Að koma sér fyrir.

Eykon Energy verður voldugur nágranni okkar, fimm sinnum stærri en við hvað framleiðsluverðmæti snertir, sem umræðulaust að öllu leyti á íslenskum vettvangi, ætlar að koma sér fyrir við bæjardyr okkar með því að fá leyfi til rannsókna og vinnslu olíu á Drekasvæðinu.

Allmörg ár eru þangað til rannsóknarboranir gætu hafist og enn önnur ár þangað til hugsanleg vinnsla hæfist, enda er um að ræða margfalt meira dýpi en áður hefur þekkst í olíuvinnslu á Norður-Atlantshafi og mikil óvissa um nánast alla hluti.

Undanfarin ár hafa verið nær samfelldar fréttir af stórum og smáum erlendum fyrirtækjum sem "bíða í biðröðum" eftir því að gera við okkur samninga um alls konar starfsemi, oftast þó stóriðju eða starfsemi sem telst "orkufrekur iðnaður", en það heiti hefur fengið einhvers konar helgisvip á sig í augum okkar Íslendinga þótt í rauninni ætti það að vera skammarheiti frekar en hitt miðað við merkingu orðanna, sem eru auðvitað mesta bruðl með dýrmæta orku sem mögulegt er.

Við erum svo bláeygir að halda að þessi fyrirtæki séu á höttunum eftir auðlindum okkar til þess að gera okkur mikinn greiða. Það datt hins vegar út úr forstjóra Landsvirkjunar á ráðstefnu í haust að hann hefði aldrei heyrt orðið sanngirni nefnt af hinum erlendu samningsaðilum á ótal fundum sínum með þeim.

Að sjálfsögðu teygja þeir sig eins langt og þeir geta til þess að ná sem bestum kjörum og gefa auðvitað skít í það hvernig við förum út úr samningunum. Þess vegna er til dæmis flúormengun við það að fara úr böndunum í Reyðarfirði, af því að Alcoa beygði Íslendinga til þess að fallast á miklu lakari hreinsunarbúnað en Norðmennirnir höfðu fallist á.

Alcoa náði samningum sem tryggir þeim megnið af tekjunum af álvinnslunni, sem munu geta borgað álverið upp löngu, löngu áður en Íslendingar geta borgað upp lánin af Kárahnjúkavirkjun.

Íslendingar fá eins og nýlenduþjóðir í sinn hlut störf í álverinu og smánarverð fyrir raforkuna, svo lágt verð, að forstjóri Landsvirkjunar segir arðsemi Kárahnjúkavirkjunar í raun óviðunandi.

Impregilo fékk alla raforkuna fyrir boranir sínar gefins, en það samsvaraði því að Lagarfossvirkjun gerði ekkert annað en að skaffa þá orku allan framkvæmdatímann.

Alcoa kemst upp með bókhaldsbrellur sem tryggir fyrirtækinu tekjuskattfrelsi þótt gróðinn af álverinu nemi líkast til meira en tíu milljörðum króna á ári, ef til vill 20-30 milljörðum á ári.

Fyrirtæki eins og Alcoa, Century Aluminium og Eykon Energy meta það mikils að geta komið sér fyrir jafnvel þótt lítið gerist langtímum saman í þeirra málum.

Hvað stóriðjufyrirtækin snertir er það mikils virði að taka allt upp undir hálft landið hvort um sig í gíslingu vegna þess hve mikið þarf að virkja til að seðja orkuhungur þessa "orkufreka iðanaðar".

Þetta gjöreyðileggur samingsaðstöðu Íslendinga, en jafnvel þótt samningar náist ekki, hefur þetta það í för með sér að aðrir hugsanlegir kaupendur komast ekki að á meðan.

Nú er búið að ráðstafa einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á olíu á íslensku hafsvæði og þar með komast ekki aðrir að. Kínverska fyrirtækið, fimm sinnum öflugra en við, er búið að planta sér niður og bægja öðrum frá, - upphaf þessarar tegundar kínverskrar innrásar, 4000 sinnum stærri þjóðar en við erum, inn í íslenska lögsögu, er staðreynd.

Nú er það svo að í nútíma heimi verður ekki hjá því komist að eiga samskipti við aðrar þjóðir, stórar og smáar, nálægar og fjarlægar, en mikið óskaplega gekk þetta allt saman smurt og þegjandi og hljóðalaust fyrir sig.

Er það eðlilegt að engin bitastæð og siðræn umræða hafi farið fram hér á landi um þetta mál í víðu samhengi?   

 


mbl.is Kínverskur risi á Drekasvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fari mikil olía í sjóinn hér við Ísland frá gríðarstóru olíuskipi, eða -skipum, gæti olían lagt stærstu nytjastofna okkar Íslendinga í rúst á skömmum tíma.

Hrygningarstöðvar
þorsks eru aðallega við Suðurland og Suðvesturland og þaðan berast afkvæmin með hafstraumum á Vestfjarðamið.

Og hafstraumarnir fara einnig norður fyrir landið.

En enda þótt olía frá gríðarstóru olíuskipi, sem sykki eða strandaði hér við Ísland, og jafnvel fleirum en einu, legði ekki fiskistofna hér algjörlega í rúst, fáum við Íslendingar hátt verð fyrir íslenskan fisk erlendis meðal annars vegna þess að fiskurinn er úr hreinu hafi.

Og fiskistofnar hér við Ísland eru endurnýjanleg auðlind en olían ekki.

Exxon Valdez oil spill


Deepwater Horizon oil spill 20 April - 15 July 2010

18.9.2013:


Olíuskip á rangri siglingaleið hér við Ísland

Þorsteinn Briem, 28.1.2014 kl. 07:28

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sjálfskipuðu jarðnesku guðirnir eru geggjaðir.

Það eru ekki mörg ár síðan átti að byggja olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði. Hverjum skyldi hafa dottið sú della í hug? Sem betur fer stoppaði sú geggjunarhugmynd einhversstaðar í baktjalda-faldavalds-ferlinu. Páll Bergþórsson veðurfræðingur skrifaði töluvert um hafíshættuna á svæðinu út af vestfjörðum, og hvernig ísinn gæti rekist á olíuskipin með tilheyrandi vanda. Páll Bergþórsson veit mjög vel hvað hann er að tala um í þessum málum, og það ættu fleiri að hlusta á hann.

Olíumengunarslys eru ekkert smámál, og ekki er nokkur möguleiki að reynslulaus smáþjóð hafi fjárhagslegt bolmagn, né þekkingu og reynslu, til að takast á við slík mengunarstórslys.

Það hefur eitthvað flækst fyrir þeim sem stjórna, (hverjir sem það eru bak við tjöldin), að í ísbráðnun og leysingum á norðurslóðum, mun berast mikið af hafís stjórnlaust um hafið. Sér fólk ekki fyrir sér þegar ísjakar byrja að rekast á þessa svokölluðu olíurannsóknar-græju-gæja og olíuskipin?

Er ekki rétt að byrja fyrirfram á vinsælu tómstundaskemmtuninni Íslensku: sökudólgaleitinni? Vinsælu hámenningarlegu þjóðaríþróttinni? Eða á að leita að raunverulegum ábyrgðar-baktjaldaklíkum eftir á? Það er atvinnuskapandi að stofna pólitískt skipaðar rándýrar nefndir, sem rannsaka sjálfa sig/sína og hina, og benda svo bara á hina. Vel að merkja: þegar oft er búið er að eyða sönnunargögnum. Mjög vinsæl, rándýr, og hámenningarleg sér-íslensk íþrótt.

Já, það er stórmerkilegt að ekki sé fréttaflutningur og umræða um staðreyndir, hér á Íslandi.

Það er nauðsynlegt að lesa erlenda fréttamiðla til að vita eitthvað, hvað er að gerast í heiminum. Á Íslandi eru mest fréttir af hönnuðum "skoðanakönnunum" og öðrum álíka fíflalegum eilífðar-áróðri. Það mætti halda að það væru kosningar í hverjum mánuði, miðað við þessar könnunar-bullfréttir allar. Og í þetta fíflalega bull fara skattar láglaunafólksins og heiðarlega rekinna einnar kennitölufyrirtækja!

Svartolíusmurð og skítug siðspilling!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 28.1.2014 kl. 09:22

3 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Þörf hugvekja, félagi Ómar. Og þýska fyrirtækið sem ætlar að ráðskast með Finnafjörð sætir nú rannsókn vegna umfangsmikils mútumáls. Við kunnum að velja okkur viðskiptafélaga, ekki satt?

Eiður Svanberg Guðnason, 28.1.2014 kl. 10:31

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Það sem Eiður bendir okkur á þarf að skoða betur.

Sveitarfélög í Þýskalandi mega ekki taka þátt í áhættuverkunum. Borgin Bremen hefur lengi átt í fjárhagserfiðleikum eins og gengur og gerist. Ein „björgunaraðgerðin“ var að fela rekstur hafnarinnar einkafyrirtæki og það er einmitt þetta fyrirtæki sem hefur verið orðað við Finnafjörð. Mjög líklegt er að einhver braskhugmynd standi að baki og brakarar vænti þess að fá einfaldar og auðtrúa sálir til samstarfs.

Skynsemisrök benda öll til að sýna fyllstu tortryggni. Sigmundur Davíð og hans nótar hafa verið óvenju iðnir við að draga athygli þjóðarinnar frá hneykslunum öllum tengdum bröskurunum og braskinu sem eru að mestu á vegum Framsóknarflokksis og Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum og áratugum. Þjóðin hefur verið svikin í hendur á þessum bröskurum, hendurnar bundnar og þessum nótum þykir sjálfsagt að snúa öllu við: rétt er rangt, hvítt er svart, réttæti er ranglæti o.s.frv.

Nú talar enginn um Icesave. SDG og nótar hans gerðu Icesave málið að einhverri verstu orrahríð í íslenskum stjórnmálum. Þá var þrasið dregið niður í tilfinningaríkan táradal á þjóðrembunótum. Og þetta er sami maðurinn og lofaði öllu fögru en vefst nú fætur og fingur hvernig efna skuli. Meðal fjármálafræðinga og stjórnvitringa er hann talinn vera einn mesti núlfiandi lýðskumari norðan Alpafjalla. Aðeins

Guðjón Sigþór Jensson, 28.1.2014 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband