Jökulsá á Brú var afkastameiri.

Þegar Jack D´Ives sérfræðingur í fjallalandslagi, sem verið hefur einn af ráðgjöfum vegna Heimsminjaskrár UNESCO, kvað skýrt upp úr með það fyrir 16 árum, að á landssvæðinu norðan Vatnajökuls væru efni til skráningar á Heimsminjaskrána, lögðu Íslendingar kollhúfur.

Enda var það aðaláhugaefni stjórnvalda og ráðandi afla að virkja allar ár á svæðinu, taka afl af fossum og sökkva helstu dölum og gróðurvinjum.

Þótt æ betur sé að koma í ljós hve sköpunarkraftur Jökulsár á Fljöllum hefur verið magnaður, var hinn stanslausi mótunarkraftur Jöklu (Jökulsár á Brú eða Jökulsár á Dal) jafnvel enn meiri.

Það verður víst að skrifa um Jöklu í þátíð, því að með því að sökkva innsta hluta hennar í Hjalladal, voru endanlega eyðilögð þau náttúrudjásn sem hún var í óða önn að móta í dalnum, tekið fyrir mátt hennar til að viðhalda Hafrahvammagljúfrum og ströndinni við Héraðsflóa.

Sköpunarmáttur Jöklu var frábrugðinn getu nöfnu hennar vestar á hálendinu hvað það varðar, að framburður Jöklu var og er miklu jafnari og afkastameiri til þess að sverfa berg eða fylla upp lægðir og meðan áin var í farvegi til þess að sverfa berg, voru þessi afköst miklu meiri en menn gerðu sér grein fyrir fyrr en um það leyti sem henni var sökkt í Hálslón.

Þannig var hún í miðjum klíðum við að búa til nýtt litfagurt gljúfur á botni Hjalladals, og hafði skapað svonefnda Stapa, Rauðuflúð og Rauðagólf á aðeins rúmri hálfri öld.

Og Hafrahvammagljúfur hafði hún að mestu skapað á aðeins um 700 árum.Kringilsá, vor 10

Nú verður aðeins hægt að tala um þessi afrek hennar í þátíð, en hins vegar að horfa upp á það að hún muni fylla Hjalladal af auri á næstu öldum.

Spurningin er hvort kynslóðir framtíðarinnar muni dást að hinum flötu sandleirum árinnar þegar þar að kemur, vitandi um þau sköpunarverk hennar sem verða þá á 150 metra dýpi í sandi og auri.  

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig þverá Jöklu, Kringilsá, ekki síður öflugur liðsmaður sköpunarinnar á svæðinu, hafði árið 2010 fyllt upp gljúfrið Stuðlagátt af sandi á aðeins þremur árum og drekkt tveimur fossum og fallegu stuðlabergi.  

     


mbl.is Ýtti Dettifossi upp ána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

20.3.2013:

"Aðspurð hvort hún sé ennþá ánægð með Kárahnjúkavirkjun og þær ákvarðanir sem hún tók sem iðnaðarráðherra á sínum tíma segir Valgerður Sverrisdóttir:

"Ég ætla ekki að svara því, er löngu hætt í pólitík."


Valgerður var þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1987-2009, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006, utanríkisráðherra 2006-2007 og formaður Framsóknarflokksins 2008-2009."

Valgerður Sverrisdóttir: "Ég ætla ekki að svara því, er löngu hætt í pólitík"

Þorsteinn Briem, 10.2.2015 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband