglu fyrir sjónarmiðum sínum.

Tryggva Gunnarssonar (1835-1917) verður að öllum líkindum minnst fyrst og fremst sem brautryðjenda dýraverndar á Íslandi, hann beitti sér fyrir því að tímaritið Dýravinurinn var komið á fót 1885 og var gefið út á kostnað Hins íslenska þjóðvinafélags og kom út til 1916. Tryggvi segir í formála fyrsta árgangs 1885:

„Margir menn fara illa með dýr. Sumir þjá þau af mannvonzku, af því þeir hafa ánægju af því, að sjá þau pínast; sumir kvelja þau af eigingirni, þegar þeim finnst að þeir geti haft hagnað af að brúka þau miskunarlaust eða spara fóður við þau; sumir fara illa með þau af hefndarhug og í reiði, og sumir af leti, hirðuleysi hugsunarleysi, vanþekkingu eða gömlum vana. Dýrin hafa meiri tilfinningu fyrir góðu og vondu atlæti en flestir halda. Þau eru sjálf varnarlaus gagnvart grimmdarfullri meðferð mannanna. Þau geta ekki mælt og ekki kært fyrir dómstól mannanna þó illa sje með þau farið. Að fara illa með þann, sem er minni máttar og varnarlaus, ber ávallt vott um harðýðgi, siðleysi og samvizkuleysi. Gróður maður og samviskusamur hefur viðbjóð á slíku. Af dýrunum höfum vjer margvislegt gagn, af þeim fáum vjer föt og fæðu. þeim mun meira gagn, sem þau gjöra oss, og þvi meira, sem þau eru komin upp á vora umhyggju, þeim mun lastverðara er ill og harðýðgisleg meðferð á þeim.“

Heimild: www.timarit.is

Dýraverndarinn

Þessi sjónarmið Tryggva eiga jafn vel við í dag 2013 og 1885 þegar þau voru rituð.

Tryggva verður minnst lengi sem eins af fyrstu íslensku verktökunum en hann tók að sér að byggja fyrstu brúna yfir Ölfusá 1891. Hann var bankastjóri og stjórnmálamaður en ekki sérlega farsæll sem slíkur þó svo að hann beitti sér fyrir ýmsum merkilegum málum. Hann þótti einstaklega ráðríkur og ekki alltaf réttsýnn t.d. gagnvart þeim sem voru á öndverðum meiði við landshöfðingann og valdaklíku hans. En hans verður minnst fyrir að vera mikilsverður brautryðjandi í dýravernd og garðyrkju á Íslandi.

Guðjón Sigþór Jensson, 28.10.2013 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband