Varla aftur sama veður í sumar og fyrir tíu árum.

Fyrir um tíu árum komu hlýindadagar í júlí á sem ég minnist ekki að eigi nokkra hliðstæðu síðustu sextíu ár. 

Ég sé að í bókum mínum að það hefur líkast til verið í kringum 24. júlí 2005 sem svo mikil hitabylgja gekk yfir landið, að á flugi yfir endilangt landið sáust hvergi merki þess að sólfarsvindur drægi svalt og rakt loft inn yfir neina strönd.

Venjulega er það þannig hér á landi, að þegar landið verður heitt, stígur heitt loft upp, til dæmis yfir hálendinu og Suðurlandi, og svalara loft sígur inn frá ströndinni í formi hafgolu eða innlagnar eins og það er kallað, oft með þokulofti. 

En í þetta skipti var loftið svo heitt í kringum landið, að ekkert slíkt myndaðist.

Hvergi var skýhnoðra eða þokuloft að sjá. Alveg einstök upplifun að fljúga yfir landið í svona skilyrðum. Kannski var þetta eitthvað svipað í mikilli hitabylgju 1976, en þá var ég á ferð á bíl á Vestfjörðum og sá því ekki nema þann landshluta þá daga.  

 

Í hitabylgjunni 2004, sem ég er að ræða um, var tíu stiga hiti í 2000 metra hæð og tuttugu stiga hiti eða meira niðri við jörð um allt land, líka á hálendinu.

 

Svo mikil leysing hljóp í Jökulsá á Brú, að hjárennslisgöngin við Kárahnjúkastíflu, sem var í smíðum, önnuðu því ekki, svo að bráðabirgðabrúin yfir Jöklu fór á kaf og ófært varð yfir ána.

Undanfarin ár hefur sjórinn fyrir norðan land verið hlýrri en áður, og því minna um leiðinda norðansudda og kulda en oftast áður.

Ef sjórinn heldur hitanum áfram má búast við því að eins og síðustu sumur geti orðið veðursæld á norðanverðu landinu, ferðaþjónustufólki þar og ferðafólkinu sjálfu til ánægju, því að suðvestlægar vindáttir, eins og sumar spár benda til að verði ríkjandi, skapa oft besta veðrið á Norðausturlandi. 


mbl.is Kalt sumar framundan?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sumarið 2010 fórum við Jón Karl, - oft sem áður, upp á Eyjafjallajökul, - sem er svo sem engin frétt.
Snemma að morgni, og hiti við jörð heima við húr (rúmlega 100 fet yfir sjávarmáli) var 9 gráður.
Yfir Eyjafjallatindi var líka 9 stiga hiti. Hann var samur alla leið upp.
Loftið var mjög kyrrt.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.4.2015 kl. 17:57

2 identicon

Myndaðist ekki einhverskonar hitalægð yfir landinu,  sem olli því að hafgolan kom ekki inn? Mig minnir það alla vega, hægur vindur í kringum landið. 

Það er a.m.k. ekki ósennilegt að ef allt landið er ein hitapanna þá fari loftið sem ætlar að leita inn til landsins að taka snúning í anda coriolis.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.4.2015 kl. 18:01

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sumrin (júní, júlí og ágúst) 2001-2012 var meðalhitinn hærri í Reykjavík en á Akureyri, samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands.

Í Reykjavík var meðalhitinn í júní um 0,7 stigum hærri en á Akureyri, í júlí um 0,6 stigum hærri og í ágúst einnig um 0,6 stigum hærri.

Í Reykjavík var meðalhitinn sumrin 2007-2012 0,7 stigum hærri en sumrin 2001-2006, þegar meðalhitinn var 11,0 stig.

Hins vegar hækkaði meðalhitinn ekkert á Akureyri.

Þorsteinn Briem, 13.4.2015 kl. 19:29

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

línurit

Þorsteinn Briem, 13.4.2015 kl. 19:32

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sumrin (júní, júlí og ágúst) 2001-2012 var meðalhitinn hærri í Reykjavík en á Akureyri, samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands.

Í Reykjavík
var hitinn þá að meðaltali um 11,3 stig en 10,6 á Akureyri.

Hitinn var því að meðaltali um 0,7 stigum hærri í Reykjavík en á Akureyri þessi tólf sumur.

Á þessum árum var meðalhitinn í Reykjavík í júní 10,3 stig, í júlí 12,0 og í ágúst 11,5 stig.

En meðalhitinn á Akureyri í júní var 9,6 stig, í júlí 11,4 og í ágúst 10,9 stig.

Þorsteinn Briem, 13.4.2015 kl. 19:38

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú, það er rétt.  Það gæti vel orðið gott á N-og Austanverðu landinu, allaveg í einhvern tíma.

En ef það á að fara að kólna hérna eitthvað, þá er vonandi að það komi ekki álíka kuldatíð og í lok 19. aldar.

Það var ferlega leiðinleg tíð í lok 19.aldar, að mínu mati.

Það er oft svona ekki sagt alveg skýrt þegar fjallað er um lok 19. aldar í sögunni.  En því meir sem maður kynnir sér málið, - þá hefur verið alveg ferleg tíð.

Það var meira frost 1888 en frostaveturinn mikla 1918, sem dæmi. Það var stundum nánast ekkert sumar og vetrar langir og harðir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.4.2015 kl. 21:37

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var víst góð tíð alveg fram að frosthörkunum miklu 1918. Og eftir 1918 hófst mesta hlýviðristímabil í margar aldir og stóð fram til 1965. 

Ómar Ragnarsson, 13.4.2015 kl. 23:22

8 identicon

19. öldin var þó sú fyrsta í sögunni þar sem ekki varð meiriháttar mannfellir af harðindum.  Auðvita hefði sagan orðið önnur ef ekki hefði verið "tappað af" fólksfjöldanum til vesturheims.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.4.2015 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband