Menn sigldu til Íslands fyrir Krists burð. Var Grenlöður írsk?

Fornleifafræðingur einn hefur tjáð mér, að hann telji fornleifafræðilega séð meiri líkur á að Rómverjar og jafnvel Fönikíumenn eða þjóðflokkur einn í Gallíu, sem stundaði siglingar, hafi komið hingað á undan Írum og Norðurlandabúum.

Sesar stóð fyrir ferð Rómverja til Englands fyrir Krists burð og talsvert fyrr hefur siglingatækni helstu siglingaþjóðanna við Miðjarðarhaf verið orðin slík, að siglingar til Íslands voru vel mögulegar.  

Þótt Landnáma saga sé í megiatriðum rétt, er víða hægt að finna í henni missagnir. 

Þannig segir sagan að Skúmur hafi numið land og búið á Skúmsstöðum í Landeyjum. 

Þar skammt frá er Skúmsstaðavatn, sem á að hafa dregið nafn af Skúmi og Skúmsstöðum. 

Þegar flogið er yfir þetta vatn sker í augun að það er áberandi brúnleitt og öðruvísi en önnur svipuð vötn á Suðurlandsundirlendinu. 

Vötn með þessum lit heita Skomsjö á Norðurlöndum, - Skúmsvatn á Íslensku. 

Þess vegna er lang líklegast að vatnið hafi fyrst fengið nafnið Skúmsvatn, þar á eftir fékk næsti bær nafnið Skúmsstaðir og þá var nærtækt, eins og víðar á Íslandi, að finna upp nafn á manni, sem héti Skúmur. 

Og ekki var síður mikils um vert að staðfesta norrænt landnám sem best á þessum stað. 

Við Arnarfjörð norðanverðan er Grenlöðareyri og segir í sögunni: "Grenlöður hét kona. Hún var írsk." 

Þórhallur Vilmundarson tætti þetta skemmtilega í sundur í fyrirlestri og benti á örnefnið Grenivík sem dæmi um afbökun á upprunalegum nöfnum. 

Ekkert grenitré hefur nokkurn tíma verið við Grenivík fyrr en í fyrsta lagi á þessari öld.

Einkennilegt væri ef greni refs hefði verið tilefni nafnsins Grenivík.  

Fyrir ofan Grenivík er hins vegar Grenjudalur sem augljóslega dregur nafn af á, sem hefur upphaflega heitið Grenja, þótt síðar hafi þetta snúist við þannig á núna heitir áin Grenjudalsá.

Samanber bærinn Öxl undir Axlaröxl og Skarðsskarð fyrir ofan bæinn Geitaskarð í Húnavatnssýslu. Skarðið og fjallsöxlin hafa augljóslega komið fyrst en síðan hefur málið snúist við. 

Það er alkunna á Íslandi, að ár og fossar dragi hafn af hávaða, samanber nöfnin Dunkur, Dynkur, Glymur, Gjallandi.

Þórhallur taldi því líklegt að áin sem fellur um Grenlöðareyri við Arnarfjörð hafi heitið Grenja eða Grenjulöðursá og eyrin Grenjulöðurseyri eða Grenjlöðurseyri. 

En síðar hafi eins og svo víðar annars staðar orðið til þægileg mannanafnaskýring: "Grenlöður hét kona. Hún var írsk."

Hinum megin við fjörðinn eru Ketildalir. Þegar horft er á þá í fjarlægð sést vel að ketillag þeirra, sem líkist íhvolfum kötlum, og þessi mikli fjöldi þeirra í beinni röð út með firðinum, er einstakt landslag, eitt af helstu undrum Vestfjarða.

Í Landnámu segir hins vegar: "Ketill hét maður og nam land í Ketildölum."  

Það var ekki tilviljun að Ari fróði setti inn fyrirvara um sannleikann í Landnámu: "En hvatki er missagt er í fræðum þessum ber að hafa það er sannara reynist." 


mbl.is Segir Kverkhelli frá um 800
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Geturðu sagt okkur, Ómar, hvað hann heitir þessi fornleifafræðingur sem þú nefnir í upphafi.

Ég þekki þó nokkra fornleifafræðinga á Íslandi, og það vel, og hef ég aldrei heyrt nokkurn þeirra velta þessu fyrir sér með svo ákveðnum yfirlýsingum og þú hefur nú eftir nafnlausum manni.

FORNLEIFUR, 16.4.2015 kl. 09:29

2 identicon

Það er fullt af þessum hellum um allt, og allt bendir til landnáms fyrir landnám. En, - það er skortur á öðrum minjum.
Svona krossristur eru frekar fágætar. Rúnaristur eru þó á nokkrum stöðum.
Ég bíð spenntur eftir innleggi Vilhjálms aka "Fornleifur".
ATH að margir þeir sem tjá sig um þetta hafa etv. aldrei skoðað svona mannvirki.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.4.2015 kl. 10:32

3 Smámynd: FORNLEIFUR

http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1702025/

FORNLEIFUR, 16.4.2015 kl. 10:39

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er mjög grunsamlegt hve hinir fornu innbyggjar sem lærðu að skrifa með kristninni, vilja tengja mannanörfn við landslagsheiti.  Mjög grunsamlegt, finnst mér.

En lengi vel fannt eiginlega engum íslendingi það grunsamlegt.

Fólk kom af fjöllum þegar Þórhallur kom með Náttúrunafnakenninguna.

Það er líka eins og það sé sáralítið gert með umsögn Þórhalls enn í dag.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.4.2015 kl. 10:47

5 identicon

Í þessum vngaveltum er rétt að minnast á þjóðflokk Kelta sem hvarf frá Írsku eyjunum og voru kallaðir Druitar. Lærðir menn með þekkingu á samfélagsbyggingu og lögum, eru það einsetumennirnir sem voru hér? 

gudni gudjonsson (IP-tala skráð) 16.4.2015 kl. 11:53

6 Smámynd: Benedikt V. Warén

Jón Logi.

Hvernig fer með ættlegg blessaðrar landnámshænuna okkar, þegar "allt bendir til landnáms fyrir landnám"? 

Ég hef áhyggjur af því, - ég verð að segja það.

Benedikt V. Warén, 16.4.2015 kl. 12:05

7 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Austfyrðir voru þéttir af fólki 400 fyrir Krist!

Eyjólfur Jónsson, 16.4.2015 kl. 12:29

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Hvert í gaggandi, Benedikt V. Warén. Þessir fyrirburar hafa líklega lifað á loftinu, því öll húsdýr á Íslandi eru komin frá Skandinavíu (þó sum séu vissulega komin lengra að upphaflega).

En DNA-ið sýnir eftir sem áður mestan skyldleika við dýr í Skandinavíu. Þessir "drauma-keltar" hafa líklega hoggið krossa og étið fugla og fisk, ef þeir voru ekki að drepast úr hor að biðja við krossa sem þeir ristu í híbýlum sem norrænum mönnum þóttu til einskis hæf nema fyrir búfénað.

FORNLEIFUR, 16.4.2015 kl. 12:32

9 Smámynd: FORNLEIFUR

Eyjólfur, Hétu þeir þá Austfyrðir upp á "keltnesku"? Eða voru þarna And-Skotar á ferðinni?

Hvaðan hafa menn allan þennan vísdóm? Var kannski kominn flugvöllur og krosslaga flugbraut á McEilstöðum?

FORNLEIFUR, 16.4.2015 kl. 12:36

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Landnámseggið kom á undan landnámshænunni og þar sem enn eru til sprelllifandi landnámshænur hér á Klakanum hljóta einnig að vera hér sprækir landnámsmenn.

Þorsteinn Briem, 16.4.2015 kl. 13:33

12 Smámynd: Jón Logi Þorsteinsson

Árni Óla var með vangaveltur um þetta og skrifaði um það bók. Halldór Laxness tæklaði þetta líka.
Hafi keltneskir menn haft með sér fénað, þá væru hænsni og sauðfé líklegast, hreinlega út af burðargetu.
En hversu Íslensk er hænan? Er hún ekki gamall blendingsstofn sem var svo mikið til einangraður í góðar 1.000 gaggandi kynslóðir?

Jón Logi Þorsteinsson, 16.4.2015 kl. 13:59

13 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það eru nánast engar hænur af gamla stofni eftir.  Allt meir og minna blandað.  Jú jú, kannski nokkrar hjá einstaka manni.  Þeir klúðruðu þessu íslendingarnir og tómt mál að tala um það meir.

En með landnámið sko, að málið er þetta:  Það er ljóst að skriflegar heimildir eru ekki nákvæmar.  Hér hefur verið búið áður en fróðu klerkarnir í gamla daga vilja meina.

Það hinsvegar þarf ekkert endilega að benda til kelta.  Getur alveg eins verið norrænir menn, sem kallaðir voru.

Þetta sýnir og sannar að þegar frásagnir um landnám var skrifað, - þá höfðu menn ákveðinn tilgang með skrifunum.  Þ.e.a.s. annan tilgang en að safna fróleik eða skrifa sagnfræði.

Td. blasir við að skrifin hafi m.a. verið til að stykja stöðu ákveðinna ætta á ritunartímanum.  Þessu og fleiru var lengi vel horft framhjá af seinni tíma íslenskum fræðimönnum þó núna hafi ákveðnir straumar rutt sér leið í hinum háa skóla meðal yngri kynslóða.  

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.4.2015 kl. 14:20

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þess hefur verið getið til að nafnið Dýrafjörður hafi upphaflega verið Durafjörður, kenndur við dyr sem myndast á milli fjalla á báðar hliðar þegar siglt er inn fjörðinn."

Þorsteinn Briem, 16.4.2015 kl. 16:03

15 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Hvað varð um alla Papana? Eru þeir bara ekkert til lengur í bókum fólks. Meira að segja heil eyja er nefnd í höfuðið á þeim, sjálf Papey. Er bara ekki málið það, að svo ofboðslega margt er vitað um sögu mannkyns, þ.á.m. Íslands, en samt er búið að ákveða að svona sé sagan, séð út frá hvíta manninum. Saman ber það að Kristofer Kolumbus hafi "fundið" Ameríku, samt var hún full af fólki, bara ekki hvítu fólki. Öðruvísi var nú samt sennilega með Eldgamla Ísfold, ástkæra fósturmold. Þar voru bara hvítt fólk til staðar, hugsanlega löngu fyrir uppgefin ártöl +-2 870 eftir dauða einhvers, sem enn minna er vitað um, nema það sem líka er búið að ákveða, og verður ekki breytt nema með einhverju enn mikilfenglegra.

Jónas Ómar Snorrason, 16.4.2015 kl. 16:59

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 16.4.2015 kl. 17:42

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Engar sannanir er fyrir veru Papa á Íslandi, hvorki í Papey né annarsstaðar. Um veru þeirra hér eru einungis skriflegar heimildir og það litlar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2015 kl. 17:44

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hins vegar fundust minjar um Rómverja, rómverskir peningar. 

Ómar Ragnarsson, 17.4.2015 kl. 00:07

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fornleifafræðingurinn sem ég talaði við um þetta fyrir margt löngu heitir Ragnar Edvardsson. 

Ómar Ragnarsson, 17.4.2015 kl. 00:08

20 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Nú er það svo með sagnfræði og fornleifafræði að heldur ættu menn að reyna að halda sig við staðreyndir en vangaveltur. Þó eru vanvaveltur vissulega alltaf skemmtilegar og geta opnað augu fyrir nýjum leiðum í rannsóknum. 

Staðreyndir um landnám Íslands eru frekar fátæklegar. Fornrit á borð við Íslendingabók og Landnámu hafa ekki aðrar staðreyndir að geyma en að þær voru skrifaðar. Tímasetning ritunar er ágiskun þó eflaust fara menn nokkuð nærri lagi. Innihald þeirra er á par við upplýstar vangaveltur, hugsanlega leynast þar staðreyndir en erfitt að greina þær sundur.

NB Orð Ara sem vitnað er til hér að ofan er ekki það sem stendur í handriti. "En hvatki er núsagt er í fræðum þessum ... " er það sem stendur í handriti. En í fyrstu nútímaútgáfu var "núsagt" breytt í "missagt" - því menn töldu i þjóðernisrómantískum derringi að Ari gæti alls ekki hafa verið að segja: "En hvað svo sem er í þessari bók og menn hafa ekki heyrt áður ... " eða með öðrum orðum, að Ari hafi verið að vara við að bókin væri full af "nýjum" sannindum. Bókin er enda augljóst áróðursrit, hver einfeldningsleg dæmisagan af annarri þar sem öll vandamál eru alltaf leyst með samningum góðra manna.

Eiginlegt landnám hefst engu að síður nokkurn veginn á síðari helming 9. aldar, eins og sést af gjóskurannsóknum. Stórkostlegt uppfok og landeyðing er ofan á landnámslaginu, og yfirgnæfandi meirihluti forminja finnast ofan þess einnig. Landnámslagið er tímasett með borunum í Grænlandsjökli til 871 +/- 2.

En skemmtilegar vísbendingar um komu manna hingað fyrir landnám eru til, og í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt menn hafi þvælst hingað. Vel gæti hugsast að t.d. veiðimenn frá Bretlandseyjum hefðu haft hér tímabundna dvöl og hafi þeir komið fyrstir hafa þeir væntanlega valið sér langbestu verstöðina, Vestmannaeyjar, sem gæti skýrt nafngiftina.

Að Rómverjar og/eða Föníkumenn hafi siglt hingað er hins vegar talsvert ólíklegra. Skipakostur þeirra þoldi mjög illa úthafsöldur og þeir höfðu engar aðferðir til að rata í skýjuðu veðri (hvort landnámsmenn hafi haft slíkar aðferðir er raunar umdeilt, en verður þó að teljast mjög líklegt enda sigldu þeir reglulega austur-vestur stefnur sem verulega erfitt í skýjuðu veðri, sem jú er reglan frekar en undantekningin yfir Norður Atlantshafi).

Myntir sem finnast í jörðu veita ekki aðrar upplýsingar en að þær hafa týnst eftir að þær voru slegnar. En myntir endast mjög lengi og geta verið að þvælast milli manna öldum saman áður en þær týnast.

Brynjólfur Þorvarðsson, 17.4.2015 kl. 05:23

21 Smámynd: FORNLEIFUR

Ágæt samantekt hjá brynjólfi. Fornleifafræði hefði verið góð grein fyrir hann.

"Landnámið fyrir Landnámið" er heitasta óskhyggja svo kallaðra íslenskra keltómaíaka, rauðhærðra manna og sköllóttra sem halda að þeir séu af Írskum ættum. Keltómaníakar (eins og t.d. þessi), eru þeir kallaðir sem eru í keltafári og trúa á byggð "kelta" og papa fyrir landnám "Norsara", mest vegna þjóðernisrembings en einnig vegna oftúlkunar á fyllingartexta hjá Ara fróða, sem var aðeins að minnast á papa vegna þess að þeir voru minni úr helgra manna sögum, írskum, sem hann kannaðist við, en þar eiga allir almenniglegir heilagir menn bækur, bagla og bjöllur (sjá hér).  

fucking_papi_or_a_saint

Írskur dýrlingur á broti af hákrossi frá 10. eða 11. öld í Old Kilcullen, County Kildare á Írlandi. Eins og papar átti þessi helgi maður bækur, bagla og bjöllur, helstu tákn írskra einsetumanna, sem Ari Fróði hefur líklega lesið um og blandað saman við vitneskju úr Siglingum heilags Brendans og frásögur Dicuils, sem voru ævintýri og EKKERT annað.

FORNLEIFUR, 17.4.2015 kl. 06:08

22 Smámynd: FORNLEIFUR

Brynjólfi ætlaði ég að skrifa.

Svo langar mig að minna á að kenning Agnars Helgasonar hjá DeCode er fallin um sjálfa sig. Íslensk landnámskonan var ekki kynlífsþræll frá Bretlandseyjum http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1568221/

Hér er ritgerð um "Landnámið fyrir landnám" http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1297804/

Her er innig lítil athugasem um Papa http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1172077/

Athugsemdirnar á eftir greinunum eru athyglisverðar. Þegar keltómaníaka þrýtur rök, fara þeir í persónulegt skítkast. Stefán heitinn Aðalsteinsson líffræðingur sagði mér eitt sinn sinn sögu af því hvernig læknir einn sem hann hitti á veitingastað, notaðist við hnefalögmálið. Læknirinn gekk í skrokk á Stefáni þar sem Stefán hafði sýnt fram á hvernig farsóttir fyrr á tímum kynnu að hafa lagst frekar á fólk með blóðflokkana A og AB en O. Þangað til að þetta varð ljóst og áður en DNA varð að heilögum sannleika, þá töldu menn víst að O blóðflokkagerðin væri sönnun þess að Íslendingar, væru mestmegnis ættaðir frá Bretlandseyjum, þar sem sá blóðflokkur er einnig mjög algengur eins og á Íslandi.

Ef menn vilja lesa fræðigrein um mannfræði á Íslandi fyrr a tímum og niðurstöður á mælingum á útlimabeinum landnámsmann, þá mæli ég með þessari grein http://fornleifur.blog.is/users/5c/fornleifur/files/lund_1990_16566.pdf og þessari skýrslu eftir Dr. Hans Christian Petersen við Syddansk Universitet :http://fornleifur.blog.is/users/5c/fornleifur/files/islaendingenes_oprindelse_1993_17692.pdf

FORNLEIFUR, 17.4.2015 kl. 06:38

23 Smámynd: FORNLEIFUR

Hér þarfnast kannski skýringa, en ég vil þó ekki vaða hér uppi hjá Ómari eins og Steini Briem: Vegna vals sem varð þegar fólk með blóðflokkana A og AB hríðféll vegna farsótta, stendur í dag uppi þjóð sem að miklum hluta er með afbrigði af O blóðflokknum, þegar þeir láta tappa af sér í Blóðbankanum - (þegar það er hægt). Þetta þoldi læknirinn sem vildi berja Stefán Aðalsteinsson ekki að heyra. Fræðin þróast, en stundum ekki mennirnir með.

FORNLEIFUR, 17.4.2015 kl. 06:48

24 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Þakka góð orð Fornleifur! Fornleifafræði og sagnfræði eru vissulega mikil áhugamál hjá mér eins og hjá svo mörgum öðrum. Sagnfræðin er greinilega mörgum mikið hitamál, má segja að nútímasagnfræði hafi þróast að hluta í þeim tilgangi að réttlæta og rökstyðja hugðarefni manna, samanber þjóðernishugsjónir, rómantískar ævintýrasögur, réttlæting landsyfirráða osfrv.

Mín skoðun er sú að þótt sagnfræðin sé skemmtileg og spennandi þá skiptir nútíminn meira máli, skilningur á sögunni hjálpar að skilja nútímann en söguna á ekki að misnota til að réttlæta eða rökstyðja valdabrölt dagsins í dag. Eða til að spinna fantasíur og halda þeim fram sem einhverjum sannleika.

Brynjólfur Þorvarðsson, 17.4.2015 kl. 09:21

25 identicon

Forstofa er rúmgóð með skápum.
Salerni með sturtu, inngengt af forstofu.
Barna-eða unglingaherbergi inn af forstofu.

Komið er inn í rúmgóða og bjarta borðstofu með útgengi til norðvesturs.

Rúmgóð stofa með stórum gluggum og glæsilegri halogen loftlýsingu. Lofthæð er um 3 metrar sem gerir rýmið einstaklega rúmgott og bjart. Útgengt er á verönd til suðurs frá stofu. ​

Stórt Eldhús er opið með hvítri viðarinnréttingu, ásamt eyju. Glæsileg borðplata er við eldhúsinnréttingu og á eyju. 

Stórt sjónvarpsrými við hlið stofunnar, möguleiki á að loka það af með millivegg og rennihurð.
Af sjónvarpsrými liggur gangur með þremur rúmgóðum svefnherbergjum, þar af hjónaherbergi en þaðan er útgengt á verönd til vesturs, út á suðurverönd.
Rúmgott Þvottahús með útgengt til austurs. Einstök veðurparadís fyrri parts dags. 
Fallega gróinn bakgarður þar sem byggingarlóð var í landi Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Garður afmarkaður og ,,privat". Einstök veðurparadís er frá morgni til kvölds. 
​

Rúmgóður 34,9 fm bílskúr sambyggður
 húsi, með millivegg sem nýtist sem geymslurými. Innangengt frá sjónvarpsholi/gangi. 

Sig. Breik (IP-tala skráð) 17.4.2015 kl. 09:56

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður þakkar gríðarlegan áhuga hægri öfgamannsins "Fornleifs" á undirrituðum.

Og að sjálfsögðu vill hann búa í Evrópusambandsríkinu Danmörku eftir að hafa verið rekinn sem "fornleifafræðingur" héðan frá Íslandi.

Þorsteinn Briem, 17.4.2015 kl. 10:36

27 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dufþaðkur var ekki írskt nafn en afi Dufþaks er sagður Kjarval Írakonungur.http://en.wikipedia.org/wiki/Cerball_mac_D%C3%BAnlainge

Menn hallast nú fremst að því að Kjarval hafi verið konungur sem notaður hafi verið til uppfyllingar á ættarupptalningu Íslendingasagnanna.

FORNLEIFUR, 5.1.2015

Þorsteinn Briem, 17.4.2015 kl. 10:45

28 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Dufþakur er komið úr fornírsku, Dubthach.

Forliður nafnsins er talinn vera fornírska dub(h) 'svartur, dökkur' en viðliðurinn -thach er með óvissa merkingu.

Nafnið gæti ef til vill merkt 'hinn svarthærði' eða eitthvað í þá veruna, sbr. írska nafnið Duald sem er ensk mynd af gelíska nafninu Dubhaltach og merkir hugsanlega 'svarthærður' eða 'svartfættur'."

Nöfn Íslendinga, Háskólaforlag Máls og menningar, 1991.

Þorsteinn Briem, 17.4.2015 kl. 10:46

29 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Mikið hefur verið reynt að finna út með mannfræðilegum rannsóknum hverjum Íslendingar séu skyldastir.

Nýjustu erfðafræðirannsóknir benda til að
yfirgnæfandi meirihluti íslenskra karlaskyldastur Norðurlandabúum en færri Bretum.

Hins vegar sé nokkur meirihluti kvenna af sama uppruna og konur á Bretlandseyjum.

Það kemur allvel heim við sögur sem segja að ungir karlmenn hafi farið í víking frá Noregi, sest að um tíma á Bretlandseyjum og tekið með sér þarlendar konur til Íslands, nauðugar eða viljugar."

16.10.2012:

Hverjir voru helstu landnámsmenn Íslands og hvaðan komu þeir? - Vísindavefurinn

Þorsteinn Briem, 17.4.2015 kl. 10:48

30 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hvatberar erfast í heilu lagi (án endurröðunar) í kvenlegg og því geta flestir Íslendingar rakið hvatbera-DNA sitt eftir "mæðrakeðju" til einnar af þeim konum sem fyrst komu til Íslands fyrir um það bil 1100 árum.

Y-litningar erfast bara í karllegg og því geta flestir íslenskir karlar rakið Y-litninga sína til landnámsmanna í gegnum "feðrakeðju" til eins af þeim körlum sem fyrst námu land á Íslandi fyrir um það bil 1100 árum.

Með því að raðgreina erfðaefni hvatberanna og nota aðrar sambærilegar aðferðir til að kanna breytileika Y-litninga komu í ljós mörg ólík afbrigði (arfgerðir) í Íslendingum.

Með tölfræðilegum samanburði á hvatberaarfgerðum úr Íslendingum, Bretum og fólki frá Skandinavíu gátum við ályktað að tæplega helmingur landnámskvenna hafi rakið ættir sínar (það er að segja kvenleggi sína) til Norðurlanda.

Með sams konar samanburði á Y-litningaarfgerðum kom í ljós að um 80,5% landnámskarla hafi rakið ættir sínar (það er að segja karlleggi sína) til Norðurlanda."

Staðfesta nútímarannsóknir að Íslendingar séu að mestu komnir af Norðmönnum líkt og segir í fornum ritum? - Vísindavefurinn

Þorsteinn Briem, 17.4.2015 kl. 10:49

31 identicon

stu heimildir um Vestmannaeyjar eru í Landnámu, þar sem segir frá Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum. Þegar hann kom til landsins dvaldist hann einn vetur á Ingólfshöfða, og hélt svo suður með landinu í vesturátt í leit að öndvegissúlum sínum. Þá fann hann bæ Hjörleifs, fóstbróður síns, og var hann þar nýlátinn. Úti af Hjörleifshöfða sá hann báta með hinum írsku þrælum Hjörleifs, en bátarnir stefndu að eyjaklasa suður af Landeyjum. Eyjarnar voru þá nefndar eftir þrælunum, en Írar voru kallaðir Vestmenn á þessum tíma. Ingólfur elti þrælana uppi og drap þá, og eru mörg örnefni á eyjunum gefin eftir þrælunum, til dæmis er Helgafell nefnt eftir Helga sem var veginn þar, og Dufþekja í Heimakletti er nefnd eftir Dufþaki, sem sagður er hafa stokkið þar niður til þess að komast hjá því að falla fyrir sverði Ingólfs.

Um Vestmannaeyjar segir í Landnámubók (Sturlubók):

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er Duftþakur lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Sig. Breik (IP-tala skráð) 17.4.2015 kl. 10:50

32 Smámynd: Þorsteinn Briem

"... the DNA evidence in this study and the Icelandic study does indicate that Norse women were involved in the colonization process."

Women Also Set Sails on Viking Voyages, Study Shows

Þorsteinn Briem, 17.4.2015 kl. 10:50

33 identicon

Fyrsti landnámsmaður Eyjanna er sagður vera Herjólfur Bárðarson, en hann bjó í Herjólfsdal. Hann átti dótturina Vilborgu, sem eftir grjóthrun, sem lagði bæ Herjólfs í eyði, fluttist á Vilborgarstaði hjá Vilpu. Sögunni samkvæmt varaði hrafn Vilborgu við skriðunni og bjargaði þannig lífi hennar.

Föst búseta í Vestmannaeyjum hófst seint á landnámsöld, um 920, en eins og segir í Sturlubók (Landnáma eftir handriti Sturlu Þórðarsonar) „var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engin“ fyrir þann tíma. Fram á miðja 12. öld voru eyjarnar í eign bænda. Á árunum 1130-1148 keypti Magnús Einarsson, biskup í Skálholti, nær allar eyjarnar til Skálholtsstaðar.

Sig. Breik (IP-tala skráð) 17.4.2015 kl. 10:52

34 identicon

Fimmtudaginn 31. mars verður æfingaleikur klukkan 22:00 í Safamýrinni. Leikið verður á móti FC Duftþak. FC Duftþakur endaði í fimmta sæti b-riðils í Utandeildinni síðastliðið sumar.

Sig. Breik (IP-tala skráð) 17.4.2015 kl. 10:54

35 identicon

„NB Orð Ara sem vitnað er til hér að ofan er ekki það sem stendur í handriti. "En hvatki er núsagt er í fræðum þessum ... " er það sem stendur í handriti.“ sagði Brynjólfur.  Þetta er ekki rétt.  Elstu handrit Íslendingabókar eru frá 17. öld.  Nokkur þau merkustu eru aðgengileg á netinu og slóðin er: http://handrit.is/is/search/results/wQcMLd

Í þeim öllum, nema einu, er sagt: „...misagt...“ (eða á nútíma stafsetningu missagt.  Í þessu eina er „...nvsagt...“ sem getur sem hæglegast verið mislestur á fyrirmynd.

Annars er svo sem ekki verulegur munur á merkingu þessara tveggja orða og varlegt að draga langar ályktanir um innræti seinni tíma manna þar um.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 17.4.2015 kl. 10:55

36 identicon

    Hann er alveg horfinn og duftþakur líka. Þetta voru aðal kallarnir hérna þangað til fyrir stuttu. Kátur safnaði að sér karmastigum eins kúkur laðar að sér flugur og ...

     

    Sig. Breik (IP-tala skráð) 17.4.2015 kl. 10:56

    37 identicon

    Lúsíuhellir er hellir í klettum ofan við Krossgerði á Berufjarðarströnd.

    Munnmælasaga segir að örnefnið sé tengt Tyrkjaráninu. Sagan er á þá leið að Lúsía hafi verið stúlkubarn að aldri þegar Tyrkir réðust til þrælanáms í Berufirði og hafi hellir þessi orðið henni til bjargar. Stundum fylgir sögunni að þegar Lúsía lá þar í felum hafi Tyrki einn rekið höfðinu inn í hellinn en ekki komið auga á hana, þar eð hún smokraði sér inn í glufu við hliðina á hellismunnanum. Sagt er að Lúsía þessi hafi verið jarðsett utan við fékamb, sem er hamraveggur við lúsíuhelli, en ekki í kirkjugarði, þegar ævi hennar lauk.

    Ekki finnast þó neinar heimildir þessu til staðfestingar en heldur ekki neinar aðrar heimildir um hví hellirinn er kenndur við Lúsíu.

    Wiki letter w.svg  Þessi grein er stubbur sem ekki hefur verið settur í undirflokk. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina, eða með því að flokka hana betur.

    Sig. Breik (IP-tala skráð) 17.4.2015 kl. 10:59

    38 identicon

    Þvottahellir er íslenskur hellir í Botnsdal í Hvalfirði. Hann er austan við svonefndan Gamlastekk í árgljúfri Botnsár. Í þessum helli var stundum í ótíð þurrkaður þvottur, segir í örnefnaskrá sem Þórmundur Erlingsson í Stóra-Botni skráði.

    Sig. Breik (IP-tala skráð) 17.4.2015 kl. 11:01

    39 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

    Þetta með Íslendingaók, að er það ekki þannig að, tvö elstu (og bestu) handrit þeirra fræða Ara hafa sitthvorn háttinn?  Jú, held það.

    Bæði virðast með rithönd Jóns Erlendssonar og þessvegna sérkennilegt þessi munur.

    Mér finnst að sumu leiti passa betur ,,nú sagt" í samhenginu.  Ari segir að hann hafi áður samið slíka bók en virðist síðan segja að þeir biskuparnir þorlákur og Ketill hafi viljað hafa hluti svona og svona og hann sé ekki endilega sammála því.  

    En það er svo sem rétt, að það er ekki alveg grundvallarmunur á þessu núsagt, missagt.  Hægt að túlka það á svipaðan hátt.  Er flest túlkunaratriði í þessum fornu ritum.  Vegna þess að við vitum ekki hvað menn þeir er skrifuðu eða létu skrifa voru að hugsa.  Þ.e. hvernig þeir litu á þetta.  Við vitum það ekki nákvæmlega.  Svipað og með fornrit biblíunnar o.s.frv.

    Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.4.2015 kl. 12:49

    40 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

    Ómar og Þorvaldur, þið segið að það sé munur á handritum Íslendingabókar varðandi "missagt" eða "núsagt". Nú hefur mér ekki tekist að finna neinar heimildir um þetta, handritin eru tvö eftir Jón Erlendsson og annað talið talsvert betra en hitt, en ekki hef ég fundið neinar nánari heimildir. Hef það hins vegar eftir prófessor við HÍ að bæði handrit segji "núsagt".

    Hvort sé einhver merkingarlegur munur á þessu tvennu? Kannski er rétt að skoða aðeins forsögu málsins: Íslendingabók er nokkuð sérstök. Hún er skrifuð á íslensku þegar latína var undantekningalítið ritmál menntaðra manna. Þetta bendir til að markhópur hafi verið heimamenn en ekki fræðimenn. Eins og með flestar bækur frá örófi alda og fram að fjöldaprentun þá var hún eflaust fyrst og fremst skrifuð til upplestrar, og áheyrendur hafa verið Íslendingar.

    Markhópur segir mikið um tilgang höfundar með ritun bókar. Svo er annað sérstakt við Íslendingabók (hvet alla til að <a href="http://is.wikisource.org/wiki/%C3%8Dslendingab%C3%B3k">lesa hana</a>, hún er stutt og auðlesin) og það er að fyrri hluti hennar er röð stuttra frásagna sem margar hafa óraunveruleikablæ og oftar en ekki eru mál leyst friðsamlega með samræðum góðra manna.

    Frásagnirnar eru einnig margar mjög ótrúverðugar. Við stofnun Alþingis átti til dæmis að jörðin Bláskógar hafi verið tekin í almannaeigu sem sektargrei[sla (nokkuð sem stangast algjörlega á við t.d. Grágás) sem "landsmenn" hafi síðan lagt Alþingi til neyslu. Þetta hljómar afskaplega ósennilega í ljósi þess að ekkert miðlægt stjórnvald var á landinu. Hvernig gat þá verið til "almannaeiga" og hvaða "landsmenn" gáfu jörðina? Nema Ari eigi einfaldlega við Mosfellinga, hann var sjálfur af þeirri ætt og sumir telja að þeir hafi fært Öxará (nafnið dregið af því að öxi var felld niður um vök á ís til að helga ána sem landamerki) til að koma þingsstaðnum undir sína eign.

    Frásögnin af Pöpum er t.d. furðuleg. Samkvæmt Ara áttu Papar að hafa yfirgefið landið en skilið eftir sig bjöllur, írskar bækur og bagla (biskupsstafi). En hversu sennilegt er það að menn skilji eftir sig allar sínar verðmætustu eignir (og auðflytjanlegar í þokkabót) ef þeir "fóru á braut" viljandi? Svo bætir Ari við: "Af því mátti skilja, at þeir váru menn írskir." Sem sagt, landnámsmenn og Papar hittust aldrei (því annars hefði ekki þurft að rannsaka bækur þeirra til að átta sig á þjóðerni), paparnir bara fóru en skildu allt eftir sig?

    Mjög svipuð saga kemur síðar, um landnám Grænlands, en þar fundu menn ýmis ummerki eftir fyrri búsetu "skrælinga" sem er líkast til rétt, Grænland var ekki byggt þegar íslendingar sigldu þangað, en alla vega þrjár eldri búsetubylgjur höfðu horfið af Grænlandi áður. Er ekki hugmyndin að papasögunni komin héðan? Kannski átti að fela að einhverjir Vestmenn hafi búið hér og verið drepnir og réttur landnámsmanna því vafasamur?

    Sagan af kristnitöku er þó sú alfurðulegasta. Ólafur Tryggvason átti að hafa þvingað kristni upp á íslendinga með svipuðum hætti og hann reyndi í Noreg. Ólafur var drepinn 1001 og kristni var hafnað í Noregi um leið, það var Ólafur helgi (digri) Haraldsson sem kristnaði Noreg og sóttist það seint. Árin eftir kristnitöku voru heldur ekki friðsöm á Íslandi, Skafti Þóroddsson lögsögumaður virðist hafa verið nærri einvaldur á árunum 1004-1030 og mjög harðsækinn við menn, eins og Ari segir: "... margir höfðingar ok ríkismenn sekir eða landflótta of víg eða barsmíðir af ríkis sökum hans ok landstjórn." Hér virðist hafa ríkt styrjaldarástand - á sama tíma og Ólafur digri var að berja á og kristna Norðmenn. Var ekki sama upp á teningnum hér? Stóð ekki einhvers konar borgarstyrjöld hér þar sem landsmenn voru þvingaðir til kristni og tilraun gerð til að sameina þá undir eina stjórn? Tómar getgátur, en talsvert líklegra en fantasían hans Ara um friðsælustu kristnun nokkurs lands í veraldarsögunni!

    Sagnfræðingar hafa leitt líkum að því að tilefni ritunar Íslendingabókar hafi verið átök milli Ketils Þorsteinssonar biskups fyrir norðan og Þorláks Runólfssonar nýsetts biskups í Skálholti. Þorlákur var af ætt Mosfellinga (eins og Ari) en Ketill á að hafa sett sig gegn vigslu hans 1118. Þeir hittast á Alþingi 1022 og hugsanlega hafa átök legið í loftinu. En sættir tókust milli fylkinga, kannski að hluta vegna þess að Ari las sína nýju Íslandssögu fyrir mannskapinn? Um það hvernig alltaf skuli ná sáttum með samningum?

    Þarna væri komin skýring á því af hverju bókin er skrifuð á íslensku, og af hverju Ari bætir síðan við formála sínum og varúðarorðum.

    Það er nefnilega munur á "missagt" og "núsagt" í þessu ljósi. "Missagt" gefur til kynna mistök, "ef ég hef óvart sagt einhverja vitleysu þá endilega leiðréttið hana", en "núsagt" gefur til kynna nýjungar, "ef ykkur finnst þetta hljóma öðruvísi en þið hafið áður heyrt, þá endilega haldið það sem er sannara". Þessi formáli var þá væntanlega ekki lesinn upp, en skilinn eftir fyrir aðra lesendur vegna samviskubits Ara!

    Rit skrifað í áróðurstilgangi, með skreytingum og breytingum á sögunni, er ekkert nýtt (og vissulega kristilegt, samanber Biblíuna).

    Brynjólfur Þorvarðsson, 18.4.2015 kl. 06:46

    41 identicon

    Mér sýnist menn hafa farið á mis við nýuppgötvaða staðreynd.
    Útmoksturinn úr hellinum fannst og var aldursgreindur. Árið 800 er svona ca. öruggt lágmark, - hann gæti ef eitthvað er, verið eldri.
    Svo virðist annað gleymast.
    Keltneskir menn voru á Færeyjum, en fluttu sig eitthvað þegar norrænir menn settust þar að.
    Þar erum við að tala um sjöttu öld.

    Jón Logi (IP-tala skráð) 18.4.2015 kl. 07:17

    42 identicon

    Brynjólfur!  Það þarf engar aðrar heimildir en handritin sjálf.  Ég las þetta með eigin augum.  Um þetta er engum blöðum að fletta; í einu handriti stendur &#132;nvsagt&#147; en öllum hinum &#132;misagt&#147;(missagt).  Þetta gætirðu sjálfur lesið færirðu á slóðina http://handrit.is/is/search/results/wQcMLd og fyndir til handritin.  Og reyndar er svo að í þessu eina handriti þarf ekki að ætla annað en penninn hafi hætt að gefa blek eitt andartak til að þar standi líka &#132;misagt&#147;. En mergurinn málsins er þessi:  Varðveitt eru þrjú handrit sem sami maður, Jón Erlendsson,  hefur skrifað og eru talin upp skrifuð eftir sama skinnhandriti.  Tveimur þeirra ber saman um þetta tiltekna orð en hið þriðja hefur lesbrigði.  Hvoru er fræðimannslegra að taka mark á, ef einhver blæbrigðamunur er?

    Fróðlegt væri annars að vita hvaða prófessor segir að bæði (öll) segi &#132;nvsagt&#147;?

    Þorvaldur S (IP-tala skráð) 18.4.2015 kl. 08:51

    43 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

    Þorvaldur, ég var nú margbúinn að fara inn á handrit.is en fann ekki myndirnar. Fann þær auðvitað núna! Tvö handritanna eru skrifuð af Jóni Erlendssyni (113a og 113b) en þótt standi að hann hafi einnig skrifað 113c þá er rithöndin önnur (eins og kemur fram neðar á síðunni). Jón skrifaði því aðeins tvö handrit. Þriðja handritið, 113c, er með rithönd Ketils Magnússonar, væntanlega skrifað eftir 113a (miðað við ritunartíma gæti hann auðvitað haft aðgang að skinnhandritinu, en almennt er talið að einu afritin af skinnhandritinu séu afritin tvö frá Jóni Erlendssyni).

    Handrit 113b er talið langbesta handritið og talið að Jón hafi verið látinn endurskrifa þar sem 113a þótti ónákvæmt og illa unnið (sem það er skv. fræðimönnum). Árni Magnússon taldi 113b vera miklu betra handrit og það hefur verið lagt til grundvallar öllum prentútgáfum, en þar stendur greinilega "núsagt". Þ.a. í prentútgáfum er farið eftir 113a í þessu eina tilliti, en 113b annars.

    Nú er ljóst að verkkaupinn (talinn vera Brynjólfur Sveinsson biskup) var með "frumritið" (sem hugsanlega var hið eiginlega frumrit frá Ara sjálfum) og gat borið það saman við afritið. Þar sem hann hafnaði fyrra afritinu vegna ónákvæmni hefði hann kannski átt að reka augun í þessa augljósu villu í seinna handritinu?

    Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að seinna handritið sé ekki með villu þarna en ekki hið fyrra - en það er ólíklegri skýring, einkum þar sem orðið "núsagt" kemur hvergi annars staðar fyrir í íslenskum ritum og því ólíklegt að ritari geri þannig villu að búa til nýyrði í jafn mikilvægri setningu!

    En miðað við það sem ég skrifaði í langlokunni hér að ofan er "núsagt" í merkingunni "ný sannindi" talsvert sennilegra.

    Varðandi hvaða prófessor þá ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það - mig gæti misminnt (þó umræðan um Ara hafi einmitt verið mjög í anda þess sem ég skrifaði hér að ofan) og óþarfi að vera að eltast við menn útaf einhverju sem þeir hafa hugsanlega sagt í kennslustund fyrir mörgum árum!

    Brynjólfur Þorvarðsson, 18.4.2015 kl. 17:22

    44 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

    Jón Logi, það er rétt hjá þér að þetta hefur lítið verið nefnt í þessari umræðu. Fornleifur telur lítið að marka þessar rannsóknir en ég held nú að betra væri að bíða og sjá hvað aðrir fræðimenn segja um þetta.

    Sjálfur tel ég enga ástæðu til að efast um að hingað hafi komið fólk löngu fyrir eiginlegt landnám. Forsendur reglulegra siglinga hingað er skipakostur á borð við þann sem norrænir menn þróuðu (langskipin) ásamt siglingatækni sem gerði þeim kleift að rata um opið úthaf, í fyrstu þvert yfir Norðursjó til að ráðast á Bretlandseyjar.

    Víkingaöld er talin hefjast með árásinni á Lindisfarne 793. Þeir sem horft hafa á hina mistæku þætti The Vikings kannast eflaust við þetta, og við sólarsteininn sem víkingurinn Ragnar Loðbrók á að hafa uppgötvað og notað til að rata. Það sem fer kannski mest í taugarnar á mér við þá þætti er að engilsaxneskar víkingamyndir láta alltaf eins og víkingarnir komi frá einhverjum nánast mannlausum norskum fjörðum þegar þeir voru í raun fyrst og fremst danskir (Danir telja t.d. að Ragnar Loðbrók hafi verið danskur konungur, en verulega má efast um hvort hann sé söguleg persóna).

    Trúlega hafa árásir víkinga hafist áður en menn sáu ástæðu til að festa hana á bókfell í kjölfar árásarinnar á Lindisfarne, og engin ástæða til að ætla annað en að íbúar Bretlandseyja hafi getað lært skipasmíðar og siglingatækni af norrænum mönnum (og jafnvel kunnað talsvert fyrir sér í þeim fræðum sjálfir!) Svo gleymist kannski oft að tilgangur siglinga yfir hafið var trúlega oftar að stunda viðskipti en fara í víking (þótt auðvitað mátti sameina þetta tvennt) og þar sem menn stunda friðsamleg samskipti læra menn hvorir af öðrum.

    Íbúar norðurhluta Bretlandseyja vissu væntanlega að land væri í norður af þeim enda mátti sjá farfugla fara þangað og koma aftur. Með auknum siglingum, t.d. til veiða, gætu menn vel hafa séð skýjamyndanir yfir Vatnajökli og ályktað að þar væri land undir - jafnvel gosstróka.

    Eiginlegt landnám hefst þegar fólk flykkist til landsins í einhverjum mestu fólksflutningum sem sögur fara af fram á nútíma - og nýjar kenningar ganga út á að þessir fólksflutningar hefjist ekki fyrr en mikill fjöldi sauðfjár er farinn að ganga hér villtur, enda virðist sem uppblástur hefjist mjög hratt kringum landnám, og eitt helsta vandamál nýbúa, sem er að lifa af fyrsta veturinn og koma sér upp bústofni, er sjálfkrafa leyst ef fjárstofn gengur villtur.

    Fjárstofn þessi ætti þá uppruna sinn í sauðfé sem veiðimenn hafa skilið eftir í eyjum (gömul og vel þekkt aðferð, t.d. frá Færeyjum) og að það hafi víða getað synt í land, t.d. við Faxaflóa og Breiðafjörð. Fáar skjátur í landi týnast í birkiskógunum og fjölga sér í veldisfalli þar til skyndilega er kominn stór fjárstofn sem enginn á. Það gæti tekið c.a. hálfa öld fyrir nokkrar rollur að fjölga sér í 100.000.

    Stóra spurningin varðandi landnám er nefnilega: Hvað voru menn að vilja hingað, og það svona margir? Ekki var það vegna fólksfjölgunar, Noregur og Bretlandseyjar voru t.d. langt frá að fullu byggt. Ekki var það vegna ótta við harðræði eins manns (Haraldar Hárfagra) enda hafa þeir eflaust verið margir sem reynt hafa að kúga aðra til hlýðni við sig, og sjaldan hafa hlotist af þvílíkir mannflutningar.

    Koma veiðimanna hingað frá því snemma á 9. öld, og brottsloppið sauðfé þeirra sem fjölgar sér villt, gæti skýrt straum manna hingað í lok 9. aldar og upphafi þeirrar 10. Það aftur kallar á komu veiðimanna hingað hið minnsta nokkrum áratugum áður en eiginlegt landnám hefst. Ekkert í fornleifarannsóknum afsannar það (og nokkrar spennandi vísbendingar, t.d. frá Vestmannaeyjum, úr Reykjavík og Hallmundarhrauni, og núna kannski undan Eyjafjöllum) benda einmitt til þess að hér hafi menn verið farnir að búa eitthvað áður en landnámslagið fellur 871+/-2.

    Brynjólfur Þorvarðsson, 18.4.2015 kl. 17:50

    45 identicon

    Nú, til þess að leggia svo enn orð í belg.  Fræðimenn hafa í seinni tíð lagt sig eftir því að kanna rittengsl og lærdóm manna á miðöldum. Sverrir Tómasson kannaði formála í ritum frá þeirri tíð og skrifaði þar um fróðlega doktorsritgerð. Í henni sýnir hann m.a. fram á að formáli Ara fyrir Íslendingabók sver sig í þá hefð sem tíðkaðist á hans tíma meðal lærðra manna ín Evrópu.  Í þeim komu sömu frasarnir fyrir mann fram af manni án þess að nein sérstök hugsun liggi þar að baki. Á okkar dögum tíðkast til dæmis að ljúka formála að fræðiritgerð svo: &#132;Þá þakka ég þeim fjölmörgu sem greiddu götu mína og léðu mér hjálparhönd en sjálf(ur) ber ég ábyrgð á þeim göllum sem á verkinu kunna að vera.&#147;, og er hætt við að ekki fylgi djúp hugsun á bak við slíkt hjal eða að þeir geri ráð fyrir að verkið sé gallað til vansa.  Og nú vill svo til að nánast allir autores á tíma Ara höfðu einhvern slíkan frasa um missagnir í inngangi sinna rita.  Má um þetta lesa í ritgerð Sverris sem ber nafnið  

    Link

    Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum : rannsókn bókmenntahefðar og kom út 1988.  Má ég nokkuð um vitna efni hennar og fjöllun, m.a. um formála Ara, því við Sverrir sátum hlið við hlið á Árnastofnun á þeim tíma á kafi í handritum.

    Annars er umræðan skemmtileg þótt ég telji að varast beri að draga stórar ályktanir af litlum upplýsingum.

    Link

    Þorvaldur S (IP-tala skráð) 18.4.2015 kl. 19:44

    46 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

    Allt umhugsunarvert.  Á hverju atriði eru nokkrar hliðar.  Varðandi byggð fyrir skráð landnám, að þá er líka hægt að líta til frænda okkar færeyinga.  Mér sýnist að það sé að mestu samþykkt þar að byggð hafi verið lengi sumsstaðar í eyjunum fyrir 900.  Jafnvel mörg hundruð ár fyrir 900.  

    En með formála Ara, að þá er, að mínu mati, mest athyglisvert að hann setur þá biskupana þarna fyrst.  Setur þá alveg uppá topp.

    Segist hafa get bók áður fyrir þá og þeir síðan skoðað og sagt honum fyrir beinínis.,,En með því at þeim líkaði svá at hafa eða þar við auka".

    Hann er nánast að segja að þeir hafi samið bókina.  Nánast.

    Kirkjan, trúin, er svo sterk þarna.  Yfirmenn kirkju og trúar skapa aðstæður til skriftana og þeir eru stanslaust að horfa yfir öxlina á honum, mundi vera sagt í dag.

    Þetta er það merkilegasta.  Svo sterkt, að skoða verður Íslendingabók í þessu ljósi, að mínu mati.

    Því miður er svo langt um liðið, að erfitt er að segja til um hvað þetta síðan þýðir fyrir innihald hins forna texta en heildarlærdómurinn hlýtur að vera, að maður þurfi að gæta sín á því að túlka ekki eða skilja textann og um nútímagrein eða bók sé að ræða.  Vegna þess að það er allt önnur hugsun á bakvið skrifin.  Menn þeir sem stóðu að þessu komu úr svo allt annari menningu en við þekkjum og önnur lögmál giltu.

    Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.4.2015 kl. 20:56

    47 identicon


    Hér að neðan má finna leiðbeiningar og skýringar á einstökum þáttum Íslendingabókar. Mælst er til þess að notendur kynni sér þessar leiðbeiningar vel, til þess að notkun Íslendingabókar verði þeim ánægjulegri og án hnökra.

    Sig. Breik

    Sig. Breik (IP-tala skráð) 18.4.2015 kl. 21:19

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband