Drap saltið einhverja? Og ef svo var, hve marga?

Um miðja síðustu öld var dánartíðni af völdum magakrabbameins afar há hér á landi. Ég var krakki þegar ég kynntist einu slíku tilfelli, veikindum og banalegu Sigurðar, bónda í Hrafnadal, sem nú er í eyði, en liggur norður af Laxárdalsheiði í Dölum og í vestur frá utanverðum Hrútafirði.

Faðir minn var þar í sveit og var annt um karlinn þegar hann kom suður, fyrst árið 1948 í sína fyrstu ferð til höfuðborgarinnar, og síðar tveimur árum síðar til að fást við magakrabbann og þreyja banaleguna.

Þá strax var faðir minn ekki í vafa um orsakir sjúkdómsins. "Þarna uppi í dalnum átu menn ýmist brimsaltan, kófreyktan eða súrsaðan mat, sem og siginn fisk. Því bragðsterkari, saltari, reyktari eða súrsaðri sem maturinn var, því betri fannst körlunum hann vera. Helst þurfti maturinn að vera svo bragðmikill, að manni fannst eins og úðað væri framan í mann eiturgufu, ef þeir blésu á mann yfir matarborðinu."  

Ég hef það fyrir sið að finna bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á hlutunum. Ég er með bakflæði og það eru slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ég reyni að forðast saltað, reykt eða súrsað, því að það fer svo illa í vesalings veika vélindað mitt. Sennilega er það hollt.

Kannski var það reykti maturinn sem átti mesta sök á magakrabbameininu hér í den. En það má líka spyrja um það hvort saltið hafi ekki líka drepið einhverja, og ef svo var, hve marga.  


mbl.is Íslendingar borða of mikið salt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég bjó í norðlenskri sveit, Skíðadal, og drakk þar gríðarlega mikið kaffi, eins og langflestir bændur gera, án þess að vera atyrtir fyrir það af vesalingum.

Morgunmatur: Kleinur, kaffi og hræringur.

Morgunkaffi: Kleinur og kaffi.

Hádegismatur: Kleinur, kaffi og sviðakjammi.

Síðdegiskaffi: Kleinur og kaffi.

Kvöldmatur: Kleinur, kaffi, siginn fiskur og súr hrútspungur.

Kvöldkaffi: Kleinur og kaffi.

Hef hins vegar aldrei fengið mér kaffi á kaffihúsi í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 18.3.2014 kl. 14:51

2 identicon

"Saltið er eitt hið viðsjárverðasta eitur, sem til er. Neyzla þess dregur úr lífsorkunni og veldur því, að algengir sýklar verða henni yfirsterkari. Þannig hefur berklaveiki orðið ólæknanleg, ef menn neyta saltaðrar fæðu, ekki sízt saltkjöts."

Þetta ritar Jónas Kristjánsson læknir, fyrir nær 60 árum. En Jónas Kristjánsson læknir, fæddur á Snæringsstöðum í Svínadal 20 september 1870 var með merkustu Íslendingum á síðustu öld.

http://nlfi.is/matarsalt

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.3.2014 kl. 15:09

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland varð fullvalda og sjálfstætt ríki 1. desember 1918 vegna útflutnings héðan á saltfiski.

Ástæðan fyrir því að Mörlandar hafa étið mun meira af ýsu en þorski er trúlega sú að saltaður þorskur var hér aðalútflutningsvaran. Menn hafi því vanist á að graðga hér í sig ýsu en ekki þorsk.

"Danskir kaupmenn hófu söltun á fiski í tunnur hér á landi á 15. öld og þurrkun saltfisks litlu síðar.

Á seinni hluta 18. aldar beitti Skúli Magnússon landfógeti sér fyrir því að Íslendingar hæfu saltfiskverkun. Uppgangstímar gengu í garð og fljótlega mátti sjá útbreiddan saltfisk á hverri klöpp.“

Hér á Íslandi var algjört áfengisbann frá árinu 1915 en Spánverjar hótuðu að tvöfalda toll á íslenskum saltfiski ef við flyttum ekki aftur inn Spánarvín og því var banni við sölu á þeim aflétt hér árið 1922.

"Á öðrum og þriðja áratug 20. aldar var saltfiskur helsta útflutningsvara Íslendinga ásamt saltsíld. Hraðfrystiiðnaður hafði ekki rutt sér til rúms og gerði það raunar ekki fyrr en á fjórða og fimmta áratugnum.

Fjárhagur ríkisins var þess vegna mjög háður því að kleift reyndist að selja saltfisk með góðum kjörum."


Kaþólskir menn, til að mynda Spánverjar, hafa graðgað í sig saltfisk á föstunni og síðustu dagana fyrir Lönguföstu, sem hófst hér á Öskudag, er víða haldin kjötkveðjuhátíð, carnival, samanber carnis á latínu og chili con carne.

Þorsteinn Briem, 18.3.2014 kl. 16:30

4 identicon

Menn ættu að prófa að taka salt í nefið og ímynda sér hvernig mikil salt neysla gæti farið með magann.

Annars hélt ég fyrst að greinin fjallaði um götusaltið sem íslendingar skófluðu í sig í áraraðir ...

L.T.D. (IP-tala skráð) 18.3.2014 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband