Hnignun fleiri auðlinda á þessari öld.

Þótt vatn og orka séu miklar og mikilvægar frumauðlindir fyrir mannkynið mun fara að ganga alvarlega á fleiri auðlindir á þessari öld. Einn þeirra er fosfór, sem er afar mikilvægt efni á mörgum sviðum, svo sem í landbúnaði.

Í frétt frá Sameinuðu þjóðunum er talað um "aukinn fólksfjölda og vaxandi hagkerfi" sem orsök yfirvofandi alheimskreppu.

Eins og fjallað var um í bloggpistli hér á síðunni fyrir tveimur dögum, eru "aukinn fólksfjöldi og vaxandi hagkerfi" trúarbrögð í löndum heims, nú síðast á kynningarfundi Landsnets, þar sem lögð var þung áhersla á að þetta tvennt þyrfti að auka og að það væri forsenda fyrir byggð í landinu og því takmarki að lífskjör hér yrðu aftur eins og þau voru 2007, hin bestu í heimi.

Hvergi er að sjá þótt leitað sé með logandi ljósi viðleitni til að finna leið B í efnahagsmálum heimsins, þar sem ráðist er gegn orsökum yfirvofandi hruns, fólksfjölgun og veldishlöðnum hagvexti.

Dagur vatnsins mun öðlast hækkandi sess eftir því sem árin líða. Það var ekki út í hött að Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð á þeim degi 2007 og á því sjö ára afmæli í dag.

Fáir dagar eru betur til þess fallnir að varpa ljósi á mikilvægustu viðfangsefni mannkynsins.

 

.


mbl.is Framtíðina mun skorta vatn og orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rétt Ómar, mikið rétt. En það furðulega og sorglega er að fólk virðist ekki átta sig á þessu, vill ekki átta sig á þessu. "Það lafir meðan ég lifi" hugsunarháttur er skelfilega ríkur hjá mörgum, enn í dag, anno 2014. Skammsýnin lætur ekki að sér hæða.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.3.2014 kl. 15:22

2 Smámynd: Samúel Úlfur Þór

Finnst þetta nú vera fullmikil dómsdagsspá, eins og annsi margar dómsdagsspár í dag...

Staðreyndin er nefnilega sú að vatn er ekki hnignandi auðlind eins og margir vilja halda. "Ekki gufar það upp af yfirborði jarðar!" - Jú, það einmitt gerir það og þessvegna er nóg til af vatni, hreinu og tæru, sem fellur af himnum ofan, eða er hægt að vinna með sérstökum rakasöfnurum. smbr auglýsingaskilti víðsvegar um heim sem safna í sig raka og vinna nokkur hundruð lítra á sólarhring af tæru vatni.

Það er til nánast óendanleg orka í heiminum, því orku verður aldrei eytt, henni getur einungis verið umbreytt. Þetta er bara spurning um hvernig menn ætla að umbreyta orkunni og hversu dýrt það má vera.

Samúel Úlfur Þór, 22.3.2014 kl. 15:39

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skúrkar tveir með skamma sjón,
í Skagafirði búa,
heimskur annar, hinn er flón,
hér nú allt mergsjúga.

Þorsteinn Briem, 22.3.2014 kl. 16:16

4 identicon

Vatn eyðist ekki auðveldlega, fosfór er frumefni og fer ekkert skjótum við því ekki upp í geim. Meiri orku má vinna úr sólarljósi á klukkutíma en öll orka sem notuð er á árinu. Spurningin er og verður alltaf hvort vinnslan borgi sig. Ef þú hefur efni á að borga er enginn skortur. Þannig hefur það verið í árþúsundir og kemur ekki til með að breytast. Yfirvofandi hrun, fólksfjölgun og veldishlaðinn hagvöxtur hefur fylgt mankyni frá því fyrsti steinaldarmaðurinn borgaði fyrir svínslæri með örvaroddi.

En ástæðulaust er að leita með logandi ljósi að leið B í efnahagsmálum heimsins, þar sem ráðist er gegn orsökum yfirvofandi hruns, fólksfjölgun og veldishlöðnum hagvexti. Því stöðug aðlögun og breytingar hafa í gegnum aldirnar sannað leið B sem óþarfa. Leið B er áætlun um hvernig við skerum af okkur fótinn ef við tognum á ökkla. Leið B er meira vandamál og hrun en það sem hún á að laga.

Oddur zz (IP-tala skráð) 22.3.2014 kl. 16:55

5 identicon

Þetta er þörf og góð ábending hjá þér með fosfórinn Ómar, - og þarna hittir þú á nokkuð sem ég hef verið að grúska í, og líka til þess menntaður.
Fosfór er eitt hinna þriggja jurtanærandi efna, - annað sem þarf (t.d. Ca, Mg o.fl) er í mun minna magni.
Hin efnin eru köfnunarefni og kalí
Það er talið, miðað við framvindu, að fosfórnámur heimsins séu uppurnar eftir svona 20-40 ár.
Mest allt af þeim er í Marokkó, og það næststærsta (en besta reyndar) í Rússlandi.
Nú virkar þetta þannig, að áburðarefnin eru borin á land, og skila sér að mestu í þeirri vöru (uppskeru) sem brott er flutt, neytt, og losast svo sem sorp eða seyra. Mest allur fosfór endar út í sjó, fyrr eða síðar.
Það er hins vegar hægara sagt en gert aðná honum þaðan aftur.
Fosfórverð á eftir að fara upp, og upp, uns hann þrýtur. Það er eitthvað lítið ef þá nokkuð veið að spekúlera í að ná honum öðruvísi en úr námum.
Niðurstaðan er sú, að kostnaður við t.a.m. matvöruframleiðslu á eftir að taka stökk upp í loft, - nú eða bara skrallast upp jafnt og þétt.
Það er lausn á þessu í sjónmáli, en hún hentar ekki peningamyllunni eins og er.

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.3.2014 kl. 17:22

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stórskemmtilegt er að sjá menn, hvern af öðrum, halda því fram að það sem kemur fram hjá bestu fáanlegu vísindamönnum, sem Sameinuðu þjóðirnar geta leitað til, sé hreint bull.

Ómar Ragnarsson, 23.3.2014 kl. 02:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband