Þakklæti fyrir minningar úr þessu húsi.

Sjallinn skipar stórt hlutverk í hjörtum margra Íslendinga og ég er einn af þeim. Ekki hef ég tölu um þau hundruð skipta sem ég kom fram í þessu mesta skemmtanahúsi landsbyggðarinar, en í þessu húsi kviknaði einhver ólýsanleg stemning sem vekur þakklæti fyrir það að þetta hús skyldi vera til. 

Það skipti ekki máli hvort um var að ræða árshátíðir og aðrar tilfallandi samkomur eða héraðsmót og síðar Sumargleði, alltaf stóðu Sjallinn og samkomugestirnir þar fyrir sínu. 

Þarna var jafnan tilhlökkunarefni að njóta krafta akureyrsku píónósnillinganna Hauks Heiðars Ingólfssonar og Ingimars Eydals, sem þróuðu spilatækni, sem fékk heitið "Skálm", en það vísaði til þess hve listilega þessir píanóleikarinar notuðu vinstri hendina til þess að koma í stað bassa og fleiri hljóðfæra, þegar þau voru ekki tiltæk, og gerðu þar með píanóið að ígildi heillar hljómsveitar. 

Hápunktur minninganna eru þó aldarfjórðungsskemmtanirnar svonefndu, sem ég hélt þarna veturinn 1984-85 til að kvitta fyrir 25 ára feril sem skemmtikraftur. 

Þær urðu alls 17 fyrir fullu húsi, og tóku 3 klukkustundir og 40 mínútur hver! 

Með mér að sunnan komu Hemmi Gunn og Ragnar Bjarnason, Hemmi sem kynnir og Ragnar sem sönggestur, en að öðru leyti sá hljómsveit Ingimars með söngkonunni Ingu Eydal um að aðstoða mig við þetta ljúfa verkefni. 

Þessi skemmtun varð meira en klukkustund lengri en samsvarandi skemmtun í Reykjavík eingöngu vegna framlags samkomugesta sem gerðu þetta mögulegt. 

Ég kveð því Sjallann með söknuði og djúpu þakklæti fyrir allar ógleymanlegu stundirnar sem hann gaf mér og öðrum.  


mbl.is Mætir með Helenustokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alltaf gaman í Sjallanum.

Í mörg hundruð skipti.

Þorsteinn Briem, 29.11.2014 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband