Æskuminnning úr Reykjavík 1945, óhugsandi nú.

Ég minnist þess úr barnæsku minni haustið 1945, þegar fjölskylda foreldra minna var nýflutt í Stórholt, sem þá var gata við austurjaðar borgarinnar, að ég sá í fyrsta sinn heiðan stjörnuhimininn með sinn herskara af stjörnum fyrir ofan mig og spurði föður minn margra spurninga sem hann reyndi að svara.

Hverfið á Rauðaárholti stóð eitt og sér fyrir austan Norðurmýri, því að braggar Bandaríkjahers stóðu enn auðir þar sem nú eru vestasti hluti Skipholts, Stangarholts og Stórholts.

Göturnar voru malargötur og ljósastaurar ekki komnir. Þessi ógleymanlega sýn væri óhugsandi á okkar tímum á sama stað, svo mjög hefur ljósmagnið margfaldast með aukinni lýsingu og stækkandi borgarsamfélagi.

Iðunn, dóttir mín, flutti með Friðriki Garðari Sigurðssyni og börn sín austur í Vík í Mýrdal fyrstu árin sem þau störfuðu sem kennarar.

Þegar þau komu til baka voru eftirminnilegustu stundirrnar þarna fyrir austan ekki fegurstu sumardagarnir heldur dimmir og kyrrir vetrardagar með heiðum himni, stjörnuhvelfingunni með óteljandi stjörnum sínum og norðurljósum, þegar hægt var að hlusta á brimhljóðið, sem barst í þögninni alla leið frá Reynisdröngum og horfa á hafið, sindrandi í birtu mánans.

Bæði voru þau borgarbörn og höfðu farið á mis við upplifun, sem þeim fannst sú magnaðasta í lífi þeirra fram að því.

Ísland býr enn að hluta til yfir víðernum og óbyggðum, fyrirbærum sem eru alveg að hverfa eða gersamlega horfin í öðrum löndum.

'Í skefjalausu kapphlaupi okkar eftir efnislegum gæðum er það heitasta áhugamál margra að njörva landið allt niður í mannvirki af öllum mögulegum toga til þess að land okkar verði sem allra líkast hinum þéttbýlu löndum Evrópu.

Í skipulagi miðhálendisins er þegar gert ráð fyrir svonefndum "mannvirkjabeltum" þvert yfir hálendið, bæði um Kjöl og Sprengisand. Mikill þrýstingur "áhugamanna" er á upphleyptan trukkaveg eftir endilöngu hálendinu norðan Vatnajökuls.

Mannvirkjabeltin, sem þegar eru komin á blað, verða vegir, háspennulínur af stærstu gerð og raðir af virkjunum með öllum sínum borholuhávaða, brennisteinsvetnismengun, gufustrókum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum, skiljuhúsum, stíflum og miðlunarlónum. Virkjanahugmyndirnar á hálendi Íslands skipta mörgum tugum.  

Draumsýnin er að við framleiðum minnst tíu sinnum meiri raforku en við þurfum til eigin þarfa, helst 15 til 20 sinnum meiri, og seljum hana til orkufrekustu stóriðju sem heimurinn þekkir og gernýtum afganginn í gegnum sæstreng til Evrópu.

Ég er ekki að grínast, - þetta er allt á teikniborðinu og tímanna tákn, að allar fjárveitingar til friðunar svæða hafa verið aflagðar, öllu fólkinu sem vann að þeim sagt upp störfum, og rætt í fullri alvöru um að leggja umhverfisráðuneytið í núverandi mynd niður og færa verkefni þess inn í deild í atvinnuvegaráðuneyti.   


mbl.is Ljósmengunin hér á við stærri borgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á stórum útivistarsvæðum vestan Kringlumýrarbrautar sést vel til stjarna og norðurljósa, til að mynda á Klambratúni (Miklatúni), í Öskjuhlíð, Hljómskálagarðinum og á ströndinni beggja vegna vesturbæjar Reykjavíkur.

Og vonandi sést enn til sólar í Austurbænum.

Þorsteinn Briem, 5.2.2014 kl. 05:21

2 identicon

Græðgi mannanna er mikil og óstöðvandi því miður.
Ég er farin að sjá fyrir mér olíusands-námasvæðin í Kanada sem fyrirmynd þess sem verður endastöðin mankyns . Það er bara þannig endir í boði, með núverandi fyrirmyndar hagvaxtar-líkan (græðgislíkan) sem fjármálakerfi heimsins.

Haraldur (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 06:36

3 identicon

Hvernig er hægt að horfa á fréttir um olíuleðjugrautinn í Kanada og hneykslast síðan á ljósmengun? Hvaða velmegunargosi gubbaði þessu orði út úr sér: ljósmengun?

http://ruv.is/sarpurinn/frettir/04022014/mikil-umhverfisspjoll-i-alberta-i-kanada-0

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 08:19

4 identicon

http://www.ruv.is/ruv/landid-med-hreinu-orkuna

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 10:00

5 identicon

http://www.youtube.com/watch?v=wQE0blj5iyI

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband