Vika frá fyrsta bloggpistlinum um nýja sýn á svæðið.

Nú er liðin rétt vika frá því að bryddað var upp á því hér á síðunni að ýmislegt þyrfti að taka til nýrrar skoðunar varðandi umbrotin norðaustur af Bárðarbungu. 

Tilvist Holuhrauns var tilefni daglegra skrifa á síðunni um þetta og strax á fyrsta degi þeirra fór ég í sérstakt klukkustundar langt myndatökuflug yfir Holuhraun til þess að eiga góðar myndir af þessari gígaröð og hrauninu sem rann úr þeim.

Alls konar uppákomur og aðrar fréttir tóku alla athygli vísindamanna og fjölmiðla næstu daga en loks fékkst staðfesting vísindamanns þremur dögum síðar á því að Holuhraun gæti allt eins tengst Bárðarbungu eins og Öskju.

Ekki óraði mig fyrir því fyrir viku að Holuhraun myndi grípa svo hressilega við sér svo skömmu síðar og að þá yrði aðeins 35 kílómetra fjarlægð frá svefnstað mínum til nýs gosstaðar.

Síminn glumdi um miðnætti um eldgos, sem sæist á milu.is en vegna þess hve stjörnudýrð og birta himinsins var mikil yfir Sauðárflugvelli þar sem ég var, var erfitt að sjá hvort öflugur bjarmi, sem sást í vestri, væri af völdum goss eða norðurljósa, sem í þeirri svipan hófu sig upp af fádæma afli og fóru eins og breitt leifturband frá vestri til austurs yfir flugvellinum.

Ég sá ekki rauðan lit í bjarmanum  í vesturátt, - kannski vegna þess hve norðurljósabjarminn var sterkur, og því gat ég ekki staðfest að þessi ljósasýning væri af völdum gossins og náði þar af leiðandi engum myndum af þessu, enda fóru nú að berast í símtölum upplýsingar um að gosið væri að fjara út. 

En þessi næturstund var engu að síður mjög áhrifamikil og eftirminnileg.    


mbl.is Norðurljós yfir eldstöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Ert þetta þú Ómar að mynda um kl 06:15 í morgun:

https://flic.kr/p/oXrmov

Júlíus Valsson, 29.8.2014 kl. 06:47

2 identicon

Ómar allt af fyrstur með fréttirnar. Sjá link myndir af eldgosinu í morgun kl.6.15 á ruv.is

http://ruv.is/frett/fyrstu-flugmyndir-af-eldgosinu

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 09:37

3 identicon

Enn þá fyrstur Ómar var

sem allvel landið þekkir

en eldar sáust engir þar

aðeins gufumekkir

Bjarni Gunnnlaugur (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 12:00

4 identicon

Takk Ómar

ásgeir r. helgason (IP-tala skráð) 29.8.2014 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband